
"Þessi tími sem er að fara í hönd er skemmtilegur. Það eru allir uppteknir af aðventunni og jólunum. Allt er keyrt í botn til þess að halda upp á hátíð ljóssins, en um leið er verið að fara yfir hið liðna. Oft eiga sér stað uppgjör á þessum tímamótum, fólk gerir breytingar.
Við Íslendingar erum upptekin af áramótaheitum. Þessi heit eru stórhættuleg vegna þess að þegar þau eru unnin í sektarkennd og flaustri, þá verða þau forsenda höfnunar. Þegar maður segist ætla að gera eitthvað og svíkur svo sjálfan sig, þá er maður að yfirgefa og hafna sér og þarf svo að refsa sér fyrir að hafa heitið einhverju sem maður stóð ekki við.
Ég segi við skjólstæðinga mína að þetta sé stór stund, það sé uppgjör og að maður eigi að nota tímann á milli jóla og nýárs til þess að líta yfir farinn veg og þá ekki með vansæld í huga heldur þakklæti fyrir það sem maður hefur lagt af mörkum og líka það sem maður hefur ekki gert.
Við tölum oft um það í Ropeyoga að við erum alltaf að vinna með innistæðu, hvað eigum við skilið. Við leyfum okkur sjaldnast að standa við markmið eða yfirlýsingar um velsæld umfram það sem okkur finnst við eiga skilið í hjartanu. Það er allt annað en þær hugmyndir sem við höfum um velsæld og hamingju. Hjartað er leiðarkerfið, það er engin ástæða til þess að ásaka sig fyrir það sem maður hefur ekki gert af því að maður hefur ekki leyft sér það. Þegar maður skilur að augnablikið er afleiðing orsaka, þá getur maður farið að velta fyrir sér í kærleik af hverju maður hefur ekki leyft sér að ná markmiðum sínum. Skýringin er sú að maður hefur ekki talið sig eiga það skilið, maður er ekki tilbúinn í þá velsæld sem kemur af þannig hegðun.
Í ljósi þess getur maður farið að velta því fyrir sér af hverju maður leyfir sér ekki velsæld. Svarið er einfalt, það er skömm eða sektarkennd eða vanmáttur sem kemur að þeirri hegðun sem orsakar þessa frestun. Yfirlýsingar um að gera eitthvað sem maður gerir ekki, áramótaheit sem maður framkvæmir ekki. Nú erum við öll að upplifa afleiðinguna af neyslu, fjarveru, óvarkárni og þeirri stöðu sem segir okkur að við erum hér núna af því að við fórum þangað og við fórum þangað af því að við eigum ekki meira skilið núna.
Við eigum því að taka fulla ábyrgð og fyrirgefa okkur fyrir hvernig við höfum staðið okkur og velta fyrir okkur á hverju þetta var byggt. Flest okkar komast að því að þetta var ekki byggt á neinu, þetta var byggt á græðgi, tómleika og skorti. Ég segi oft að það vantar alltaf tommu. Menn halda að hamingjan sé handan við hornið, en hamingjan er hér. Ef þú ert ekki hamingjusamur, þá er það vegna þess að þú ert óhamingjusamur. En þú ert óhamingjusamur af því að þú ert að veita því athygli og rækta óhamingju, en ekki hamingju. Um leið og athyglin fer af óhamingjunni yfir á hamingjuna þá breytist allt saman, um leið og maður hættir að hafna og byrjar að elska.
Við þurfum að setjast niður og velta fyrir okkur tilganginum. Af hverju erum við að setja þessi heit? Hvað er það sem vakir fyrir okkur? Hvaða áhrif ætlum við að hafa á okkur sjálf og umhverfið okkar, hverju ætlum við að koma til leiðar í lífinu? Þegar búið er að skrifa það niður, þá er hægt að skrifa niður markmið eða heit sem tengjast tilganginum. Án tilgangs er engin kjölfesta eða undirstaða. Eins og ég hef oft sagt áður þá tel ég að tilgangurinn sé kjölfesta hamingjunnar og forsenda innblásturs og ástríðu. Það að setja sér heit sem maður ætlar ekki að standa við, er ekkert annað en undirbúningur þess að stinga sjálfan sig í bakið, hafna sér, niðurlægja, svíkja og pretta til þess að réttlæta svo fórnarlembsku sem réttlætir svo óhamingju.
Þetta er hringrás sem margir eru í og endurtaka ár eftir ár eftir ár. Það er ekki til grimmari aðför að sjálfum sér heldur en að segja eitthvað vitandi það að maður ætlar ekki að standa við það. Þannig minnkar maður innistæðuna, álit sitt á sjálfum sér, trúverðugleika og traust. Það gerir það að verkum að við treystum okkur ekki og ásökum aðra fyrir okkar eigin ótta, óttinn er alltaf okkar eigin upplifun.
Ég ráðlegg fólki að niðurhala Lífsráðgjafanum og fara í gegnum þetta ferli í vakandi vitund, þ.e.a.s. vakna til vitundar um hvar við erum stödd, taka ábyrgð á því hvar við erum og fyrirgefa okkur. Fólk þarf að sleppa óhamingjunni tengt fortíðinni til þess að hægt sé að nýta þá orku sem þar hefur legið, í núið, sem verður framtíðin. Þetta er ekki flókið ferli og heldur ekki auðvelt, en ekki flókið. Maður þarf að horfa í spegil sinnar innri tilvistar, horfast í augu við vanmáttinn og innistæðu sinnar tilvistar og taka svo ákvörðun um hvort maður ætli að auka innistæðuna eða ekki, það er gert í gegnum hjartað."