Heimsljós
veftímarit um þróunarmál
9. árg. 297. tbl.
31. ágúst 2016
Leiðtogafundur um flótta- og farandfólk í september:
Tæplega fjögur þúsund létust fyrstu sex mánuði ársins

Ljósmynd:UN

Á fyrstu sex mánuðum þessa árs hafa rúmlega 3.700 einstaklingar farist eða horfið á leið sinni milli landa. Tölur um fjölda flótta- og farandfólks sem láta lífið á ferðum milli landa hafa hækkað um 28% milli ára þegar horft er á sama tímabil áranna 2015 og 2016 og aukningin er 52% frá árinu 2014. Það verður meðal annars í skugga þessara dauðsfalla sem Sameinuðu þjóðirnar boða til fyrsta leiðtogafundar sögunnar um flótta- og farandfólk. Fundurinn verður haldinn í New York 19. september og daginn eftir ætlar Barak Obama forseti Bandaríkjanna að halda sérstakan leiðtogafund um flóttamenn.

Á fundinum munu þjóðarleiðtogar ræða þann brýna vanda sem blasir við og hefur ekki nema að óverulegu leyti verið leystur: hvernig á að takast á við straum flóttamanna og farandfólks? Samkvæmt gögnum frá Alþjóðastofnun um fólksflutninga (IOM) heldur dánartíðni farandfólks áfram að hækka, einkum vegna fjölgunar dauðsfalla á Miðjarðarhafi, en einnig í norðurhluta Afríku, Miðausturlöndum og Horni Afríku. Hins vegar fækkar dauðsföllum í öðrum heimshlutum eins og Karíbahafinu og Suðaustur-Asíu.

Í drögum að ályktun fundarins sem unnið hefur verið að á síðustu mánuðum kemur fram að fólksflutningar í heiminum séu meiri en áður hafi þekkst. Fleira fólk en nokkurn tíma áður búi í öðru landi en föðurlandinu. Farandfólk sé að finna í öllum ríkjum heims. Flestir komist klakklaust milli landa. Á árinu 2015 hafi fjöldinn farið yfir 244 milljónir. Af þeim séu rúmlega 65 milljónir manna sem hafa neyðst til að flýja, þar af 21 milljón flóttamanna, 3 milljónir hælisleitenda og 40 milljónir sem eru á vergangi.

Flestir flóttamanna í heiminum hafast við í fátækum ríkjum heims eins og Jórdaníu (2,8 milljónir), Tyrklandi (2,7 milljónir), Palestínu (2 milljónir), Pakistan (1,5 milljón), Líbanon (1,5 milljón) og Suður-Afríku (1,2 milljónir).

Tugþúsundir barna í bráðri hættu við Tjad stöðuvatnið
Dökk mynd af stöðu barna í skugga hryðjuverkasamtaka

Áhrifamiklar ljósmyndir og frásagnir barna er að finna á Medium vef UNICEF.  Þar er meðal annars að finna þessa mynd af Tahar Mohamed, átta ára, og myndatexti UNICEF er svohljóðandi. "Við erum hirðingjar. Við vorum ekki í búðunum þegar Boko Haram réðust á þær. Ég sat á baki kameldýrsins með föður mínum og sá fólk flýja brott. Hann sagði mér að öskra ef ég skynjaði hættu. Fyrstu nóttina svaf ég uppi í tré. Ég var of skelkaður." Ljósmynd UNICEF/2016/Tremeau

Tæplega hálf milljón barna á flótta undan vígasveitum Boko Haram í grennd við Tjad stöðuvatnið er í lífshættu vegna vannæringar, helmingi fleiri en í upphafi ársins, segja fulltrúar Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna (UNICEF). Samtökin vekja athygli á ófremdarástandi í þessum heimshluta þar sem átök og eyðilegging hefur hrakið 2,6 milljónir íbúa á vergang, þar af 1,4 milljón barna. Í skýrslu samtakanna sem kom út í síðustu viku - Children on the move, children left behind - segir að í Borno fylki í norðausturhluta Nígeríu sé ástandið grafalvarlegt og 49 þúsund börn í bráðri lífshættu. Skýrsla UNICEF dregur upp dökka mynd af stöðu barna í Afríku, í skugga hryðjuverkasamtakanna Boko Haram.

Á þeim sjö árum sem vígasveitirnar alræmdu hafa verið við lýði hafa hermenn Boko Haram myrt 20 þúsund íbúa og stökkt á flótta 2,6 milljónum íbúa í Nígeríu, Kamerún, Níger og Tjad. Þá eru 2,2 milljónir manna, helmingur á barnsaldri,  sagðar vera í herkví á landssvæðum þar sem Boko Haram ræður ríkjum. 

UNICEF hvetur þjóðarleiðtoga og alþjóðasamfélagið til þess að bregðast við strax með mannúðaraðstoð vegna upplausnarinnar á svæðinu kringum Chad vatnið og alvarlegra áhrifa hennar á börn.
Í skýrslunni kemur fram að ungar stúlkur séu látnar fremja sjálfsmorðssprengjuárásir fyrir Boko Haram. Sakleysislegt yfirbragð þeirra auðveldi þeim eftirlitslaust aðgengi að fjölmennum stöðum til árásar. Þar kemur fram að 38 börn hafa verið þvinguð til að fremja sjálfsmorðssprengjuárásir það sem af er þessu ári, fleiri en í fyrra.

"Þetta er skelfilegur þáttur í þessu neyðarástandi, fjöldi þeirra barna sem eru notuð í svonefndum sjálfsvígsárásum," segir Helene Sandbu Ryeng, talsmaður UNICEF í Dakar. Viðtal við hana var birt í frétt RÚV í síðustu viku.

"Árið 2014 voru börn notuð í fjórum sjálfsvígsárásum. Það sem af er þessu ári eru þær 38. Þessi staða fer sem sé versnandi. Við sjáum að þetta eru ung börn, sérstaklega stúlkur. Í 75% allra sjálfsvígsárása sem börn eru látin fremja eru stúlkur látnar gera það. Við vitum auðvitað ekki fullkomlega hver ástæðan er en við getum ímyndað okkur að litið sé á stúlkur sem minni ógn í þjóðfélaginu en aðra og því auðveldara fyrir þær að komast inn í þorp og á önnur svæði þar sem fólk safnast saman," segir Helene og bætir við:

 "Börn eru beitt kynferðisofbeldi og neydd til að gera árásir. Vegna þess að þau eru alltaf á ferðinni eru þau illa nærð. Í eðlilegu árferði myndi þetta fólk stunda búskap en Boko Haram gerir allt búfé upptækt og ef ekki neyðast íbúarnir til að skilja dýrin eftir," segir Helene.

Verða afrísk börn 40% af sárafátækum í heiminum eftir fimmtán ár?
Á sama tíma og aldurssamsetning þjóða einkennist af vaxandi fjölda aldraðra er Afríka eina álfan þar sem unga kynslóðin er fjölmennust. Breska fræðasetrið Overseas Development Institute (ODI) varar við því í nýrri skýrslu að miðað við óbreytta þróun komi fimmtungur barna í Afríku til að búa við sárafátækt árið 2030. Afrísk börn verða þá 40% af öllum fátækum í heiminum, segir í skýrslunni sem ber yfirskriftina: Child Poverty, inequality and demography.

Að mati skýrsluhöfunda felur þessi sérstaða Afríku í sér bæði tækfæri og hættur. Augljós tækifæri felist í því að virkja hæfileika unga fólksins sem hefði í för með sér auknar framfarir og betri lífskjör í álfunni en að sama skapi blasi við að óbreyttu mynd af fjöl-mennum hópi barna og ungmenna sem búi við sárafátækt. Það feli bæði í sér hættu fyrir álfuna og Heimsmarkmiðin sem gera ráð fyrir að sárafátækt verði útrýmt fyrir árið 2030.

Brýn úrlausnarefni
Í skýrslunni er hvatt til þess að stjórnvöld í Afríku og alþjóðasamfélagið fjárfesti í tækifærum fyrir ungu kynslóðina í Afríku. Tilgreind eru ýmis brýn atriði sem hafa jákvæð áhrif á þróun, þar á meðal gæðamenntun, betri kyn- og frjósemisþjónusta, jafnrétti kynjanna, ráðstafanir til að draga úr barnahjónaböndum og beinar peningagreiðslur til fjölskyldna fátækra barna.

Jafnrétti kynjanna væri blessun fyrir Afríku:
Konur fá færri tækifæri en karlar á öllum sviðum samfélagins

Fjárhagslegt tjón af völdum kynjamisréttis í Afríku er metið á 100 milljarða bandaríkjadala á ársgrundvelli. Í nýrri skýrslu Þróunaráætlunar Sameinuðu þjóðanna (UNDP) segir að efnahagsleg og félagsleg mismunun gagnvart konum sé metin á fyrrnefnda upphæð. Augljóst sé því að kynjajöfnuður væri blessun fyrir álfuna bæði í efnahagslegu og félagslegu tilliti.

Þessar upplýsingar er að finna í Lífskjaraskýrslu UNDP fyrir Afríku - Africa Human Development Report. Í rannsóknarniðurstöðum að baki skýrslunni kemur fram að hvarvetna sé konum synjað um sambærileg tækifæri og karlmenn og gildi þá einu hvort litið sé til efnahagslegra, félagslegra eða pólítískra tækifæra. Konur standa höllum fæti í samanburði við karla þegar horft er til menntunar, atvinnu og heilsu, segir í skýrslunni.

Bent er á að færri stelpur en strákar gangi í skóla, konur hafi lægri laun en karlar fyrir launaða atvinnu, skaðlegar venjur hafi áhrif á heilsu þeirra og ákveðnar hefðir í menningu hindri framgang kvenna í samfélaginu.

Ennfremur er staðhæft að venjur eins og að gifta stúlkur á barnsaldri og kynferðislegt  og líkamlegt ofbeldi stuðli að heilsubresti hjá konum og fleiri dauðsföllum af barnsförum.


Heimsmarkmiðin kynnt á Fundi fólksins


Hefur þú kynnt þér Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna? Hefur þú pælt í því hvernig þú getur unnið að því að markmiðin náist?

Félag Sameinuðu þjóðanna ásamt Junior Chamber International á Íslandi kynna Heimsmarkmiðin fyrir gestum og gangandi á samkomunni "Fundur fólksins" sem haldin verður í Norræna húsinu dagana 2.-3. september. Gestum gefst tækifæri til að velja sér markmið og íhuga hvernig einstaklingar geta unnið að því. Hugmyndum verður safnað saman og mun félagið gera smá samantekt um helstu niðurstöður að viðburðinum loknum. 

Fulltrúar frá Félagi Sameinuðu þjóðanna og Junior Chamber verða í anddyri Norræna hússins frá klukkan 12:00-18:00 báða dagana og hvetja allt til þess að mæta og kynna sér málin.
Fyrir þá sem vilja kynna sér markmiðin betur þá bendum við á undirsíðu um Heimsmarkmiðin á vef Félags Sameinuðu þjóðanna og á vef alþjóðlegrar þróunarsamvinnu Íslands (ICEIDA). Hlekkir á vefina eru hér undir. 

Hvítu hjálmarnir með margar tilnefningar til friðarverðlauna Nóbels


Hvítu hjálmarnir í Sýrlandi, sjálfboðaliðasamtök sem bjarga óbreyttum borgurum úr húsarústum, eru líkast til þau samtök sem hafa fengið flestar tilnefningar til friðarverðlauna Nóbels í ár. Alls hafa 133 stofnanir og einstaklingar tilnefnt Hvítu hjálmana til verðlaunanna, að sögn IPS fréttaveitunnar.

Mannréttindasamtökin Syria Campaign opnuðu sérstaka vefsíðu í vikunni til stuðnings Hvítu hjálmunum eftir erfiða viku sjálfboðaliðanna sem misstu fyrr í vikunni Khaled Omar Harrah, einn þekktasta félaga sinn, sem lést við björgunarstörf í Aleppo.

Harrah bjargaði fyrir tveimur árum ungu barni, Mahmoud, úr rústum þriggja hæða húss sem hrundi eftir sprengiárás.  Aðgerðin tók 14 tíma en barninu var bjargað og kallað "Kraftaverkabarnið" eins og margir muna úr fréttum. Mahmoud er einn af sextíu þúsund óbreyttum borgurum sem Hvítu hjálmarnir hafa bjargað í Sýrlandi.

Tilkynnt verður um friðarverðlaunahafa  Nóbels í byrjun október en tilnefningar hafa aldrei verið fleiri en í ár, 376 talsins, að því er fram kemur í frétt IPS.

Vera Knútsdóttir nýr framkvæmdastjóri Félags Sameinuðu þjóðanna

Vera Knútsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Félags Sameinuðu þjóðanna. Hún var ráðin úr hópi 93 umsækjenda eftir ráðningarferli hjá Capacent.

"Við erum mjög þakklát fyrir þann sterka hóp umsækjenda heima og erlendis sem sóttu um starfið," segir Þröstur Freyr Gylfason, formaður Félags SÞ, á heimasíðu félagsins. "Við teljum að ráðningarferlið hafi skilað okkur afar hæfum framkvæmdastjóra, enda býr Vera að víðtækri reynslu og þekkingu á alþjóða- og þróunarmálum, m.a. af vettvangi í Líbanon og Sómalíu. Við vitum að sú reynsla kemur til með að nýtast mjög vel í störfum félagsins í þágu aukinnar almanna­vitundar, fræðslu og samfélagsumræðu á Íslandi um Sameinuðu þjóðirnar og þróunarmál."

Vera Knútsdóttir hefur um fimm ára reynslu af alþjóðastarfi og þar af þriggja ára reynslu af störfum hjá Sameinuðu þjóðunum. Vera hefur reynslu af mannúðarstarfi og flóttamannaaðstoð og hefur starfað bæði hjá Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, UNICEF, í Sómalíu og Flóttamannaaðstoð SÞ fyrir Palestínumenn, UNRWA, í Líbanon. Áður var hún í starfsnámi á viðskiptasviði og alþjóða- og öryggissviði utanríkisráðuneytisins, þ.á.m. verkefnum tengdum mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna. Vera lauk BA-prófi í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands árið 2009 og MA-gráðu í öryggis- og varnarmálafræðum frá Georgetown háskóla í Bandaríkjunum árið 2011.

Á myndinni er Vera Knútsdóttir (t.v.) og Berglind Sigmarsdóttur (t.h.), fráfarandi framkvæmdastjóri. 


Á fjórtándu milljón króna til Eþíópíu gegnum SOS

Utanríkisráðuneytið styrkti nýlega SOS Barnaþorpin á Íslandi til að fjármagna neyðaraðstoð samtakanna í Eþíópíu. Styrkurinn hljóðaði upp á 12,5 milljónir króna og mótframlag SOS á Íslandi var 700 þúsund. Samtökin senda því 13,2 milljónir frá Íslandi til neyðaraðstoðar SOS Barnaþorpanna í Eþíópíu en eins og flestir vita er mikill matarskortur og vannæring í landinu vegna þurrka.

Á vef SOS Barnaþorpanna á Íslandi birtist nýlega myndafrásögn frá Hararghe fylki í austurhluta Eþíópíu sem hefur verið sérlega þurrt. "Þó að svæðið sé grænt hefur óstöðugt regnið og fræskortur vegna þurrksins í fyrra leitt til mikils uppskerubrests. Íbúar á svæðinu kalla matarskortinn græna hungrið.

Í myndatexta með meðfylgjandi mynd segir:
"Þetta þriggja mánaða barn kom til heilsugæslunnar í Chinaksen með móður sinni. Móðirin fékk ekki næga næringu og gat ekki gefið næga brjóstamjólk til að fæða barn sitt. F75 og F100 formúlur eru notaðar í meðferð við mjög alvarlegri vannæringu ásamt öðrum lyfjum sem SÞ gefa. Adenan Ahmed, hjúkrunarkona sem vinnur á heilsugæslunni segir, "í þessum mánuði höfum við haft 113 börn til meðferðar og við þurfum sárlega á meiri lyfjum og öðrum birgðum að halda. Vandamálið er að stækka og við eigum erfitt með að fylgja stækkuninni eftir."


Opin málstofa um rannsóknarverkefni nema Landgræðsluskólans

Næstkomandi mánudag kynna nemendur Landgræðsluskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna lokaverkefni sín á opinni málstofu. Að sögn Hafdísar Hönnu Ægisdóttur forstöðumanns kólans nema á þessu ári 11 sérfræðingar við skólann. Þau koma frá Níger, Gana, Úganda, Lesótó og Malaví í Afríku og Mongólíu og Kirgistan í Mið-Asíu.

Hafdís Hanna segir að í heimalöndum sínum starfi þau sem sérfræðingar við háskóla, ráðuneyti, rannsóknarstofnanir  og héraðsstjórnir á sviði landnýtingar- og landverndarmála en hálfs árs námi þeirra við Landgræðsluskólann lýkur senn.

"Verkefnin sem kynnt verða á málstofunni eru fjölbreytt, m.a. verður rætt um hvernig bæta megi ástand lands í Mongólíu með aukinni þátttöku hirðingja í ákvörðunum um landnýtingu, og fjallað verður um áhrif sandnáma í Norður-Gana á lífsviðurværi fólks í nærliggjandi þorpum og getu yfirvalda til að hafa áhrif á uppgræðslu námasvæða. Einnig verður fjallað um notkun trjáa til að auka frjósemi ræktarlands í Níger, sem og viðhorf nærsamfélags í suðurhluta Lesótó til nýtingar beitilands og greining á regluverki þar í landi varðandi landnýtingu," segir Hafdís Hanna.

Málstofan á mánudaginn með kynningu á lokaverkefnunum verður haldin á 2. hæð á starfstöð Landbúnaðarháskóla Íslands á Keldnaholti í Reykjavík.
Dagskrá málstofunnar má lesa hér

Vannýtt auðlind: menntun innflytjenda og flóttafólks

Á föstudaginn kemur, 2. september, stendur Alþjóðamálastofnun og rannsókasetur um smáríki fyrir umræðufundi sem ber yfirskriftina: "Vannýtt auðlind: menntun innflytjenda og flóttafólks." 

Unnur Dís Skaptadóttir, prófessor í mannfræði við Háskóla Íslands, fjallar um atvinnutækifæri innflytjenda og flóttafólks á Íslandi út frá rannsóknum sínum. Ína Dögg Eyþórsdóttir, verkefnisstjóri hjá ENIC/NARIC matsskrifstofu Háskóla Íslands, kynnir hvernig menntun innflytjenda og flóttafólks er metin innan Háskóla Íslands og Barbara Kristvinsson, ráðgjafi innflytjenda hjá Mannréttindaskrifstofu Reykjavíkurborgar, fjallar um reynslu innflytjenda og hugmyndir að úrbótum út frá 
starfi hennar sem ráðgjafi innflytjenda.

Fundurinn verður haldinn í gróðurhúsi Norræna hússins og hefst klukkan 14:00.
Fundarstjóri er Þorsteinn Víglundsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. 


Áhugavert

Anne Frank Today Is a Syrian Girl, eftir Nicholas Kristof/ NYT
-
I wholeheartedly agree: Poverty is Sexist, eftir Justin Trudeau/ ONE
-
Solar lights are transforming the night in rural Myanmar, Uganda and India/ QZ
-
Chart: Girls Closing The Education Gap in IDA Countries, eftir Tariq Khokhar / Alþjóðabankablogg
-
A Thirst for Life/ Save the Children
-
Countries with the Most Freshwater per Person, eftir Tariq Khokhar/ Alþjóðabankablogg
-
I decided to be a Ugandan woman for a week - it was the wig that broke me, eftir Samuel Voira/ TheGuardian
-
The UN must lead by example in appointing its next Secretary-General: make this moment count for gender equality, eftir Phuzile Mlambo-Ngcuka/ UNWomen
-
Sigmund Freud, the missing link in Water and Sanitation?/ SEI
-
Achieving universal access to water and sanitation by 2030 - how can blended finance help?, eftir Joel Kolker/ Alþjóðabankablogg
-
The challenge to be climate smart with the world's agriculture, eftir Juergen Vogale/ Alþjóðabankinn
-
Girls Should Not Miss School Because of Their Periods/ GlobalCitizen
-
Children From Crisis-Affected Countries Dress Up For Their Dream Jobs In Powerful Photo Series/ HuffingtonPost
-
#IfAfricaWasASchool: jokes and descriptions of life in Africa/ DW
-
Improving Learning through Simple Teaching Innovations, eftir Maryam Akmal/ CGDev
-
Quality education needed to boost women's economic empowerment, eftir Keiko Inoue/ Alþjóðabankablogg
-

If a monkey snaps a selfie, does it own the rights to its own photograph?/ Qz
-
Here's how to improve livelihoods in Uganda/ Monitor
-
World Bank Group Youth Summit 2016: Rethinking education for the new millennium, eftir Jewel McFadden/ Alþjóðabankablogg
-
New innovations for new challenges in the world of water/ WaterAid
-
We shouldn't have to wait until the next Olympics to end malnutrition/ TheGuardian
-

What inspires Uganda's singing policeman?/ BBC
-
I decided to be a Ugandan woman for a week - it was the wig that broke me/ TheGuardian
-
It's time to talk about fraud in aid agencies/ TheGuardian

Fræðigreinar og skýrslur
Fréttir og fréttaskýringar

Aukið samstarf milli Íslands og Nígeríu/ Utanríkisráðuneytið
-
Middle East life expectancy drops due to conflict/ SciDev
-
The danger of fighting fire with fire - Civilians in Congo turn to self-defence groups to stop massacres/ IRIN
-
World Bank clears way for Kim's second term/FT
-
Nigeria crisis: The children who know only hunger/ BBC
-
Forseti fundaði í dag um málefni flóttamanna á Íslandi/ Kvennablaðið
-
Independent body needed to investigate Yemen violations I UNRadio
-
The tribes paying the brutal price of conservation/ TheGuardian
-
Pollution kills as many people as cancer does, UN's new environment chief warns/ UN
-
Education 'absolutely central' in reducing child poverty in Africa/ AWorldAtSchool
-
Joint UN programme aims to empower over 1 million girls in Mozambique/ Reliefweb
-
What does water have to do with work? In Malawi, plenty, eftir Carlos Carrion-Crespi/ ILOblogg
-
'Old boys' network' sidelining women vying to be next UN Secretary-General, says campaigner/ IBTimes
-
GLIMMERS OF HOPE IN THE EASTERN CONGO/ UNDP
-
Japan promises Kenya aid to fund development, power generation/ Reuters
-
Africa after Brexit/ AfricaRenewal
-
Afganistan: To Say It Like It Is: Norway's evaluation of its part in the international intervention, eftir Ann Wilkens/ Afganistan-Analysts
-
Vefritið Quarz Africa
-
Yemen report/ OHCHR
-
The way home - Rebuilding peace in Central African Republic/ IRIN
-
Sweden: New aid initiative focusing on displaced children/ ReliefWeb
-
Mozambique: Opposition Group Raids Hospitals/ HRW
-
Climate change creating 'A Brewing Storm' in coffee production/ Digital Journal
-
The Refugee Olympic Team Showed They Have Plenty to Offer, in Spite of Tragic Stories / GlobalVoices
-
WHAT THE WORLD'S POPULATION WILL LOOK LIKE IN 2050: BY THE NUMBERS/ Newsweek
-
Britain's new foreign development chief thinks trade should trump aid/ Humanosphere
-
How Insects' Breath is Saving Crops in Uganda/ NewsDeeply
-
Malaví: Drought insurance in Africa/ TheEconomist
-
Titusener av sørsudanere strømmer til Uganda/ Bistandsaktuelt
-
IMF says Mozambique must accept audit to restore confidence - Bloomberg/ ClubOfMozambique

Alþjóðadagur um þvingað brottnám

Þvingað brottnám fólks hefur oft verið notað sem aðferð til að skapa ofsahræðslu í samfélaginu, segir á vef Upplýsingaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna (UNRIC).

 "Það sem heitir þvingað brottnám á alþjóðlegu lagamáli felur í sér að einstaklingur er numinn á brott og haldið föngnum án þess að nokkur viti um hvar eða hverjir haldi honum gegn vilja sínum. Það tilheyrir ekki einum heimshluta fremur en öðrum að beita þvinguðu brottnámi, en oft eru það aðilar utan ríkiskerfisins sem grípa til þessa úrræðis, þar á meðal vígasveitir öfgamanna og hryðjverkasamtök," segir þar ennfremur en í gær, 30.ágúst, var árlegur Alþjóðadagur fórnarlamba þvingaðs brottnáms.


BMAfgan
#thisismymission ímyndarherferð fyrir Resolute Support í Afganistan

- eftir 
Björn Malmquist, friðargæsluliða hjá Resolute Support/NATO í Kabúl, Afganistan. 


Stór hluti af mínu starfi hjá upplýsingadeild Resolute Support (Public Affairs) felst í að framleiða myndbönd, taka ljósmyndir og skrifa efni fyrir þá samfélagsmiðla sem við höldum úti (Youtube, Facebook og Twitter). Markmiðið er að segja frá og vekja athygli á því starfi sem hér er unnið til að þjálfa, kenna og aðstoða afganska herinn og lögregluna. Ég hef líka starfað sem ráðgjafi og kennari fyrir afganska hermenn sem starfa við útbreiðslu upplýsinga.

Þessa dagana er ég hins vegar á kafi í nokkurs konar ímyndarherferð sem ég hannaði fyrir Resolute Support; herferð sem gengur út á að kynna til sögunnar hermenn og borgara sem sinna margvíslegum störfum innan þessa risavaxna verkefnis; sennilega þess stærsta sem Atlantshafsbandalagið hefur tekist á hendur.

Markmiðið með þessari herferð er, eins og áður, að vekja athygli á því starfi sem unnið er innan Resolute Support - og ekki síður að minna á að yfir 40 þjóðir, aðildarþjóðir NATO og samstarfsþjóðir - taka þátt í þessu verkefni.

Þar sem #thisismymission herferðin er eingöngu rekin á samfélagsmiðlum, þá ákvað ég að nota einstaklinga - hermenn og borgara sem vinna sín verk hér í Kabúl og víðar í Afganistan til að koma þessum skilaboðum á framfæri.

Í stað þess að nota tölur, staðreyndir og árangur til að vekja athygli og til að draga upp stóru myndina, þá læt ég fólkið lýsa sínu eigin starfi og hvers vegna það starf er mikilvægt svo Resolute Support nái árangri.

Með því að sýna "venjulegt fólk", þá persónugerum við þetta stóra verkefni sem Resolute Support er, og við minnum á að alþjóðasamfélagið, ekki aðeins NATO, tekur þátt. Óbreyttir hermenn, liðsforingjar, ofurstar og hershöfðingjar segja frá sínu starfi, karlar og konur, ungir og gamlir, frá Bandaríkjunum, Georgíu, Portúgal, Ítalíu, Rúmeníu og Danmörku, svo aðeins nokkur lönd séu nefnd.

Tökur á þessum myndböndum hafa staðið yfir síðan í byrjun ágúst. Í síðustu viku ágúst birtum við tvö kynningarmyndbönd (auglýsingar), og fyrsta myndbandið með einstaklingi var sett á Facebook og Twitter mánudaginn 29. ágúst. Tugir þúsunda hafa nú þegar séð og horft á þessi myndbönd, og þeim hefur verið deilt víða, þar á meðal á samfélagsmiðlum NATO. 

Herferðin mun standa yfir í tvo til þrjá mánuði, og nú þegar er verið að leggja drög að nýrri herferð sem á að taka við af #thisismymission. 

Upphafið á ævintýrum starfsnema í Malaví

Ása María í Malaví.
- eftir Ásu Maríu H. Guðmundsdóttur starfsnema í Malaví

Í sendiráðum Íslands í Malaví, Mósambík og Úganda starfa þrír starfsnemar sem líkt og undanfarin ár hafa fallist á beiðni Heimsljóss um pistlaskrif þann tíma sem þeir dvelja í samstarfslöndum Íslendinga. 

Á mánudaginn byrjaði ég þriðju vinnuvikuna mína hér í Lilongwe, höfuðborg Malaví, og enn finnst mér ég vera heppnasta manneskja í heiminum að fá tækifæri til að upplifa það að búa hér og vinna. Áhugi minn á Malaví kviknaði þegar ég heimsótti landið árið 2014 og í raun var ég ekki einu sinni komin í gegnum tollinn á Kamuzu flugvelli þegar ég áttaði mig á því hvers vegna landið er oft kallað "The warm heart of Africa". Veseni og ráðvillu Íslendings á sínu fyrsta ferðalagi út fyrir Evrópu var mætt með góðlátlegu gríni og vinsamlegri beiðni um að hafa allar upplýsingar á hreinu næst þegar ég kæmi - með skömmustulegu glotti lofaði ég betrun og get núna stolt sagst hafa staðið við það loforð! Fólkið, menning og landið sjálft hélt svo áfram að heilla mig næstu vikurnar og þegar komið var að kveðjustund var ég staðráðin í að  hingað kæmi ég aftur.
 
Malaví er örlítið stærra en Ísland að flatarmáli en liðast eins og snákur suður eftir Afríku með sitt fjölbreytta og fallega landslag, innrammað af Mósambík, Zambíu og Tanzaníu. Menningin er lífleg, mikil stemning myndast þar sem fólk er saman komið, tímaskynið er afslappað og brosin eru stór. Þrátt fyrir alla hina fallegu eiginleika Malaví er víða pottur brotinn og fyrri heimsókn mín hingað opnaði augu mín fyrir þeim ótrúlegu aðstæðum sem manneskjan getur aðlagað sig að og lifað við. Malaví er meðal fátækustu ríkja heims og þau vandamál sem ógna afkomu þjóðarinnar eru fjölþætt og flókin - mikil fátækt, spilling í stjórnkerfinu, loftslagsbreytingar, veikir innviðir og lítið fæðuöryggi eru einungis hluti af þeim.
 
Samband Íslands og Malaví hefur staðið yfir jafn lengi og árin mín eru mörg, síðan 1989, og á þeim tíma hafa margvísleg þróunarverkefni komist á koppinn og klárast, sem vonandi hafa stuðlað að bættum lífsskilyrðum malavísku þjóðarinnar. Þróunarsamvinnu landanna tveggja í dag er þannig háttað að starfsemin fer öll fram í einu héraði en það er m.a. svo hægt sé að tryggja hámarksnýtingu þess fjármagns sem nýta á til verksins. Þetta  byggir einnig á þeirri hugmyndafræði að uppbygging og þróun verði að eiga sér stað í samráði og samstarfi við þau samfélög sem um ræðir á hverjum tíma og fólkið sem þau byggir en með því að leggja áherslu á afmarkað svæði er hægt að vinna nánar með heimamönnum. Þannig aukast líkur á sjálfbærni verkefna ásamt því að samfélögin valdeflast, fá rödd varðandi sínar eigin þarfir og geta tekið beinan þátt í að móta sína framtíð. Verkefnin sem ICEIDA hefur verið að sinna í Malaví síðan 2012 hafa öll verið í Mangochi-héraði í suðurhluta landsins og nú í sumar kláraðist fjögurra ára tímabil þar sem unnið var að umbótum á sviði vatns og hreinlætis, heilsu- og menntamála. Á döfinni er svo framlenging á þeim verkefnum sem þegar eru í gangi ásamt því að verið er að hanna verkefni á nýjum sviðum. Valdefling kvenna er eitt þessara nýju sviða en fjárhagslegt sjálfstæði kvenna og aukið jafnrétti almennt þykir lykilþáttur í sjálfbærri þróun ásamt því að hvoru tveggja er mikilvægt takmark í sjálfu sér.
 
Fyrstu tvær vikurnar mínar sem starfsnemi í Malaví hafa liðið, að mér virðist, á einu augnabliki og verið afar viðburðaríkar. Ég borðaði Nsima, þjóðarrétt Malava, með höndunum í fyrsta hádeginu á skrifstofunni með malavíska starfsfólkinu - þeim fannst mjög skondið þegar ég byrjaði á því að leita að hnífapörunum og voru hæstánægð þegar ég náði næstum því að klára af disknum. Daginn eftir byrjaði ég að keyra en hér er vinstri umferð og reglurnar eru ekki endilega alltaf þær sömu og ég lærði í ökuskólanum - bílstjóri ICEIDA, sem fór með mér fyrsta rúntinn, var þó bara nokkuð ánægður með mig og svo öruggur í farþegasætinu að hann ákvað að nýta tímann og kenna mér smá Chichewa í leiðinni. Dagarnir hafa líka mikið farið í að kynna mér starfsemina, koma mér inn í efnið, gera mistök, finna taktinn og læra inn á lífið hér í Lilongwe. Síðustu helgi eyddi ég svo í Mangochi þar sem ég hitti starfsmenn skrifstofu ICEIDA í héraðinu, fór á fund varðandi komandi verkefni, heimsótti lítið þorp sem heitir Chowe og naut lífsins á þessum magnaða stað.
 
Spennt fyrir komandi mánuðum segi ég tionana (Chichewa fyrir "sjáumst seinna" - eins og sést þá skilaði tungumálakennsla bílstjórans árangri) og kveð frá Lilongwe í bili.

facebook
UM HEIMSLJÓS 

Heimsljós - veftímarit um þróunarmál er gefið út af utanríkisráðuneytinu. Heimsljós er fræðslu- og upplýsingarit um þróunar- og mannúðarmál og alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands. Ritinu er ætlað að glæða umræðu um málaflokkinn og gefa áhugasömum kost á því að fylgjast með því sem hæst ber hverju sinni. Heimsljós birtir gjarnan greinar um þróunarmál en ætíð undir nafni og á ábyrgð höfunda. Slíkar greinar þurfa ekki að endurspegla stefnu stjórnvalda. 

 

Þeir sem vilja senda okkur ábendingu um efni eða afskrá sig af netfangalista eru vinsamlegast beðnir um að senda slík erindi á netfang ritstjórans, Gunnars Salvarssonar, gsal@mfa.is

.

Við biðjumst velvirðingar á því að geta ekki notað íslenskar gæsalappir í viðtölum en bandarískt sniðmát veftímaritsins leyfir ekki notkun þeirra.

 

ISSN 1670-8105