gunnisal
Heimsljós
veftímarit um þróunarmál
8. árg. 278. tbl.
9. september 2015
Nýju þróunarmarkmiðin verða samþykkt í þessum mánuði en kynningin er hafin:
Ætla að ná til sjö milljarða íbúa jarðar á sjö dögum til að kynna markmiðin
Hvernig mettum við níu milljarða jarðarbúa:
Tækifærin felast í framleiðslu og dreifingu matvæla 
Staðhæft er að í heiminum sé framleiddur matur sem dugi til að metta alla jarðarbúa, sjö milljarða. Engu að síður er talið að um 805 milljónir manna gangi svangar til hvílu á hverjum degi. Ennfremur búi tveir milljarðar til viðbótar við falið hungur eða vannæringu. Reutersfréttastofan hefur gert ítarlega greiningu á fæðuvandanum í heiminum í nýrri skýrslu sem sett er fram á afar myndrænan og nýstárlegan hátt og kallast: Hvernig fyllum við níu milljarða skála fyrir 2050? - How Will We Fill Nine Billion Bowls by 2050?

Hluti af fréttaskýringu Reuters.
Í inngangi að greinaflokknum segir að fátækt, pólitískur óstöðugleiki, ójöfnuður í tekjum og ofneysla í sumum heimshlutum eigi stóran þátt í þeirri stöðu sem við blasi. Í fréttaskýringunni er hins vegar fyrst og fremst horft á tiltekið atriði í fæðukeðjunni - að framleiðslu og dreifingu matvæla. Fréttaskýrendur segja að á þessu sviði felist einmitt mestu áskoranirnar - og björtustu vonirnar - um nógan mat fyrir alla íbúa jarðarinnar.

Minnt er á þá staðreynd í upphafi greinaflokksins að mikið af mat fari til spillis. Sameinuðu þjóðirnar telji að 30% af matvælum fari til spillis í framleiðslu- og dreifingaferlinu - og nái þar af leiðandi á borð neytenda. Bent er á að það sé ekki eingöngu maturinn sjálfur sem glatist, heldur einnig vatn, vinna þeirra sem starfa á þessu sviði og fjármunir sem fari í framleiðsluna.

Vakin er athygli á því að líkast til sé landbúnaður sá atvinnnuvegur sem hafi orðið fyrir mestum neikvæðum afleiðingum af loftslagsbreytingum. Þurrkar, flóð, brunar og frosthörkur leiði með beinum hætti að tjóni á uppskeru. Þá er minnt á að bein tengsl séu á milli fæðuóöryggis og félagslegs óstöðugleika.

Fréttaskýring Reuters
Flóttafólk: Hver þarf á samkenndar-ígræðslu að halda?
Sandgerð stytta til minningar um Alayan Kurdi/ DailyMirror.

Nicholas Kristof rithöfundurinn og blaðamaðurinn heimskunni skrifar grein í New York Times um síðustu helgi undir yfirskriftinni: Flóttamenn sem gætu verið við (Refugees Who Could Be Us). Þar segir Kristof að honum hafi verið hugsað til annarra flóttamanna þegar hann hafi horft á hræðilegar myndir af sýrlenskum flóttamönnum og erfiðleikum þeirra við að komast í skjól - og myndina af þriggja ára stráknum sem lá drukknaður í fjöruborðinu. Honum hafi verið hugsað til flóttamanna eins og Alberts Einsteins, Madeleine Albrights og Dalai Lama. Og föður síns.

Hann rekur síðan stuttlega sögu föðurins sem í kjölfar síðari heimsstyrjaldar synti yfir Dóna frá Rúmeníu á flótta og var einn af mörgum í stórum hópi flóttamanna sem flestum stóð á sama um. Til allrar hamingju hafi fjölskylda í Portland í Bandaríkjunum fjármagnað ferð hans vestur um haf og þannig gert það mögulegt að fólk væri að lesa þessa grein. Og síðan segir Nicholas Kristof: Ef þú sérð ekki sjálfan þig eða aðra í fjölskyldu þinni í þessum myndum sem birtast af flóttafólki dag hvern þá þarft þú á samkenndarígræðslu að halda.

Þær hafa verið átakanlegar lýsingarnar og myndirnar sem við höfum öll séð af fólki á flótta síðustu mánuðina en augnablikið sem náðist á mynd af litla drengnum Alyan Kurdi í fjörunni virðist hafa hreyft við milljónum manna. Skyndilega fylltust samfélagsmiðlarnir af góðvild og samkennd og næstum allir voru tilbúnir að aðstoða á einhvern hátt, láta gott af sér leiða og rétta fram hjálparhönd. Samt höfðu áður verið fluttar margar nöturlegar fréttir og frásagnir af hundruð flóttamanna sem féllu í Miðjarðarhafið á hriplegum bátskeljum og önnur ótíðindi af örlögum fólks á flótta undan átökum og óstjórn. En myndin af líki litla drengsins var kornið sem fyllti mælinn - og íslenska góðvildin komst í heimsfréttirnar. Rataði líkast til í fleiri fréttatíma en árangur strákanna í fótboltalandsliðinu.

Hermt er að fólksflutningarnir miklu síðustu vikurnar séu þeir mestu í sögunni, fleiri á flótta í leit að betra lífi en í lok síðari heimsstyrjaldarinnar. Í lok síðasta árs voru tæplega 60 milljónir einstaklinga á vergangi vegna ótta um líf sitt. Stofnanir Sameinuðu þjóðanna sem vinna að mannúðarmálum eru sagðar á barmi gjaldþrots sökum gífurlegrar fjölgunar flóttafólks. Og margir bíða spenntir að sjá hvernig brugðist verður við þeim nýju áskorunum og tækifærum sem fylgja flóttafólki, þeir hafa þegar fengið frábærar viðtökur eins og í Þýskalandi og Austurríki þar sem hátt í tuttugu þúsund manns eru að koma sér fyrir, en hvert verður okkar svar? 

Alþjóðadagur læsis í gær:
757 milljónir fullorðinna ólæsar og óskrifandi, mikill meirihuti konur
Meirihluti þeirra ólæsu í heiminum er konur. Ljósmynd: gunnisal
Samkvæmt nýjustu gögnum eru 757 milljónir fullorðinna í heiminum ólæsar og óskrifandi. Þessar tölur voru birtar í gær á alþjóðadegi læsis.

Árið 2000 setti alþjóðasamfélagið sér það markmið að minnka um helming ólæsi meðal fullorðinna, einkum kvenna, fyrir árið 2015, en fullorðinsfræðsla var hins vegar ekki hluti af þúsaldarmarkmiðunum. Nú segja nýjustu tölur frá hagdeild UNESCO að þótt læsi fullorðinna hafi aukist hafi takmarkið ekki náðst. Af þessum 757 milljónum ólæsra og óskrifandi einstaklinga í heiminum eru 115 milljónir ungmenna sem geta hvorki lesið né skrifað einfalda setningu. Tveir af hverjum þremur ólæsra í heiminum eru konur.

Að mati UNESCO sýna þessar tölur brýna nauðsyn á frekari skuldbindingum varðandi læsi í nýjum þróunarmarkmiðum en þar er ákvæði þess efnis að tryggt verði að öll ungmenni og stór hluti fullorðinna, bæði kvenna og karla, verði læs bæði á ritað mál og tölur fyrir árið 2030.

Frá árinu 2000 hefur orðið mikill árangur í læsismálum og 85% fullorðinna, eldri en 15 ára, hefur náð tökum á lestri. Hins vegar eru heimshlutar þar sem ólæsi er útbreitt, einkum í sunnanverðri Afríku og bæði í sunnan - og vestanverðri Asíu. Enn eru þrjú ríki þar sem ólæsir eru í meirihluta, Afganistan, Malí og Senegal.

Þema alþjóðadagsins í gær var "læsi og sjálfbær samfélög" sem undirstrikar það lykilhluterk sem læsi gegnir í sjálfbærri þróun. Þema dagsins vísaði jafnframt beint í sjálfbæru þróunarmarkmiðin sem staðfest verða eftir rúman hálfan mánuð en tengslin milli læsis og markmiðanna verða í öndvegi á tveggja daga hátíð sem UNESCO heldur í höfuðstöðvum sínum.

INTERNATIONAL LITERACY DAY 2015
Smáfiskur sífellt stærri hluti aflans uppúr stöðuvötnum í Úganda

Nokkrar tegundir fiska í stöðuvötnum í Úganda virðast verða fyrir beinum áhrifum loftslagsbreytinga og veiðast smærri en áður, að sögn vísindamanna við Makerere háskólann í Kampala. Reyndar eru áhrifin ekki bundin við stöðuvötn í Úganda heldur einnig við vötn í nágrannalöndum í austanverðri Afríku en Viktoríuvatn deilist á milli þriggja þeirra eins og kunnugt er. Áhrifanna af smærri fiskum í afla gætir í lífsafkomu milljóna manna sem reiða sig á fiskveiðar bæði hvað fæðu og tekjur áhrærir.

Vísindamennirnir telja að þessi neikvæðu áhrif megi rekja til hækkandi hita í vatninu. Dr. Jackson Efitre lektor við Makarere segir í viðtali við IPS fréttaveituna að áður fyrr hafi meirihluti aflans uppúr vötnunum verið stórfiskar en nú samanstandi aflinn af verðminni smáfiski. Að mati Efitre virðast tegundir smáfiska síður verða fyrir áhrifum hitabreytinganna eða aðlagast þeim betur.

Fiskveiðar eru Úganda mikilvægar sem sést til dæmis á því að innan greinarinnar starfa 1,2 milljónir manna, útflutningstekjur af fiski nema yfir eitt hundrað milljónum Bandaríkjadala og úr fiskmeti kemur helmingur alls próteins sem íbúar Úganda neyta.

Rannsóknin sem liggur að baki þessara ályktana kallaðist "Application of policies to address the influence of climate change on inland aquatic and riparian ecosystems, fisheries and livelihoods" og náði til tveggja svæða í Viktoríuvatni og Kyogavatni.


Óbreytt framlög til þróunarmála boðuð í fjárlagafrumvarpinu
 
Ríkisstjórnin boðar óbreytt framlög til þróunarmála í nýframlögðu fjárlagafrumvarpi. Áfram verður miðað við að til málaflokksins verði varið 0,21% af þjóðartekjum í stað þeirra 0,7% sem Sameinuðu þjóðirnar ætlast til að ríkar þjóðir eins og Íslendingar leggi til baráttunnar  gegn fátækt í heiminum. 

Vegna aukinna þjóðartekna milli ára hækka framlögin í krónum talið um tæplega 460 milljónir króna og verða í heildina 4,721 milljarðar króna á næsta ári. Af þeirri fjárhæð ráðstafar Þróunarsamvinnustofnun Íslands 1,885 milljörðum króna eða um 40% af framlögunum. Utanríkisráðuneytið ráðstafar um 60% líkt og verið hefur um langt árabil, mest til Háskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, 560 milljónum, og til Alþjóðaframfarastofnunarinnar (IDA) rúmum hálfum milljarði.

Allmörg OECD ríkin ná ekki nýju þróunarmarkmiðunum
OECD þjóðirnar sem standa best að vígi gagnvart nýjum þróunarmarkmiðum.

 Í niðurstöðum nýrrar rannsóknar er varað við því að allmargar af iðnvæddustu þjóðum heims innan OECD nái ekki nýjum þróunarmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna sem fela meðal annars í sér viðspyrnu gegn loftslagsbreytingum og útrýmingu fátæktar. 

Nýju þróunarmarkmiðin ná til allra ríkja á jörðinni en ekki eingöngu þróunarríkjanna eins og þúsaldarmarkmiðin. Þau felast í sautján yfirmarkmiðum og 169 sértækum undirmarkmiðum. Bertelsmann stofnunin, sem vann skýrsluna, telur fjarri lagi að öll OECD ríkin nái markmiðunum fyrir árið 2030.

Rannsóknin er sú fyrsta sem gerð er meðal OCED landa í tengslum við nýju alþjóðamarkmiðin.  Þau ríki sem standa best að vígi eru norrænu þjóðirnar Svíar, Norðmenn, Danir og Finnar, sem raða sér í fjögur efstu sætin, en á eftir þeim koma Sviss og Þýskaland. Ísland er í níunda sæti.

Í neðstu sætunum eru Bandaríkin, Grikkland, Síle, Ungverjaland, Tyrkland og Mexíkó.  

-

Áhugavert
Fræðigreinar og skýrslur
Fréttir og fréttaskýringar

Child mortality falls by 50% since 1990 - report/ BBC
-
Sustainable Settlements to Combat Urban Slums in Africa/ IPS
-
På innkjøpsreise til Kina/ Bistandsaktuelt
-
Fréttabréf Norræna þróunarsjóðsins - september 2015/ NDF
-
Uganda says 12 of its soldiers killed in Islamist attack in Somalia/ Reuters
-
Landsmönnum boðið að taka þátt í að vernda börn gegn mænusótt/ UNICEF
-
Commodities in Africa: How natural resources breed violence/ Economist
-
Disse vil bli Norad-sjef/ Bistandsaktuelt
-
Ólafur þróar sólarhleðslutæki/ Mbl.is
-
Swiss company betting on Africa for next wave of growth/ HowWeMadeItInAfrica
-
World loses South Africa-sized forest area in 25 years: FAO/ Reuters
-
UNU-LRT fellows present their research projects/ Landgræðsluskóli Háskóla SÞ
-
Kenyan population to hit 81 million as fertility rates soar/ DailyNation
The Week in Review - 04 September 2015/ Sameinuðu þjóðirnar
The Week in Review - 04 September 2015/ Sameinuðu þjóðirnar
ETHIOPIAN GIRLS SAY NO TO EARLY MARRIAGE/ USAid
-
Mynd af Hólárjökli vinnur ljósmyndaleik!/ UNRIC
-
Rwandan Lawmaker Defends Constitutional Revision/ VOA
-
Fear stalks Burundi as besieged regime turns to torture/ TheGuardian
-
Malaví: DEFORESTATION -Trees to charcoal/ D+C
-
Child labour on Nestlé farms: chocolate giant's problems continue/ TheGuardian
-
Schooling for girls worldwide to be assessed using new index/ Reuters
-
Global Forest Resources Assessment 2015 - How are the world's forests changing?/ FAO
-
With a little help, businesses thrive after Ebola/ UNDP
Jeffrey D. Sachs's Keynote at #WSF5_2015
Jeffrey D. Sachs's Keynote at #WSF5_2015
Life still hard in northern Mali, despite peace deal/ IRINNews
-
How 'Icyumba Cy'umukobwa' is keeping girls in school/ NewTimes
-
DR Congo measles epidemic 'a looming crisis'/ AlJazeera
-
How Teenage Activist Malala Yousafzai Is Turning Her Fame Into A Movement/ FastCoExist
-
SPECIAL SERIES-How to keep a girl from skipping school, marrying? Give her a toilet/ Reuters
-
13 million war children out of school in Middle East and north Africa/ AWorldAtSchool
-
UN human rights expert condemns executions of 10 people in Chad after swift trial/ UNNewsCentre
-
Eight ways to reach 100% renewable in developing countries/ TheGuardian
-
Raw materials in focus at German-Africa summit/ DW

Alþjóðlegur friðardagur 21. september 

Alþjóðlegur friðar-dagur Sameinuðu þjóðanna er haldinn 21. september ár hvert. Dagurinn var samþykktur fyrst árið 1981 af Sameinuðu þjóðunum en árið 2001 var dagurinn fyrst nýttur til að hvetja til friðsamlegra aðgerða og vopnahlés. Sameinuðu þjóðirnar bjóða öllum þjóðum og íbúum heims að stöðva átök og hernaðaraðgerðir á deginum. Einnig er lögð áhersla á vitundarvakningu í menntastofnunum og hjá almenningi um málefni er snúa að friði.

Hjá Félagi Sameinuðu þjóðanna hafa verið settir saman þrír verkefnapakkar í samstarfi við Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands, Friðarsetur Reykjavíkurborgar og Rannís. Verkefnin eru fyrir 1.-4. bekk, 5.-7.bekk og 8.-10.bekk og þau má nálgast á skólavef félagsins.

Ég er komin "heim"
 
- eftir Selmu Sif Ísfeld Óskarsdóttur starfsnema í Úganda

Nemendur Bugoma Mapera grunnskólans í Kalangala á stóra sviðinu í Þjóðleikhúsi Úganda.
Á umdæmisskrifstofum Þróunarsamvinnustofnunar Íslands í Malaví, Mósambík og Úganda starfa þrír starfsnemar sem líkt og undanfarin ár hafa fallist á beiðni Heimsljóss um pistlaskrif þann tíma sem þeir dvelja í samstarfslöndum Íslendinga. 

Þegar þetta er skrifað hef ég verið í Kampala, höfuðborg Úganda, í rúmar tvær vikur og tilfinningin hefur hellst yfir mig að nýju, tilfinning sem segir: ég er komin "heim", hér líður mér vel. Ég kom til Úganda í fyrsta skiptið árið 2012. Þá var ég að vinna að rannsókn fyrir meistaraverkefnið mitt, sem fjallaði um menntun, frjáls félagasamtök og stúlkur í Kampala. 

Kampala hafði mikið upp á að bjóða fyrir meistaranemann, á daginn sinnti ég rannsóknarvinnu af kappi og á kvöldin dansaði ég afríska dansa, hitti góða vini og kannaði króka og kima iðandi borgarinnar á bodaboda mótorhjóli. Í þetta skiptið er dvöl mín hér talsvert öðruvísi þar sem ég mæti til vinnu samviskusamlega á hverjum morgni hjá Þróunarsamvinnustofnun, þar sem unnið er að margvíslegum og mikilvægum málefnum, en einnig eru maðurinn minn og sonur með í för. Ég er svo heppin að fá að deila þessu ævintýri með þeim báðum og sýna þeim allt sem Úganda hefur upp á að bjóða. Frítíminn í þetta skiptið fer því í að þefa uppi alla barnvæna staði sem fyrirfinnast í Kampala, ásamt sundlaugum og sandkössum. Ég nýt þess því til hins ýtrasta nú að kanna nýjar hliðar Kampala og kynnast borginni "minni" upp á nýtt.
 
Kalangalaverkefnið
Eitt af þeim verkefnum sem Þróunarsamvinnustofnun hefur unnið að hér í Úganda er byggðarþróunarverkefni í Kalangala, sem er eyjasamfélag á Viktoríuvatni. Verkefnið hófst árið 2006 og var áætlað til tíu ára, en því lauk formlega um mitt þetta ár. Hins vegar verður haldið áfram að styðja við menntamál í héraðinu, en miklar umbætur hafa orðið í menntamálum Kalangala héraðs með hjálp Þróunarsamvinnustofnunar. Kalangala var til að mynda yfirleitt meðal þeirra fimm neðstu héraða yfir lakastan námsárangur í Úganda áður en til stuðnings Þróunarsamvinnustofnunar kom. 

Á samræmdum lokaprófum árið 2014 lenti Kalangala hérað hins vegar í 12. sæti af 118 héruðum. Í fyrstu vinnuviku minni hér í Kampala var ég svo heppin að fá að fylgjast með lokakeppni grunnskóla í söng og dansi í Þjóðleikhúsi Úganda. Þar sýndu nemendur grunnskóla landsins listir sínar þar sem hver hópur sýndi dans frá sínu heimasvæði við trumbuslátt og söng. Bugoma Mapera grunnskólinn frá Kalangala héraði sýndi þar kraftmikið og flott atriði en áður höfðu þau komist í gegnum niðurskurð á stórhéraðsvísu og þar á undan á héraðsvísu, en Þróunarsamvinnustofnun hefur einmitt stutt við þennan sama skóla undanfarin ár. Var sagt frá því að án þessa stuðnings hefðu þau ekki getað tekið þátt í keppninni, en litlum fjármunum er oft varið í listgreinar hér. Íslandi var síðan þakkað í bak og fyrir og greinilegt að stuðningurinn er mikils metinn. Það var einstaklega gaman að sjá með eigin augun hversu mikilvægt það var fyrir krakkana að taka þátt og gleðin skein úr hverju andliti. Ég hlakka mikið til komandi mánaða í Úganda og þess að takast á við krefjandi og gefandi verkefni á sviði menntamála. Vonandi fæ ég svo tækifæri til að sjá enn frekar afrakstur þeirrar góðu vinnu sem hér á sér stað.  

facebook
UM HEIMSLJÓS 

Heimsljós - veftímarit um þróunarmál er gefið út af Þróunarsamvinnustofnun Íslands. Ritinu er ætlað að glæða umræðu um þróunarmál og gefa áhugasömum kost á að fylgjast með því sem hæst ber hverju sinni. Efni veftímaritsins þarf ekki endilega að endurspegla stefnu ÞSSÍ.

 

Skráið ykkur í áskrift á heimasíðunni, www.iceida.is og látið vinsamlegast aðra með áhuga á þróunarmálum vita af tilvist veftímaritsins. Allar ábendingar um efni eru vel þegnar.

 

Þeir sem vilja senda okkur ábendingu um efni eða afskrá sig af netfangalista eru vinsamlegast beðnir um að senda slík erindi á netfangið iceida@iceida.is. Ritstjóri er Gunnar Salvarsson, gsal@iceida.is

.

Við biðjumst velvirðingar á því að geta ekki notað íslenskar gæsalappír í viðtölum en bandarískt sniðmót Veftímaritsins leyfir ekki notkun þeirra.

 

Bestu kveðjur, Útgáfu- og kynningardeild ÞSSÍ

 

ISSN 1670-8105