gunnisal
Heimsljós
veftímarit um þróunarmál
8. árg. 265. tbl.
8. apríl 2015
DAC birti í morgun nýjan lista yfir framlög þjóða til þróunarsamvinnu:
Ísland stendur norrænu þjóðunum langt að baki í opinberum framlögum til þróunarmála

Opinber framlög til þróunarsamvinnu voru óbreytt á síðasta ári miðað við árið á undan en árið 2013 var metár, að því er fram kemur í frétt frá DAC, þróunarsamvinnunefnd OECD í morgun, en þá birtist nýr listi yfir framlög þjóða til þróunarsamvinnu. Íslendingar ráðstöfuðu 0,21% af þjóðartekjum til þróunarmála, eru talsvert fyrir neðan meðaltal DAC-ríkjanna eins og myndin sýnir, og standa öðrum norrænum þjóðum langt að baki. 

 

Hinar norrænu þjóðirnar eru meðal sjö rausnarlegustu þjóða heims, Svíar í efsta sæti með rúmlega 1% þjóðartekna í framlög til þróunarmála, Norðmenn og Danir sjónarmun á eftir og Finnar í sjöunda sæti með 0,6%.

 

Í frétt DAC kemur fram að framlög til fátækustu ríkja heims haldi áfram að minnka. Tvíhliða aðstoð við þau ríki hafi dregist saman um 16% milli ára. Tvíhliða aðstoð nemur rúmlega 2/3 hluta allrar opinberrar þróunaraðstoðar.

 

Alls námu framlög til þróunarmála 135,2 milljörðum Bandaríkjadala á síðasta ári. Meðaltal DAC ríkjanna var 0,29%.  Eins og sést á myndinni verja fimm þjóðir meira fjármagni til málaflokksins en viðmið Sameinuðu þjóðanna - 0,7% - gerir ráð fyrir, þ.e. Svíar, Lúxemborgarar, Norðmenn, Danir og Bretar.

 

Nánar 

ONE reacts to drop in aid to poorest countries/ ONE 

 

Einn á jafn mikið og þriðjungurinn:

Tíu ríkustu íbúar Afríku eiga jafn mikið og helmingur íbúa álfunnar

Aliko Dangote ríkasti maður Afríku.

Eignir auðugasta einstaklingsins í Afríku, Aliko Dangote frá Nígeríu, eru álíka miklar og auðævi þriðjungs allra íbúa álfunnar, rúmlega eins milljarðs Afríkubúa. Þetta segir Christoph Lakner hagfræðingur Alþjóðabankans og sérfræðingur í ójöfnuði. Eignir Dangote eru metnar á 18,4 milljarða Bandaríkjadali.

 

Í nýlegri grein minnir hann á að Oxfam samtökin hafi í ársbyrjun bent á að ríkustu 85 einstaklingarnir í heiminum ættu meiri auðævi en rúmlega helmingur þeirra fátækustu á jörðinni miðað við mannfjölda árið 2013. Greinin vakti sem kunnugt er mikla athygli.

 

Christoph Lakner lék því forvitni á því að vita hvernig þessu væri háttað í Afríku. Hann sækir upplýsingar í skýrslu sem er enn ókomin út en ber yfirskriftina "The State of Poverty and Inequality in Africa" og komst að raun um að eignir tíu ríkustu Afríkubúanna eru meiri en eignir helmings þeirra fátækustu í álfunni. 

 

Útreikningarnir byggjast annars vegar á tölum um eignir auðugustu einstaklinganna og hins vegar á eignadreifingu í heiminum - og í einstaka heimshlutum - til þess að finna út samanlagðar eignir helmings þeirra fátækustu.

 

Afrikas 10 rikeste eier liker mye som den fattigste halvparten/ Bistandsaktuelt 

The ten richest Africans own as much as the poorest half of the continent, eftir Christoph Lakner/ Alþjóðabankablogg 

Activists launch campaign to fight power of richest 1%/ Humanosphere 

Mozambique: Guebuza Resigns As President of Frelimo/ AllAfrica 

 

Henning Melber harðorður í garð stjórnvalda í Namibíu:

Aukin gremja í samfélaginu og óróinn líkist tifandi tímasprengju

 

Götumynd frá Windhoek: gunnisal.

Víða í sunnanverðri Afríku eru ríkisstjórnir við völd sem sýna einræðistilburði, ríkisstjórnir sem eiga rætur í frelsissveitum frá uppreisnarárunum gegn nýlendustefnunni á sínum tíma. Henning Melber forstöðumaður Dag Hammerskjöld stofnunarinnar gerir þetta að umtalsefni í grein sem fjallar að mestu um þróunina í Namibíu sem hann segir vera skólabókardæmi. Engu að síður sé orðstír ríkisstjórnarinnar á alþjóðavettvangi þokkalegur.

 

25 ár frá sjálfstæði

Í síðasta mánuði, 21. mars, var liðinn aldarfjórðungur frá sjálfstæði Namibíu. Allar götur síðan hefur SWAPO (South West African People´s Organisation) farið með völdin í landinu og kallast núna SWAPO flokkurinn. Í nóvember 1989 tryggði hreyfingin sér hreinan meirihluta á namibíska þinginu í kosningum sem fram fóru undir eftirliti Sameinuðu þjóðanna. Fimm árum síðar, 1994, jókst fylgið enn þegar hreyfingin hlaut 2/3 hluta atkvæða. Og í síðustu kosningum í nóvember á síðasta ári styrkti SWAPO enn stöðu sína með því að hljóta 80% allra atkvæðanna.

 

Henning Melber segir í ljósi yfirburða flokksins fylgi SWAPO lýðræðislegum reglum, að minnsta á yfirborðinu, og að jafnvel sé litið á flokkinn sem fyrirmynd fyrir African National Congress (ANC) í nágrannaríkinu Suður-Afríku. Hreyfingarnar hafi báðar verið lengi á valdastóli, SWAPO frá 1990 og ANC frá 1994. "Þær eru meðal þeirra andspyrnuhreyfinga nýlenduveldisins sem hafa aldrei afsalað sér völdum eftir að hafa hlotið kosningu í fyrsta sinn. Aðrir flokkar af þessu tagi eru MPLA í Angóla (1974), FRELIMO í Mósambík (1975) og African National Union (ZANU) í Simbabve (1980)," segir Melber.

 

Þrátt fyrir frelsun hefur mörgum fyrrverandi nýlendum að mati Melber ekki tekist að koma á raunverulegum friði. Hann bendir á að ríkisstjórnir Angóla og Mósambík hafi staðið andspænis ógnum innanlands frá hryðjuverkasveitum um áratugaskeið. Múgabe í Simbabve hafi tortímt stjórnarandstöðunni á miðjum níunda áratugnum í fjöldamorðum í Matabelelandi sem stappi nærri þjóðarmorðum. Og hann segir að allar þessar þjóðir - Angóla, Mósambík og Simbabve - gjaldi dýru verði óstjórn spilltra ríkisstjórna.

 

Svört elíta við hlið þeirrar hvítu sem fyrir var

Hann snýr sér síðan að Namibíu og segir að pólítísk valdataka hafi gerst án vopnaðra átaka. Félagsleg og efnahagsleg staða íbúanna hafi að mestu leyti haldist óbreytt. Í raun og veru hafi ekki annað gerst en að hvíta forréttinda elítan hafi fengið félagsskap nýrrar svartrar elítu af fyrstu kynslóðar fulltrúum frelsishreyfingarinnar og vinum þeirra.

 

Melber lýsir stjórnvöldum með þeim orðum að þar stjórni öldungar sem skari fyrst og fremt eld að sinni köku. Ríkisstjórnin hafi selt þjóðarauðinn af námugreftri og sjávarútvegi án þess að hafa aukið lífskjör þorra fólks svo nokkru nemi. Meðaltekjur sé komnar í rúmlega sex þúsund Bandaríkjadali sem þýði að landið er komið í hóp meðaltekjuríkja. Augljós tekjumunur íbúanna sýni hins vegar að stjórnvöldum hefur mistekist herfilega sé horft til félagslegrar og efnahagslegrar þróunar. Leiðtogar SWAPO taki enga ábyrgð á ójöfnuðinum og haldi áfram að kenna langvarandi aðskilnaðarstefnu í fortíðinni um ástæður útbreiddrar fátæktar.

Melber segir að rándýrahegðun stjórnvalda kyndi í vaxandi mæli undir gremju almennings. Óróinn í samfélaginu sé að verða eins og tifandi tímasprengja. Í ljósi þess að engir raunverulegir kostir séu á pólítíska sviðinu hafi flokkurinn auðveldlega hrist af sér alla hugsanlega andstæðinga, sem hafi aukinheldur haft gervimennsku að yfirbragði og eiginhagsmuni í öndvegi.

 

Í lokin segir Henning Melber að sjálfbæra þróun sé ekki að finna í Nambíu, þær takmarkanir sem fólust í frelsuninni komi sífellt betur í ljós. Og hann klykkir út með því að segja: "Sú staðreynd að fráfarandi forseti, Hifikepunye Pohamba fékk Mo Ibrahim verðlaunin fyrir góða stjórnarhætti í mars var ekki viðurkenning á raunverulegum árangri; það sýndi einfaldlega hversu sjaldgæfir góðir stjórnarhættir eru í Afríku."

 

Nánar 

Ræður þungunin ein för þegar unglingsstúlka hættir í skóla?

Rannsaka þarf staðbundnar samfélagsleg-ar aðstæður áður en gripið er til aðgerða

 

Ljósmynd frá Úganda: gunnisal

Þegar barnshafandi unglingsstúlka hættir skólagöngu - er það vegna þess að hún er þunguð eða eru líka aðrar ástæður? Þessu veltir Stephanie Psaki hjá Population Council fyrir sér í grein á vef Devex fréttaveitunnar. Hún segir að almennt í heiminum sé litið þannig á að þungun skólastúlkunnar sé helsta hindrun á skólagöngu en þegar betur sé að gáð komi í ljós að sú skýring kunni að vera of einföld.

 

"Jú, yfirleitt lýkur formlegri skólagöngu unglingsstúlku jafnskjótt og hún verður móðir. Lög og menning letja oft stúlkur til að hefja nám á nýjanleik eftir fæðingu. Ógiftar stúlkur geta fundið fyrir þrýstingi um að giftast barnsföður sínum. Má einu gilda hvort stúlkurnar eru giftar eða ógiftar, það að eignast barn getur sett unglingsstúlku í mikinn fjárhagslegan vanda. Eina leiðin út úr þeim vanda er að finna starf til að sjá fyrir litlu fjölskyldu sinni. Að fara aftur í skólann gæti virst ómögulegt," segir Stephanie.

 

Hún veltir því síðan fyrir sér hvernig grípa eigi inn í slíkar aðstæður, hvað unnt sé að gera til að styðja við bakið á unglingsstúlkum - hjálpa bæði þeim sem vilja forðast að verða barnshafandi og vilja halda áfram í skóla, og þeim stúlkum sem verða mæður til að halda áfram skólagöngu.

 

Stephanie segir mikilvægt áður en gripið sé til aðgerða að skilja hugsanlegar mismunandi ástæður fyrir brottfalli. Er þungunin eina skýringin?, spyr hún og veltir fyrir sér hvort það gætu verið aðrir þættir í lífi stúlku sem bæði leiða til þess að líkurnar á því að hún verði barnshafandi aukist og stuðli jafnframt að ótímabæru brottfalli úr skóla.

 

Tvær sviðsmyndir

Stepanie dregur síðan upp tvær sviðsmyndir um tengslin á milli þungunar og brottfalls úr skóla frá annars vegar tveimur löndum í Afríku, Malaví og Kenía, og hins vegar frá Bangladess. Í Afríkuríkjunum tveimur verða 25% stúlkna barnshafandi áður en skólagöngu lýkur, kynlíf fyrir hjónaband er algengt og unglingsstúlkur nota sjaldnast getnaðarvarnir; þungun unglingsstúlkna er yfirleitt ekki fyrirfram ákveðin. Rannsóknir Population Council sýna að hefðu þessar stúlkur ekki orðið mæður á unglingsárunum hefðu þær haldið áfram skólagöngu rétt eins og jafnöldrur þeirra sem ekki urðu ófrískar. Tengslin á milli þungunar og brottfalls úr skóla eru augljós.

 

Í Bangladess er þessu á annan veg farið, unglingsstúlkur stunda kynlíf en það er yfirleitt í tengslum við alvarlegt ástarsamband eða hjónband. Stúlkur sem standa sig illa í námi og koma frá fátækum heimilum verða barnshafandi viljandi eða gera að minnsta kosti lítið til að forðast getnað. Fjölskyldur þeirra leggja ekki ríka áherslu á framhaldsnám. Með öðrum orðum: stúlka í Bangladess hefði að líkindum hætt námi óháð því hvort hún hefði orðið þunguð eða ekki.

 

Niðurstaðan er sem sagt þessi að mati Stephanie: í Afríkuríkjunum "veldur" þungunin brottfalli úr skóla, vegna þess að kynferðislega virkar unglingsstúlkur sem verða þungaðar eru ekkert frábrugðnar jafnöldrum sínum sem ekki verða ófrískar. Í Bangladess leiðir hins vegar þungunin ekki til brottfalls úr skóla, unglingsstúlka sem verður þunguð stendur lakar að vígi en jafnöldrur hennar á margan annan hátt.

 

Ólíkar lausnir eftir staðbundnum aðstæðum

Stephanie segir að lausnin á vandanum sem tengist þungun skólastúlkna - eða brottfalli þeirra úr skóla - sé ekki þannig að sama lausnin henti alls staðar. Ástæðurnar og þar af leiðandi "lækningin" muni verða ólík eftir mismunandi aðstæðum. Fjárfesta þurfi í rannsóknum til að skilja betur brottfallið í ólíkum aðstæðum og það muni leiða til skilvirkari inngripa. Hún nefnir að í Afríkuríkjunum myndu slík inngrip þýða að unglingsstúlkur hefðu greiðari aðgang að getnaðarvörnum og fóstureyðingum ásamt fræðslu til stúlkna um rétt sinn, kynhegðun, frestun kynlífs og getnaðarvarnir. Aðgerðir til þess að leyfa barnshafandi stúlkum að halda áfram námi fyrir og eftir meðgöngu ættu líka að bæta menntun stúlkna í þessum aðstæðum. Í  Bangladess þyrfti hins vegar að grípa til aðgerða eins og fjárhagsstuðnings við fátækar fjölskyldur til þess að dæturnar héldu áfram námi, óformleg menntunartækifæri eins og námskeið fyrir stúlknahópa sem eru í hættu á því að hverfa frá námi, og auka vitund foreldra á mikilvægi framhaldsnáms og mikilvægi þess að fresta brúðkaupum.

 

Does getting pregnant cause girls to drop out of school?/ Devex 

In education, girls deserve what works/ Devex 

Melinda Gates' advice to girls: 'Use your voice and you can affect change'/ CNN 

Girls can drive development, eftir Babatunde Osotimehin/ DfIDblogg 

Advancing the rights of adolescent girls creates 'virtuous cycle', say global leaders/ UNFPA 

Transforming the lives of girls and young women - Year two country briefings/ ODI 

The Girl Effect Accelerator: The entrepreneurs empowering young women, eftir Julia Hudson/ Virgin 

After Malawi's new marriage law: what next to end child marriage?, eftir Ephraim Chimwaza/ GirlsNotBrides 

Stunning Photos Of Teen Moms' Struggles In Cameroon -- And How We Can Help/ HuffingtonPost 

Child Marriage and Teen Pregnancy: Two Sides of the Same Coin/ NewJunkiePost 

Zuma: Send teenage moms to Robben Island/ Mail&Guardian 

Dear Zuma.../ TrueMidwifery 

Memory Banda escaped child marriage in Malawi, but her 11-year-old sister wasn't so lucky/ SchollWorldForum 

 

Þrettán nemendur frá sjö þjóðríkjum:

Nýr hópur sérfræðinga í Landgræðslu-skóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna

 

Nýr hópur fólks hóf nám við Landgræðsluskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna í Reykjavík í síðasta mánuði. Hópurinn telur 13 manns, sjö konur og sex karla sem koma frá sjö löndum; frá Mið-Asíu eru þrír frá Mongólíu og tveir frá Kirgistan og frá Afríku eru tveir frá Eþíópíu, einn frá Gana, tveir frá Malaví, einn frá Namibíu og tveir frá Úganda.

 

Framundan er nám um sjálfbæra landnýtingu, orsök landhnignunar, samband landhnignunar og loftslagsbreytinga, landvernd, vistheimt, umhverfisstjórnun og fleira ásamt því sem farið verður í styttri ferðir í næsta nágrenni Reykjavíkur þar sem lært er að lesa í landið og safna gögnum á vettvangi. Lengri ferðir verða farnar í sumar þar sem árangur og áskoranir Íslendinga  í landgræðslu og landnýtingu verða skoðaðar og að lokum vinna nemarnir rannsóknarverkefni sem þau skila áður en að útskrift fer fram 17. september.

Frekari upplýsingar má finna á heimasíðu Landgræðsluskólans og á Facebooksíðu skólans.

Ísland óskar eftir stofnaðild að nýjum umdeildum fjárfestingarbanka fyrir Asíu

 

 

Ríkisstjórnin ákvað á fundi fyrir páska að Ísland óski eftir að gerast stofnaðili að nýjum fjárfestingabanka fyrir Asíu (Asian Infrastructure Investment Bank, AIIB) sem er í burðarliðnum. Samkvæmt frétt utanríkisráðuneytis hafa fjölmörg ríki, þar með talin flest Evrópuríki, ákveðið að vinna að undirbúningi stofnunar bankans ásamt ríkjum Asíu en fyrir liggur að höfuðstöðvar bankans verða í Beijing. Ekki liggur fyrir hvert stofnframlag einstakra ríkja verður en gert er ráð fyrir að heildarstofnfé bankans nemi allt að 100 milljörðum Bandaríkjadala. 

 

Í fréttinni segir:

"Það er mat ríkisstjórnarinnar að aðild að AIIB muni styrkja enn frekar góð samskipti Íslands og Asíuríkja og styðja við nýja vaxtarbrodda á viðskiptasviðinu. Áhugi ríkja heims á því að lána fé til uppbyggingar innviða í Asíu tengist ekki síst sívaxandi alþjóðavæðingu efnahagskerfa veraldar. 

 

Asía er sá hluti efnahagskerfis heimsins sem vex hvað hraðast. Fyrir liggur að í álfunni hefur og mun eiga sér stað gríðarleg uppbygging samgöngukerfa, orkukerfa, fjarskiptakerfa o. fl.  Starfsemi AIIB mun styðja við starfsemi fjölþjóðlegra fjármálastofnana sem þegar sinna þróun og fjármögnun innviðauppbyggingar, svo sem Alþjóðabankans og Þróunarbanka Asíu. 

 

Nú taka við samningaviðræður milli stofnaðila um endanlega stofnsetningu bankans en markmiðið er að þeim ljúki fyrir árslok."
 
ABC sjálfboðaliðar í Kenía


Á myndinni er flottur hópur ABC sjálfboðaliða með masaiakonum við ABC skólann í Loitokitok. Þau hafa dvalið í Kenía í þrjár vikur og unnið gríðarmikið starf fyrir ABC og fundið fjölmarga nýja stuðningsaðila fyrir börn í neyð. Á myndinni eru Bergljót Elíasdóttir,Óskar Steinar JónssonÞorgerður ElíasdóttirEva Dís GunnarsdóttirKatrín Stefanía PálsdóttirTanja RánKristín StefánsdóttirKristrún Karen LarsenStefanía Karen Eriksdóttir and Kristín Guðný Ottósdóttir.


Raunhæft að framlengja ákveðna verkþætti í Kalangalaverkefninu

 

"Verkefninu á að ljúka formlega á þessu ári en margt bendir til að raunhæft sé að framlengja ákveðna verkþætti og undirbyggja enn betur til framtíðar. Augu beinast þar ekki síst að bættri tekjuöflun héraðsstjórnar, hreinlætismálum í fiskimannaþorpum og skólamálum - en á öllum þessum sviðum sést markverður árangur," segir Stefán Jón Hafstein sviðsstjóri eftirlits og árangurs um Kalangalaverkefnið í Úganda. 

 

Stefán fjallar um nýgerða innri rýni á héraðsþróunarverkefni ÞSSÍ á Kalangalaeyjaklasanum á öðrum stað í Heimsljósi og segir að rýnin sýni að margs konar ávinningur hafi náðst á tíu árum.  "Meginþættirnir sem til skoðunar voru eru þeir sömu og eru áhersluatriði verkefnisins:  Geta héraðsstjórnar til að veita almenna þjónustu, umbætur í skólamálum og aðgerðir í vatns- og hreinlætismálum í tengslum við fisklöndunarstöðvar. Meginstoð atvinnulífs á um 90 eyjum sem saman mynda héraðið er einmitt fiskveiðar, en þarna búa um 70 þúsund manns," segir Stefán Jón.

 


Alþjóðlegur björgunarskóli í London

  

Enn eru uppi hugmyndir um að stofna hér á landi alþjóðlegan björgunarskóla, þingsályktunartillaga kom meðal annars fram um málið fyrir fáeinum árum skömmu eftir jarðskjálftana á Haítí og fram kom í fréttum um páskahelgina að skipaður hafi verið af hálfu innanríkisráðherra stýrihópur um alþjóðlega björgunar- og viðbragðsmiðstöð. 

 

Samkvæmt nýlegum fréttum er hins vegar búið að opna sambærilegan skóla í Bretlandi og hann verður með tíu útibú víða um heim þegar fram líða stundir. Hann heitir Humanitarian Leadership Academy og tók til starfa 23. mars síðastliðinn. Skólinn er fjármagnaður af ýmsum hjálparsamtökum en hæstu framlögin koma frá Þróunarsamvinnustofnun Breta, DfID.  Save the Children samtökin hýsa skólann í London. Stefnt er að því að skólinn þjálfi um hundrað þúsund hjálparstarfsmenn frá rúmlega 50 löndum um viðbrögð við skyndilegum hamförum.

 

Nánar 

Stýrihópur um alþjóðlega björgunar- og viðbragðsmiðstöð/ Mbl.is 

 

Áhugavert

A Massacre in Africa, eftir Gordon Brown/ Project-Syndicate 

-

Education as a Cornerstone for Women's Empowerment, eftir Dr. Kirsten Stoebenau/ IPSNews 

-

Where have we got to on 'results-based aid', 'cash on delivery' etc?, eftir Duncan Green/ Oxfamblogg 

-

Exploitation or emancipation? Women workers in the garment industry/ Europa 

-

Have the millennium development goals empowered women?, eftir Liz Ford/ TheGuardian 

-

A Major Push Forward for Gender and Environment, eftir Joni Seager ofl./ IPS 

-

Over population, over consumption - in pictures/ TheGuardian 

-

Cellphones for Women in Developing Nations Aid Ascent From Poverty, eftir Melissu Gates/ NYT 

-

THREE OPPORTUNITIES TO MAKE A DIFFERENCE ON INCLUSIVE DEVELOPMENT, eftir Claire Melamed/ INCLUDE 

-

Bill Gates: The next outbreak? We're not ready/ TED 

-

Hans Rosling: How to beat Ebola/ BBC 

-

Think corruption can't be stopped? Meet 4 leaders who say it can, eftir Rebecca Fudala/ Oxfamblogg 

-

If you were in control of the UK aid budget, what would you spend it on?/ ONE 

Quality Education for the World We Want
Quality Education for the World We Want

-

A world we want in 2030: Clean energy and gender equality are key, eftir Caren Grown/ Alþjóðabankablogg 

-

What we know - and don't know - about the impact of private schooling in developing countries, eftir Laura Day Ashley/ UKFiet 

#EducationCan: Sustainable development begins with education
#EducationCan: Sustainable development begins with education

-

Are Developing Countries Heading for Another Debt Crisis? And if so, What is Anyone Doing about it?, eftir Duncan Green/ GlobalPolicy 

What progress has international aid made?
What progress has international aid made?

 

-

Are opportunities expanding for children in Africa?, eftir Andrew Dabalen/ Alþjóðabankablogg 

-

The issue: Global childhood malnutrition/ Powerof5 

-

Girls' education: 'Policymakers are hardwired to look for low-hanging fruit', eftir Xanthe Ackerman/ The Guardian 

-

Why gender equality by numbers will never measure up, eftir Andrea Cornwall/ TheGuardian 

Standard 12: Child Labour -- English
Standard 12: Child Labour -- English

 

-

PEGNet Tenth Anniversary Conference Call for Papers/ PEGNet 

-

This is how we ensure the safety of a vaccine, eftir John Donnelly/ Path 

-

Tug of War: We're on the verge of the greatest public health triumph of the 21st century/ Slate 

-

Unwitting exploitation, eftir Hans Dembowsky/ D+C 

-

Widespread adoption of open skies policies still key to Africa's economic growth, eftir James Geldenhuys/ HowWeMadeItInAfrica 

-

Sustainable Development Goals Follow-up and Review: Suggestions on the way forward 

 

Fræðigreinar og skýrslur
Fréttir og fréttaskýringar

International Development Agency funds the promotion of rural small town water and sanitation/ UNICEF
-
Pollution a Key but Underrated Factor in New Development Goals/ IPS
-
Al-Shabaab Says Kenyan Cities Will Run 'Red With Blood'/ TIME
Foreign aid: Charity should not start at home | European CEO
Foreign aid: Charity should not start at home | European CEO
Saving teen girls from early marriage - and mutilation/ PRI
-
African Ad Agencies Emerging as Force in World Market/ VOA
-

Fjallað um stuðning Auroru við Sierra Leone í fjölmiðlum ytra/ Aurorafund 

-

Malawi orders police to shoot criminals who attack albinos/ AfricaReview 

-

THE MEASLES OUTBREAK FOLLOWING THE EBOLA EPIDEMIC/ GlobalCitizen 

-

 

Child brides take Zimbabwe govt to court over marriage laws/ Reuters
-
DPP planning to arrest Joyce Banda, claims Msonda/ Malawi24
-
Nigeria: At Least 1,000 Civilians Dead Since January/ ReliefWeb
-
Ghanaian millionaire quits Microsoft to build university that Educates young Africans/ RisingAfrica
-
-
-
-
-
-
-
-
The EESC and the European Year for Development 2015
The EESC and the European Year for Development 2015
The only option for Ethiopia/ Norræna Afríkustofnunin
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-

Íslenskir sendifulltrúar til Jemen

 

Tveir sendifulltrúar Rauða krossins á Íslandi, Elín Jakobína Oddsdóttir skurðhjúkrunarfræðingur og Jón Magnús Kristjánsson bráðalæknir, eru á leið til Jemen til að sinna stríðssærðum.  Þau verða í skurðlæknateymum Alþjóða Rauða krossins (ICRC) en í hverju slíku teymi eru skurðlæknir, svæfingalæknir og hjúkrunarfræðingur.

 

Í frétt Eyjunnar segir:

 

Rauði krossinn á Íslandi brást við neyðarkalli Alþjóða Rauða krossins sem kom í kjölfar loftárása á Jemen sem hófust 25. mars síðastliðinn. Síðan þá hafa yfir 300 fallið, þar af yfir 200 óbreyttir borgarar. Þúsundir hafa særst og eru margar borgir án vatns og rafmagns.

 

Nánar 

 

Moldin er málið

Í tilefni árs jarðvegs 2015 verður boðið upp á mánaðarlega "örhádegisfyrirlestra" um moldina/jarðveginn. Lögð verður áhersla á að draga fram víðtækt mikilvægi jarðvegsins í sveit og borg; meðal annars innan vistkerfa, til vatnsmiðlunar, loftgæða, bygginga og listsköpunar. Fyrirlestraröðin hefst í dag, 8. apríl í Kaffi Loka, Lokastíg 28 í Reykjavík, og verður fjallað um moldina og mikilvægi hennar innan vistkerfa undir fyrirsögninni Moldin er málið! Dagskráin hefst kl. 12 og lýkur kl. 13.   


Dagskráin er svohljóðandi:
Hlutverk jarðvegs innan vistkerfa
Ólafur Arnalds prófessor, Landbúnaðarháskóla Íslands
Jarðvegsmyndun, eyðing og endurheimt
Jóhann Þórsson sérfræðingur, Landgræðslu ríkisins
Jarðvegsvernd gegn loftslagsbreytingum
Kristín Vala Ragnarsdóttir prófessor, Háskóla Íslands


Að loknum fyrirlestrum geta gestir komið með spurningar eða stuttar hugleiðingar um viðfangsefni dagsins. Á matseðli Loka er fiskréttur eða kjötsúpa á viðráðanlegu verði. 

 

Samstarfshópur um Ár jarðvegs 2015

 

Margs konar ávinningur á tíu árum í Kalangala

 

- eftir Stefán Jón Hafstein sviðsstjóra hjá Þróunarsamvinnustofnun Íslands

 

Kisaba fiskimannaþorpið á Bukasa eyjunni, annarri stærstu eyjunni í Sseseeyjaklasanum á Viktoríuvatni, ljósm. gunnisal.

Innri rýni á héraðsþróunarverkefni ÞSSÍ á Kalangalaeyjaklasanum á Viktoríuvatni í Úganda bendir til að margs konar ávinningur hafi náðst á 10 árum.  Ákveðið var að fá óháðan ráðgjafa til að rýna verkefnið nú þegar líður að lokum þess, í samvinnu við ÞSSÍ.  Tilgangurinn er að fá nákvæmt stöðumat og verður rýniskýrslan höfð til hliðsjónar þegar ákveðið verður hvernig dregið verður smám saman úr stuðningi við héraðið en haft að leiðarljósi að festa í sessi þann ávinning sem náðst hefur.

Meginþættirnir sem til skoðunar voru eru þeir sömu og eru áhersluatriði verkefnisins:  Geta héraðsstjórnar til að veita almenna þjónustu, umbætur í skólamálum og aðgerðir í vatns- og hreinlætismálum í tengslum við fisklöndunarstöðvar. Meginstoð atvinnulífs á um 90 eyjum sem saman mynda héraðið er einmitt fiskveiðar, en þarna búa um 70 þúsund manns.

 

Rýnin leiðir í ljós að héraðsstjórnin sjálf og undirskrifstofur hennar hafa styrkt sig í sessi og er nú stjórnsýsluleg geta metin mun betri en áður af ráðuneyti sveitarstjórnarmála. Eigi að síður er augljós veikleiki í stöðunni sá sami og hrjáir margar héraðsstjórnir í Úganda, sem er sá að miðstjórnarvaldið hefur tekið til sín mun stærri hluta af skatttekjum en áður og því standa héraðsstjórnir eftir með lakari fjárveitingu. Í Kalangala hefur verið unnið markvisst að því að finna staðbundnar tekjuleiðir til bæta upp missinn, en þar er nokkuð í land. Lagt er til að í framhaldi veiti ÞSSÍ áfram aðstoð hvað þetta varðar til að byggja upp tekjur í héraði fyrir almenna þjónustu.

 

Í skólamálum hefur náðst markverður árangur, meðal annars fyrir stuðning ÞSSÍ sem hefur verið umtalsverður. Héraðið er nú með mun betri árangur en áður á stöðluðum landsprófum og komið yfir meðallag. Fleiri nemendur útskrifast og færri falla, auk þess sem fleiri börn koma í skóla sem virðast vel reknir af metnaðarfullu starfsfólki. Þetta er mikil breyting til batnaðar. Fleiri ávinningar eru taldir. En einnig er bent á að við lok þess sem svarar til sjöunda bekkjar á Íslandi fækki möguleikum nemenda til námsleiða og úr því þurfi að bæta.

 

Í fiskveiðimálum beindist stuðningur ÞSSÍ að því að bæta löndunaraðstöðu og hreinlæti við meðhöndlun afla til að auka gæði. Þetta tókst vel. Frákast af ónýtum afla hefur minnkað úr 25% í kringum 1%, vatns- og hreinlætisaðstaða hefur einnig leitt til bættrar heilsu íbúa. Hins vegar hefur löndunaraðstaða ekki nýst sem skyldi í öllum tilvikum, endurskoða þarf staðarval fyrir flotbryggjur og fleira slíkt.  Hins vegar talar árangurinn í heild sínu máli og lagt er til að meðal annars verði haldið áfram að bæta salernis- og handþvottaaðstöðu sem íbúar meti mikils.

 

Skýrslan verður nú vinnugagn í samræðum ÞSSÍ og héraðsstjórnar um hugsanlegt framhald. Verkefninu á að ljúka formlega á þessu ári en margt bendir til að raunhæft sé að framlengja ákveðna verkþætti og undirbyggja enn betur til framtíðar. Augu beinast þar ekki síst að bættri tekjuöflun héraðsstjórnar, hreinlætismálum í fiskimannaþorpum og skólamálum - en á öllum þessum sviðum sést markverður árangur.

 

Skýrsluna gerðu Dr. Pascal Odoch sem er sérfræðingur í Úganda, og Stefán Jón Hafstein, sviðsstjóri eftirlits og árangurs hjá ÞSSÍ.

 

Kynning á nemendum háskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi
Mig langar að búa til aðstöðu fyrir ungar konur til að vinna að starfsnámi við lok háskólanáms
Lusungu Kayira

Nafn: Lusungu Kayira

Land: Malaví

Aldur: 21 árs

Fjölskylda: Móðir, faðir og 8 systur.

 

Hvers vegna kaustu að stunda nám við Háskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi?

Þar sem ég er með BS gráðu í félagsráðgjöf þá eru jafnréttisfræði tengd fyrra námi mínu. Helstu vandamálin í mínu heimalandi eru barnabrúðir, sifjaspell, og nauðganir. Auk þess er erfitt að horfa upp á þann raunveruleika að mæður þora ekki að kæra það til lögreglunnar að eiginmaður þeirra beiti þær ofbeldi, þrátt fyrir að það gerist fyrir framan börnin, því hver á þá að sjá um heimilið fjárhagslega? Mig langar að nýta þá þekkingu sem ég öðlast hér á Íslandi til að hafa áhrif til hins betra í mínu heimalandi. Einnig fékk ég fullan námsstyrk og það að hafa diplómaskírteini í alþjóðlegum jafnréttisfræðum frá Háskóla Sameinuðu þjóðanna lítur vel út á ferilskránni.

 

Hvað er það sem þú getur tekið með þér eftir nám við Háskóla Sameinuðu þjóðanna?

Það er mjög margt. Einna helst mun ég nýta þá þekkingu sem ég hef hlotið hér á Íslandi til að bæta mig í starfi. Þetta er mjög krefjandi nám að taka á aðeins 6 mánuðum, ég hefði verið til í að vera hérna lengur og læra meira.

 

Hvaða námskeið hefurðu tekið og hvað hefurðu lært af þeim?

Ég er með BS gráðu í félagsráðgjöf. Á seinasta árinu mínu í skólanum var ég í starfsnámi hjá stofnun sem berst fyrir réttindum barna, sem kallast Eye of the Child. Í dag vinn ég þar í fullu starfi.

Það sem ég hef lært í starfi mínu er að mig langar að styrkja stöðu annarra kvenna og hjálpa þeim að standa á eigin fótum og trúa á sjálfan sig. Auk þess langar mig til að hjálpa börnum þeirra sem hafa þurft að horfa upp á ofbeldi heima hjá sér og jafnvel orðið fyrir barsmíðum sjálf. Fæst þeirra vita nokkuð um sín réttindi eða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

 

Hvaða námsgreinar hafa þér þótt áhugaverðastar og af hverju?

Það eru margar námsgreinar sem eru mjög áhugaverðar, en sú helsta er Kyn og kynhneigð. Áður fyrr hélt ég að einstaklingar væru annað hvort gagnkynhneigðir eða samkynhneigðir, en nú hef ég lært að það eru til svo margar aðrar kynhneigðir. Það er til dæmis pankynhneigð eða persónuhrifning (þegar fólk laðast að öðrum óháð kyni) og svo tvíkynhneigð. Fólk er ekki bara annað hvort kvenlegt eða karlmannslegt, heldur eru til svo ótalmörg afbrigði af þessari birtingarmynd kynjanna. Einnig hefur áfanginn Kynjuð hagstjórn kennt mér að þegar fjármagni er dreift í verkefni, til dæmis fyrir samgöngur, þá þarf að taka tillit til þess hversu langar ferðirnar eru. Mjög oft eru konur að ferðast lengur en karlar og þá þarf að úthluta meira fjármagni til þeirra. Kyn og þróun er einnig áhugaverð námsgrein, og einnig Kyn og hervæðing, en ég kem einmitt frá mjög friðsælu landi svipað og Ísland. Í þeim áfanganum erum við að læra hvernig her og stríð fara með fjölskyldur, konur og börn og með landið sjálft.

 

Um hvað snýst lokaverkefnið þitt í jafnréttisskólanum?

Lokaverkefnið mitt mun fjalla um starfsþróun fyrir ungar konur. Það fjallar í raun og veru um að veita ungum konum sem eru að ljúka háskólanámi, innsýn á starfsvettvang áður en þær útskrifast. Þetta væri gert til að þær hafi einhverja starfsreynslu þegar þær útskrifast. Á vinnumarkaðnum er svo oft beðið um reynslu samhliða námi, þá sérstaklega í þeim geira sem ég vil vinna við sem er félagsráðgjöf. Það er ekki nóg að lesa og læra því þegar þú ert komin á vettvang þarftu líka að vera með einhverja reynslu. Einnig myndu ungar stelpur þá samhliða læra hvernig á að fara með fjármál og laun auk þess að fá ákveðna þjálfun í faglegum vinnubrögðum.

 

Hefurðu áætlun varðandi starfsferil þinn þegar þú snýrð til baka heim eftir námið hér?

Ég hyggst halda áfram að vinna hjá Eye of the child, sem stuðlar að réttindum barna. Mig langar að innleiða lokaverkefnið mitt í starfið mitt þegar ég kem heim, þá að búa til aðstöðu fyrir ungar konur til að vinna að starfsnámi á seinustu háskólaárum sínum. Mig langar líka að innleiða þá stefnu að efla meðvitund foreldra um réttindi sín ekkert síður en réttindi barna. Til dæmis myndi ég vilja hjálpa mæðrum að læra að safna fé og fara á vinnumarkaðinn, en það er mjög erfitt að horfa upp á hversu margar konur verða fyrir heimilisofbeldi því þær eru illa læsar og illa skrifandi. Mig langar að sýna þeim hvað þær geta og efla þær og stöðu mæðra innan samfélagsins.

 

Hvernig hefurðu í huga að nýta námið þitt hér við Jafnréttisskólann í heimalandi þínu?

Í framtíðinni myndi mig langa að kenna jafnrétti og þá aðalega kvennajafnrétti í heimalandi mínu. Einnig langar mig í framtíðinni að stofna mína eigin stofnun því þá hef ég meiri sveigjanleika til að vinna við það sem mér finnst mikilvægt. Samkynheigð er ólögleg í Malaví og fólk fer í fangelsi ef það kemur úr skápnum opinberlega. Ef ég myndi tala við yfirmann minn um samkynheigð myndi hann verða sármóðgaður, en ef ég væri með mína eigin stofnun þá gæti ég mögulega unnið í því að breyta lögunum.

 

Ef að við myndum spyrja vini þína og fjölskyldu hvað væru þínar góðu hliðar og slæmu hvað heldurðu að þau myndu segja?

Góðu hliðarnar eru líklega að ég er klár og ástríðufull fyrir því sem ég tek mér fyrir hendur,  en þau slæmu er að ég er alltaf sein, og þau kvarta alltaf yfir því. En ég er að vinna í því að vera stundvísari, ég lofa.

 

Viltu deila með okkur því hvernig þú upplifir íslensku þjóðina?

Það sem ég bjóst alls ekki við er að íslendingar trúðu á huldufólk, eins og álfa. Einnig eru Íslendingar mjög vingjarnlegir, ekki það að það hafi komið mér á óvart. Íslendingar eru mjög uppteknir og ótrúlega duglegir, þegar eg labba í Hámu þá sé eg svo marga sem eru alltaf á fullu að læra og skrifa í tölvunum sínum, á sama tíma og það er að borða hádegismat, það er ótrúlegt hvað það nýtir tímann sinn vel.

 

Er það eitthvað annað sem að þú vilt deila með okkur?

Ég vildi bara þakka fyrir að hafa fengið að koma til Íslands og fyrir námstyrkinn.

Einnig vil ég koma því á framfæri að því meira sem að ég læri kynjafræði þá er ég þakklátari fyrir pabba minn, að þola það að búa með okkur allar systurnar og mömmu hlýtur að taka á, en hann er sterkur einstaklingur.

 

Viðtal: Ásrún Birgisdóttir starfsnemi hjá Félagi Sameinuðu þjóðanna

 

facebook
UM HEIMSLJÓS 

Heimsljós - veftímarit um þróunarmál er gefið út af Þróunarsamvinnustofnun Íslands. Ritinu er ætlað að glæða umræðu um þróunarmál og gefa áhugasömum kost á að fylgjast með því sem hæst ber hverju sinni. Efni veftímaritsins þarf ekki endilega að endurspegla stefnu ÞSSÍ.

 

Skráið ykkur í áskrift á heimasíðunni, www.iceida.is og látið vinsamlegast aðra með áhuga á þróunarmálum vita af tilvist veftímaritsins. Allar ábendingar um efni eru vel þegnar.

 

Þeir sem vilja senda okkur ábendingu um efni eða afskrá sig af netfangalista eru vinsamlegast beðnir um að senda slík erindi á netfangið iceida@iceida.is. Ritstjóri er Gunnar Salvarsson, gsal@iceida.is

.

Við biðjumst velvirðingar á því að geta ekki notað íslenskar gæsalappír í viðtölum en bandarískt sniðmót Veftímaritsins leyfir ekki notkun þeirra.

 

Bestu kveðjur, Útgáfu- og kynningardeild ÞSSÍ

 

ISSN 1670-8105