gunnisal
Heimsljós
veftímarit um þróunarmál
8. árg. 261. tbl.
4. mars 2015

 "Afnám" Þróunarsamvinnustofnunar á dagskrá Alþingis:

Stofnunin verður lögð niður um næstu áramót nái frumvarpið fram að ganga

 

Einkennistákn Þróunarsamvinnustofnunar
Gunnar Bragi Sveinssson utanríkisráðherra mælir líkast til fyrir breytingum á lögum um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands á þingfundi síðdegis í dag en breytingarnar felast einkum í "afnámi" Þróunarsamvinnustofnunar eins og það var orðað svo smekklega á vef Alþingis. Frumvarpið var kynnt á ríkisstjórnarfundi í síðustu viku, því var síðan dreift til þingmanna og fyrsta umræða er á dagskrá þingsins síðdegis dag.

 

Níu þingmenn stjórnarandstöðunnar lögðu í gær fram beiðni um skýrslu frá utanríkisráðherra um skipulag þróunarsamvinnu vegna fyrirhugaðrar sameiningar Þróunarsamvinnustofnunar Íslands og utanríkisráðuneytis. Þingmennirnir óska eftir því að sérstaklega verði fjallað um rök fyrir fyrirhugaðri sameiningu og óska svara við 21 spurningu (sjá á öðrum stað í Heimsljósi). Skýrslubeiðnin er á dagskrá þingfundar í dag.

 

Samkvæmt frumvarpi utanríkisráðherra verður Þróunarsamvinnustofnun lögð niður, verkefni hennar flutt yfir í ráðuneytið en "þrátt fyrir ákvæði laga þessara skal Þróunarsamvinnustofnun Íslands starfa áfram til 1. janúar 2016, en lögð niður frá og með þeim degi," eins og segir orðrétt í frumvarpinu.

 

Í greinargerð með frumvarpinu eru tíunduð helstu rök breytinganna og þar segir meðal annars:

 

"Með því að færa framkvæmdina á eina hendi er verið að einfalda skipulagið. Betri heildarsýn mun nást yfir málaflokkinn og stefnumótun verða markvissari þegar um einn ábyrgðaraðila er að ræða. Samhæfing mun eflast, framkvæmd verða skilvirkari og samlegðaráhrif af starfi Íslands á sviði þróunarsamvinnu aukast. Þannig má gera ráð fyrir að breytingin stuðli að auknum áhrifum af starfi Íslands og auknum árangri þegar til lengri tíma er litið. Íslensk stjórnsýsla er lítil og fámenn þar sem hver starfsmaður þarf að sinna margvíslegum verkefnum. Með því að öll þróunarsamvinna sé á einni hendi er unnt að setja aukinn kraft í verkefnin, efla sveigjanleika og samhæfingargetu og koma í veg fyrir skörun á stefnumótun og framkvæmd. Þá er einnig dregið úr óhagræði og tvíverknaði í rekstri og stjórnun sem, þegar til lengri tíma er litið, leiðir til aukinnar hagkvæmni. Einfaldara og markvissara skipulag eykur líkur á að markmið og áherslur Íslands á sviði alþjóðlegrar þróunarsamvinnu nái fram að ganga og skili sér í skilvirkari þróunarsamvinnu."

Skjáskot sem sýnir hvernig frumvarpið var kynnt á vef Alþingis. Afnám Þróunarsamvinnustofnunar var fellt út í gærmorgun eftir að gerðar voru athugasemdir við orðalagið.

 

Ný og breytt þróunarsamvinnunefnd 

Breytingar eru líka gerðar á þróunarsamvinnunefnd og samstarfsráði um alþjóðlega þróunarsamvinnu en þessu tvennu er steypt saman í eina þróunarsamvinnunefnd. Sú nefnd er skipuð fimm fulltrúum úr hópi alþingismanna, fimm úr hópi borgarasamtaka, tveimur frá háskólasamfélaginu og tveimur frá aðilum vinnumarkaðarins, auk formanns sem er skipaður án tilnefningar og á að vera sérfróður um þróunarmál og hafa reynslu á því sviði. Nefndin á að hittast að lágmarki tvisvar sinnum á ári. Í greinargerð kemur fram að talið sé mikilvægt að "nefndin hafi á starfstíma sínum möguleika á að fara í vettvangsferð til að fylgjast með framkvæmd alþjóðlegrar þróunarsamvinnu Íslands. Það grundvallast á því að framsögumaður nefndarálits utanríkismálanefndar með frumvarpi til laga nr. 161/2012 tók það fram í framsögu sinni að það hafi tíðkast að stjórnarmenn í Þróunarsamvinnustofnun hafi farið í slíkar ferðir og viðraði þá hugmynd að fulltrúar í þróunarsamvinnunefnd gætu gert hið sama, enda hafi slíkar ferðir þótt vera mikilvægar til að efla skilning á þróunarsamvinnustarfinu. Svipuð sjónarmið komu fram af hálfu utanríkismálanefndar í nefndaráliti hennar með tillögu til þingsályktunar um áætlun um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2013- 2016."

 

Starfsmönnum boðin sambærileg störf

Í greinargerðinni segir að ráðherra skuli bjóða fastráðnum starfsmönnum Þróunarsamvinnustofnunar Íslands við störf á aðalskrifstofu og í umdæmisskrifstofum störf í ráðuneytinu frá þeim tíma sem stofnunin er lögð niður. "Við færslu starfsemi ÞSSÍ og ráðuneytisins þarf að taka afstöðu til þess til hvaða starfa starfsmenn veljast miðað við menntun þeirra, starfsreynslu og færni. Við undirbúning að því verður haft að leiðarljósi að starfsmönnum verði boðið að gegna sambærilegum störfum í ráðuneytinu og þeir gegndu hjá stofnuninni," segir í greinargerðinni með frumvarpinu. 

 

Frumvarpið 

Vestrænir sjúkdómar berast suður á bóginn:

Ríkir og fátækir deyja í ört vaxandi mæli úr sömu sjúkdómunum

Ljósmynd frá Malaví: gunnisal.
Í fyrsta sinn í sögunni deyja fleiri íbúar þróunarríkja úr heilablóðfalli og hjartaáfalli en úr smitsjúkdómum. Meðal ríkra þjóða hafa þessir tveir sjúkdómar ásamt krabbameini verið helsta banamein fólks og leggja að velli tvo af hverjum þremur. Í fátækari ríkjum hafa banvænustu sjúkdómarnir til margra ára verið smitsjúkdómar eins og niðurgangspestir, lungnabólga, alnæmi, malaría, mislingar og stífkrampi. Nú er af sú tíð.


Þótt fyrrnefndir smitsjúkdómar séu enn skeinuhættir hefur tekist á undanförnum árum að fækka dauðsföllum af þeirra völdum, fyrst og fremst vegna þess að aðgengi að lyfjum og bóluefnum hefur aukist og lífskjör hafa batnað. Þetta hefur leitt til þess að dauðsföllum af völdum algengra smitsjúkdómaa hefur fækkað stórkostlega, niður fyrir níu milljónir dauðsfalla á ári.


Frá þessum gleðitíðindum segir Bjorn Lomborg yfirmaður fræðastofnunarinnar The Copenhagen Consensus Centre í grein sem hann skrifaði í The Guardian á dögunum þar sem hann vekur athygli á þessari tímamóta staðreynd að fátækir og ríkir deyi nú í auknum mæli úr sömu sjúkdómunum.


Ósmitnæmir sjúkdómar og langvinnir eru banamein flestra íbúa ríkra þjóða og valda 23 milljónum dauðsfalla á ári eða tæplega tveimur af hverjum þremur. Bjorn segir góðu fréttirnar vera þær að gífurlega margir möguleikar séu fyrir hendi til að draga úr þessum sjúkdómum sem gætu leitt til þess að dánartilvikum fækki á ári um fimm milljónir. Hann vitnar í nýja fræðigrein Rachel Nugent í Washington háskóla en hún tengist sérfræðingateymi á vegum Copenhagen Consensus Centre sem er að bera saman kostnað og ávinning af tilgreindum markmiðum sem gætu nýst alþjóðasamfélaginu í nýjum þróunarmarkmiðum. Rannsóknir Nugent lúta að ótímabærum dauðsföllum af völdum ósmitnæmra sjúkdóma sem eru algengust í þróunarríkjum, þ.e. að fólk deyi yngra en 70 ára af þeirra völdum. Þetta er vaxandi vandamál því sífellt fleiri fá þessa langvinnu sjúkdóma, 17% aukningu er spáð á næstu tíu árum, og 27% aukningu í Afríku.


Tóbak, hár blóðþrýstingur, heilablóðfall og hjartaáföll

Tóbak er helsta einstaka banameinið og leggur að velli 10 milljónir manna fyrir árið 2030. Þriðjung allra dauðsfalla karla í Kína má skrifa á tóbaksneyslu. Bjorn bendir á að meðal ríkra þjóða hafi gefist vel að hækka skatta á tóbak til að fækka dauðsföllum og samkvæmt spálíkönum mætti fækka ótímabærum dauðsföllum um 2,5 milljónir á ári með til þess að gera litlum kostnaði. Hann nefnir líka aðgerðir til að draga úr háum blóðþrýstingi sem myndi margborga sig og fækka árlegum dauðsföllum um 770 þúsund. Loks nefnir hann aðgerðir til að draga úr hættu á heilablóðfalli og hjartaáföllum. Þar er ávinningurinn minni í krónum talinn en engu að síður mikill.


Bjorn minnir á að 193 ríkisstjórnir séu nú að ræða hundruð hugsanlegra markmiða sem megi setja til næstu fimmtán ára en ákvörðun í þeim efnum verði tekin í september. Greiningarvinna í fræðastofnun hans miði að því að sýna þjóðarleiðtogum hvar skynsamlegt sé að verja fjármununum best í þágu fátækra í heiminum.


 

Nánar

Lög um hækkun hjúskaparaldurs:

Stúlkur í Malaví fagna sögulegum og mikilvægum sigri í réttindabaráttu

Barnabrúðkaup í Malaví/ heimildamynd Mannréttindavaktarinnar
Barnabrúðkaup í Malaví/ heimildamynd Mannréttindavaktarinnar

Malaví festi í lög í síðustu viku ákvæði um hjúskaparaldur og hækkaði hann úr fimmtán árum í átján. Með breytingunni hafa stúlkur í landinu unnið mikilvægan sigur í baráttumálum sínum en Malaví er meðal þeirra þjóða þar sem barnabrúðkaup eru hvað algengust. Önnur hver stúlka, og rúmlega það, er gefin í hjónaband á barnsaldri, í sumum tilvikum níu ára að aldri.

Saga Florence
Saga Florence

 

The Guardian fjallar um málið í ítarlegri fréttaskýringu og segir að barnabrúðkaup séu bæði orsök og afleiðing nístandi fátæktar, kynbundins ofbeldis og óumflýjanlegs óréttis sem stúlkur upplifi dag hvern. Í greininni er rakin saga Florence, munaðarlausrar stúlku, sem var þröngvað í hjónaband þrettán ára eftir að hafa sótt hefðbundnar æfingabúðir fyrir væntanlegt hlutverk eiginkonu. Eiginmaðurinn var 27 ára þegar þau giftust og hún upplifði sig sem þræl og fanga sem sætti líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi uns tveimur árum síðar að henni tókst fyrir tilstilli GENET samtakanna (Girls Empowerment Network) að losna úr hjónabandinu.

 

GENET eru leiðandi samtök í baráttumálum stúlkna og hófu herferð - ásamt samtökunum Let Girl Lead -  árið 2011 gegn barnabrúðkaupum undir yfirskriftinni: Malawi´s Stop Children Marriage. Rúmlega 200 stelpur í Chiradzulo héraði í suðurhluta landsins voru þjálfaðar til að gegna starfi talsmanna baráttunnar. Þær þrýstu á sextíu þorpshöfðingja að breyta viðhorfum til unglingsstúlkna og setja "lög" þeim til varnar með ákvæðum um að karlar sem kvæntust stúlkum yngri en 21 árs þyrftu að láta af hendi landsvæði í þorpinu og greiða sekt sem næmi andvirði sjö geita. Ennfremur voru ákvæði um refsingu gegn foreldrum sem gefa ungar dætur sínar í hjónaband, m.a. þriggja mánaða þegnskylduvinnu á heilsugæslustöð.

 

Í greininni er rakin baráttusaga GENET samtakanna fyrir hækkun giftingaraldurs en eins og áður sagði tóku ný lög gildi í Malaví í síðustu viku þar sem giftingaraldurinn er hækkaður í átján ár.

 

How girl activists helped to ban child marriage in Malawi/ TheGuardian

Dispatches: Preventing Child Marriage in Malawi/ HRW

Forget Madonna - Malawi's parents find their own way of keeping girls in school/ TheGuardian 

Raising the Age of Marriage in Malawi/ CFR 

Malawi bans child marriage, lifts minimum age to 18/ Reuters

Mennta- og þróunarverkefni Háskólans á Bifröst:

Samfélagsleg ábyrgð í heimabyggð og heimsbyggð


Konur i þorpinu Bashay í Norður-Tansaníu.

Háskólinn á Bifröst vinnur nú að því viðamikla mennta- og þróunarverkefni að flytja námskeiðið Máttur kvenna út til Afríku. Í fyrsta hluta verkefnisins er efnalitlum konum í þorpinu Bashay í Norður-Tansaníu veitt ókeypis menntun. Markmiðið er að búa þær tækjum til að koma auga á viðskiptatækifæri í nærumhverfi sínu og færni til að koma þeim í framkvæmd. 

 

Verkefnið verður kynnt næstkomandi föstudag, 6. mars, á opnum fundi í húsakynnum Háskólans á Bifröst að Hverfisgötu 4-6 (5. hæð) í Reykjavík. Um leið verður félagið WOMEN POWER stofnað en það mun í samstarfi við Háskólann á Bifröst reka verkefnið. Fundurinn er öllum opinn, sem og aðild að félaginu.

 

Nálega þúsund íslenskar konur hafa sótt námskeiðið Máttur kvenna sem Háskólinn á Bifröst hefur haldið úti í áratug en því er ætlað að hvetja konur til aukinnar þátttöku í nýsköpun og atvinnuuppbyggingu. "Háskólinn á Bifröst telur sig ekki aðeins bera samfélagslega ábyrgð í heimabyggð heldur einnig í heimsbyggð," eins og segir í frétt skólans um fundinn. "Nú þegar áratugar reynsla er komin á þessa aðferð viljum við veita fleirum álíka tækifæri og aðlaga verkefnið að háttum heimamanna í Afríku. Til að undirbúa fyrsta námskeiðið í Tansaníu sem haldið verður núna í apríl er stödd hér á landi ung kona frá Tansaníu, Resty, sem dvelur hér í sjö vikur alls. Að lokinni þjálfun hér á landi undirbýr hún bæði leiðbeinendur í Tansaníu og námskeiðið sjálft. Þrír kennarar fara þá frá Bifröst og veita afrísku konunum handleiðslu við að koma á fót eigin rekstri."


Heimamenn þurfa að vera í bílstjórasætinu:

Gagnrýnir að veitendur setji eigin hagsmuni ofar hagsmunum viðtakenda

 

IFAD fyrirlestur: Winnie Byanyima,
IFAD fyrirlestur: Winnie Byanyima, "The Future of Aid"

Winnie Byanyima framkvæmdastjóri Oxfam segir að markmið þróunarsamvinnu séu að gera aðstoðina óþarfa, viðtakendur þurfi að vera í bílstjórasætinu og aðstoðin þurfi sérstaklega að beinast að því að auka áhrifamátt kvenna. Winnie flutti ræðu á dögunum á fundi IFAD og í meðfylgjandi kvikmyndabroti má sjá ræðuna í heild sinni sem nefndist "Framtíð þróunaraðstoðar" eða "Future of Aid".

 

"Þótt þróunaraðstoð hafi burði til þess að breyta miklu taka veitendur of oft eigin hagsmuni fram fyrir samstarfsaðilana," sagði Winnie og benti á að þróunaraðstoð ætti fyrst og fremst að vera til hagsbóta fyrir þá allra fátækustu, gefa þeim rödd og aukið hlutverk í samfélaginu. Hún lagði áherslu á að heimamenn þyrftu að vera í bílstjórasætinu í samstarfinu, sagði að bændur væru sjaldnast spurðir og fæst verkefni væru sniðin að þörfum þeirra eða óskum.

 

Í ræðunni gerði Winnie líka spillingu að umtalsefni og sagði að þróunaraðstoð þyrfti að vinna gegn spillingu. Hún nefndi skattsvik og sagði þróunarríkin tapa 123 milljörðum dala árlega á undanskotum frá skatti. Því þyrftu veitendur að styðja ríkisstjórnir við uppbyggingu skilvirkra og árangursríkra fjármálakerfa sem myndu stuðla að því að þróunarfé nýttist helst þeim sem þyrftu mest á því að halda. Þá sagði hún að þróunaraðstoð þyrfti að vera sjálfbær og ekki bundin "verndarstefnu" sem væri veitendunum sjálfum mest til hagsbóta.

 

Í lok ræðu sinnar sagði Winnie að þróunaraðstoð ætti að efla konur sértaklega. Jafnrétti kynjanna hæfist á því að breyta því lága gildismati sem stúlkur byggju við og hefði hamlandi áhrif á menntun þeirra, bjargráð og tækifæri.

 

IFAD Lecture: Oxfam's Winnie Byanyima on the future of aid in a post-2015 world 

'Women must be at the decision-making table at all levels' UN tells high-level meeting in Chile/ Sameinuðu þjóðirnar 

Fréttaskýring:

Ítrekað reynt að tala fyrir samruna ÞSSÍ við ráðuneytið á síðustu árum

 

Að minnst kosti sex sinnum á síðustu tuttugu árum hafa verið gerðar tilraunir til þess að leggja Þróunarsamvinnustofnun Íslands niður og færa starfsemina undir utanríkisráðuneytið. Tillögur um slíkar stjórnsýslubreytingar hafa verið færðar í tal við flesta, ef ekki alla, utanríkisráðherra sem komið hafa til starfa í ráðuneytinu frá aldamótum. Viðbrögð ráðherranna hafa verið með ýmsum hætti, sumir hafa kosið að hafa skipulagið óbreytt, aðrir hafa viljað samruna við ráðuneytið og einn ráðherra mælti með því að öll alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands færðist yfir í Þróunarsamvinnustofnun Íslands.

 

Halldór Ásgrímsson varð utanríkisráðherra árið 1995 og gegndi embættinu til ársins 2004. Hann sýndi tillögunni um að leggja ÞSSÍ niður engan áhuga. Þegar Davíð Oddsson tók við ráðuneytinu í september 2004 var komið á framfæri við hann tillögunni um samruna við ráðuneytið en hann vildi fara í þveröfuga átt og flytja öll verkefni á sviði þróunarsamvinnu yfir til ÞSSÍ. Ekki er vitað hvort Geir H. Haarde sem tók við ráðuneytinu í september 2005 hafi fengið tillöguna á sitt borð en eftir stutta veru hans í ráðuneytinu tók Valgerður Sverrisdóttir við embættinu. Hún tók vel í þá málaleitan að koma málaflokknum öllum undir ráðuneytið og lagði í mikla vinnu við þann málatilbúnað, fól meðal annars Þorsteini Ingólfssyni sendiherra að skrifa skýrslu. Í henni var lagt til að færa stofnunina undir ráðuneytið. Sighvatur Björgvinsson þáverandi framkvæmdastjóri ÞSSÍ gagnrýndi harðlega vinnubrögðin í ráðuneytinu við skýrslugerðina og svo fór að ráðherrann taldi sig ekki geta tryggt stuðning við framgang málsins. Ekkert frumvarp kom því fram um breytingar á lögum í ráðherratíð Valgerðar.

 

Þegar tillagan um breytingar á skipulagi þróunarsamvinnu var borin upp við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur sem tók við embætti utanríkisráðherra eftir vorkosningar árið 2007 ákvað hún að fá Sigurbjörgu Sigurgeirsdóttur stjórnsýslufræðing til þess að skoða skipulag þróunarsamvinnu Íslands. Hún skilaði greinargerð með tillögum til ráðherra í febrúar 2008 og lagði til að Þróunarsamvinnustofnun yrði áfram rekin sem sjálfstæði stofnun og að hlutverk hennar sem fagstofnunar yrði eflt. Mikil stefnumótunarvinna var unnin í ráðuneytinu í tíð Ingibjargar Sólrúnar. Þá var mörkuð sú stefna að "Ísland verði meðal þeirra þjóða sem veita mest til þróunarmála" og ný rammalöggjöf var kynnt og samþykkt á þingi um málaflokkinn haustið 2008. Sérlög um Þróunarsamvinnustofnun frá árinu 1981 voru þá felld úr gildi.

 

Össur Skarphéðinsson ljáði ekki máls á neinum slíkum hugmyndum þegar þær voru kynntar fyrir honum. Össur tók við ráðuneytinu í febrúar 2009 og stuðningur hans við stofnunina í rúmlega fjögurra ára ráðherratíð hans fór ekki milli mála. Hins vegar vildi Gunnar Bragi Sveinsson sem tók við embættinu í maí 2013 skoða hugmyndina um að færa alla þróunarsamvinnu inn í ráðuneytið og tilkynnti í árslok 2013 að hann hefði falið Þóri Guðmundssyni hjá Rauða krossinum að gera úttekt á skipulagi og fyrirkomulagi þróunarsamvinnu. Ráðherra ákvað síðan að láta semja frumvarp um megintillöguna sem fram kom í álitsgerð Þóris, þ.e. að leggja ÞSSÍ niður. Það frumvarp hefur nú verið lagt fyrir Alþingi.

 

Já, ráðherra

Í áfangaskýrslu Þóris Guðmundssonar síðastliðið sumar var meðal annars að finna lista yfir helstu ráðleggingar um stjórnkerfi þróunarsamvinnu 1992 til 2008. Þar er sagt frá reglugerð Davíðs frá 2005 um að ÞSSÍ taki við verkefnum á "fjölþjóðlegum vettvangi" (bls. 40) sem Þórir heldur reyndar ranglega fram að hafi verið sett árið 2007.

Eins og þetta sögulega yfirlit sýnir hefur verið sótt að Þróunarsamvinnustofnun Íslands um langt árabil. Með nokkurra ára millibili - og með ærnum tilkostnaði - er lagt að nýjum ráðherrum sem koma inn í utanríkisráðuneytið að þeir leggi stofnunina niður. Í kjölfarið hefst skýrslugerð, viðtöl, óvissutími.

 

Merkilegasta atburðarásin í tengslum við þessar tilraunir til að koma ÞSSÍ fyrir kattarnef eru viðbrögð Davíðs Oddssonar þann stutta tíma sem hann var utanríkisráðherra. Eins og áður sagði fór hann þvert gegn vilja þeirra sem vildu stofnunina feiga og lagði til að allur málaflokkurinn - bæði marghliða og tvíhliða þróunarsamvinna - yrði fluttur yfir í Þróunarsamvinnustofnun. Hann lét semja reglugerð en þá brá svo við að ráðuneytisstjórinn neitaði að skrifa undir hana. Staðgengill ráðuneytisstjóra neitaði líka. Á endanum fékkst Sigríður Snævarr, sendiherra, til þess að staðfesta reglugerðina með undirskrift sinni og þar með var reglugerðin fullgild stjórnarathöfn. Ráðuneytisstjórinn kallaði hins vegar framkvæmdastjóra Þróunarsamvinnustofnunar á sinn fund eftir að reglugerðin var gefin út og tilkynnti honum að eftir henni yrði aldrei farið. Reglugerðin var í fullu gildi í nokkur ár en Davíð var kominn út úr ráðuneytinu og reglugerðinni var aldrei fylgt.

 

Hins vegar minnti atburðarrásin mjög á fræga breska sjónvarpsþætti sem sýndir voru hér á landi undir heitinu: Já, ráðherra.

Skylda að uppræta mismunun

 

Ávarp Nóbelsverðlaunahafans Daw Aung San Suu Kyi við upphaf herferðarinnar gegn mismunun.
Ávarp Nóbelsverðlaunahafans Daw Aung San Suu Kyi við upphaf herferðarinnar gegn mismunun.

Síðastliðinn sunnudag, 1. mars var alþjóðlegur dagur Sameinuðu þjóðanna helgaður upprætingu mismununar. Á þessum degi er fólk hvatt til að fagna og efla rétt hvers og eins til að lifa lífinu til fullnustu, án tillits til þess hvernig hver og einn lítur út, hvaðan hann kemur eða hvern hann elskar. Tákn "Dags engrar mismununar" er fiðrildi, sem víða er tákn umbreytingar.

 

Á vef upplýsingaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna fyrir Vestur-Evrópu segir að meira en 65 árum eftir samþykkt Mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna sé mismunun djúpstæð í mörgum samfélögum. Mismunun ali á fordómum, dragi úr lífslíkum milljóna um allan heim og sé rót ofbeldis. 

 

 "Mismunun er mannréttindabrot og á ekki að líðast," segir Ban Ki-moon, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna. "Hver og einn hefur rétt til að lífa með reisn og virðingu:"

 

Í fréttinni segir ennfremur:

Mismunun skekur heil samfélög. Það skaðar ekki aðeins stúlkur og ungar konur ef þær fá ekki almennilega menntun, heldur missa samfélögin af þeim virðisauka sem námið er. Ef fólk sem lifir með HIV smiti er úthrópað, letur það fólk frá því að láta athuga sig og fá lífsnauðsynlega meðferð, ef nauðsyn krefur. Þetta er ekki aðeins vandamál í þróunarlöndum. Í Bretlandi eru konur 70% þeirra sem eru á lágmarkslaunum. Í Bandaríkjunum segjast 64% vinnandi manna hafa upplifað mismunun vegna aldurs á vinnustað sínum.

 

 

Forseti Namibíu fær Mo Ibrahim verðlaunin

Fjórum sinnum á síðustu fimm árum hefur Mo Imbrahim stofnunin sem metur árlega bestu stjórnsýslu í Afríkuríkjum komist að þeirri niðurstöðu að enginn sé verðugur verðlaunanna. Á mánudaginn var hins vegar tilkynnt að í ár hlyti Hifikepunye Pohamba forseti Namibíu þessi eftirsóttu verðlaun sem nema fimm milljónum Bandaríkjadala.

 

Mo Ibrahim verðlaunin eru veitt lýðræðislega kjörnum þjóðhöfðinga sem hefur haldið vel um stjórnartauma, bætt lífskjör þjóðar sinnar og síðan látið af völdum.

Pohamba sat á forsetastóli í tvö kjörtímabil en flokksbróðir hans Hage Geingob fór með sigur af hólmi í forsetakosningum í desember síðastliðnum. Pohamba var einn af stofnendum SWAPO á sínum tíma, samtökum sem börðust fyrir sjálfstæði Namibíu undan Suður-Afríku.

 

Nánar 

Namibia's president wins $5m African leadership prize/ TheGuardian 

 

Áhugavert

The path forward, eftir Diana Ohlbaum/ Devex
-
IFF only they'd spent it on the poor, eftir Patric Love/ OECDinsights
-
Eþíópía: Media freedom in decline, eftir Felix Horne/ D+C
-
Leaving no unfinished business: What are we waiting for?, eftir Justin W. van Fleet/ Brookings
-
Girls and Women Must be at the Center of the Global Development Agenda, eftir Katja Iversen/ HuffingtonPost
-
Opinion: Goals for Gender Equality Are Not a 'Wish List' - They Are a 'To Do List', eftir Phumzile Mlambo-Ngcuka/ IPS
Ríkisfangslaus á Fílabeinsströndinni
Ríkisfangslaus á Fílabeinsströndinni
Ebola: exposing the failure of international development, eftir Amber Huff/ OpenDemocracy
-
UN's first female development chief calls for boosting choice, rights and opportunities for women/ UNDP
-
End extreme poverty? Let's start with financial access for all, eftir Jim Young Kim/ Alþjóðabankablogg
-
On the trail of Africa's biggest international bike race/ TheGuardian
-
50,000 To 1: Malawi's Challenge/ Interaction.org
Dr. Daniel Aronson, 2014 Medical Diplomat Award Winner, and his Transformative Work in Malawi
Dr. Daniel Aronson, 2014 Medical Diplomat Award Winner, and his Transformative Work in Malawi
The DNA of German Foreign Policy, eftir FRANK-WALTER STEINMEIER/ Project-Syndicate
-
Opinion and Debate: Refugees are not terrorists, eftir Jonathn Wittall/ MSF-Læknar án landamæra
-
7 Ways To Lay Down The Truth On Foreign Development Assistance/ Buzzfeed
-
This is What Revolution Looks Like: One Billion Rising Revolution Photo Essay/ HuffingtonPost
-
If food security is the answer, is it time to change the question?, eftir Paolo Cravero/ IEED
-
For Better or Worse: Child Marriage Is a Violation of Girls' Rights, eftir Tanya Barron/ HuffingtonPost
-
Can you visualize the structure of the world economy and population in one chart?, eftir Morgan Brannon/ Alþjóðabankablogg
Visualizing the Structure of the World Economy and Population in One Chart
Visualizing the Structure of the World Economy and Population in One Chart
Africa's youth: Can we live up to their expectations?/ Ideas4Development
-
Why 2015 is a make-or-break year for the economy, eftir Christine Lagarde/ GlobalPolicy
-
Has globalisation fundamentally slowed?/ BBC
-
Capitalism Defused the Population Bomb, eftir Chelsea German/ GlobalPolicy
-
Leaving no unfinished business: What are we waiting for?, eftir Justin W. van Fleet/ Brookings
-
Leikskólabörn spjalla á Skype/ SOS barnaþorpin á Íslandi
-
The Guardian view on food security: if the dreamers lose, we face a nightmare/ Forystugrein í The Guardian
-
Vefsíða um ljósmæðraverkefnið: Midwives4all.org
-
Out-of-school children: a promise yet to be fulfilled, eftir QUENTIN WODON/ Alþjóðabankablogg
-
Remember Ebola's orphans, but don't forget all the other affected children, eftir David Evans/ Alþjóðabankablogg
-
Opinion: Manipulate and Mislead - How GMOs are Infiltrating Africa, eftir Haidee Swanby and Mariann Bassey Orovwuje/ IPS

Erindi um stúlkur, menntun og frjáls félagasamtök

 

Afríka 20:20 og MARK - Miðstöð margbreytileika- og kynjarannsókna á félagsvísindasviði Háskóla Íslands boða til málstofu mánudaginn 9. mars nk.

Efni: 'Bágstaddar' stúlkur, menntun og frjáls félagasamtök í Kampala, Uganda
Fyrirlesari: Selma Sif Ísfeld Óskarsdóttir MA í þróunarfræði
Staður: Ingjaldssalur, Háskólatorgi Háskóla Íslands
Stund: 9. mars kl. 17:00-18:30

Í erindi sínu mun Selma Sif fjalla um styrktarverkefni á vegum frjálsra félagasamtaka í Kampala og hvernig kyn er áhrifavaldur þegar kemur að slíkum verkefnum og aðgengi að menntun, þar sem mörg félagasamtök velja að styrkja aðeins stúlkur til náms. Samhliða þessum verkefnum er dregin upp einsleit mynd af bágstöddum stúlkum í þróunarríkjum.

Málstofan er opin öllu áhugafólki um málefnið!

 

Fræðigreinar og skýrslur
Fréttir og fréttaskýringar
 
-
-
-
-
-
Kenya's Tana River: The fight over water | Global 3000
Kenya's Tana River: The fight over water | Global 3000
BROADCASTING: African nations face dilemma over digital switch/ DW
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-

Gagnvirkur vefur í tilefni kvennadagsins

 

Í aðdraganda alþjóðlega kvennadagsins á sunnudaginn kemur, 8. mars, hafa samtökin Læknar án landamæra opnað gagnvirkan vef með frásögnum og ljósmyndum sem tengjast baráttumáli samtakanna um að bæta aðgengi kvenna að heilbrigðisþjónustu í þróunarríkjum, ekki síst í tengslum við meðgöngu og fæðingu.

 

Vefurinn ber yfirskriftina "Because Tomorrow Needs Her" og þar er meðal annars að finna ljósmyndir ástralska ljósmyndarans Kate Geraghty, sem sýna átakanlegar aðstæður kvenna í fjölmörgum fátækum ríkjum. Einnig er á vefnum ljósmyndir eftir aðra listamenn og kvikmyndabrot en myndefnið er tekið í  Búrúndi, Haítí, Malaví og Papa Nýju Geníu. Ennfremur eru á vefnum frásagnir starfsfólks Lækna án landamæra frá þorpum og heilsugæslustöðvum í Afganistan, Suður-Súdan, Austur-Kongó og Síerra Leone.

 

Í frétt frá samtökunum kemur fram að 800 konur deyi af barnsförum eða af fylgikvillum meðgöngu á hverjum degi. Á vefnum eru kaflar um umönnun ungbarna, fistúlu, ótryggar fóstureyðingar, kynbundið ofbeldi og forvarnir gegn HIV smiti.

 


Ný stjórn Félags Sameinuðu þjóðanna

Á AÐALFUNDI Félags Sameinuðu þjóðanna, sem var haldinn miðvikudaginn 18. febrúar var farið yfir verkefni félagsins á undanförnum tveimur árum og ársreikningar samþykkir. Einnig var kosið í stjórn félagsins. Þröstur Freyr Gylfason var endurkjörinn formaður.

 

Bogi Ágústsson fréttamaður kom inn í stjórnina 2012 og heldur áfram stjórnarsetu en nýir stjórnarmenn eru eftirtaldir: Bryndís Eiríksdóttir, meistaranemi, Gréta Gunnarsdóttir, sendiherra, Nanna Magnadóttir, lögfræðingur og forstöðumaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, Páll Ásgeir Davíðsson, lögfræðingur og fyrrverandi starfsmaður Sameinuðu þjóðanna í New York, Kongó, Súdan og Kenýa, Petrína Ásgeirsdóttir, MA í alþjóðlegum friðarfræðum og fyrrverandi framkvæmdastjóri AFS og Barnaheilla, Svava Jónsdóttir, blaðamaður og meistaranemi í alþjóðasamskiptum, Þór Ásgeirsson, kennari, sjávarvistfræðingur og aðstoðarforstöðumaður Sjávarútvegsskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna.

 

Nánar
 

Kynning á nemendum háskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi:

 

Vonast til að fá betri stöðu með kynjafræði sem útgangspunkt 

- segir Tony Bero í Jafnréttisskólanum 

 

Tony Bero.

Nafn: Tony Bero

Land: Palestína

Aldur: 34

Fjölskylda: Kvæntur og á eina dóttur 

 

 

Af hverju kaustu að stunda nám við Háskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi?

Ég heyrði um skólann fyrir nokkrum árum síðan frá samstarfsfélögum mínum hjá UNRWA á Vesturbakka Palestínu, og vonaði að einn daginn fengi ég tækifæri að stunda nám við Jafnréttisskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna (UNU-GEST). Fyrir um sex mánuðum fékk ég tölvupóst frá yfirmanni mínum um að ég gæti sótt um og eftir nokkur viðtöl fékk ég þær fréttir að ég hefði komist inn. Það var síðastliðinn október. Ég kom til Íslands þann 4. janúar og verð hér til 23. maí, en eiginkona mín og dóttir koma í mars og dvelja hjá mér þar til að ég klára námið.

 

Hvað er það sem þú getur tekið með þér eftir nám við Háskóla Sameinuðu þjóðanna?

Það er svo margt, en ég vona fyrst og fremst að ég geti notað þekkinguna sem ég öðlast hér í skólanum til að styrkja starfshæfni mína í heimalandi mínu. Einkum og sér í lagi bind ég vonir við að geta stuðlað að jafnrétti með aðferðum sem gera mér kleift að vinna að þessu markmiði í ólíkum og menningarheimum. Ég vinn hjá UNRWA, sem er stofnun á vegum Sameinuðu þjóðanna sem vinnur með palestínskum flóttamönnum. Ég vona að ég komi til með að búa yfir hæfileikum í kynjafræðum sem ég mun nýta við ákvarðanatökur. Við úthlutun til verkefna verður að taka tillit til hagsmuna kvenna, karla, stelpna og stráka. 


 
Hvaða námskeið hefurðu tekið og hvað hefurðu lært af þeim?

Áður en ég kom hingað hafði ég þegar tekið ýmis námskeið í verkefnastjórnun. Hér á Íslandi erum við í skólanum til að vinna að því að ljúka diplóma gráðu í alþjóðlegum jafnréttisfræðum. Það efni sem að við höfum fjallað um í þeim námskeiðum sem við höfum tekið undarfarið eru m.a. gagnrýnin hugsun, kvenréttindi, kyn og kynjajafnrétti, kynjasamþætting, að beita kynjasjónarhorni á rökramma og kynjuð hagstjórn.

 

Hvaða námsgreinar hafa þér þótt áhugaverðastar og af hverju?

Kyn og þróun, kynjasamþætting, verkefnastjórnun og hvernig kynjasjónarhorni er beitt á rökramma, kynjuð hagstjórn og  kyn og öryggismál. Allt er þetta mikilvæg þekking sem ég sé fyrir mér að geta notað heima í starfinu mínu í Palestínu.

 

Um hvað snýst lokaverkefnið þitt í jafnréttisskólanum?

Við munum vinna að lokaverkefnunum okkar síðasta mánuðinn. Lokaverkefnið mitt mun vera um kynjabundið ofbeldi í flóttamannabúðum á vesturbakka Palestínu. Ég vil vinna að verkefnatillögu um kynjabundið ofbeldi í flóttabúðunum og finna leið til að allar stofnanirnar á staðnum geti unnið saman að lausn; menntakerfið, heilbrigðiskerfið, félagskerfið og hjálparstofnanir. Ég vona að þegar ég komi heim geti ég fengið styrki til að koma af stað þessu verkefni sem væri til þriggja ára.

 

Hefurðu áætlun varðandi starfsferil þinn þegar þú snýrð til baka heim eftir námið hér?

Ég vona að ég geti notað þekkinguna sem ég hef hlotið hér í Jafnréttisskólanum til að fá betri stöðu innan UNRWA, vonandi með kynjafræði sem útgangspunkt.

 

Hvernig hefurðu í huga að nýta námið þitt hér við Jafnréttisskólann í heimalandi þínu?

Ég vona að ég geti komið af stað vitundarvakningu um kynjajafnréttindi og kynjasamþættingu, en það er sú sýn að  kynferði verði grundvallarforsenda við mótun nýrrar stefnu eða við töku ákvarðana á opinberum vettvangi.

 

Ef að við myndum spyrja vini þína og fjölskyldu hvað væru þínar góðu hliðar og slæmu hvað heldurðu að þau myndu segja?

Slæmu hliðarnar væru líklegast að ég væri of sjálfselskur, að ég vil alltaf vera bestur og vita meira, sem mér finnst reyndar ekki vera galli, heldur einfaldlega góður mannlegur eiginleiki. Ég er ekki góður að vinna í hópum og ég vil helst vinna einn. Og kannski kann að vera að ég sé of skipulagður. 

En góðu hliðarnar;  líklegast myndi fólk segja að ég sé mjög skipulagður, bæði í verkefnum og vinnu. Ég virði tíma annarra og ég veiti smáatriðum athygli. Að sama skapi myndu þau eflaust segja að ég sé áreiðanleg manneskja, þar sem fólk getur alltaf treyst því að ég ljúki því sem ég tek að mér.

 

Viltu deila með okkur því hvernig þú upplifir íslensku þjóðina?

Íslendingar eru mjög vingjarnlegir og það er mjög auðvelt að tala við þá. Þeir mismuna aldrei eftir uppruna og tala alltaf fallega til manns, þótt maður sé frá öðru landi. Þeir eru rólegir og hjálpsamir, en eru alltaf að berjast við tímann. Eitt sem að mér fannst áhugavert þegar ég flutti hingað er hvað karlmenn hjálpa mikið við uppeldi barna. Ég bý í íbúð fyrir ofan leikskóla á Eggertsgötunni, og ég tók strax eftir því hversu margir karlmenn komu með börnin sín og sóttu á leikskólann. Í Palestínu og öðrum Arabalöndum deila foreldrar ekki eins mikið ábyrgðinni, ábyrgðin er öll hjá móðurinni.

 

Er það eitthvað annað sem að þú vilt deila með okkur?

Ég mun sakna þessa lands mjög mikið, ásamt fólksins og menningarinnar. Hér eru allir vinir og að mínu mati er engin mismunun til staðar. 

 

Viðtal: Ásrún Birgisdóttir starfsnemi hjá Félagi Sameinuðu þjóðanna

 


Stjórnarandstaðan óskar eftir skýrari svörum vegna fyrirhugaðrar sameiningar ÞSSÍ og ráðuneytisins

 

Níu þingmenn stjórnarandstöðunnar lögðu í gær fram beiðni um skýrslu frá utanríkisráðherra um skipulag þróunarsamvinnu vegna fyrirhugaðrar sameiningar Þróunarsamvinnustofnunar Íslands og utanríkisráðuneytis. Þingmennirnir óska eftir því að sérstaklega verði fjallað um rök fyrir fyrirhugaðri sameiningu Þróunarsamvinnustofnunar Íslands og þróunarsamvinnuskrifstofu utanríkisráðuneytisins og rök fyrir því að starfsemin verði innan ráðuneytisins eftir sameininguna. 

 

Eftirfarandi atriði komi m.a. fram í skýrslunni:

 

1.    Reynsla og töluleg gögn sem liggja til grundvallar því mati að sameiningin auki skilvirkni og hagræðingu og upplýsingar um hvort fyrir liggur hagkvæmnisúttekt sem styður þetta mat. 
2.    Fagleg rök sem liggja til grundvallar áformum um sameininguna. 
3.    Hvort hlutlausir sérfræðingar hafa metið núverandi fyrirkomulag og hvort efnislegar ástæður þykja til breytinga í ljósi þess að gildandi lög um þróunarsamvinnu frá árinu 2008 byggjast á greiningu þar sem lögð var til verkaskipting milli ráðuneytis og stofnunar og pólitísk samstaða allra flokka hefur verið um það fyrirkomulag til þessa. 
4.    Hvort ráðuneytið telur önnur lögmál gilda um þróunarmál en aðra málaflokka í ljósi þess að almennt hefur stjórnsýslan þróast æ meira á þann veg að stefnumörkun og eftirlit með framkvæmd hennar er á hendi ráðuneyta en framkvæmdin sjálf á hendi faglegra stofnana. Rökstutt verði af hverju talið sé falla vel að nútímahugmyndum um gott skipulag í stjórnsýslu og þróun hennar á síðasta áratug að flytja framkvæmd tvíhliða þróunarsamvinnu inn í ráðuneytið og gerð verði grein fyrir því hvaða vanda varðandi árangur eða hagkvæmni starfseminnar breytingunum er ætlað að leysa. 
5.    Dæmi frá seinni árum um að fagstofnun hafi verið sameinuð ráðuneyti ef einhver eru. 
6.    Upplýsingar um hvort ráðuneytið lét skoða hvort hugsanlega mætti ná betri árangri og hagræðingu í þróunarsamvinnu með því að fara þveröfuga leið, þ.e. að færa frekari verkefni frá utanríkisráðuneytinu yfir til Þróunarsamvinnustofnunar, líkt og var niðurstaða síðustu ríkisstjórnar Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins, sbr. reglugerð sem sett var árið 2005. 
7.    Álit Ríkisendurskoðunar, ef þess hefur verið leitað, á því hvernig hún telur fyrirhugaða niðurlagningu Þróunarsamvinnustofnunar og færslu á verkefnum inn í ráðuneytið samræmast meginlínum í íslenskri stjórnsýsluþróun síðasta áratug. 
8.    Álit þróunarsamvinnunefndar Efnahags- og framfarastofnunarinnar (DAC) á sameiningunni, ef þess hefur verið leitað. 
9.    Upplýsingar um af hverju ekki er beðið niðurstöðu úttektar DAC á skipulagi og árangri þróunaraðstoðar, sem fyrirhuguð er hérlendis árið 2016, áður en lagt er til að Alþingi ákveði að leggja niður stofnunina. 
10.   Hvort utanríkisráðuneytið hefur látið athuga reynslu annarra ríkja af því að hafa sjálfstæða stofnun utan um þróunarsamvinnu, eins og t.d. er gert í Svíþjóð, í stað þess að þróunarsamvinna sé á borði utanríkisráðuneytisins. 
11.   Upplýsingar um hvernig stofnunin hefur staðið sig á undanförnum árum miðað við aðrar ríkisstofnanir hvað varðar þann ramma sem henni er markaður í fjárlögum og hvort Ríkisendurskoðun hefur gert einhverjar athugasemdir við ársreikninga hennar á þeim tíma. 
12.   Mat á því hvernig stofnuninni hefur gengið að koma íslenskri sérþekkingu, svo sem í jarðhitamálum og sjávarútvegi, á framfæri á alþjóðavísu í gegnum starf sitt, m.a. hvort erlendar stofnanir telja sér ávinning af því að eiga samstarf við hana, t.d. á sviði jarðhitamála, og hvaða ályktanir ráðuneytið dregur af því um gæði starfsins. 
13.   Rökstuddar hugmyndir um hvort gæði starfsemi á sviði þróunarmála aukist með því að leggja stofnunina niður og færa verkefnið inn í ráðuneytið sjálft. 
14.   Rökstudd skoðun ráðuneytisins á því hvort stofnunin hefur sýnt frumkvæði og sinnt nýsköpun í starfi á umliðnum árum og hvort ráðuneytið telur líklegt að færsla á verkefnum hennar inn í ráðuneytið ýti undir þessa þætti. 
15.   Hvernig fyrirhugað er að tryggja stöðugleika í starfseminni í kringum ríkisstjórnarskipti ef af sameiningunni verður. 
16.   Hvernig fyrirhugað er að tryggja að sátt skapist meðal almennings um þróunarsamvinnu Íslands þrátt fyrir aukna nálægð við stjórnmálin ef af sameiningunni verður. 
17.   Hvernig fyrirhugað er að tryggja að ákvarðanataka verði ekki seinvirkari og tortryggilegri eftir sameininguna ef af henni verður. 
18.   Hvernig fyrirhugað er að tryggja að upplýsingagjöf til almennings geti áfram verið skilvirk og frjálsleg ólíkt því sem gjarnan tíðkast hjá ráðuneytum. 
19.   Hvernig ætlunin er að haga eftirliti með þróunarsamvinnu Íslands ef starfsemin verður innan ráðuneytisins og mat á því hvort ráðuneytið þykir fært um að hafa eftirlit með sinni eigin starfsemi með þessum hætti eða hvort eðlilegra væri að slíkt eftirlit væri á hendi annars aðila. 
20.   Hvernig ráðgert er að aðskilja stefnumótun og framkvæmd þróunarsamvinnu ef starfsemin verður innan ráðuneytisins og mat á því hvort eðlilegra væri að aðskilja stefnumótun og framkvæmd í þróunarsamvinnu eins og venjan er með flesta aðra opinbera starfsemi í íslenskri stjórnsýslu. 
21.   Hvort haft hefur verið samráð við starfsmenn um fyrirhugaða niðurlagningu stofnunarinnar hvað varðar réttindi og skyldur og ef svo er, hvernig samráðið fór fram. 
 

 

Beiðnin er frá þingmönnunum Katrínu Jakobsdóttur, Össuri Skarphéðinssyni, Óttari Proppé, Birgittu Jónsdóttur, Valgerði Bjarnadóttur, Guðmundi Steingrímssyni, Helga Hrafni Gunnarssyni, Svandísi Svavarsdóttur og Helga Hjörvar.

 

facebook
UM HEIMSLJÓS 

Heimsljós - veftímarit um þróunarmál er gefið út af Þróunarsamvinnustofnun Íslands. Ritinu er ætlað að glæða umræðu um þróunarmál og gefa áhugasömum kost á að fylgjast með því sem hæst ber hverju sinni. Efni veftímaritsins þarf ekki endilega að endurspegla stefnu ÞSSÍ.

 

Skráið ykkur í áskrift á heimasíðunni, www.iceida.is og látið vinsamlegast aðra með áhuga á þróunarmálum vita af tilvist veftímaritsins. Allar ábendingar um efni eru vel þegnar.

 

Þeir sem vilja senda okkur ábendingu um efni eða afskrá sig af netfangalista eru vinsamlegast beðnir um að senda slík erindi á netfangið iceida@iceida.is. Ritstjóri er Gunnar Salvarsson, gsal@iceida.is

.

Við biðjumst velvirðingar á því að geta ekki notað íslenskar gæsalappír í viðtölum en bandarískt sniðmót Veftímaritsins leyfir ekki notkun þeirra.

 

Bestu kveðjur, Útgáfu- og kynningardeild ÞSSÍ

 

ISSN 1670-8105