gunnisal
Heimsljós
veftímarit um þróunarmál
7. árg. 239. tbl.
3. september 2014

Tæplega eitt þúsund skráðir í Hörpu:

Færri komast að en vilja á fyrirlestur Hans Rosling!

Einn frægasti fyrirlesari heims verður með erindi í Hörpu eftir tólf daga. Hér er myndband með nokkrum helstu sprettum hans á TED!
Einn frægasti fyrirlesari heims verður með erindi í Hörpu eftir tólf daga. Hér er myndband með nokkrum helstu sprettum hans á TED!

Töframaður tölfræðinnar, sænski læknirinn Hans Rosling, kemur til landsins um miðjan mánuðinn og heldur opinn fyrirlestur í Silfurbergi í Hörpu mánudaginn 15. september. Þrátt fyrir nánast enga almenna umfjöllun í fjölmiðlum um komu þessa heimsfræga og eftirsótta fyrirlesara til landsins er þegar ljóst að færri komast að en vilja á fyrirlestur hans. Opnað var fyrir skráningu á vef Embættis landlæknis Íslands 18. ágúst og tæplega eitt þúsund manns höfðu skráð sig á gestalista í gær en Silfurberg tekur að hámarki um 900 gesti í sæti.

 

Fyrirlesturinn nefnist: Heimssýn byggð á staðreyndum (Fact-based World View). Samkoman í Silfurbergi hefst kl. 16:15 með ávarpi Geirs Gunnlaugssonar landlæknis og tíu mínútum síðar stígur Hans Rosling á sviðið. Eftir erindi hans verður gefinn kostur á spurningum og umræðum. Fundarstjóri verður Sigríður Dúna Kristmundsdóttir prófessor í mannfræði við Háskóla Íslands og fyrrverandi sendiherra Íslands í Suður-Afríku.

 

Hans Rosling er prófessor í alþjóðaheilbrigðisvísindum við Karolinska institutet í Stokkhólmi. Á síðustu árum hefur hann vakið heimsathygli fyrir heillandi framsetningu á tölfræðilegum gögnum með gagnvirkri og áhrifamikilli sjónrænni grafík sem byggir á hans eigin forriti, Gapminder. Hann er gífurlega eftirsóttur fyrirlesari og hefur margoft flutt erindi á TED (Technology, Entertainment & Design), gert heimildamyndir, m.a. fyrir BBC (The Joy Of Stats og Don´t Panic - The Truth About Population) og haldið fyrirlestra með Bill Gates um heilbrigðismál og þróunina í heiminum. Hans Rosling kemur hingað til lands á vegum félagsins Afríka 20:20 í samstarfi við Þróunarsamvinnustofnun Íslands og Embætti landlæknis.

 

Í grein í Kjarnanum í síðustu viku var fjallað um Hans Rosling undir fyrirsögninni: Fær tölur til að dansa og syngja - Einn besti fyrirlesari heims heldur erindi í Hörpu hinn 15. september. Þú ættir að taka daginn frá ef þú getur. 

 

Í greininni segir Salvar Þór Sigurðarson meðal annars: "Besta leiðin til að fá fólk til að hætta að hlusta er að tala um tölfræði. Skiljanlega, enda er fræðsluefni um tölfræði nær alltaf sett fram á óbærilega leiðinlegan hátt. Sjáið bara hvað það er erfitt að lesa þessi inngangsorð um hugtakið miðgildi á Wikipedia án þess að sofna: "Miðgildi er ein aðferð til að finna út miðsækni í þýði."

 

Þetta er ekki tölfræði að kenna. Hún er bara eins og hún er; hvorki skemmtileg né leiðinleg í sjálfu sér heldur fyrst og fremst gagnlegt tæki sem við getum notað til að skilja heiminn betur. Það skiptir nefnilega máli hvernig maður setur hlutina fram; hvort markmiðið er að fæla alla nema hörðustu nördana í burtu, eða að glæða áhuga hjá öllum sem sjá og heyra.

 

Dr. Hans Rosling, sænskur læknir og prófessor í alþjóðaheilbrigðisvísindum, skilur þetta vandamál vel, en hann er einn af fáum sem kunna að klæða tölur í áhugaverðan og skemmtilegan búning. Hann notar myndræn gögn, hreyfimyndir, leikmuni og smitandi áhuga á viðfangsefninu til þess að segja sögur af heilsufari þjóða, lífslíkum, mannfjölda og misskiptingu auðs. Fyrir vikið hefur hann verið kallaður Jedi-meistari tölfræðinnar og hafa milljónir horft á upptökur af fyrirlestrum hans á TED-ráðstefnum um allan heim. Nýlega hélt hann erindi ásamt Bill Gates sem segist hafa öðlast nýja sýn á heiminn eftir að hann sat fyrirlestur Rosling um heilbrigðisverkefni í þróunarlöndum.


 

Því er við að bæta að Sigurður Már Jónsson upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar hefur í tveimur pistlum á síðustu vikum fjallað um Hans Rosling og fátækt í heiminum. Fyrri pistlinn nefnist: Hans Rosling og umræða um fátækt og sá síðari bar yfirskriftina: Fátækt verður félagsleg staðreynd á Íslandi.

 

Skráning á vef Embættis landlæknis

 

Lagt til í skýrslu að Þróunarsamvinnustofnun verði lögð niður og starfsemin færð inn í utanríkisráðuneytið:

Ótímabærar tillögur og ólíklegt að breytingar bæti árangur

Þróunarsamvinnustofnun Íslands telur að hugmyndir að meiriháttar breytingum á skipulagi og framkvæmd alþjóðlegrar þróunarsamvinnu Íslands séu ótímabærar. Í athugasemdum ÞSSÍ við lokaskýrslu Þóris Guðmundssonar fyrir utanríkisráðherra kemur fram að það skipulag sem samþykkt var með lögunum frá 2008 hafi ekki verið innleitt að fullu og því ekki fengið tækifæri til að sýna ágæti sitt. 

 

"ÞSSÍ hefur á undanförnum árum lagt mikla áherslu á að auka vægi árangurs og getu stofnunar og starfsmanna til að starfa að árangursmiðaðri þróunarsamvinnu. Skipulagi stofnunarinnar var breytt til að auka áhersluna á árangur. ...Því leggur stofnunin áherslu á að höfuðmælikvarði á allar tillögur um skipulag, verklag og innihald í þróunarsamvinnu verði sá hvort líklegt sé að breytingar bæti árangur."

 

Árangursstjórnun - já, takk!

Skýrslan var afhent Gunnari Braga Sveinssyni utanríkisráðherra um miðjan júlí og samkvæmt frétt ráðuneytisins er meðal tillagna í henni að skipulag þróunarsamvinnu verði á einum stað, í utanríkisráðuneytinu, að Ísland skerpi áherslur og fækki samstarfslöndum í því skyni að auka skilvirkni og áhrifamátt framlaga sinna. Þá er lagt til að stofnuð verði þingmannanefnd um þróunarsamvinnu, samstarfsráð um alþjóðlega þróunarsamvinnu verði styrkt og eftirlit með verkefnum eflt með því að taka upp árangursstjórnun í öllum þáttum þróunarsamvinnu Íslands. 

 

Undir þetta síðasta tekur Þróunarsamvinnustofnun heilshugar og segir í athugasemdum sínum að í ljósi þess hve framlög Íslands til þróunarsamvinnu eru lág miðað við t.d Norðurlönd telji stofnunin að leggja beri sérstaka áherslu á gæði þróunarsamvinnu. "ÞSSÍ leggur gjarnan gæði eigin starfsemi fram til gagnrýninnar skoðunar, en væntir þess um leið að hið sama gildi þá um aðra þátttakendur og að allir aðilar séu skoðaðir með sambærilegu stækkunargleri."

 

Ráðherra hvetur til umræðu

"Ég hvet áhugafólk um þróunarsamvinnu og þá sem starfa á þessu sviði til að kynna sér vandlega skýrslu Þóris og skiptast á skoðunum um tillögur hans," sagði Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra í frétt ráðuneytisins í sumar. "Sjálfur ætla ég að kynna mér efni hennar frekar á komandi vikum og í kjölfarið taka ákvörðun um næstu skref." 

 

Heimsljós - sem er vettvangur umræðu um þróunarmál - tekur undir með ráðherra og hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum um skýrsluna. Orðið er laust!

 

Athugasemdir Þróunarsamvinnustofnunar Íslands 

Skýrsla Þóris Guðmundssonar lögð fram 

 

Umsóknarfrestur til 15. september:

Kallað eftir umsóknum frá frjálsum félagasamtökum

Stúlka í SOS barnaþorpi í Gulu í Norður-Úganda en skólinn hennar var m.a. reistur fyrir styrk frá íslenskum stjórnvöldum. Ljósm. gunnisal

Utanríkisráðuneytið tekur á móti umsóknum um styrki til félagasamtaka tvisvar á ári samkvæmt  verklagsreglum um samstarf utanríkisráðuneytisins og Þróunarsamvinnustofnunar Íslands við frjáls félagasamtök sem starfa að þróunarsamvinnu, mannúðarstörfum og neyðaraðstoð á alþjóðavettvangi frá 2012.  Í verklagsreglunum er kveðið á um skilyrði fyrir styrkveitingum og viðmið við mat umsókna. 

 

Sækja má um styrk til verkefna sem unnin eru í eigin nafni, verkefna sem vinnast í samstarfi við samtök í móttökulandinu og til verkefna á vegum alþjóðlegra samtaka. 

Um er að ræða síðari úthlutun árið 2014. Einungis er tekið við umsóknum sem skilað er inn á þar til gerðum eyðublöðum.


 

Umsóknareyðublað og verklagsreglurnar ásamt leiðbeinandi gögnum er að finna á vef utanríkisráðuneytisins.

 

Umsóknir skulu sendar á netfangið: felagasamtok.styrkir [hja] utn.stjr.is fyrir  15. september nk.

 

Nánari upplýsingar veitir Svanhvít Aðalsteinsdóttir í síma 545 7435, netfang: svanhvit [hja] mfa.is.

FACIM haldin í fimmtugasta sinn:

Samnorræn þátttaka á vörusýningu í Mósambík

Norrænir fulltrúar - Þórdís Sigurðardóttir umdæmisstjóri ÞSSÍ í miðið - ræða viðArmando Emilio Guebuza forseta Mósambík á sýningunni.

Síðustu vikuna í ágúst fór fram í Maputo alþjóðleg vörusýning sem kallast FACIM (Maputo International Trade Fair) en hún var að þessu sinni haldin í 50. sinn. Engin íslensk fyrirtæki eru í Mósambík en ákveðið var að Ísland tæki engu að síður þátt ásamt hinum fjórum sendiráðum Norðurlandaþjóðanna sem voru með sameiginlegan bás þar sem löndin voru kynnt og verkefni þeirra í Mósambík.

 

Einnig voru níu norræn fyrirtæki með bása. Sameiginleg þátttaka Norðurlandaþjóðanna hafði þann útgangspunkt að varpa ljósi á hugmyndina um sjálfbær fyrirtæki. Er þá átt við fyrirtæki sem er umhugað um framboð á hágæðavörum, þjálfun fyrir starfsfólk, öruggt og heilbrigt vinnuumhverfi, virðingu fyrir umhverfi og ábyrgð allra á virðiskeðjunni, þar með talið að tryggja að starfsemi birgja eða dótturfélaga uppfylli félagslegar kröfur og vistfræðilega ábyrgð.

 

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Norðurlandaþjóðir eða fyrirtæki á þeirra vegum taka þátt í FACIM sýningu en þetta er í fyrsta skipti sem þau taka þátt sem ein heild og fengu á þeim grundvelli viðurkenningu í flokknum "Þátttökulönd í fyrsta skipti" en matið var byggt á hönnun, bæklingum og starfsemi á sýningunni. Verðlaunin eru einnig viðurkenning á viðleitni og samvinnu milli norrænu sendiráðanna og stofnana þeirra við undirbúning og þátttöku í FACIM 2014. Ítalía, Portúgal og Þýskaland unnu einnig til verðulauna fyrir básana sína en alls tóku um tuttugu lönd þátt í ár. 

 

Meðal þeirra sem komu á sýninguna voru forseti landsins, Armando Emilio Guebuza, iðnaðar- og viðskiptaráðherrann, Armando Inroga, ásamt fulltrúum innlendra og erlendra fyrirtækja og almenningi. -KMP, Mapútó

 

Óttast að tuttugu þúsund einstaklingar sýkist af ebólu:
Aukinn kynjamunur eftir því sem faraldurinn dregst á langinn
Ebólu veiran
Ebólu veiran

Ebólufaraldurinn í Vestur-Afríku hefur ekki farið framhjá nokkrum manni. Rúmlega fimmtán hundruð einstaklingar hafa þegar látist og reiknað er með að sýktir geti orðið tuttugu þúsund áður en unnt verður að komast fyrir faraldurinn. 

 

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin kynnti í síðustu viku nýja viðbragðsáætlun stofnunarinnar gegn ebólufaraldrinum en það eru ýmsar athyglisverðar hliðar á þessum sjúkdómi. Guðrún Sif Friðriksdóttir fjallaði á dögunum um kynjaða hlið ebólunnar í grein á knuz.is - og Heimsljós birtir hér brot af umfjöllun hennar með góðfúslegu leyfi höfundar:

 

"Um þessar mundir geisar versti ebólufaraldur sögunnar í Vestur-Afríku, og hafa fjögur lönd; Gínea, Sierra Leone, Líbería og Nígería, lýst yfir neyðarástandi. Í fjölmiðlaumfjöllun um faraldurinn hefur lítið verið fjallað um hvaða áhrif hann hefur á líf íbúa þessara landa og lítið sem ekkert hefur verið minnst á kynjavinkil ebólunnar.

Þegar fyrri ebólufaraldrar eru skoðaðir (en núverandi faraldur er sá tuttugasti og fimmti í sögunni) koma nokkrir kynjavinklar í ljós. Þar sem veiran berst með dýrum eru það oftast karlar sem veikjast fyrst, þar sem það er venjulega í þeirra verkahring að veiða til matar. Eftir því sem líður á og veiran fer að smitast manna (og kvenna) á milli eykst hins vegar hlutfall kvenna meðal smitaðra, enda eru það oftast konur sem hjúkra hinum veiku og eru því í mestri smithættu. Aðrir áhættuhópar eru heilbrigðisstarfsfólk en þar sem hjúkrunarfræðingar eru nær einungis konur eykst einnig hlutfall kvenna sem sýkist af veirunni þegar ekki tekst að vernda heilbrigðisstarfsfólk.  Einnig kemur það fyrir að sjúkrahús séu vettvangur smitunar en þar eru sjúklingar og þungaðar konur sem koma inn til fæðingar eða í mæðraeftirlit í hættu. Vitað er fyrir víst að þungaðar konur hafi smitast með þessum hætti í Súdan 1976 og í Lýðveldinu Kongó 1995 (WHO, 2007).

 

Meginhætta á smitun er hinsvegar í heimahúsum þar sem konur sjá um hina sjúku. Dæmi eru um það frá Kongó 2003 að umönnunarskyldur kvenna voru ekki einungis vegna hefðbundinna kynhlutverka heldur vegna þekkingar á smithættunni sem umönnuninni fylgir. Þegar hópur karlmanna var spurður hvernig þeir forðuðust ebólusmit sögðust þeir sjá til þess að konurnar sæju um að hjúkra hinum sjúku (WHO, 2007).

 

Þegar veikindi vegna veirunnar eru yfirstaðin finna margir fyrrverandi sjúklingar fyrir fordómum í sinn garð, aðallega vegna hræðslu við að fólk geti enn smitast af veirunni, og afleiðingarnar eru útilokun frá samfélaginu. Konur verða að staðaldri frekar fyrir slíkri útilokun og einungis þær verða fyrir algjörri útskúfun eins og að vera reknar til baka í uppvaxtarþorp sín, sem gerðist til dæmis í Úganda 2000-2001 (WHO, 2007).

 

Því lengur sem ebólufaraldur stendur yfir því meiri verður kynjamunurinn. Tölur eru á reiki um núverandi faraldur en tölur frá Líberíu benda þó til þess að á milli 55 og 75 prósent þeirra sem hafa veikst þar í landi séu konur.

 

Fréttaskýring: Africa: How Africa is Losing the Ebola Battle, eftir Amadou Mahtar Ba/ AllAfrica 

Ebola Threatens Food Security/ VOA 

UN: Ebola Could Eventually Infect 20,000 People/ HuffingtonPost 

Desperate WHO Calls Ebola Drug Summit As Crisis Worsens/ TIME 

Lítil saga um von

ABC birti eftirfarandi frásögn á Fésbókarsíðu sinni í gær.
Rose fyrir utan hemili móður sinnar. Ljósm. gunnisal

Rose er þriðja í röð fimm systkina. Hún bjó hjá einstæðri móður í bárujárnskofa í fátækrahverfi í Nairobi borg í Kenía. Fjölskyldan var mjög fáætk, móðirin ólæs, þjáðist af geðsjúkdómi og hafði engar fastar tekjur. Hún var algjörlega ófær um að sjá börnunum fyrir brýnustu nauðsynjum og menntun þeirra var ekki á forgangslistanum. Rose og systur hennar byrjuðu snemma að fara út og betla til að eiga fyrir leigu og brýnustu nauðsynjum. Þegar Rose var u.þ.b. 7 ára og eldri systir hennar Mary 9 ára, gátu þær ekki höndlað veikindi móður sinnar lengur og ákváðu að betra væri fyrir þær yfirgefa heimilið og búa á götunni. 

Purity, lilta systir Rose. Ljósm. gunnisal
Dag einn voru systurnar að betla á bensínstöð og þá stoppaði hvítur bíll til að taka bensín. Við stýrið sat hvít kona. Þær fóru til hennar og báðu um pening. Þessi kona var Þórunn Helgadóttir, forstöðukona ABC í Kenía. Þórunn gaf sig á tal við þær og áttaði sig brátt á því að þessar stúlkur væru í mikilli þörf fyrir öruggt heimili og menntun. Hún spurði þær hvort þeim langaði að fara í skóla. Rose og Marý hrópuðu einum rómi "JÁ". Þórunn keypti svo handa þeim mat og gerði áætlun um að taka þær inn á nýja ABC barnaheimilið. Félagsráðgjafar ABC fylgdu málinu eftir, heimsóttu móður stúlknanna og sáu hversu veik hún var. Þær fóru með hana á sjúkrastofnun fyrir geðsjúka þar sem hún dvaldi næstu sex mánuði þar til henna fór að líða betur. 

Dag einn árið 2010 þegar Rose og Mary fóru með Þórunni að heimsækja móður sína í fátærkrahverfið, uppgötvuðu þær að móðir þeirra hafði fætt stúlkubarn einugis viku fyrr. Sökum fátæktar og veikinda hafði hún yfirgefið nýfætt barnið og skilið það eftir úti í rigningu. Til allrar hamingju var barninu bjargað af frænku og var ákveðið að ABC myndi styðja frænkuna til að annast barnið. Barnungri systir Rose, Purity var hins vegar tekin inn á ABC heimilið til eldri systra sinna. 

Þrátt fyrir að þessi fjölskylda hafi upplifað mikla þjáningu fá stúlkurnar nú þá ást og umhyggju sem gerir þeim kleift að sigrast á þeim kringumstæðum sem þær fæddust inní. Þær búa nú allar þrjár á heimilinu og ganga í ABC skóla og eru frábærir námsmenn. 

ÞAÐ ER ALLTAF VON!

Í dag er Rose 12 ára gömul og meðal bestu nemenda í 6. bekk. Hún er mjög skipulögð, kurteis, hreinskilin og hugrökk. Hún skarar fram úr í öllu sem hún gerir. Hún er hæfileikarík söngkona, semur ljóð og er frábær knattspyrnukona. Í ágúst tók hún þátt í landskeppni Kenískra barnakóra með ABC skólakórnum þar sem kórinn hennar varð í 3ja sæti. Seinna á þessu ári er henni boðið ásamt kórnum til að syngja fyrir forseta Kenía og rödd hennar mun heyrast meðal þúsunda landsmanna. ABC barnahjálp er mjög stolt af Rose og hvetur hana til að halda áfram að nota sína frábæru rödd til að segja sögu sína um VON.



Sóley, Klara og Karl komin til starfa sem starfsnemar ÞSSÍ í samstarfslöndunum

 

Þrír háskólanemar voru ráðnir í starfsnemastöður í samstarfslöndum Íslendinga í tvíhliða þróunarsamvinnu í sumar. Um fimmtíu umsóknir bárust um stöðurnar en um er að ræða fjögurra mánaða starfstíma á umdæmisskrifstofum Þróunarsamvinnustofnunar Íslands, frá 15. ágúst til 15. desember. Þau eru öll komin til starfa og hafa heitið Heimsljósi að skrifa reglulega pistla í blaðið. Fyrsti pistillinn birtist í dag.

 

Til Malaví var ráðin Sóley Ásgeirsdóttir 
sem er að ljúka MSc gráðu í þróunarstjórnun (Development Management) frá London School of Economics and Policical Science (LSE). Hún hefur síðustu misserin unnið að ráðgjafaverkefni á vegum skólans um mannréttindafræðslu og þekkingarskipti milli Afríku og Suður-Ameríku. Sóley hefur ennfremur lokið BA prófi í félagsfræði frá Háskóla Íslands þar sem hún lagði áherslu á rannsóknaraðferðir í félagsvísindum og kynjafræði.

 

Til Mósambík var ráðin Klara Mist Pálsdóttir 
sem hefur lokið diplómagráðu í þróunarfræði en einnig diplómu í hnattrænum tengslum, fólksflutningum og fjölmenningarfræði, báðar gráðurnar frá Háskóla Íslands, en hún hefur auk þess BA gráðu í þjóðfræði. Klara Mist hefur sinnt hjálparstarfi í Kenía og Indlandi, hún bjó í Brasilíu í eitt ár og talar portúgölsku reiprennandi.

 

Til Úganda  var ráðinn Karl Fannar Sævarsson
 sem er í meistaranámi í þróunarfræði og undirbýr lokaverkefni um áhrif fiskveiða Íslendinga og annarra fyrir utan stendur Máritaníu á samfélag íbúanna. Hann er auk þess með BA gráðu í mannfræði frá Háskóla Íslands. Karl Fannar var á síðastliðnu ári í sjálfboðaliðastarfi í Úganda og kenndi flóttamönnum á vegum Candle Light Foundation í Kampala.

 

Kríurnar styrkja Candle Light Foundation

Nokkrar að stúlkunum í skóla Candle Light Foundation. Ljósm. gunnisal

 

Á næstunni munu formaður og gjaldkeri Kríanna, Halldóra Traustadóttir og Sólborg A. Pétursdóttir halda í heimsókn til Úganda. 

 

Kríurnar hafa ákveðið að styrkja samtök þar í landi sem nefnast Candle Light Foundation (CLF) sem voru stofnuð af íslenskri konu, Erlu Halldórsdóttur, árið 2001. Nokkru síðar eða árið 2004 stofnaði Erla síðan samtökin Alnæmisbörn á Íslandi sem hafa það hlutverk að styðja við og stunda fjáröflun fyrir CLF í Úganda. Félagið Alnæmisbörn er hesti styrktaraðili CLF á Íslandi.

 

Markmið Erlu Halldórsdóttur með stofnun CLF var að styðja við menntun bágstaddra stúlkna í Úganda. CLF er skóli þar sem stúlkur geta leitað sér þjálfunar í ýmsum handverksgreinum líkt og kertagerð, saumaskap og tölvunoktun. Utanríkisráðuneytið á Íslandi styrkti nýverið Alnæmisbörn um 10 milljónir króna en samtökin hyggjast byggja skólahús í Kampala fyrir starfsemi CLF. Hingað til hefur starfsemin farið fram í leiguhúsnæði en þar sem leigan er sívaxandi og tekur sífellt meiri skerf af því styrktarfé sem Alnæmisbörn og fleiri samtök og stofnanir styrkja CLF með, var ráðist í þetta verekfni. Skilyrði fylgir hinsvegar styrk utanríkisráðuneytisins: að Alnæmisbörn leggi til 30% mótframlag til verkefnisins. Stendur nú sú fjáröflun yfir en til þess að uppfylla skilyrði utanríkisráðuneytisins verða Alnæmisbörn að reiða fram yfir 4 milljónir króna og eins og er vantar u.þ.b. 3 milljónir.

 

Þar sem markmið Kríanna er að styðja við konur í Afríku, sérstaklega að bættri menntun þeirra, hefur stjórn Kríanna ákveðið að styðja við þetta verðuga verkefni. Gjafakort Kríanna, sem Jesús Loayza hannaði, verða áfram til sölu (kriurnar@kriurnar.is) og þeir sem vilja leggja Kríunum lið við söfnun fyrir Alnæmisbörn/CLF er bankaupplýsingarnar eftirfarandi: 0161-05-70222, kt. 610909-0860.

 

 

 

Áhugavert

-
-
 -
-
BBC News   Uganda Ghetto Kids in step with life changing dance project
BBC News Uganda Ghetto Kids in step with life changing dance project
Are progressive cities the key to solving our toughest global challenges?, eftir Huge Cole/ Oxfamblogg
-
-
-
-
Increasing the impact of EU development policy - an Agenda for Change
Increasing the impact of EU development policy - an Agenda for Change
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-

Fræðigreinar og skýrslur
 

-
-
-
-
-
-
-

Þróunarskýrsla Sameinuðu þjóðanna 2014

 

 

Í sumar kom út skýrslan Human Development Report 2014 - Sustaining Human Progress: Reducing Vulnerabilities and Building Resilience. Samkvæmt skýrslunni hefur þróun lífskjara í heiminum í heildina séð verið jákvæð en allar kynslóðir standa samt sem áður frammi fyrir ógnum og áskorunum sem hafa áhrif velferð þeirra. Hér er bæði átt við náttúruhamfarir sem og ógnir af mannavöldum, að því er fram kemur á vef Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi.

 

"Allir einstaklingar og samfélög eru viðkvæm fyrir áföllum en eru misjafnlega vel í stakk búin til að takast á við þau. Í skýrslunni er farið yfir af hverju svo er og skoðað er í því samhengi varnarleysi (e. vulnerability) og viðnámsþrótt (e. resilience)," segir í fréttinni.

 

Frekari upplýsingar um skýrsluna má finna hér..

 

Fréttir og fréttaskýringar


-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-

Lögin gegn samkynhneigðum ógild

 

Rík­isaks­sókn­ari í Úganda áfrýjaði nýlega til hæsta­rétt­ar þeim dómi stjórn­laga­dóm­stóls lands­ins að ógilda beri um­deild lög um hert­ar refs­ing­ar gegn sam­kyn­hneigðum sem samþykkt voru á þing­inu skömmu fyrir jól í fyrra og staðfest af Museveni for­seta lands­ins snemma árs. Sam­kvæmt þeim áttu sam­kyn­hneigðir yfir höfði sér allt að lífstíðarfang­elsi fyr­ir ít­rekuð brot og alvarleg. Ennfremur var all­ur áróður fyr­ir sam­kyn­hneigð bannaður og í fyrsta sinn var fjallað um lesbíur. Almennir borgarar voru jafnframt skyldaðir til að segja til samkynhneigðra.

 

Í byrj­un síðasta mánaðar­ komst stjórn­laga­dóm­stóll lands­ins að þeirri niður­stöðu að lög­in gengu gegn stjórn­ar­skrá lands­ins. Frum­varpið hafi ekki fengið rétta meðferð á þing­inu þegar það var samþykkt. Aðeins ör­fá­ir þing­menn hafi verið viðstadd­ir kosn­ing­una.

 

Uganda anti-gay law declared 'null and void' by constitutional court/ TheGuardian 

ÚGANDA: LÖG GEGN SAMKYNHNEIGÐ DÆMD ÓGILD/ AmnestyInternational 

Fær hótanir frá heimalandinu/ Mbl.is 

 

 Heita Afríkuþjóðum myndarlegri aðstoð

 

Barack Obama Bandaríkjaforseti heitir því að bandarísk stjórnvöld og fyrirtæki verji 33 milljörðum dala í efnahagsaðstoð og fjárfestingar í Afríku. Hann segir það líka mikilvægt að þjóðarleiðtogar álfunnar taki til í eigin garði. RÚV greinir frá.

Forsetinn hét þessari aðstoð þegar hann ávarpaði leiðtoga um 50 Afríkuríkja á ráðstefnu sem haldin var í síðasta mánuði í Washington. Obama sagði að bandarísk stjórnvöld væru staðráðin í að ýta undir velgengni Afríku - ekki einungis til að fá aðgang að náttúruauðlindum heldur væri ljóst að stærsti auður álfunnar væri fólgin í fólkinu sem þar býr.

 

Nánar

  

UNICEF: Stærsta dreifing neyðargagna á einum mánuði


 

Þegar vika lifði af ágústmánuði hafði Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, UNICEF. sent 1.000 tonn af lífsnauðsynlegum vistum til barna á þeim svæðum í heiminum þar sem hvað mest neyð ríkir. Þetta er stærsta dreifing neyðargagna á einum mánuði í sögu UNICEF, sagði í frétt á vef samtakanna.

 

"Dreifing UNICEF á hjálpargögnum er svar við neyðarkalli í mörgum löndum á sama tíma," segir Shanelle Hall, birgða- og dreifingarstjóri UNICEF.

 

"Það sem er mikilvægast núna er að sjá til þess að mannúðar- og hjálparsamtök geti haldið starfi sínu áfram, að birgðirnar komist á áfangastað, svo þau nái til barna sem þurfa nauðsynlega á þeim að halda."

 

Vegna átakanna í Írak og Ebóla-faraldursins í Vestur-Afríku tryggði UNICEF eins mörg leiguflug og mögulegt var. Á 27 dögum hefur birgðadeild samtakanna í Kaupmannarhöfn sent frá sér 33 neyðarfarma á þau svæði þar sem börn búa við mesta neyð,  sagði í fréttinni.

 

Sameinuðu þjóðirnar og Metro saman gegn loftslagsvá - Græna borgin mín

 

 

Metro fríblöðin og Sameinuðu þjóðirnar hafa tekið höndum saman í baráttunni gegn loftslagsbreytingum, segir í frétt á vef Upplýsingaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna fyrir Vestur-Evrópu.

 

Þar segir að tíundu Ljósmyndasamkeppni Metro International verði hleypt af stokkunum í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York í tilefni af leiðtogafundi samtakanna um loftslagsmál 23. september næstkomandi. 

 

"Blöð Metro International eru lesin á hverjum degi af 18 milljónum manna í 24 löndum, en auk þeirra munu upplýsingaskrifstofur Sameinuðu þjóðanna um allan heim kynna keppnina sem nefnist Ljósmyndaáskorun Metro (Metro Photo Challenge). Samstarf Sameinuðu þjóðanna og Metro er einstakt tækifæri fyrir borgarbúa um allan heim til að svara áskorun um aðgerðir í þessu mikilvæga alheimsvandamáli og nota ljósmyndahæfileika sína í þágu jákvæðra breytinga á heimsvísu," segir í fréttinni.

 

Fram kemur að keppnin er öllum opin hvar í heiminum sem þeir búa. Þemað sem tekur til loftslagsbreytinga er "Græna borgin mín". Ítarlegri upplýsingar um þemu, keppnisflokka og verðlaun, verða gefnar þegar keppnin hefst formlega 23. september. 

 

Upplifun frá Malaví

 

- Sóley Ásgeirsdóttir starfsnemi ÞSSÍ í Lilongve skrifar.

Mannlíf við Malavívatn. Ljósm. Sóley Ásgeirsdóttir


 

Á umdæmisskrifstofum Þróunarsamvinnustofnunar Íslands í Malaví, Mósambík og Úganda starfa þrír starfsnemar sem líkt og undanfarin ár hafa fallist á beiðni Heimsljóss um pistaskrif þann tíma sem þeir dvelja í samstarfslöndum Íslendinga

 

Fyrir einstakling sem hefur aldrei komið til Afríku kemur Malaví svo sannarlega á óvart. Maður reynir að móta sér einhverskonar hugmyndir varðandi fólkið, umhverfið og taktinn. Í mínu tilfelli hafa fyrirfram ákveðnu hugmyndirnar ekki haldið enda vissi ég svo sem ekki við hverju væri að búast. Lilongwe minnir frekar á bæ heldur en borg og flokkast ekki sem hin týpíska höfuðborg með sínum lágreistu húsum og moldarvegum. Malavarnir taka vel á móti svona ''Muzungu'' eins og mér með vinalegum ''Hello, how are you?'' Öllum finnst þeim það líka stórmerkilegt að ég hafi aldrei komið til Afríku og glotta bara yfir ruglinu í mér.

 

Hér í Malaví er ICEIDA með verkefni í Mangochi héraði sem er í um 250 km fjarlægð frá Lilongwe. Að fara niður til Mangochi er upplifun útaf fyrir sig og var ég svo heppin að fá að fylgja með í eina vettvangsferð. Í Lilongwe er myndin af Malaví örlítið skekkt, sérstaklega þar sem meirihluti íbúa býr í sveitunum. Á leiðinni til Mangochi blöstu við litlir moldarkofar, hálf byggð múrsteinshús, hús með stráþökum, hús með engu þaki og jafnvel nokkur hús sem bjuggu svo vel að hafa bárujárnsþak. Allstaðar var fólk;  á hjólum, fótgangandi konur með vatnsfötu á höfðinu og barn á bakinu, börn sem veifuðu í áttina að bílnum og unglingar með systkini sín í eftirdragi.

 

Malavívatn er mikilvæg uppspretta atvinnutækifæra og næringar. Þrátt fyrir að vatnið hafi yfir 1000 tegundir af fiskum er fiskurinn ''Chambo'' einn sá vinsælasti og var hann snæddur í nánast öll mál á meðan á ferðinni stóð. Þegar maður spyr af hverju þeir veiða ekki aðrar tegundir voru svörin yfirleitt: "Af hverju ættum við að gera það?, Þetta hefur alltaf verið svona'' og fleira í þeim dúr. Tíminn virðist ekki vera eitthvað sem Malavar hafa áhyggjur af, það er frekar núið og hvernig morgundagurinn verði. Þó svo að Chambo-inn verði útdauður eftir nokkur ár þá virðist það ekki skipta máli í dag og á meðan hann veiðist.

 

Forréttindi

ICEIDA fjármagnar byggingu vatnsbrunna í þorpum í Mangochi. Þessir brunnar veita mikilvægan aðgang að hreinu vatni fyrir íbúana. Maður á það til að gleyma hversu mikil forréttindi það eru að geta bara skrúfað frá krananum heima og fengið sér hreint vatn. Staðan er ekki jafn auðveld fyrir meirihluta Malava en sem betur fer hefur aðgengi að hreinu vatni stóraukist í gegnum árin. Við einn svona vatnsbrunn fékk ég tækifæri til að hitta konur og börn sem voru að sækja vatn. Það spurðist fljótt út að það væru einhverjir útlendingar að sniglast við brunninn og fljótt fylltist svæðið af börnum og konum, vitaskuld engum körlum, enda sjá þeir yfirleitt ekki um það að sækja vatn. Það var mikið hlegið og eflaust gert grín af okkur sem þarna stóðum. Börnin voru áköf í að tala við okkur, að vísu öll nema eitt, sem hafði örugglega aldrei séð svona geimverur áður og fór að hágráta af hræðslu. Í kjölfarið var fleiri börnum otað að okkur til að athuga hvort að þau færu líka að gráta, sem betur fer slepptu þau því. Einn unglingurinn hrósaði mér (ef hrós má kalla) fyrir að vera með feitan rass. Í kjölfarið trylltust allir af hlátri og ég stóð þarna hálf vandræðaleg yfir aukakílóunum.

 

Það gefur manni nýja sín á sitt eigið líf að fá tækifæri til að upplifa og sjá með eigin augum hvernig meirihluti íbúa jarðar lifa sínu lífi án þess að hafa vatn, salerni, rafmagn og þann munað sem við á Vesturlöndum búum við. Maður á það til að gleyma sér yfir litlum lúxusvandamálum eins og slæmu netsambandi og hvað maður á að hafa í kvöldmatinn. Það er gott að fá raunveruleikan beint í æð og Malaví heldur áfram að heilla mig með sínum hægagangi og endalausum áskorunum. Það er þó ljóst að landið hefur náð töluverðum framförum á undanförnum árum og spennandi að fylgjast með hvað framtíðin geymir.   

 

 

facebook
UM HEIMSLJÓS 

Heimsljós - veftímarit um þróunarmál er gefið út af Þróunarsamvinnustofnun Íslands. Ritinu er ætlað að glæða umræðu um þróunarmál og gefa áhugasömum kost á að fylgjast með því sem hæst ber hverju sinni. Efni veftímaritsins þarf ekki endilega að endurspegla stefnu ÞSSÍ.

 

Skráið ykkur í áskrift á heimasíðunni, www.iceida.is og látið vinsamlegast aðra með áhuga á þróunarmálum vita af tilvist veftímaritsins. Allar ábendingar um efni eru vel þegnar.

 

Þeir sem vilja senda okkur ábendingu um efni eða afskrá sig af netfangalista eru vinsamlegast beðnir um að senda slík erindi á netfangið iceida@iceida.is. Ritstjóri er Gunnar Salvarsson, gsal@iceida.is

.

Við biðjumst velvirðingar á því að geta ekki notað íslenskar gæsalappír í viðtölum en bandarískt sniðmót Veftímaritsins leyfir ekki notkun þeirra.

 

Bestu kveðjur, Útgáfu- og kynningardeild ÞSSÍ

 

ISSN 1670-8105