Heimsljós
veftímarit um þróunarmál
6. árg. 217. tbl.
11. desember 2013

Utanríkisráðherra afstýrði stórfelldum niðurskurði til þróunarmála:

Framlög Íslands verða á næsta ári um 0.22%

 

Ríkisstjórnin tilkynnti í gærkvöldi að fallið hefði verið að hluta frá stórfelldum niðurskurði á framlögum til alþjóðlegrar þróunarsamvinnu. Engu að síður er niðurskurðinn um 460 milljónir króna, eins og fram kom í Morgunblaðinu í morgun og haft eftir fjármálaráðherra. Af þeirri upphæð tekur Þróunarsamvinnustofnun 40% eins og Engilbert Guðmundsson framkvæmdastjóri ÞSSÍ sagði í samtali við Rás 2 í morgun. Ljóst er engu að síður að Gunnari Braga Sveinssyni utanríkisráðherra hefur tekist að verja stofnunina og jafnframt að draga úr fyrirhuguðum niðurskurði sem átti að vera 700 milljónir. Fram kom í viðtalinu í morgun við Enginbert Guðmundsson að niðurskurðurinn muni að mestu leyti til að bitna á verkefnum í jarðhitaleit í Afríku.

  

Engilbert sagði að ÞSSÍ myndi skerða þau verkefni þar sem ekki eru bein mannslíf undir. "Það sem liggur beinast við og myndi vera skaðminnst, sýnist mér er að við drögum úr framlögum í jarðhitaverkefnið sem er nýjasta verkefnið okkar, og er svona það verkefni þar sem ekki eru bein mannslíf undir. Við erum töluvert í verkefnum sem við teljum eins og við segjum, krónu fyrir krónu, við björgum fleiri mannslífum heldur en nokkur önnur notkun á íslensku skattfé. Við viljum vernda þau verkefni eins mikið og við getum, en það er auðvitað synd að þurfa að ganga í þetta jarðhitaverkefni og skera það því þarna erum við að koma íslenskri sérþekkingu á framfæri. En mannslíf versus íslensku sérþekkinguna, þá verð ég væntanlega að velja mannslífin," sagði hann í viðtalinu. 

 

Kaldhæðnin í hámarki, dæmi um viðbrögðin í samfélaginu um tillögur að niðurskurði til þróunarmála.

 

Hávær mótmæli

Allt frá því á sunnudag þegar Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði frá því í þættinum Sunnudagsmorgni í Sjónvarpinu að tillögur væru um nokkur hundruð milljóna niðurskurð til þróunarmála var þeim hugmyndum mótmælt í ræðu og riti í fjölmiðlum og á samskiptavefum. Ýmsir bentu á að hugmyndirnar væru í augljósri þversögn við samþykkta þingsályktartillögu frá því fyrr á árinu um markvissa hækkun framlaga Íslands á næstu árum að viðmiðunarmarki Sameinuðu þjóðanna um 0.7% af þjóðartekjum til þróunarsamvinnu. Miðað við boðaðan niðurskurð til málaflokksins nema framlög Íslands á næsta ári 0.22% af þjóðartekjum.

 

Ólíkt því sem áður hefur gerst þegar framlög Íslands hafa verið skorin niður gætti verulegrar óánægju í samfélaginu, ítarleg umfjöllun var í flestum fjölmiðlum og fjölmargir skrifuðu pistla eða létu til sín heyra á samskiptamiðlum. Heimsljós vísar með krækjum í nokkrar af fréttum og greinum sem birst hafa síðustu dægrin.

 

Þróunaraðstoð fer í heilbrigðiskerfið/ RUV 

Horft í naflann, forystugrein í Fréttablaðinu eftir Ólaf Stephensen 

Skortur á sæmdartilfinningu?, eftir Jón Kalman Stefánsson/ Fréttablaðið 

Íslendingar vilja hjálpa sárafátækum, eftir Ragnar Schram/ Fréttablaðið 

Ég neita að trúa því að við eigum þetta skilið, eftir Illuga Jökulsson/ Eyjan

Málblóm bæta ekki stöðuna, og hvers eiga okkar minnstu bræður að gjalda?/ G.Pétur 

Forgangsröðun ríkisstjórnarinnar dapurleg/ Mbl.is 

Fyrir kosningar: Framsókn styður þá stefnu að hækka gjöldin áfram þar til við náum 0,7% markinu/ Eyjan 

Nær þessi Malavíski 20 kwacha seðill fleiri lækum en Framsóknarflokkurinn? 

Höfum við efni á þróunarsamvinnu?/ Helga Þórólfsdóttir og Birna Þórarinsdóttir á Rás 2/ RUV 

Óeðlilegt að fylgja stefnu fyrri stjórnar/ RUV 

Börn í Malaví hefja landssöfnun til styrktar Íslendingum/ Baggalútur

Gunnar Bragi vonsvikinn með ákvörðun meirihlutans/ Eyjan

Er þörf á sérstakri þróunarsamvinnustofnun?/ Kjartan.is 

Óeining með niðurskurð á barnabótum og þróunarfé/ DV

Höfum aldrei náð markmiðunum/ Fréttablaðið-Vísir 

Skammarlegt, eftir Árna Múla Jónasson/ Eyjan 

Svona gera menn ekki/ Orðið á götunni - Eyjan 

Óheppilegt að hætta við þróunarverkefni/ RUV 

 

Framkvæmdir hefjast strax eftir áramót::
Brýn nauðsyn fyrir nýja fæðingardeild í Mangochi 
Smellið á myndina til að sjá kvikmyndabrotið á Fésbókarsíðu Stefáns Jóns.

Á fundi starfsmanna Þróunarsamvinnustofnunar Íslands og heilbrigðisyfirvalda í Mangochi í Malaví í gær kom fram að senn verður hægt að hefjast handa við byggingu nýrrar fæðingardeildar í þessum 70 þúsund manna bæ sem þjónar einni milljón manna í öllu héraðinu.

 

"Heimsókn í gömlu deildina sýnir að hún er löngu sprungin", segir Stefán Jón Hafstein sviðsstjóri á aðalskrifstofu ÞSSÍ en hann er staddur í Malaví þessa dagana. "Biðdeild fyrir konur sem vænta sín er illa búin og þær liggja á víð og dreif með pinkla sína, sumar langt að komnar og þurfa að bíða vikum saman. Á annarri deild liggja konur sem voru að koma úr keisaraskurði, engin einangrun hér, margar saman á gólfinu í einni kös og sýkingahætti mikil."

 

Stefán Jón segir að á fæðingardeildinni sé þröng á þingi enda upp undir 50 fæðingar á dag sem þarf að sinna, oft hjá konum sem koma langt að vegna erfiðleika á meðgöngu og til að sækja sérhafða þjónustu. Starfsfólkið ber sig vel að sögn Stefáns og er fagmannlegt í svörum. "Við viljum að konurnar komi á fæðingardeildir og fæði börn undir eftirliti fagfólks en ekki úti í sveitum. Það er stefna okkar og stjórnvalda. En það þýðir að gamlar byggingar eins og hér eru löngu sprungnar og anna ekki eftirspurn."

 

Þess er vænst að strax í upphafi næsta árs hefjist framkvæmdir sem Þróunarsamvinnustofnun Íslands styður. "Sú bygging er hluti af miklu stærra verkefni sem nú er komið af stað og þjónar öllu héraðinu. Ný rannsókn á mæðradauða í Mangochi sem ÞSSÍ studdi sýnir miklu verra ástand en opinberar tölur gefa til kynna og margháttaðan vanda. Yfirhjúkrunarfræðingur segir að ný deild með bættum búnaði muni fækka mikið sýkingum. Og það þýðir bara eitt: Mæðurnar lifa, börnin lifa," segir Stefán Jón.

 

 Fimm þúsund manns farast árlega á Viktoríuvatni:

Farsímaskilaboð með veðurspá og viðvörunum 

Frá Kiyindi í Buikwe-héraði í Úganda. Ljósm. gunnisal
 
Talið er að fimm þúsund manns farist árlega á Viktoríuvatni, stærsta stöðuvatni Afríku. Þótt ýmislegt hafi verið gert til að bæta öryggi þeirra sem ferðast um vatnið eru flestir bátanna vanbúnir. Lýsingar á því þegar fiskibátar og ferjur farast með manni og mús á þessu risastóra stöðuvatni minna á sjóslysin við Íslandsstrendur þegar tugir sjómanna fórust í aftakaveðrum, langt fram eftir síðustu öld. Öryggismál sjómanna hafa verið tekin föstum tökum hér á landi en sama verður ekki sagt um öryggismál fiskimanna á Viktoríuvatni.
 

"Vatnið á enga vini. Það getur breyst í ófreskju og gleypt þig jafnvel þótt þú hafir unnið alla ævina á vatninu," segir Francis Kalanda í samtali við Reuters-fréttaveituna. Hann gerir út á litlum báti frá Kiyindi, einu af fiskimannaþorpunum í Buikwe héraði, nýjasta samstarfshéraði okkar Íslendinga. Hann horfir út á blátt en úfið vatnið að morgni dags, nýbúinn að fylla litla vélbátinn sinn af varningi og ferðafólki og ferðinni er heitið útí Lambu eyju í þrjátíu kílómetra fjarlægð. Kalanda veit að veðrabrigði geta orðið snögg á vatninu og hann þekkir til slysa þar sem félagar hans hafa horfið í hvæsandi öldurnar. Hann minnist þess á síðasta ári þegar bátur á leið út í Buvuma eyju hreppti óveður og sökk með manni og mús.

 

Veðrið á Viktoríuvatni hefur löngum þótt óútreiknanlegt. Í seinni tíð eru veðrabrigðin á vatninu tíðari og ofsafengnari að margra mati og vísindamenn telja að þá þróun megi rekja til loftslagsbreytinga. Meðal annars af þeirri ástæðu hefur Veðurstofa Úganda í samstarfi við fyrirtæki, frjáls félagasamtök og sveitarfélög unnið að þróun á kerfi sem sendir veðurspár daglega beint í farsíma í því skyni að aðvara þá sem fara um vatnið á yfirvofandi vá. Íslenskt fyrirtæki, Belgingur, reiknisstofa í veðurfræði, tók meðal annars þátt í verkefninu.

 

Kerfið (Mobile Weather Alert) samnýtir farsímatækni og veðurspákerfi og veitir staðbundnar upplýsingar um veðurlag til fiskimannasamfélaga í Kalangala-héraði sem nær yfir Ssese eyjarnar í norðvesturhluta Viktoríuvatns, héraðs þar sem Íslendingar hafa stutt við héraðsþróun um árabil. Samkvæmt frétt Reuters hafa nítján fulltrúar fiskimannasamfélaganna fengið þjálfun í því að skilja veðurspárnar og hvernig eigi að bregðast við vonskuspám. Þeir hafa farsíma og deila upplýsingum til annarra fiskimanna og vatnsfarenda (sbr. sjófarenda) með smáskilaboðum. Rúmlega eitt þúsund manns hafa óskað eftir því að fá slíkar upplýsingar um veðurspár og viðvaranir.

 

Skammt er síðan þessi öryggisþjónusta hófst en nýleg könnun meðal 200 fiskimanna leiddi í ljós að 96% þeirra töldu að öryggi hefði aukist. Ætlunin er að þessi ókeypis þjónusta verði innan tíðar í boði fyrir öll héruð Úganda sem eiga land að Viktoríuvatni.

 

Úganda, Tansanía og Kenía eiga land að Viktoríuvatni og talið er að rúmlega 3.5 milljónir manna í löndunum þremur byggi afkomu sína, beint og óbeint, á vatninu. Í þeim hópi eru fiskimenn fjölmennnastir en þorri þeirra veiðir á opnum litlum bátum þar sem björgunarbúnaður er ekki upp á marga fiska og fæstir þeirra eru syndir. Sömu sögu er að segja af stórum og smáum ferjum sem oft eru yfirfullar af farþegum og varningi og lenda í miklum háska þegar veður breytist skyndilega með stormi og úfnum öldum.

 

Óveður er helsta ástæða slysa á Viktoríuvatni og allra þeirra dauðsfalla sem verða þegar bátar farast. Með því að veita vatnsfarendum rauntíma upplýsingar um veðurspár geta þeir gripið til viðeigandi öryggisráðstafana, eins og Reuters hefur eftir Micahel Nkalubo hjá úgöndsku veðurstofunni. Hann segir engar vísindalegar sannanir liggja fyrir um tengslin milli tíðari veðrabrigða og loftslagsbreytinga en vísindamenn í austurhluta Afríku vinni að slíkri rannsókn.

 

Nánar

Lethal weather on 'world's most dangerous lake'/ CNN 

Heimasíða: Lake Rescue - East Africa 

LVFO (Lake Victoria Fisheries Organisation) 

Mobile weather service improves safety of fishermen in Uganda/ WMO 

Life Lines at Lake Victoria/ Ericsson 

 

Ísland og þróunarsamvinna - þegin og veitt framlög:
Við erum í plús!

 

Stefán Ingi Stefánsson framkvæmdastjóri Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) birti á Fésbókarsíðu sinni í gær súlurit yfir þegin og veitt framlög til og frá Íslandi í þróunarsamvinnu frá stofnun lýðveldisins 1944 fram til 2012. Hann kemst að þeirri niðurstöðu að Íslendingar hafi verið meiri viðtakendur en veitendur á þessu tímabili - en einmitt núna eru hlutföllin að verða nánast jöfn. Stefán Ingi skrifar:

 

 

"Í mínum huga snýst þátttaka í þróunarsamvinnu um hvernig veröld við viljum búa í og á það bæði við um framlög einstaklinga og hins opinbera. Viljum við leggja okkar af mörkum til að tryggja mannlega reisn og sjálfbærni? Trúum við að allir eigi að njóta grundvallarmannréttinda og tækifæra til að lifa, vaxa og dafna? Umræðan verður hins vegar oft um hvort við sem gefendur fáum eitthvað út úr þessu - en það hugarfar er einmitt lykillinn að slæmri þróunarsamvinnu. 

 

Vegna umræðunnar síðustu daga lét ég verða af því að fara upp á Þjóðarbókhlöðu og gaf mér tíma til að setjast yfir gamla pappíra til að skoða þá þróunarsamvinnu sem Ísland hefur tekið þátt í frá stofnun lýðveldisins - bæði sem gefandi og þiggjandi (hefur verið á planinu lengi). Gerði þetta eftir að hafa hringt í Hagstofuna, utanríkisráðuneytið og ÞSSÍ en enginn virðist hafa yfirlit um hvað við höfum þegið, bara það sem við höfum gefið. Sem er mjög áhuga vert. 

 

Ég komst að stórmerkilegri niðurstöðu! Ef við núvirðum þá aðstoð sem við höfum gefið og þegið á verðlagi ársins 2012 þá höfum við fengið einum milljarði meira en við höfum látið af hendi. VIÐ ERUM Í PLÚS! 

 

Reyndar eru framlög líðandi árs ekki inni í þessu þar sem þau liggja ekki fyrir en líðandi ár er sem sagt það fyrsta í lýðveldissögunni þar sem við getum raunverulega flokkast sem gjafaland. Fram til þessa höfum við verið meiri þiggjendur en gefendur. Mér finnst þetta ótrúlega merkileg staðreynd - eitthvað svo póetísk í ljósi samfélagsumræðunnar. 

 

Tek það skýrt fram að þetta er mín samantekt og útreikningar og þeir eru ekki fullkomnir. En ég er nokkuð nærri lagi. Ég var ekki með góðar tölur um framlög okkar frá 1992 til 1995 en ég tók líka bara stóru styrkina til okkar, eins og Marshall, Alþjóðabankann, UNDP og fleira slíkt. Ég er viss um að það leynast mun fleiri framlög til okkar sem gætu breytt þessari mynd. Það er mikilvægt fyrir okkur sem samfélag að muna eftir þessu og hafa í huga. 

 

Við höfum notið mikillar aðstoðar og velvildar í gegnum árin og ættum að vera þakklát fyrir það. Það er heill hellingur af verkefnum sem voru unnin fyrir þróunarpeninga svo sem Sogn, Sigalda, Laxárvirkun, hafnir á Suðurlandi, vegir út um allt, hitaveita í Reykjavík, áburðaverksmiðjan, fiskimjölsverksmiðjur, sementsverksmiðjan sem og fjármögnun togara og frystihúsa. Á þessu herrans ári, 2013, höfum við sem sagt loks gefið meira en við höfum þegið! Það er fallegt!"


 Kolsvart útlit hjá tíu Afríkuþjóðum:

Óstöðug ríki Afríku þurfa sérstaka aðstoð

 

Þrátt fyrir fréttir um miklar framfarir í Afríku á síðustu árum sýna nýjar rannsóknir að tíu lönd hið minnsta verða næstu áratugina óstöðug eins og það er kallað (fragile state). Slík flokkun er hálfgerð brennimerking fyrir viðkomandi ríki enda hefur slíkur merkimiði í för með sér margvíslegar þrengingar fyrir viðkomandi þjóð í samskiptum við alþjóðasamfélagið, t.d. synjun á lánveitingum og ströng skilyrði af hálfu fjármálastofnana eins og Alþjóðabankans. Þá kallar slík flokkun á fordóma um vanhæfni, fátækt og lélegt stjórnarfar, svo dæmi séu nefnd.

 

Í nýlegri skýrslu frá ISS (Institute for Security Studies) kemur fram að tíu Afríkuríki verði mun lengur en áður var talið í hópi óstöðugra ríkja, eða allt fram til árins 2050. Þessi ríki eru: Kómoreyjar, Miðafríkulýðveldið (CAR), Austur-Kongó (DCR), Vestur-Kongó, Gínea Bissá, Madagaskar, Sómalía, Súdan, Suður-Súdan og Tógó.

 

Fleiri þjóðir eru í dag metnar óstöðugar samkvæmt mati stofnunarinnar, eða alls 26, en tólf þeirra gætu hrist af sér hlekki óstöðugleikans árið 2030 eða fyrr - og fjórar ættu að mati höfundanna að vera komnar upp úr þessari flokkun á árunum milli 2030 og 2050. 

 

Í fyrri flokknum eru þjóðirnar Búrúndí, Kameron, Tjad, Fílabeinsströndin, Eþíópía, Gínea, Malaví, Malí, Máritanía, Níger, Úganda og Simbabve - og fyrrnefndar fjórar þjóðir eru Eritrea, Líbería, Rúanda og Síerra Leone.

 

Fram kemur í skýrslunni að íbúafjöldi óstöðugra ríkja í álfunni verði yfir einn milljarður, eða rúmlega helmingur íbúa álfunnar. Verði hins vegar gripið til viðeigandi úrlausna mætti draga stórlega úr vandanum og þá þyrftu aðeins 16% íbúa Afríku, 372 milljónir, að búa í óstöðugum ríkjum þegar komið er fram á miðja öldina.

 

Africa's fragile states need extra help, eftir Jakkie Cilliers/ ISSAfrica 

Prospects for Africa's 26 fragile countries/ ISSAfrica 

 

Mandela kvaddur  

 

Tugir þúsunda kvöddu Nelson Mandela í Jóhannesarborg í gær en minningarathöfn um hann var haldin á íþróttaleikvangi í borginni að vistöddum fjölda erlendra þjóðhöfðinga. Frelsishetjan og friðarsinninn Nelson Mandela féll frá í síðustu viku, 95 ára að aldri, eins og alþjóð veit. Margir hafa lýst honum sem einu mesta stórmenni okkar daga.  Mandela barðist hatrammlega gegn aðskilnaðarstefnu í Suður-Afríku og var fangelsaður í tuttugu og sjö ár fyrir þá baráttu. Hann var leystur úr haldi árið 1990 og tók við forsetaembætti árið 1994, ári eftir að hann hlaut friðarverðlaun Nóbels.

Guðmundur Eiríksson, sendiherra Íslands gagnvart Suður Afríku, var fulltrúi íslenskra stjórnvalda við minningarathöfnina í gær.

 

In his own words: Nelson Mandela on development/ TheGuardian 

The Voice of Mandela/ NYTimes 

'Mandela's gone. But he will be with us, forever.' Eftir Jay Naidoo/ NAIForum 

Mandela's legacy: peace, but poverty for many blacks/ Reuters

Why is Mandela so special?/ DailyNation

Nelson Mandela fallinn frá/ Kastljós RUV

Lífshlaup Nelsons Mandela/ Spegillinn

IN PICTURES: A tribute to Nelson Mandela/ Reuters 

'Mandela's death ends Africa's liberation struggle', eftir Thandika Mkandawire/ NAI Forum 

 

Málþing um framlag íslenskra kvenna og stjórnvalda til friðaruppbyggingar á stríðsátakasvæðum

 

Mannréttindaskrifstofa Íslands, Jafnréttisstofa, Utanríkisráðuneytið, Rauði krossinn á Íslandi og Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi bjóða til málþings á Þjóðminjasafni Íslands þar sem veitt verður innsýn í störf aðila sem unnið hafa að jafnréttismálum, og þar af leiðandi friðaruppbyggingu, á stríðsátakasvæðum. 

Fjórar konur sem unnið hafa erlendis á eigin vegum fyrir alþjóðastofnanir sem og á vegum Friðargæslu Íslands munu flytja erindi um störf sín. Einnig verða ræddar skuldbindingar íslenskra stjórnvalda á sviði jafnréttis- og friðarmála í þessu samhengi.

Málþingið er lokaþáttur 16 daga átaks gegn kynbundnu ofbeldi þetta árið. 

Aðgangur ókeypis og öllum opinn
 

 

Nánar 

 

Þróunarsamvinnuskýrsla OECD:

Endalok fátæktar


Í árlegri þróunarsamvinnuskýrslu OECD - Efnahags- og framfarastofnunar Evrópu - sem kom út í síðustu viku segir að ný þróunarmarkmið verði að ná til sárafátækra í meðaltekjulöndum eins og á Indlandi og í Kína. Ný þróunarmarkmið ættu að hafa að leiðarljósi valdeflingu fólks.

 

 

Skýrslan - The Development Co-Operation Report 2013: Ending Poverty - er eitt af mörgum ritum sem komið hafa út á síðustu misserum og fjalla um það sem við tekur eftir að tímamörk þúsaldarmarkmiðanna eru liðin, þ.e. eftir 2015. Í skýrslunni kemur fram að heimurinn þurfi að aðlaga sig að nýjum áskorunum á sviði þróunarsamvinnu og hætta að einblína á hagvöxt, sem hafi - þrátt fyrir mikilvægi sitt - reynst  ófullnægjandi í baráttunni gegn því að lyfta 1.2 milljörðum sárafátækra upp úr fátækt.

Fjölmargir málsmetandi sérfræðingar á sviði þróunarmála skrifa í skýrsluna sem fjallar mestapart um tvennt: annars vegar skilgreiningar á því flókna fyrirbæri sem fátækt er og hins vegar hvað þróunarsamvinna - og samvinna þjóða heims - getur áorkað í baráttunni gegn fátækt.

 

New goals to end poverty must empower people, says OECD/ TheGuardian 

-

Can We Really End Poverty?/ Intelligencesquared 

-

To end poverty we also need to ensure equality and sustainability, eftir Erik Solheim/ TheGuardian 

-

Ending poverty is about the politics of power: guest piece for the OECD/ Duncan Green 

 

 

Þrjú SOS barnaþorp í Mið-Afríkulýðveldinu

 

Á vefsíðu SOS barnaþorpanna er frétt um ástandið í Mið-Afríkulýðveldinu þar sem segir:

 

"Algjör upplausn hefur ríkt í Mið-Afríkulýðveldinu frá því í mars þegar uppreisnarmenn, sem kallaðir eru Seleka, lögðu undir sig höfuðborgina Bangui og forsetinn flúði. Uppreisnarmennirnir eru flestir múslimar en meirihluti íbúa er kristinn. Síðan þá hafa átök milli trúarhópa margfaldast og hersveitir múslima og kristinna níðst á almennum borgurum. 

Ótrúleg mannréttindabrot og aukin útbreiðsla sjúkdóma eru fylgifiskar hina blóðugu átaka. Nú þegar rúmlega hálft ár er liðið frá því að uppreisnarhópurinn steypti ríkisstjórn landsins af stóli hafa aðstæður innfæddra aldrei verið verri.

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna samþykkti í gær að heimila hernaðaríhlutun Frakka og nokkurra Afríkuríkja í landinu. Frakkar hafa heitið því að hefja aðgerðir svo fljótt sem kostur er. 

Samkvæmt upplýsingum frá framkvæmdarstjóra SOS í landinu er ástandið skást í höfuðborginni, Bangui, en verst á landsbyggðinni. Átök hafa verið í nágrenni við SOS Barnaþorpið í Bouar en enginn starfsmaður SOS eða börn slösuðust. Nægar matarbirgðir eru til ásamt því að einhverjar verslanir eru enn opnar. Átökin hafa þó haft áhrif á líðan barnanna í barnaþorpinu. 

SOS hefur starfað í landinu síðan í lok níunda áratugsins og er enn að störfum. Í dag eru þar þrjú barnaþorp."

 

Nánar 

 
Áhugavert
 
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
How to improve global health and the effectiveness of development aid
How to improve global health and the effectiveness of development aid
To End Poverty We Need to Understand it Better, eftir Sabina Alkire/ HuffingtonPost


 Aukinn sveigjanleiki þróunarríkja

 

 

Níunda ráðherrafundi Alþjóðaviðskipta-stofnunarinnar (WTO) lauk um síðustu helgi með samkomulagi sem miðar að því að liðka fyrir alþjóðlegum viðskiptum og treysta fæðuöryggi þróunarríkja. Mikilvægasti þáttur samkomulagsins er gerð nýs samningsins um viðskiptaliprun en samningnum er ætlað að auðvelda tollafgreiðslu í viðskiptum með vörur á milli aðildarríkja stofnunarinnar. Standa vonir til þess að aukið gegnsæi og skýrari alþjóðlegar reglur um starfsemi tollayfirvalda geti orðið til þess að hraða tollafgreiðslu og draga talsvert úr kostnaði við milliríkjaviðskipti. Mælir samningurinn m.a. fyrir um mikilvægi þess að hraða sérstaklega tollafgreiðslu á matvörum sem hætt er á skemmdum en undir það ákvæði felldur t.d. tollafgreiðsla á sjávarafurðum.

 

Í samkomulaginu felst einnig að þróunarríkjum er veittur aukinn sveigjanleiki til að grípa til ráðstafana sem miða að því að auka fæðuöryggi þeirra. Einnig mælir samkomulagið um skýrari reglur um hvernig standa skuli að úthlutun tollkvóta hjá aðildarríkjum WTO. Þá náðist samkomulag um ýmsar ráðstafanir sem ætlað er að styðja við þróunarríkin í alþjóðlegum viðskiptum.

 

Nánar 

 
Fræðigreinar

-
-
-
-

Fréttir og fréttaskýringar

-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-

Sex sendifulltrúar Rauða krossins á Filippseyjum
 
"Nú þegar heill mánuður er liðinn frá því fellibylurinn Haiyan lagði hluta Filippseyja í rúst og grandaði um sex þúsund manns hefur þrekvirki unnist í hjálparstarfi Rauða krossins," segir í frétt á heimasíðu Rauða kross Íslands. Þar kemur fram að um 200 alþjóðlegir hjálparstarfsmenn vinni að neyðaraðgerðum og uppbyggingu auk þúsunda starfsmanna og sjálfboðaliða Rauða krossins á Filippseyjum.
 
 
Þrjár krónur af þúsundkalli

 

- eftir Engilbert Guðmundsson framkvæmdastjóra Þróunarsamvinnustofnunar Íslands 

Frá Ssese eyjum á Viktoríuvatni. Ljósm. gunnisal

 

Nokkur umræða hefur orðið um framlög íslenska ríkisins til þróunarsamvinnu, m.a.  í framhaldi af skýrslu hagræðingarhóps ríkisstjórnarinnar. Til að umræðan geti orðið málefnaleg er nauðsynlegt að hún byggist á staðreyndum og þekkingu. Hér að neðan eru tínd til nokkur atriði sem mér þykir mikilvægt að höfð séu til hliðsjónar í slíkri umræðu.

 

Skuldbindingar í þróunarsamvinnu og alþjóðlegur samanburður

Ísland hefur undirgengist alþjóðlegar skuldbindingar um þróunarsamvinnu gegnum samþykktir á vettvangi Sameinuðu þjóðanna (t.d. í Monterrey eftir aldamótin) þar sem efnuð lönd gangast undir að veita 0,7% af vergum þjóðartekjum í aðstoð við fátækar þjóðir. Þetta markmið hefur ítrekað verið staðfest af Alþingi, nú síðast í Þróunarsamvinnuáætlun sem samþykkt var fyrr á þessu ári. Þar er gert ráð fyrir að þetta markmið náist árið 2019. Markmiðið má einnig orða svo að Íslendingar hafi lofað að gefa 7 krónur af hverjum þúsund krónum sem þjóðin hefur í tekjur í það að hjálpa fátækum þjóðum. Semsé 7 krónur af hverjum þúsundkalli!

 

Nokkrar þjóðir, og þá einkum þjóðir sem við berum okkur saman við, hafa fyrir margt löngu náð 0,7% markmiðinu (eða 7 krónur á þúsundkall). Þar má nefna Noreg, Svíþjóð og Danmörku, sem öll eru vel yfir markinu, og Finnland er ekki langt frá 0,7%. Hollendingar gefa einnig 0.7% af þjóðartekjum og Bretar ná því á þessu fjárlagaári. Og svo má ekki gleyma smáríkinu Lúxemborg, en þar fer 1% af þjóðartekjum (tíkall á hvern þúsundkall) í þróunaraðstoð. Þetta litla ríki veitir nær 70 milljörðum króna á ári í þennan málaflokk, og þar af fer helmingurinn til Afríku.

 

Mikið vantar upp á að Ísland standi við skuldbindingar sínar með þeim hætti sem löndin hér að ofan gera. Á yfirstandandi ári nema íslensk framlög 0,26% af þjóðartekjum, þ.e. minna en þrjár krónur af hverjum þúsund, og samkvæmt fjárlagafrumvarpi verður hlutfallið hið sama árið 2014. Samkvæmt Þróunarsamvinnuáætlun átti þetta hlutfall að fara upp í 0,28% á næsta ári og þar með aðeins nær þremur krónum af þúsundkallinum.

 

Þróunarsamvinna á fjárlögum - innan við 1%

En hversu stór hluti af fjárlögum ríkisins fer til þróunarsamvinnu? Samkvæmt fjárlagafrumvarpi fyrir 2014 verða opinber framlög til þróunarmála í gegnum utanríkisráðuneytið 4,1 milljarður. Þar til viðbótar koma nokkur hundruð milljónir í grunnframlög til alþjóðstofnana. Skatttekjur ríkisins eru áætlaðar 534 milljarðar (heildartekjur nokkrum tugum milljarða meiri). Það fara þannig um það bil 8 krónur af hverjum 1000  í skatttekjur ríkisins til þróunarmála, minna en 1%. Til að ná 0,28% af þjóðartekjum, eins og gert er ráð fyrir í Þróunarsamvinnuáætlun, miðað við sömu forsendur, þyrftu framlögin að hækka um 300 - 400 milljónir frá núverandi fjárlögum. Sú upphæð nær ekki krónu af hverjum þúsundkalli í skatttekjur.

 

Samdráttur framlaga í kjölfar efnahagshruns

Fyrir hrunið 2008 voru framlög Íslands hærri og voru hæst komin upp í 0,4% af þjóðartekjum (4 krónur af hverjum 1000 í þjóðartekjur). Eftir hrun var meira skorið niður í þessum málaflokki en nokkrum öðrum og árið 2012 var hlutfallið komið niður í 0,2%. Í umræðum um framlögin má oft heyra að við höfum ekki efni á að veita þróunaraðstoð því hrunið hafi farið svo illa með efnahag landsins. Í því sambandi má nefna að fleiri þjóðir en Íslendingar hafa lent í efnahagslegum hremmingum án þess að bregðast við með sama hætti að því er varðar aðstoð við fátækar þjóðir.

 

Írar eru nærtækt dæmi. Þeir fóru líklega verr út úr hruninu en Íslendingar, en brugðust við með mun minni samdrætti. Írar skáru þróunaraðstoð niður úr 0,57% af þjóðartekjum í 0,51%. Íslendingar skáru aðstoðina úr 0.4% í 0,2%. Mér er ekki kunnugt um hliðstæðan niðurskurð meðal þeirra þjóða sem taka þátt í alþjóðlegri þróunarsamvinnu.

 

Finnar lentu í enn meiri hremmingum í efnahagskreppunni upp úr 1990, með hruni Sovétríkjanna og fleiru. Atvinnuleysi þar fór í nær 20% og í 50% í sumum byggðum. Þeir skáru niður þróunaraðstoð, en fóru þó aldrei undir 0,3% og hafa aukið framlög jafnt og þétt síðan og nálgast 0,7% markið.

 

Viðhorf þjóðarinnar

Möguleikar Alþingis og ríkisstjórnar til að standa við skuldbindingar um framlög til þróunarsamvinnu eru auðvitað háðir því að stuðningur sé við það meðal þjóðarinnar. Vitað er að Íslendingar bregðast jafnan vel við kalli hjálparsamtaka þegar voða ber að. En hvað með opinbera þróunaraðstoð? Í sumar var gerð vönduð skoðanakönnun þar sem einmitt var spurt um viðhorf þjóðarinnar til þessa málaflokks. Í ljós koma að yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar er mjög hlynntur þróunarsamvinnu og íslenskum framlögum til hennar. Um það bil 80% telja hana skila árangri, og jafn hátt hlutfall vill að Íslendingar sinni þróunarsamvinnu. Þá var áhugavert að sjá að nær 90% aðspurðra vildu ýmist auka þróunarsamvinnu eða halda henni óbreyttri. Lítill minnihluti vildi draga hana saman.

 

Árangurinn

Það er eðlileg og sjálfsögð krafa að þeir fjármunir sem veitt er í þróunarsamvinnu komi að gagni og skili árangri. Þróunarsamvinnustofnun Íslands telur sig geta sýnt fram á að fjárframlögin hafa skilað sér í menntun barna, ekki síst stúlkna, vegna framlaga í menntamálum. Þau hafa skilað sér í lestrarkunnáttu fullorðinna gegnum fullorðinsfræðslu. Þau hafa skilað sér í minni mæðra- og barnadauða gegnum heilbrigðisverkefnin. Þau hafa skilað sér í betra heilbrigði vegna færri sjúkdóma af völdum lélegs drykkjarvatns gegnum vatnsverkefnin. Þá hafa þau skilað sér í meiri tekjum og betri afkomu fiskimannasamfélaga gegnum fiskimálaverkefnin. Og þau munu skila sér í auknum aðgangi að rafmagni í fátækum löndum í gegnum jarðhitaverkefni.

 

 

Alþjóðlegt kosningaeftirlit í Mósambík 2013

- eftir Hjördísi Guðmundsdóttur og Lilju Dóru Kolbeinsdóttur á umdæmissskrifstofu ÞSSÍ í Mapútó

Myndir frá kjördegi í sveitarfélaginu Sussundenga. Ljósm. Martin Hesse

 

Þann 20. nóvember voru sveitarstjórnar-kosningar haldnar í Mósambík, þær fjórðu í sögu lýðveldisins. Í landinu eru nú 53 sveitarfélög með sveitar-stjórnarréttindi, þar af 10 staðir sem hlutu réttindin á árinu. Kosningarnar voru tvískiptar, en kosið er um forseta sveitarstjórnar og sveitarstjórn á sitthvorum kjörseðlinum.

 

Evrópusambandið, auk Sviss, Noregs og Íslands, og bandaríska sendiráðið skipulögðu alþjóðlegt kosningaeftirlit með atburðinum í ár. Sami stjórnmála-flokkurinn, FRELIMO (Frelsishreyfing Mósambík), hefur setið í valdastól landsins síðan 1975 og aðrir stjórnmálaflokkar hafa átt erfitt uppdráttar vegna ítaka flokksins innan stjórnsýslunnar og ríkisstofnanna. 18 flokkar voru í framboði fyrir kosningarnar í ár, þar af tveir á landsvísu, annars vegar FRELIMO og hins vegar MDM (Lýðræðishreyfing Mósambík). MDM hefur undanfarin ár fært sig upp skaftið, í síðustu kosningum hlaut flokkurinn flest atkvæði í tveimur sveitarfélögum á meðan FRELIMO sat við völd í hinum 41. RENAMO (Andspyrnuflokkur Mósambík), sem sögulega hefur verið helsti stjórnarandstæðisflokkur landsins, ákvað að sniðganga kosningarnar í ár.

 

Markmið alþjóðlegs kosningaeftirlits var að safna haldbærum upplýsingum um framkvæmd og trúverðugleika kosninganna auk þess sem vonir stóðu til að nærvera útsendra eftirlitsaðila yki líkurnar á réttmætum og heiðarlegum kosningum. Tveir starfsmenn umdæmisskrifstofu Þróunarsamvinnustofnunnar Íslands/sendiráðs Íslands í Maputo tóku þátt í eftirlitinu á vegum Evrópusambandsins. Lilja Dóra Kolbeinsdóttir, verkefnastjóri, stóð vaktina í Mafalala hverfi höfuðborgarinnar Maputo og Hjördís Guðmundsdóttir, starfsnemi, fór til Sussundenga í Manica fylki sem er eitt þeirra tíu nýju sveitarfélaga sem hlutu sveitarstjórnarréttindi í ár.

 

Töluverður undirbúningur var skipulagður vegna eftirlitsins í aðdraganda kosninganna. Danski sendiherrann í Mósambík bauð til fyrirlestrar með Luis de Brito, sem er einn helsti sérfræðingur í lýðræðissögu landsins. Þar rakti de Brito stjórnmálasöguna, útskýrði stöðu samtímans út frá akademísku sjónarhorni, lýsti hlutverki opinberra kosningaaðila og svaraði spurningum áheyrenda. Stjórnmálagreining Luis de Brito gaf greinargóða mynd af þróun lýðræðis í landinu og mikilvægi eftirlits og hvatningar að hálfu samstarfslanda ríkisstjórnar Mósambík. Rétt fyrir kosningar hélt bandaríska sendiráðið í samstarfi við USAID erindi um öryggismál á vettvangi og þjálfun og samræmingu eftirlitsaðila voru skipulagðir af Evrópusambandinu. Eftirlitsaðilar voru skráðir hjá CNE, Landskjörstjórninni, og fengu auðkennisspjald til að bera um hálsinn undirritað af yfirmanni CNE.

 

Sussundenga eitt af nýju sveitarfélögunum

Þar sem Sussundenga er nýlega orðið sveitarfélag voru sveitarstjórnarkosningarnar í nóvember þær fyrstu í sögu staðarins. Hjördís Guðmundsdóttir fór ásamt hagfræðingi hjá sænska sendiráðinu, til að safna gögnum um stöðu kosninganna þar og voru þau einu alþjóðlegu eftirlitsaðilarnir í sveitarfélaginu. Sussundenga er í fylkinu Manica og er staðsett skammt frá landamærum við Simbabve. Teymið byrjaði á að mæta til fundar með yfirkjörstjórn fylkisins, auk yfirstjórnar STAE (kosningaafgreiðslunefndin). Auk þess var spjallað stuttlega við frambjóðendur FRELIMO og MDM í höfuðstað fylkisins, Chimoio. Tilgangur fundanna var að taka púlsinn á stöðunni, spyrjast fyrir um hvort einhverjar athugasemdir hefðu verið gerðar í kjölfar kosningabaráttunnar og hvort sérstök áhyggjuefni væru fyrir hendi.

 

Fundir af sama toga voru skipulagðir í Sussundenga með stjórnum sömu stofnanna þar. Þar að auki ræddi teymið við starfsmenn mósambíska ríkisútvarpsins í bænum, lögreglustjórann og  hið óháða OE (innlendir kosningaeftirlitsaðilar) sem sendu út fjóra einstaklinga til eftirlits í Sussundenga. Allir sem rætt var við bjuggust við friðsamlegum kosningum og sammældust um að kosningabaráttan hefði gengið skakkafallalaust fyrir sig, að frátalinni lítilsháttar aðkomu lögreglunnar gegn framboði MDM í kosningabaráttunni.

 

Þegar kjörstaðir opnuðu klukkan sjö að morgni 20. nóvember höfðu langar raðir myndast af prúðum og þolinmóðum kjósendum. Í hverri kjördeild voru fimm starfsmenn sem höfðu umsjón með kosningum deildarinnar. Framboðsflokkarnir tveir höfðu sitthvorn eftirlitsaðilann staðsettan í hverri kjördeild og á hverjum kjörstað var eftirlitsteymi frá fylkiskjörstjórn. Ekki var annað að sjá en starfsfólk kjördeildanna legði metnað sinn í að framfylgja fyrirmælum og reglum kosningalaganna og þrátt fyrir reynsluleysi voru störf þeirra til fyrirmyndar. Eftir lokun kjörstaða klukkan sex höfðu kjörnefndastarfsfólkið einnig talningu atkvæða í sinni umsjá, sem gekk hægt en þó vel.

 

Í sveitarfélaginu voru fjórir kjörstaðir og 19 kjördeildir með samtals 12.351 skráða kjósendur. Teymið heimsótti alla kjörstaði og 15 kjördeildir. Vel var tekið á móti íslenska og sænska eftirlitinu í Sussundenga og bæði starfsfólk kosningastofnanna sem og kjósendur sýndu mikið þakklæti í garð utanaðkomandi eftirlitsins. Þekkingarleysi kjósenda á kosningaferlinu var áberandi auk þess hve margir kjósendur voru ólæsir. Starfsmenn kjördeilda þurftu því að útskýra kjörseðilinn fyrir meirihluta kjósenda. Hlutfall kvenna og karla á kjörstað virtist jafnt auk þess sem fulltrúar beggja kynja skipuðu kjörnefndirnar og mikið var af ungu starfsfólki. Ekki var að sjá að aldurskipting kjósenda í Sussundenga væri skökk að öðru leyti.

    

Mafalalahverfið í Mapútó

Á nýlendutímanum voru Mósambíkönum af afrískum uppruna ekki leyft að byggja varnaleg húsnæði á "steypunni" svokallaðri eða í Maputoborg þar sem Portúgalarnir bjuggu. Mafalala er því elsta úthverfi Maputoborgar þar sem hús eru byggð að mestu úr bárujárni, og þröngar götur og sund eru einkennandi. Það mætti líkja Mafalala við gömlu "braggahverfin" eða jafnvel 101 Reykjavík. Þrátt fyrir bráðabirgðalegt yfirbrag Mafalala, er hverfið vagga lýðræðissögu landsins.  Mafalala var miðpuntur sjálfstæðisbaráttunnar á nýlendutímanum og var heimili þjóðarhetja og skálda. Meðal þeirra voru tveir af fyrrum forsetar landsins eða þeir Samora Machel og Joaquim Chissano.

 

Eftirlitsteymið í Mafalala var ásamt Lilju Dóru Kolbeinsdóttur, sendiherra Danmerkur og sendiráðunautur spænska sendiráðsins í Maputo. Líkt og í Sussundenga fór teymið á vettvang deginum fyrir kosningarnar til að kynnast staðháttum og ræða við fulltrúa flokkanna sem voru í framboði. Aðeins FRELIMO og MDM voru með kosningaskrifstofur í hverfinu. Alls voru tveir kjörstaðir með sex kjördeildum hver og um 9.600 manns á kjörskrá. Það sem var einna áhugaverðast að fylgjast með í Mafalala var hvort unga kynslóðin eða nýir kjósendur myndu mæta á kjörstað og hvaða áhrif það hefði á úrslit kosninganna. Kosningaferlið, allt frá opnun til lokunar kjörstaða og talning í kjördeild, gekk að mestu vel fyrir sig, þó hægt væri.

 

Eftir talningu í kjördeild var kjörkössum safnað saman og sendir til CNE í Maputo til endur talningar. Eftir að allir kjörkassar höfðu ratað í hendur Landskjörstjórnar hófst endurmat á auðum og ógildum seðlum. Lilja Dóra slóst í för með evrópskum kollegum í eftirlit, enda endurmatsferlið ekki síður mikilvægt en kosningarnar sjálfar, sérstaklega hjá atkvæðum þeirra sveitarfélaga þar sem mjótt var á muninum.

 

Niðurstöður kosninganna

Kosningarnar í einu sveitarfélaganna, Nampula, voru dæmdar ómerkar vegna galla á kjörseðlum sem þangað voru sendir og gengu íbúar þar aftur til kjörstaða 1. desember sl. Vopnuð átök hafa geisað um miðhluta landsins í nokkrar vikur og töluverð harka var í lögreglu í Beira og Quilimane, þar sem stjórnarandstöðuflokkurinn MDM sat við völd, og hélt þeim.

 

Aukið menntastig landsmanna, bætt aðgengi að upplýsingum, og lýðræðisreynslan hefur lagt sitt að mörkum að fjölbreyttara stjórnmálalandslagi Mósambík, eins og niðurstöður kosninganna sýna, en lokatölur voru gerðar opinberar þann 5 desmeber sl. Af 53 sveitarstjórnum, bar helsti stjórnarflokkur landsins, FRELIMO, sigur úr býtum í 50, og tiltölulega nýmyndaða Lýðræðishreyfingin MDM hlaut sigur í þremur. Naumt var þó á niðurstöðunum í nokkrum sveitarfélögum.

 

Taflan hér að neðan sýnir skiptingu atkvæða í þeim 17 sveitarfélögum þar sem báðir flokkarnir hlutu að minnsta kosti 30% gildra atkvæða í sveitarstjórnarkosningunum. Þegar tölurnar (sem eru prósentutölur) í töflunni eru skoðaðar sést vel hvernig hugmyndir lýðræðisins eru byrjaðar að marka kosningahegðun landsmanna, en atkvæði skiptast jafnar á milli flokka en áður. Sjálfstæð og gagnrýnin hugsun kjósenda á kjördag er ein lykilforsenda heilbrigðs lýðræðis, sem veitir stjórnmálaflokkunum og kjörnum fulltrúum aðhald í gjörðum þeirra og hegðun á kjörtímabilinu. Stjörnumerkt sveitarfélög eru höfuðstaðir fylkjanna, en þar er hlutfall læsra að jafnaði hærra og aðgengi að menntun betra en til sveita.

 

Nákvæmar tölur um dreifingu atkvæða fyrir sveitarstjórakosningarnar fylgdu því miður ekki opinbera skjalinu frá Landskjörstjórn, einungis fylgdi prósentutala sigurvegarans. Nálgast má opinberar tölur landskjörstjórnar frá kosningu sveitarstjórna hér og sveitastjóra hér.

 

Sveitarstjórnarkosningar í Mósambík 2013

Sveitarstjórn %

Sveitarstjóri %

 

Sveitarfélag

FRELIMO

MDM

FRELIMO

MDM

 

Maputo*

56,42

40,53

58,44

 

 

Matola*

54,05

43,77

56,53

 

 

Marrumeu

55,70

42,05

51,62

 

 

Nhamatanda

64,03

35,97

 

63,18

 

Gorongosa

57,01

42,99

56,52

 

 

Beira*

31,71

67,58

70,44

 

 

Gondola

64,78

33,87

64,56

 

 

Chimoio*

53,39

46,61

53,07

 

 

Mocuba

52,29

47,71

51,05

 

 

Maganja da Costa

59,44

40,56

59,85

 

 

Milange

51,34

47,62

50,35

 

 

Gurué

51,49

48,51

50,49

 

 

Alto Molócuè

53,65

47,35

52,06

 

 

Quelimane*

33,36

65,59

68,21

 

 

Ulonguè

63,99

36,01

63,00

 

 

Tete*

65,31

34,69

65,71

 

 

Lichinga*

66,40

33,60

66,00

 

 

* Fylkishöfuðstaðir

 

 

Hið unga lýðræði í Mósambík heldur upp á tuttugu ára afmælið sitt á næsta ári, sagan er því stutt og reynslan takmörkuð. Lýðræði er álitið ein helsta undirstaða samfélagsþróunar, það eflir gegnsæi stjórnarfarsins og veitir því aðhald í gegnum rödd þjóðarinnar. Í löndum þar sem stoðir lýðræðisins eru veikar, eins og í Mósambík, er dýrmætt að "reynsluboltar lýðræðisins" aðstoði við eftirlit á því að umboð kjósenda sé virt af stjórnvöldum í gegnum sanngjarnar, friðsamar og heiðarlegar kosningar.    

 

 

facebook
UM HEIMSLJÓS 

Heimsljós - veftímarit um þróunarmál er gefið út af Þróunarsamvinnustofnun Íslands. Ritinu er ætlað að glæða umræðu um þróunarmál og gefa áhugasömum kost á að fylgjast með því sem hæst ber hverju sinni. Efni veftímaritsins þarf ekki endilega að endurspegla stefnu ÞSSÍ.

 

Skráið ykkur í áskrift á heimasíðunni, www.iceida.is og látið vinsamlegast aðra með áhuga á þróunarmálum vita af tilvist veftímaritsins. Allar ábendingar um efni eru vel þegnar.

 

Þeir sem vilja senda okkur ábendingu um efni eða afskrá sig af netfangalista eru vinsamlegast beðnir um að senda slík erindi á netfangið iceida@iceida.is. Ritstjóri er Gunnar Salvarsson, gsal@iceida.is

.

Við biðjumst velvirðingar á því að geta ekki notað íslenskar gæsalappír í viðtölum en bandarískt sniðmót Veftímaritsins leyfir ekki notkun þeirra.

 

Bestu kveðjur, Útgáfu- og kynningardeild ÞSSÍ

 

ISSN 1670-8105