Heimsljós
veftímarit um þróunarmál
6. árg. 213. tbl.
13. nóvember 2013

Ekki örvænta - sannleikurinn um mannfjölda:

Fimm staðreyndir um breyttan og betri heim

Hans Rosling's Yardstick of Wealth - Don't Panic - The Truth About Population - BBC Two
Hans Rosling's Yardstick of Wealth - Don't Panic - The Truth About Population - BBC2

 

Mörgum er ókunnugt um þær gífurlegu framfarir sem flestar þjóðir hafa upplifað á síðustu áratugum - eða ef til vill hafa fjölmiðlar ekki greint frá þeim. En með eftirfarandi staðreyndum geta allir breytt sjónarhorni sínu á heiminn. - Eitthvað á þessa leið hóf Hans Rosling þátt sinn á BBC á dögunum sem kallaðist: Don´t Panic - The Truth About Population (Ekki örvænta - sannleikurinn um mannfjölda).

 

Hans Rosling er heimskunnur og eftirsóttur fyrirlesari, sænskur læknir og prófessor í heilbrigðismálum, stofnandi Gapminder, "maðurinn sem fær tölfræðina til að syngja!" eins og The Telegraph sagði í fyrirsögn í vikunni.

 

Fyrsta staðreynd: sú hraða mannfjölgun í heiminum sem einkenndi síðustu öld er að stöðvast. Rosling segir að það sé að mestu leyti ósögð saga að jafnt og þétt sé að draga úr fjölgun mannkyns. Fyrir fimmtíu árum hafi konur í heiminum að jafnaði átt um fimm börn. Sú tala sé nú komin niður í 2.5 börn - og tölurnar séu enn á niðurleið. Hann þakkar þessa þróun aukinni menntun kvenna, aðgengi að getnaðarvörnum og fóstureyðingum, auk þess sem fleiri börn lifi nú eða áður.

 

Önnur staðreynd: Ekki lengur hægt að tala um þróuð lönd og þróunarríki. Rosling segir að fyrir hálfri öld hafi verið hægt að skipta heiminum í tvennt, þróuð lönd og þróunarríki. Þau hafi verið ólík um flest. Annar ríkjahópurinn hafi verið ríkur og hinn fátækur, í öðrum hópnum hafi verið litlar fjölskyldur, í hinum stórar. Í öðrum hópnum voru lífslíkurnar miklar, í hinum litlar. Milli þessara tveggja hópa voru nánast engar þjóðir, segir Rosling. Nú lítur heimurinn allt öðruvísi út: flestar þjóðir í miðjunni.

 

Þriðja staðreynd: Fólk er heilsuhraustara. Fyrir hálfri öld voru lífslíkur að meðaltali í heiminum 60 ár. Þær eru núna 70 ár. Rosling segir að flestar þjóðir heims hafi bætt heilsufar umfram efnahag á síðustu áratugum. Hann nefnir sérstaklega að auknar lífslíkur megi rekja til þess að dregið hefur stórlega úr barnadauða. Þó deyi sjö milljónir barna áður en fimm ára aldri er náð, af þeim 135 milljónum barna sem fæðast ár hvert.

 

Fjórða staðreynd: Stúlkur fá betri menntun. Mestu breytingarnar í lífi stúlkna og ungra kvenna er líkast til aukin menntun, segir Rosling. Hann bendir á að á heimsvísu hafi karlmenn á aldrinum 25-34 ára verið að jafnaði um átta ár í skóla, konur á sama aldri aðeins skemur, eða sjö ár. Af þeim 60 milljónum barna í heiminum sem sækja ekki grunnskóla eru langflest utan skóla vegna sárafátæktar - fjölskyldan þarf á þeim að halda í vinnu.

 

Fimmta staðreynd: Endalok sárafátæktar er í sjónmáli. Sárafátækt er skilgreind sem tekjur undir 1.25 dollurum á dag - 150 krónum íslenskum. Í veruleikanum þýðir þetta að fjölskyldan hefur enga vissu fyrir því hvort nóg verði að borða á morgun, segir Rosling. Börnin þurfa að vinna í stað þess að sækja skóla, þau deyja úr læknanlegum sjúkdómum eins og lungnabólgu, niðurgangspestum og malaríu. Og fyrir konurnar þýðir sárafátækt að barneiginum er ekki stýrt og að börnin verða sex eða fleiri. Hann bendir á tölur Alþjóðabankans sem sýna að sárafátækir í heiminum voru tveir milljarðar árið 1980 en rétt liðlega milljarður í dag. "Þótt margir í heiminum búi enn við mjög lágar tekjur eru sex milljarðar af sjö fyrir ofan mörk sárafátæktar," segir Rosling og bætir við að það sé markverð breyting. Líkur bendi til þess að síðasti milljarðurinn lyfti sér upp úr fátæktinni á næstu áratugum.

 

Hans Rosling: How much do you know about the world? 

Stats superstar Hans Rosling sizes up the planet and says 'Don't Panic'/ BBC 

Global data: the importance of perspective, eftir Mark Smith/ OpenLearn 

 

Skype-fundur nemenda milli heimsálfa:

Upphaf að langtímasambandi milli Íslands og Gambíu

 

 

Í síðustu viku áttu nemendur í Melaskóla og nemendur í Gambíu samverustund yfir netið með aðstoð Skype  og svöluðu forvitni sinni um ólíka heima. Heimsljós leit í heimsókn í Melaskóla og fylgdist með samskiptunum eins og sjá má á kvikmyndabrotinu hér að ofan.  Fyrst var ætlunin að ná saman uppúr klukkan tíu um morguninn en þá var netsambandið ekki nógu gott og því ákveðið að reyna aftur klukkustund síðar.

 

Börnin í báðum bekkjunum höfðu undirbúið sig vel fyrir þessi samskipti milli heimsálfanna og sent spurningar sín á milli um land og þjóð. Á blaði sem margir í bekknum hafa í höndunum eru um þrjátíu spurningar. Uppúr klukkan ellefu er komið á samband og bekkurinn í Gambíu birtist á tjaldinu, myndgæðin eru þokkaleg en hljóðið misgott. Og svo standa íslensku krakkarnir upp hver á fætur öðrum og bera fram spurningar; hversu stórt er landið ykkar?; hvenær fenguð þið sjálfstæði?; hafið þið séð snjó?; hvaðan fáið þið drykkjarvatn?; hvenær eignast konur sitt fyrsta barn? og hvernig hljómar þjóðsöngurinn ykkar?

 

Þegar gambísku krakkarnir eru búnir að syngja þjóðsönginn er ljóst að íslensku krakkarnir þurfa að svara í sömu mynt. Íslenski þjóðsöngurinn er ekki auðveldasta lagið í söngbókinni og maður veltir fyrir sér hvort tólf ára börn komist í gegnum það verkefni að syngja þjóðsönginn - en áhyggjurnar eru óþarfar.

 

Krakkarnir hafa lært margt um Gambíu, bæði á undirbúningstímanum og á þessum morgni, þau vita að landið er lítið að flatarmáli, rúmlega fjögur þúsund ferkílómetrar, þjóðin fékk sjálfstæði frá Bretum árið 1965, íbúarnir eru innan við tvær milljónir, flestir múhameðstrúar, en kannski kemur mest á óvart að nemendurnir í bekknum eru á mismunandi aldri, frá tólf til sautján ára, allt eftir því hvenær skólagangan hófst. Bekkurinn er Bakoteh, skammt frá höfuðborg Gambíu, Banjul, en SOS rekur fjölmörg  barnaþorp í Afríku, þar af tvö í Gambíu. Og eftir velheppnaðan Skypefund er ákveðið að auka samskiptin og halda annan sambærilegan fund áður en langt um líður.

 

Þetta er upphaf að langtímasambandi.

 

Utanaðkomandi aðstæður hafa áhrif á brottfall úr skóla:

Þurrkatíð - og stúlkunum er haldið heima við vinnu

 

Hagfræðingar telja mikilvægt að draga úr kynjamisrétti í menntun til að stuðla að þróun. Þeir telja að þróunarríki sem mennta ekki stúlkur takmarki hagvöxt því slíkt sé sóun á mannauði. Eitt af undirmarkmiðum þúsaldarmarkmiðanna er að útrýma kynjamun í menntun fyrir árið 2015 og þjóðir eins og Kína, Bangladess og Indónesía eru líklegar til að ná því marki - en Afríkuþjóðir ekki. Frá þessu greinir í The Economists þar sem fram kemur að fyrir hverja 100 drengi sem voru á skólabekk í framhaldsskólum í álfunni voru aðeins 82 stúlkur. Verja þarf meiri fjármunum í menntun stúlkna og í greininni segir að stofnanir Sameinuðu þjóðanna styrki stúlkur til náms í fimmtán ríkjum i sunnanverðri Afríku, auk þess sem frjáls félagasamtök hafi í vaxandi mæli aukið stuðning við menntun stúlkna.

 

Hins vegar er slíkur fjárstuðningur einn og sér engin trygging fyrir því að kynjamunurinn hverfi því eins og Martina Björkman-Nyqvist bendir á í nýrri rannsókn hafa utanaðkomandi aðstæður áhrif á skólagöngu stúlkna. Hún bar saman tölur um mætingu barna í sveitaskólum í Úganda yfir 24 ára tímabil við gögn um úrkomu og komst að raun um að á þurrkatímabilum dró miklu meira úr skólasókn stúlkna en pilta. Þetta mynstur varð meira áberandi eftir að skólagjöld voru afnumin í ríkisskólum Úganda árið 1997. Rannsókn Martinu leiðir í ljós að jafnvel þegar úrkoma minnkar lítilsháttar, um 15%, leiðir sú breyting til þess að skólasókn stúlkna í sjöunda bekk dregst saman um 5% en hefur engin áhrif á skólasókn pilta. Námsárangurinn er í samræmi við mætingarnar, stúlkurnar sem komu ekki í skólann á þurrkatímanum, stóðu sig mun verr en strákarnir við lok grunnskólans.

 

Af hverju stelpurnar?

En afhverju sækja stúlkur síður skóla en piltar á þurrkatíma? Í grein Economists segir að 80% vinnuaflsins í Úganda séu smábændur. Afkoma þeirra í búskapnum sé háð rigningu og þegar skortur er á henni minnki uppskeran og þar af leiðandi tekjurnar. Við þær aðstæður er stúlkum haldið heima til stuðnings fjölskyldunni - foreldrarnir reyna þá afla tekna með öðrum hætti - og stúlkunum er falið að vinna ýmiss konar heimilisstörf í skamman tíma. Strákarnir halda hins vegar áfram námi því menntun nýtist þeim betur en stúlkum á vinnumarkaðnum, að því er segir í greininni.

 

Martina kemst að þeirri niðurstöðu að til þess að halda stúlkum í skóla gætu þróunarsamvinnustofnanir þurft að leggja áherslu á aðgerðir að auka tekjur heimila á erfiðleikatímum. Margoft hefur komið fram að það er þjóðfélagslega mjög hagkvæmt að stúlkum haldi áfram námi eftir grunnskóla auk þess sem sem unglingsstúlkur í námi eru heilsuhraustari, eignast börn síðar á ævinni og er síður þröngvað í hjónabönd á barnsaldri. 

 

The Economist nefnir tölur frá Gana þar sem dregið hefur verulega úr barnadauða á síðustu áratugum en árangrinum er að hálfu leyti skrifaður á framfarir í menntun stúlkna. "Ef þú kennir pilti menntarðu einstakling," segir afrískur málsháttur, "en ef þú kennir stúlku menntarðu heila þjóð."

Hins vegar vantar málsmátt sem segir til um hvernig koma eigi stúlku í skóla og halda henni þar, segir The Economists.

 


Skrifað undir friðarsamkomulag í Austur-Kongó

Uppgjöf M3 tryggir þó tæpast varanlegan frið 

Stjórnvöld í Austur-Kongó og leiðtogar skæruliðasamtakanna M23 skrifuðu á mánudag undir friðarsamkomulag í Kampala, höfuðborg Úganda. Þar með var bundinn endi á tuttugu mánaða átök og litið er á friðarsamkomulagið sem mikilvægt skref í þá átt að koma á varanlegum friði í þessum heimshluta.

 

M23 skæruliðarnir tilkynntu um viku áður að uppreisn þeirra væri á enda en um 1500 skæruliðar gáfu sig þá á vald hernum í Úganda. Stutt er síðan sveitir stjórnarhersins og Sameinuðu þjóðanna náðu á vald sitt öllum bækistöðvum uppreisnarmanna í M23-skæruliðahreyfingunni í héraðinu Norður-Kívú. M23 skæruliðarnir eru einungis einn af mörgum vopnuðum uppreisnarhópum í landinu og því eru enn skærur í landinu.

 

Fyrrverandi uppreisnarmenn úr röðum Tútsa stofnuðu M23-skæruliðahreyfinguna en M23 vísar í 23. mars 2009 friðarsamkomulagið sem batt enda á fyrri uppreisn Tútsa í Austur-Kongó. Ástæðurnar fyrir uppreisnum tengjast þjóðarmorðunum í Rúanda þar sem Hutu-hermenn og liðsveitir úr röðum óbreyttra borgara tóku af lífi um 800.000 manns, einkum tútsa. Þjóðarmorðin í Rúanda sáðu fræjum endurtekinnar spennu og ágreinings.

 

M23 uppreisnarmennirnir gripu til vopna en þeir sökuðu ríkisstjórn Joseph Kabila forseta um að standa ekki við friðarsamkomulagið frá 2009 m.a. með því tryggja ekki vernd Tutsí-flóttamanna og Kóngóbúa sem tala mál Rúandamanna.

 

Þrátt fyrir friðarsamkomulagið telja margir að lítil von sé um varnalegan frið á svæði þar sem átök hafa ríkt í tvo áratugi með þeim afleiðingum að milljónir hafa látið lífið og margir búa við sára fátækt þrátt fyrir að í landinu sé að finna mikið af náttúruauðæfum eins og gulli og demöntum.

 

Fulltrúar Sameinuðu þjóðanna, Bandaríkjanna og fleiri þjóða hafa lengi sakað stjórnvöld í Rúanda um að styðja M23 með vopnasendingum auk þess sem talið er að Úganda hafi veitt skæruliðunum aðstoð. Fréttaskýrendur telja mögulegt að dregið hafi úr þeim stuðningi á síðustu misserum vegna alþjóðlegs þrýstings.

 

Nauðganir eru faraldur í Afríku:

Karlar dregnir inn í umræðu um ofbeldisglæpi gegn konum

Joan Adams' story - Helping victims of sexual violence in South Africa
Saga Joan Adams - stuðningur við fórnarlömb kynferðisofbeldis í S-Afríku.

Litið er á nauðganir sem faraldur í Afríku, jafnvel meðal þjóða sem búa við þróað réttarkerfi eins og Suður-Afríku. Þar var tilkynnt um 64 þúsund nauðganir á síðasta ári en álitið er að þær séu í raun um 500 þúsund. Í Suður-Afríku er konu nauðgað á nítján sekúndna fresti. Fyrir nokkrum árum kom fram í könnun að fjórði hver karlmaður hafði einhverntíma nauðgað.  

 

Fréttaveitan Voice of America hefur í nokkrum fréttaskýringum að undanförnu fjallað um nauðganir í Afríku og segir að litið hafi verið á kynbundið ofbeldi í alltof langan tíma sem málefni kvenna. Nú sé hins vegar farið að draga karla inn i umræðuna og vinna að aðgerðaáætlunum þar sem ætlunin er að draga úr þessum ofbeldisglæpum með þátttöku karla.

Saga Pauls, 33 ára gamals Líberíumanns sem hlaut 10 ára dóm fyrir nauðgun, er dæmi um hvernig stjórnvöld í álfunni reyna að koma í veg fyrir nauðganir. Hann nauðgaði 11 ára gamalli stúlku, viðurkenndi verknaðinn og fær nú ráðgjöf á vegum hins opinbera sem ætluð eru kynferðisafbrota-mönnum. Hann ver meirihluta dagsins í að læra atriði, sem gagnast honum í lífsbaráttunni, sem hann vonast til að komi í veg fyrir að hann falli ekki í sömu gryfju þegar hann hlýtur frelsi.

 

"Ég er nauðgari," er haft eftir Paul í frétt Voice of America. "Ég hef setið inni í tvö ár og mér hefur tekist að bæta líf mitt í fangelsinu. Ég hef t.d. lært dýraræktun og sápugerð þannig að mér líður mun betur. Ég mun losna einn daginn og verða góður þegn."

 

Nauðganir og aðrir kynferðisglæpir voru sérstaklega algengir á meðan á löngu borgarastríði stóð þar í landi og hefur ástandið ekki batnað. Hið opinbera hefur lagt áherslu á að aðstoða konur sem eru fórnarlömb kynferðisofbeldis auk þess sem viðleitni hefur verið gerð til að ná til þeirra karla sem líklegastar eru til að fremja kynferðisglæpi sem og þá sem sitja inni. Þetta á sér stað í álfunni allri.

 

Herferðin hefur skilað árangri og má benda á þá staðreynd að karlar komu nýlega saman í Naíróbí og mótmæltu og kröfðust réttlætis til handa unglingsstúlku sem var nauðgað en þeim seku var sleppt eftir að hafa slegið gras. Sá sláttur var eina refsingin. Fjallað var um það mál í síðasta tölublaði Heimsljóss.

 

Haft er eftir einum þeirra karla sem tóku þátt í mótmælunum að þegar hann hafi verið að alast upp hafi hann hagað sér eins og "dæmigerður afrískur karl" sem hafi borið litla virðingu fyrir konum. Afstaða hans til kvenna breyttist þegar hann eignaðist síðar dóttur.

 

Frá átta dögum til lífstíðarfangelsis

Í Afríku sunnan Sahara eru engin lög sem segja til um það að ólöglegt sé að maður neyði eiginkonu sína til samræðis. Í þremur löndum að minnsta kosti mega konur ekki kæra eiginmenn sína fyrir nauðgun. Viðleitni til að líta á nauðgun af þessu tagi sem glæp hefur verið umdeild. Í löndum í Afríku sunnan Sahara hefur verið farið að líta á nauðganir af þessu tagi sem glæp frá því 1980 þegar ráðstefna á vegum Sameinuðu þjóðanna um útrýmingu á hvers kyns mismunun gegn konum viðurkenndi þær sem kynbundið ofbeldi.

 

Suður-Afríka var einna fyrst landanna og fjarlægði löggjafinn árið 1993 ákvæði sem veitti eiginmönnum þá undanþágu að ekki var hægt að kæra þá fyrir nauðgun á eiginkonum sínum. Síðan hafa tæplega 20 önnur lönd í Afríku gert svipað.

 

Eiginmenn eru undanþegnir refsingu í Nígeríu, Eþíópíu og Kenía. Samkvæmt lögum í þessum löndum eiga nauðganir sér eingöngu stað utan hjónabands. Ekki er minnst á þetta í hegningarlögum í Senegal.

Félag kvenkyns lögfræðinga í Senegal rekur hjálparstöð í Dakar þar sem þjónustan er gjaldfrjáls og hefur lögfræðingur þar verið með skjólstæðinga sem sótt hafa um skilnað frá eiginmönnum sínum í kjölfar nauðgana.

Erfitt er að gera sér grein fyrir fjölda nauðgana þar sem ekki er til skrá um slíkt auk þess sem í löndum þar sem slíkt ofbeldi er talið vera glæpur þá líta raunverulega fáir á það sem glæp.

 

Refsing fyrir nauðgun af þessu tagi er misjöfn í þeim löndum þar sem sett hafa verið lög varðandi nauðgun í hjónabandi. Þar má nefna sektir og fangelsisvist, allt frá átta dögum í Búrúndí til lífstíðarfangelsis í Zimbabwe. Hins vegar segja þeir sem berjast fyrir þessu málefni að ekki sé farið eftir þessari kröfu um fangelsisvist auk þess sem fáar konur stíga fram og enn færri fara í mál.

 

Working with Men to Stop Rape in Africa/ VOA 

In Africa, Criminalizing Marital Rape Remains Controversial/ VOA 

 
Hækkun hefur þegar verið dregin til baka

Mikil umræða hefur verið síðustu dagana um þróunarsamvinnu Íslendinga eftir að hagræðingarhópur ríkisstjórnarinnar lagð til að framlög til þróunarmála verði endurskoðuð og nýleg hækkun dregin til baka. Í fréttum RÚV hefur komið fram hjá utanríkisráðherra að ríkisstjórnin hafi nú þegar dregið til baka þá hækkun sem fyrirhugað var að veita til þróunaraðstoðar. Heimsljós vísar í krækjum hér fyrir neðan í nokkur dæmi um þá umræðu sem verið hefur um málið.

 

Lifandi Íslendingur, eftir Inga Frey Vilhálmsson/ leiðari í DV 

-

Ríkri þjóð ber skylda að hjálpa þeim örsnauðustu/ Vísir 

-

Hækkun til þróunaraðstoðar dregin til baka/ RUV 

-

Vilja að þróunaraðstoð verði endurskoðuð/ DV 

-

Jóhanna ætlaði líka að skera niður þróunaraðstoð- Össur hótaði stjórnarslitum/ DV

-

Þróunaraðstoð en ekki NATO, eftir Agnar Kristján Þorsteinsson/ DVBlogg

-

Þróunarhjálp Íslendinga er þjóðarskömm, eftir Ómar Ragnarsson/ ÓmarRagnarsson

-

Lítilmennska, eftir Árna Múla Jónsson/ Pressublogg 

 

Auður til góðra verka

 

Auðmennirnir góðhjörtuðu eða fílantrópar eins og þeir kallast uppá enska tungu gefa fúlgur fjár til þróunarmála á hverju ári, miklu meiri peninga en flestir halda, eða 50 milljarða Bandaríkjadala sem nemur 35% af öllum opinberum framlögum til þróunarmála í heiminum. 

 

Þessir mannvinir rekja hugmyndafræðina um að gefa auð sinn til góðra verka til Andrew Carnegies sem var voldugur iðnjöfur og kapítalisti á sinni tíð. En eitthvað gerðist í lífi hans árið 1889 því það ár hóf hann að útdeilda auðnum og til varð fleyg setning höfð eftir honum sem hefur lifað allar götur síðan: Sá sem deyr ríkur, deyr með skömm."

Global Philanthropy Forum Featured on American Airlines

Tæpum hundrað árum síðar birtist annar auðkýfingur sem hafði komist að sömu niðurstöðu og vildi deila uppsöfnuðu fé til að gera heiminn betri: tölvumógúllinn Bill Gates. Hann hefur fengið fleiri moldríka einstaklinga í lið með sér og  hefur kappsamlega unnið að því að fá auðkýfinga til þess að skuldbinda sig til þess að verja hálfum auði sínum til góðgerðarmála. 

 

Samkvæmt frétt í sænska tímaritinu Om Världen hafa rúmlega eitt hundrað auðkýfingar skrifað undir slíkan samning undir formerkjum samtakanna Global Philanthropy Group.

 

Nánar 

 

Áhugavert
 
-
-
-
Saving the lives of children under five through supply chain innovations
Saving the lives of children under five through supply chain innovations
Heart of darkness: The psychology of an aid worker, eftir Brendan Rigby/ WhyDev
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-

Fræðigreinar

-
-
-
-

Fréttir og fréttaskýringar

-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-


Fiðrildafögnuður UN Women á morgun! 
Fórnarlömbum útskúfað úr samfélaginu - viðtal Kastljóss við Margréti Rósu Jochumsdóttur.
 

Annað kvöld, 14. nóvember, stendur UN Women fyrir Fiðrildafögnuði í Hörpu þar sem glaðst verður yfir yfir árangrinum sem náðst hefur í jafnréttismálum í heiminum, "kraftinum sem myndast þegar konur brjóta staðalmyndir og hefðir og við ætlum að krefjast þess að mannréttindi kvenna og stúlkna séu virt," eins og segir á heimasíðu samtakanna.

 

Kvöldið er tileinkað þolendum sýruárása en við fáum ógleymanlegt tækifæri að kynnast indverskum konum sem lifað hafa af slíkar árásir.

 

Fiðrildafögnuður UN Women verður ævintýralegt kvöld. Helsta listafólk Íslands leggur samtökunum lið og býður ykkur upp á magnaða upplifun.

 

*Dansarar Íslenska dansflokksins sýna verk

*landsþekktar leikkonur verða með ógleymanlegan gjörning

*Sigríður Thorlacius og Högni Egilsson syngja falleg lög saman

*Dj Natalie 

*Óvænt uppákoma í lok kvölds

 

Kynnar kvöldsins eru Þóra Arnórsdóttir og Vilhelm Anton Jónsson

 

 

Upplýsingar um sýruárásir/ UNWomen 

 

Mikill áhugi á starfi Rauða krossins á átakasvæðum
Erindi Pascale Meige Wagner hjá Rauða krossinum.
Erindi Pascale Meige Wagner hjá Rauða krossinum.

Fullt var út úr dyrum á fyrirlestri Rauða krossins um kynbundið ofbeldi á átakasvæðum sem haldinn var fyrir skömmu. Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra flutti ávarp þar sem hann ræddi um mikilvægt hlutverk Rauða krossins jafnt á átakasvæðum og í náttúruhamförum, hvort sem væri á alþjóðavísu eða í heimabyggð, í þeim tæplega 200 löndum sem Rauði krossinn starfar í.

Pascale Meige Wagner, aðstoðarframkvæmda-stjóri hjálparsviðs Alþjóða Rauða krossins, lýsti starfsemi Rauða krossins á átakasvæðum og sérstaklega hvernig reynt væri að vinna gegn því að kynferðislegu ofbeldi sé beitt á átakasvæðum. 
 
Pascale sagði að ekki væri hægt að sætta sig við að kynbundið ofbeldi, nauðganir og aðrar kynferðislegar árásir væru fylgifiskar vopnaðra átaka. Vinna yrði markvisst gegn því, jafnt með fræðslu sem sakfellingu þar sem um brot á alþjóðlegum mannúðarlögum væri að ræða.
 
Hægt er að hlýða á erindi Pascale með því að smella á myndina hér að ofan.
 
 
Styrkir til meistara- og doktorsnáms

Þróunarsamvinnustofnun Íslands auglýsir til umsóknar styrki til meistara- og doktorsnáms á starfssviði stofnunarinnar.  Að þessu sinni verða veittir 3 styrkir.

 

Hlutverk rannsóknarstyrkja Þróunarsamvinnustofnunar Íslands (ÞSSÍ) er að stuðla að uppbyggingu þekkingar um þróunarmál á Íslandi með því styrkja íslenska nemendur í meistara- og doktorsnámi við háskóla til rannsóknarverkefna er snerta starfssvið stofnunarinnar. Rannsóknaverkefni skal nema að minnsta kosti 30 einingum af náminu og einkum tengjast þróunarsamvinnu á eftirtöldum sviðum:

 

  • Auðlinda- og umhverfismálum
  • Heilbrigðismálum
  • Menntamálum
  • Félags- og jafnréttismálum
  • Stefnu og straumum í þróunarsamvinnu

 

Reiknað er með að viðkomandi þurfi að kynna sér aðstæður í því landi sem rannsóknin miðar að og fylga reglum þess um rannsóknarleyfi. Lagðar skulu fram upplýsingar um samstarfsaðila í viðkomandi landi.

 

Í umsókn skal gera grein fyrir stöðu þekkingar (hámark 500 orð), markmiði rannsóknar og ávinning af henni (hámark 200 orð), aðferðafræði (hámark 300 orð) og tíma- og kostnaðaráætlun, ásamt upplýsingum leiðbeinanda og við hvaða háskóla rannsókn verður unnin.

 

Rannsóknastyrkirnir nema að hámarki 500.000 kr.

 

Umsóknir skal senda inn til Þróunarsamvinnustofnunar Íslands í rafrænu formi á netfang: iceida@iceida.is Umsóknarfrestur er til 30. nóvember 2013.

 

Nánari upplýsingar fást hjá Þróunarsamvinnustofnun Íslands, Rauðarárstíg 27, Reykjavík, s. 545 8980.

 


Safnað vegna neyðarinnar á Filippseyjum

 - Rauði krossinn, UNICEF, Barnaheill, Hjálparstarf kirkjunnar og SOS kalla eftir stuðningi Íslendinga
Mikil neyð á Filippseyjum. Ljósmynd: Jason Gutierrez/IRIN

Talið er að tvö þúsund manns hafi látið lífið þegar ofurfellibylurinn Haiyan skall á á Filippseyjum í síðustu viku. Margra er enn saknað og á þriðja þúsund eru slasaðir. Fellibylurinn er sá kröftugasti sem mælst hefur og eyðileggingunni er líkt við við ástandið í Indónesíu eftir jarðskjálftann sem orsakaði flóðbylgju árið 2004. Dæmi eru um að strandbæir hafi þurrkast út, mörg hundruð þúsund manns glíma við matarskort, skortur er á hreinu drykkjarvatni, samgöngukerfið lamaðist og ringulreið hefur verið mikil. Örvænting fólks er einnig mikil og hefur verið brotist inn í verslanir og heimili.

 

Sameinuðu þjóðirnar gera ráð fyrir að rúmlega 11,3 milljónir landsmanna hafi orðið fyrir beinum áhrifum af hamförunum og heimilislausir skipta tugum þúsunda. Ekki hefur gengið nógu vel að vinna að hjálparstarfi þar sem margir vegir hafa farið í sundur, víða er rafmagnslaust auk þess sem skemmdir hafa orðið á flugvöllum.

 

Að mati Sameinuðu þjóðanna þarf 301 milljón Bandaríkjadala, eða yfir 30 milljarða króna, í tengslum við hjálparstarfið í landinu en talið er að 2,5 milljónir manna þurfi á matvælaaðstoð að halda. Mörg ríki hafa sent hjálpargögn og hjálparstarfsmenn til landsins.

 

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra hefur ákveðið að stjórnvöld veiti 12,3 milljónum króna til neyðaraðstoðar og mun aðstoðin verða veitt með milligöngu Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna.

 

Rauði kross Íslands hefur hafið söfnunarátak til handa fórnarlömbum fellibylsins auk þess að aðstoða Filippseyinga hér á landi sem sakna ættingja sinna á hamfarasvæðinu. Þá er bent á á heimasíðu Rauða krossins, að viðbúið sé að fólk, sem enn hefur ekki náð sambandi við ættingja og vini á skaðasvæðunum, hafi áhyggjur og sé undir miklu álagi og getur það á heimasíðunni nálgast bækling um áfallahjálp Rauða krossins á ensku.

 

Gert er ráð fyrir að meira en fjórar milljónir barna á Filippseyjum eigi um sárt að binda í kjölfar fellibylsins. UNICEF á Íslandi hefur hafið neyðarsöfnun fyrir börn á Filippseyjum. Á heimasíðu samtakanna, kemur fram að forgangsatriði sé að tryggja aðgengi barna að hreinu vatni, næringu, hreinlætisaðstöðu, koma í veg fyrir smitsjúkdóma og koma börnum í skjól.

 

Barnaheill hefur einnig hafið neyðarsöfnun vegna fellibylsins og á heimasíðu samtakanna, barnaheill.is, er haft eftir framkvæmdastjóra þeirra að skólaganga barna á Filippseyjum sé stöðvuð tímabundið þar sem þúsundir skóla hafa eyðilagst, skemmst eða gegni nú hlutverki neyðarskýla.

 

SOS Barnaþorpin eru líka undir það búin að taka við þeim börnum sem misst hafa foreldra sína í hamförunum. Hægt er að styrkja eitt ákveðið barn í SOS Barnaþorpi á Filippseyjum. Þá er einnig hægt að gerast barnaþorpsvinur þar sem eitt ákveðið barnaþorp er styrkt. Einnig er hægt að gefa frjálst framlag sem notað verður á Filippseyjum inn á reiknisnúmerið 334-26-52075 kt.5002892529. 

 

Hjálparstarf kirkjunnar hefur ennfremur opnað söfnunarreikning til styrktar neyðarhjálpinni: 0334-26-886 kt.: 450670-0499. 

 

Neyðaraðstoð Rauða krossins í kapp við tímann / Rauðikrossinn 

Hver einasta mínúta skiptir máli/ UNICEF (Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna) 

Örvænting á Filippseyjum - neyðarsöfnun

SOS aðstoðar á Filippseyjum 

Versti fellibylur sögunnar hefur skelfilegar afleiðingar á Filippseyjum / Hjálparstarf kirkjunnar 

 

Landbúnaður og fæðuöryggi

 

- eftir Margéti Einarsdóttur sviðsstjóra verkefnaundirbúnings hjá Þróunarsamvinnustofnun Íslands 

Afrískir bændur hafa verið utanveltu og jaðarhópur fram til þessa, segir Margrét Einarsdóttir í grein sinni. Ljósmynd frá Malaví: gunnisal.

 

Segja má að fyrsta þúsaldarmarkmiðinu hafi verið náð þar sem helmingi færri lifðu við sárafátækt árið 2010 borið saman við árið 1990, en þeim fækkaði um 700 milljónir. Þó er ekki öll sagan sögð. Í Afríku sunnan Sahara býr næstum helmingur íbúanna enn við mikla fátækt. Í löndunum á þessu svæði með nokkrum undantekningum þó, hefur fátækum fjölgað. Árið 1990 voru 290 milljónir manna í löndunum sunnan Shara taldir lifa við sárafátækt en 2010 var talan komin upp í 414 milljónir (The MDG report 2013).

 

Fátækt í sveitahéruðum Afríku sunnan Sahara

Flest löndin í Afríku sunnan Sahara eyðimerkurinnar eru landbúnaðarlönd þar sem sjálfsþurftarbúskapur er ríkjandi. Að meðaltali búa 65 % íbúanna til sveita þar sem fátæktin er mest.

 

Það er mat ýmissa fræðimanna sem vinna að rannsóknum á sviði landbúnaðar í Afríku, að afrískir bændur hafi verið utanveltu og jaðarhópur fram til þessa. Þeir hafi ekki fengið þann stuðning stjórnvalda sem þarf til að þróa landbúnað af stigi sjálfsþurftar. Stefnumörkun og aðgerðir í landbúnaðarmálum hafa ekki beinst nóg að því að þróa greinina til hagsældar fyrir smábændur. Nefna má ýmsar aðgerðir sem nauðsynlegt er að hrinda í framkvæmd, ef einhver breyting á að verða. Það þarf að veita bændum aðgang að fjármagni, auka þekkingu þeirra og aðstoða þá við að tæknivæða búskapinn. Lagning vega er einnig brýnt málefni, svo auðvelda megi flutning á framleiðslunni á markaði.

 

Allar breytingarnar segja sérfræðingarnir þurfa að vera í samvinnu við bændur og sveitasamfélög, eigi þær að heppnast og bera árangur. Samkvæmt rannsóknum hefur vöxtur í landbúnaði dregið að meðaltali meira úr fátækt en vöxtur í öðrum geirum.

 

Samkeppnin um land og auðlindir í leit að ódýrri orku og ræktarlandi fer sívaxandi.

Eftirspurn eftir landbúnaðarvörum er alltaf að aukast á heimsvísu. Einnig eru alþjóðleg fyrirtæki og einkaaðilar á höttunum eftir auðlindum eins og landi, jarðefnum, orku og vatni. Erlendir fjárfestar kaupa land og framleiða matvæli til útflutnings á markaði utan Afríku.

 

Eftirspurnin kemur ekki eingöngu frá innlendum aðilum heldur frá löndum utan álfunnar ekki síst þeim löndum sem á síðustu árum hafa náð miklum árangri á efnahagssviðinu og tekist að lyfta fjölda fólks upp úr sárri fátækt (Kína og Brasilía) Þessi vaxandi áhugi á afrísku ræktarlandi hefur sett sjónarhornið á að minnsta kosti tvær nálganir um hvernig efla megi landbúnaðinn í álfunni:

1) Iðnaðarframleiðsla til útflutnings. Það getur verið ræktun á hrísgrjónum sem flutt eru til Kína, ræktun á plöntum sem nýttar eru til að framleiða græna orku eða eldneyti á bíla sem flutt er út til ýmissa staða í hinum vestræna heimi. Hér þarf að gæta þess að hagnaðurinn af starfseminni eða hluti hagnaðarins verði eftir í landinu sem leigir eða hefur selt land til erlendra aðila.

2) Efla smábændur, tæknivæða framleiðsluna og tryggja fæðuöryggi heima fyrir og sjálfbærni í greininni.

Fyrra sjónarhornið, fjárfestingar í iðnvæddum landbúnaði sem skapar atvinnumöguleika og tryggir erlendan gjaldeyri er sú leið sem stjórnvöld í mörgum Afríkuríkjum hafa lagt áherslu á. Þessu fylgja ýmis vandamál og er hag bændasamfélaganna oft fórnað fyrir aðra hagsmuni sem hvorki leysa vandamál fátæktar né tryggja fæðuöryggi, alla vega ekki til skamms tíma.

 

Eitt af því er eignarhald á landi og rétturinn til landsins. Í sumum ríkjum Afríku er það ríkið sem á allt land og getur úthlutað því, einnig hafa þorpshöfðingjar í mörgum löndum álfunnar rétt til að úthluta landi og hafa því yfirumsjón með eignarhaldinu. Inn í þetta kerfi koma svo réttindi ætta eða samtaka sem einnig hafa réttindi til landsins eða afnotarétt af því. Þegar land er keypt, eða ríkið/höfðingjar taka það eignarnámi til að selja öðrum, fá bændurnir bætur, sem oft eru lítilsvirði ef þeir fá þá nokkuð. Þannig stuðlar eignarnám eða sala á landi oft að enn meiri fátækt hjá þeim hópi fólks sem hefur búið þar fyrir.

 

Annað vandamál sem hér má nefna er að landbúnaðarverkamenn sem ráða sig til vinnu á iðnvæddum búgörðum hafa oft lág laun og lítið öryggi sem í raun hefur einkennt sögu margra stórbýla í Afríku langt aftur í aldir. Einnig fækkar störfum við iðnvæðinguna.

 

Framtíð landbúnaðar og framtíð fátæks sveitafólks í sunnanverðri Afríku veltur á þeim breytingum sem nú eiga sér stað. Stefnumörkun stjórnvalda í máflokknum er mikilvæg, sem og lagasetning um auðlindanýtingu og eignarhald á landi þar sem hagsmunir hinna fátæku og fæðuöryggi eru höfð að leiðarljósi. Forsenda þess að hægt sé að draga úr fátækt er hagvöxtur, en það er ekki nóg. Hann þarf að skila sér til allra landsmanna í auknum tækifærum, tekjum og bættri þjónustu, aðeins þannig verður þúsaldarmarkmiðunum náð (inclusive growth, UNDP).

 

 

Heimildir:
Cheru; Fantu and Renu Modi (2013): Agricltural Development and Food security in Africa, London/New York, The Nordic Africa Institute
Heimasíður skoðaðar 12. nóvember 2013:
Beyene, Atakilte: Policy Note 3, 2013: Costly not to consider local resistance
UN: The Millennium development Goals Report 2013

 

Hvað er svona merkilegt við það?  


- eftir Drífu Guðmundsdóttur starfsnema Þróunarsamvinnustofnunar í Malaví

 

Malavískur veruleiki. Ljósmyndir: gunnisal

 

Á umdæmisskrifstofum Þróunarsamvinnustofnunar Íslands í Malaví, Mósambík og Úganda starfa þrír starfsnemar sem líkt og undanfarin ár hafa fallist á beiðni Heimsljóss um pistlaskrif þann tíma sem þeir dvelja í samstarfslöndum Íslendinga.  

 

 

Ég sat á bekk undir tré í Mangochi héraði og skeytti engu um karlmennina sem ýmist hvíldu sig í skugganum undir Mangótrénu við hlið mér eða voru að selja eitthvað. Ég tók ekki einu sinni eftir þeim svo gagntekin var ég af konunum sem áttu leið hjá með heljarstóra trjádrumba, ógnarstórar tuglítra vatnsfötur og mörg kíló af allskyns afurðum eins og maís, hveiti, nsima, kartöflum og kolum í mismunandi ílátum af öllum stærðum og gerðum, allt þetta báru þær á höfði sér. Margar hverjar einnig með litlu krílin sín á bakinu. Já, með litlu krílin sín á bakinu, hugsaði ég, með litlu krílin á bakinu gera þær allt. Tengsl móður og barns hljóta að vera ofboðslega sterk verandi svona náin, bundin maga við bak fyrstu ár lífsins. Ótrúlegt hvernig börnin geta sofið vært sama hvað mæðurnar eru að bralla, jafnvel þótt þær séu að sópa, skúra og skrúbba, elda og malla. Já, ég hafði meira að segja séð fullt af konum vera að vinna akrana með afkvæmin reyrð við hrygginn. Já, merkis konur hugsaði ég. Konur. Konur? Já, bara konur. Hvar eru karlmennirnir eiginlega?

 

Sem snöggvast runnu sjáöldrin að mangótrénu. Hm. Jæja, matarhléið búið. Ég ákvað að rölta aftur upp á skrifstofu og spyrja malavískan kollega minn út í þetta.   

 

Hvað er svona merkilegt við það að vera karlmaður? - spurði ég í anda Sölku Völku - hvað gera þeir eiginlega? Af hverju hjálpa þeir ekki til?  Jú, það er bara býsna merkilegt, sem slíkir eru malavískir karlmenn víst miklir hugsuðir og sjá um mikilvægari störfin, axla ábyrgð og hafa vitið fyrir fjölskyldunni. Taka við peningunum. Karlmennirnir vinna. Vinna fyrir tekjunum, fá laun, þess vegna ráða þeir á heimilinu. Konurnar hafa ekkert að gera - ef ég hefði ekkert að gera, segir hann um leið og aðstoðarkonan á skrifstofunni kemur upp stigann með þrjátíu lítra vatnsfötu á hausnum, (það var nefnilega vatnslaust), - þá mundi ég auðvitað hjálpa til. Þær kunna náttúrulega ekkert að fara með peninga. Nú ef þær hefðu vinnu, ynnu sér inn fyrir eigin tekjum þá myndu þær kannski læra inn á þá. En það er erfitt að fá vinnu sjáðu til. - Hvað um sameiginlegar tekjur? - Ekkert svar. Bara einlægur hlátur.

 

facebook
UM HEIMSLJÓS 

Heimsljós - veftímarit um þróunarmál er gefið út af Þróunarsamvinnustofnun Íslands. Ritinu er ætlað að glæða umræðu um þróunarmál og gefa áhugasömum kost á að fylgjast með því sem hæst ber hverju sinni. Efni veftímaritsins þarf ekki endilega að endurspegla stefnu ÞSSÍ.

 

Skráið ykkur í áskrift á heimasíðunni, www.iceida.is og látið vinsamlegast aðra með áhuga á þróunarmálum vita af tilvist veftímaritsins. Allar ábendingar um efni eru vel þegnar.

 

Þeir sem vilja senda okkur ábendingu um efni eða afskrá sig af netfangalista eru vinsamlegast beðnir um að senda slík erindi á netfangið iceida@iceida.is. Ritstjóri er Gunnar Salvarsson, gsal@iceida.is

.

Við biðjumst velvirðingar á því að geta ekki notað íslenskar gæsalappír í viðtölum en bandarískt sniðmót Veftímaritsins leyfir ekki notkun þeirra.

 

Bestu kveðjur, Útgáfu- og kynningardeild ÞSSÍ

 

ISSN 1670-8105