RKI
logo
Veftímarit um
þróunarmál
gunnisal
5. árg. 146. tbl.
18. janúar 2012
gunnisal
Ovahimbar eða Himbar, frumbyggjar í Namibíu sem Þróunarsamvinnustofnun hefur stutt með gerð vatnsbóla síðustu fimm árin. Ljósmyndir: gunnisal
 

Fimm ára verkefni um vatnsveitur í þágu Himba lokið:

Borað fyrir 39 vatnsbólum - 39 vatnsból í lagi!


Lokið er fimm ára samstarfi vatnsmálaráðuneytis Namibíu og Þróunarsamvinnustofnunar Íslands. Samstarfið fólst í uppsetningu vatnsveitna í dreifbýlum byggðum norðvestur Namibíu þar sem Himba-ættflokkurinn hefur aðsetur. "Núna að fimm árum loknum þá virðist verkefnið hafa tekist mjög vel," segir Vilhjálmur Wiium sem er nýkominn frá Namibíu en hann var síðasti umdæmisstjóri ÞSSÍ í landinu. "Allar vatnsveiturnar 39 eru í lagi og útvega íbúum og búfénaði langþráð vatn. ÞSSÍ hefur í hyggju eftir fjögur til fimm ár að heimsækja norðvesturhluta Namibíu á nýjan leik og láta meta hver árangurinn verður þá. Eftir fimm ár - verða allar vatnsveiturnar enn í gangi? Var gert við það sem bilaði? Og svo framvegis. Með því mati skapast verðmæt þekking á langtímaáhrifum vatnsveituverkefna," segir hann.

 

Vilhjálmur segir að vatn sé af mjög skornum skammti í byggðum Himbanna. "Flestir á þessu svæði þurfa að treysta á skítugt yfirborðsvatn og handgröft eftir vatni í þurrum árfarvegum. Við upphaf verkefnisins höfðu 36% íbúa svæðisins aðgang að hreinu vatni, samanborið við 87% í landinu öllu. Ríflega 20% þurftu að ganga meira en einn kílómetra til að nálgast vatn. Á þessum fimm árum voru settar upp 39 vatnsveitur sem gefa af sér hreint vatn bæði fyrir fólk og búfénað. Möguleg vatnsframleiðsla þessara 39 vatnsveitna er 410.000 lítrar á dag, sem samsvarar um 150 milljónum lítra á ári. Þetta vatnsmagn dygði til að mæta lágmarksvatnsþörf 27 þúsund manna. Þessu vatni fylgir mikil breyting fyrir íbúa svæðisins. Má nefna að tíðni ýmissa sjúkdóma lækkar, s.s. kóleru og ýmissa magakveisa, og einnig minnkar vinnuálag á konur og stúlkubörn, því aðgengi að vatni batnar. Ekki má gleyma ýmsum óbeinum áhrifum, til dæmis hefur skólastarf á svæðinu batnað mikið. Má þar nefna að á nokkrum stöðum hefur kennsla hafist nálægt vatnsveitum, þar sem kennsla var ekki áður eða hafði hætt. Eins benda óformlega kannanir til að börnum sem sækja skóla hafi fjölgað og að mæting hafi batnað."

 

Sólardrifnar vatnsdælur og vatnsmælar

Að sögn Vilhjálms voru ýmsar nýjungar reyndar í samstarfsverkefninu og má til dæmis nefna að eingöngu var notast við sólardrifnar vatnsdælur. "Þrátt fyrir að Namibía sé eitt sólríkasta land jarðar, þá hafa dælur af þessu tagi verið frekar fáséðar," segir Vilhjálmur. "Yfirleitt er notast við dísildælur en þær eru hávaðasamar, kostnaðarsamar í rekstri og hafa ýmis neikvæð áhrif á umhverfið. Uppsetning á sólardælum er hins vegar dýrari en á dísildælum. Þegar skipulag verkefnisins var unnið í upphafi, þá þóttu lágur rekstrarkostnaður og jákvæð umhverfisáhrif sólardælna vega þyngra en hár upphafskostnaður. Vatnsmálaráðuneytið finnur nú fyrir aukinni eftirspurn eftir sólardælum og að íbúar nærliggjandi svæða við verkefnið vilji frekar þær dælur en hefðbundnar dísildælur.

 

Önnur nýjung var að setja vatnsmæla á hverja vatnsdælu. Mjög algengt er að eftir að vatnsveitur eru settar upp komi notendur og segi að vatnið sé ekki nægjanlega mikið. Því þurfi fleiri forðatanka eða öflugri dælu og fleira í þeim dúr. Vatnsmælarnir hafa gert vatnsmálaráðuneytinu kleyft að fylgjast vel með vatnsnotkun og leggja mat á hvort þörf sé á frekari aðgerðum eða ekki. Einnig auðvelda þeir að sjá hvort dæla sé í lagi eða ekki, þar sem hámarksafköst hverrar vatnsveitu eru þekkt."

 

Vilhjálmur segir að í Namibíu sé algengt að vatnsmálaráðuneytið ráði verktaka til að bora ákveðinn fjölda borhola. "Verktaki gæti til dæmis fengið lista með tíu staðsetningum og verið ráðinn til að bora á hverjum stað 100 metra djúpa holu. Verktakinn fer af stað, borar á umsömdum stöðum niður á umsamda dýpt og fær umsamin laun fyrir. Hins vegar er þessi aðferð ekki endilega árangursrík. Dæmi eru um að verktaki finni ekki vatn á neinum stað, en algengt að 4 til 6 holur heppnist og gefi af sér vatn. Þegar samstarfsverkefnið, sem ÞSSÍ var aðili að, hófst var okkur sagt að búast við a.m.k. 40% afföllum, þ.a. ef markmiðið væri 39 borholur, þá væri gott ef 24 gæfu af sér vatn. Niðurstaðan varð hins vegar sú að markmiðið var 39 vatnsveitur og útkoman var 39 vatnsveitur. Hundrað prósent árangur, hvorki meira né minna. Ástæða þessa góða árangurs var að í stað þess að senda verktaka einan og sér af örkinni, þá var jarðfræðingur ævinlega með í för. Sá stjórnaði borunum. Fylgdist hann nákvæmlega með hverri borun. Ef honum leist ekki á aðstæður, þá stöðvaði hann borun og lét færa sig um set. Sem dæmi má taka að á síðasta ári var markmiðið sex vatnsveitur. Til að ná þeim var hafist handa á tíu stöðum. Á fjórum stöðum lét hann stöðva borun og prófa annars staðar. Einnig stöðvaði hann borun þegar vatn fannst. Þ.a. ef að vatn fannst á 40 metra dýpi þá var ekki borað niður á 100 metra eins og borverktaki hefði gert. Á þann hátt urðu sumar vatnsveitur ódýrari en áætlað var og því hægt að bora meira á öðrum stöðum þar sem verr gekk að finna vatn."

 
GEST
Vigdís Finnbogadóttir fyrrverandi forseti Íslands og útskriftarhópurinn.

Sjö nemendur útskrifaðir frá Alþjóðlega jafnréttisskólanum

Sjö nemendur voru útskrifaðir síðastliðinn föstudag frá Alþjóðlega jafnréttisskólanum við Háskóla Íslands. Frú Vigdís Finnbogadóttir fyrrverandi forseti Íslands og verndari skólans afhenti nemendum lokaskírteinin. Daginn áður kynntu nemendur skólans lokaverkefni sín. 

 

Nemendur skólans komu að þessu sinni frá Mósambík, Úganda og Palestínu  Að sögn Önnudísar Gretu Rudolfsdóttur námsstjóra skólans voru viðfangsefnin margvísleg. Meðal annars var fjallað  um konur og þurrkasvæði í Mósambík; hlutverk kvenna sem lifað hafa af stríðsofbeldi Lord Resistance Army  í friðaruppbyggingu í Norður Úganda; heimilisofbeldi í Mósambík; hvernig hægt er að koma á kynjakvóta í stjórnum flóttamannabúða í Palestínu; kynjaða fjárlagagerð í Úganda; kynferðislegt ofbeldi gagnvart körlum í Norður Úganda og réttindi kvenna í fangelsum Palestínu.

 

Nemendur skólans hafa nú snúið til sinna heimalanda þar sem þeir munu halda áfram að starfa að jafnréttismálum.

 
Jón Einar Sverrisson
Samstarfsráð um þróunarsamvinnu hittist tvisvar á ári. Fulltrúar þróunarsamvinnunefndar sitja í ráðinu. Ljósmynd: Jón Einar Sverrison.
Fulltúar í þróunarsamvinnuefnd eiga erfitt með að fóta sig í nýju hlutverki:

Hefur lýðræði minnkað í kjölfar nýju laganna um alþjóðlega þróunarsamvinnu?

 

"Pólítískar málamiðlanir (voru) gerðar á þingi sem höfðu þau áhrif að stofnuð var sérstök þróunarsamvinnunefnd, skipuð fulltrúum tilnefndum af þingi, sem var lítt hugsaður vettvangur og fulltrúar í nefndinni, sem áður sátu í stjórn stofnunarinnar, virðast upp til hópa eiga erfitt með að fóta sig í nýju hlutverki og finnst lýðræði hafa minnkað í kjölfar nýju laganna," segir í ritgerð Hildar Eddu Einarsdóttur til MPA-gráðu í opinberri stjórnsýslu við Háskóla Íslands. Í ritgerðinni kemur meðal annars fram að fulltrúar í þróunarsamvinnunefndinni svokölluðu líta ekki á sig sem hluta af samstarfsráði um þróunarsamvinnu. Ennfremur kemur fram í ritgerðinni að tveir fulltrúar í þróunarsamvinnunefndinni telja að samstarf við Srí Lanka og Níkaragva hafi á sínum verið tekið upp sem hluti af atkvæðasmölun fyrir Öryggisráðið og annar fulltrúanna notar orðið "sölumennska" í því samhengi.

 

Hildur Edda fjallar í ritgerðinn um áhrif nýrra laga um alþjóðlega þróunarsamvinnu sem samþykkt á þingi haustið 2008. Ritgerðin nefnist "Breytt hlutverk og skýr ábyrgðatengsl" og fjallar um áhrif nýju laganna með áherslu á reynslu embættismanna sem komu að ákvarðanatöku í málaflokknum fyrir og eftir lagabreytinguna.

 

Hildur Edda tók viðtöl við sex einstaklinga sem allir komu að ákvarðanatökunni. "Meðal helstu niðurstaðna er að samkvæmt lagabókstafnum hafa ábyrðgartengls orðið skýrari og að dregið hafi úr þörfinni á beinni umsjón ráðuneytisins með stofnuninni og í staðinn hafi gagnkvæm aðlögun og stöðlun verkeferla tekið við sem helstu samhæfingartæki," eins og segir orðrétt í útdrætti ritgerðarinnar.

 

Ábyrgð ÞSSÍ gagnvart ráðherra styrkt

Hildur Edda fjallar m.a. í ritgerðinn um þá breytingu sem lögin höfðu í för með sér að stjórn Þróunarsamvinnustofnunar var lögð niður. Hún segir að með því hafi ábyrgð stofnunarinnar gagnvart ráðherra verið styrkt með beinum og óskiptum ábyrgðatengslum, "enda forræði ráðherra yfir stofnunum í grundvallaratriðum nokkuð víðtækt. Ráðherrann hefur rétt til að krefjast upplýsina, gefa fyrirmæli og breyta ákvörðunum. Þeir fulltrúar þróunarsamvinnunefndar, sem áður voru í stjórn Þróunarsamvinnustofnunar, virðast þó fæstir á eitt sáttir um að rétt sé að ráðherra hafi svo víðtækt forræði. Þegar þingkjörin stjórn sat yfir stofnuninni átti þingið fulltrúa sem sinnti verkefnum, sem telja mætti framkvæmdavaldsverkefni, sem var í anda gagnrýni Gylfa Þ. Gíslasonar frá því upp úr síðari heimsstyrjöldinni, þegar hann sagði að framkvæmdavaldið væri of undirgefið þinginu og stjórnmálaflokkunum. Flestir þeirra nefndarmanna sem voru áður í stjórn stofnunarinnar eru einmitt á þeirri skoðun að nú hafi lýðræði minnkað með því að draga úr áhrifum þingkjörinna fulltrúa á stjórn stofnunarinnar." (bls.87).

 

Líta ekki á sig sem hluta af samstarfsráðinu

Hildur Edda kemst að þeirri niðurstöðu að með tilkomu nýju laganna hafi ábyrgðartengsl milli þings, ráðherra og embættismanna orðið skýrari. "Nú sitja fulltrúar þingflokkanna ekki lengur inni í stjórn framkvæmdavaldsstofnunarinnar, Þróunarsamvinnustofnunar, heldur eiga þeir að koma að heildarstefnumörkun, sem nær bæði til marghliða og tvíhliða þróunarsamvinnu með því að gefa álit um drög að þingsályktunartillögu ráðherra um áætlun um alþjóðlega þróunarsamvinnu. Ekki virðist vera góður skilningur á þessu hlutverki eða því hvernig unnið er að stefnumörkun meðal þessarra fulltrúa þingflokkanna í þróunarsamvinnunefnd. Þá kemur fram í gögnunum að nefndarmenn líta ekki á sig sem hluta af samstarfsráði um alþjóðlega þróunarsamvinnu og því hafi þeir ekki það hlutverk sem kveðið er á um í lögunum um ráðið." (bls. 87-88).

 

Hildur Edda gerir eftirfarandi að tillögu sinni: "Hugsanlega yrði það skref í rétta átt ef fullrúar í þróunarsamvinnunefnd fengju sérstaka þjálfun og fræðslu í stefnumörkunarvinnu, sem gerði hlutverk þeirra skýrara í þeirra hugum og gæti að öllum líkindum hjálpað þeim að fóta sig í nýju hlutverki."

 

Atkvæðasmölun fyrir Öryggisráðið

Í ritgerðinni nefnir Hildur Edda að nýju lögin hafi tekið gildi örfáum dögum fyrir bankahrunið eða 1. október 2008 og sextán dögum fyrir kosningarnar til Öryggisráðs Sameinðu þjóðanna. Hún nefnir niðurskurð á framlögum til þróunarsamvinnu og afleiðingar hans, þ.e. að þróunarsamvinnu hafi verið hætt við Namibíu, Srí Lanka og Níkaragva. "Viðmælendur úr röðum fulltrúa í þróunaramvinnunefnd hafa sínar skoðanir á þeim málavöxtum," segir í ritgerðinni. "Nefnt er að fyrir löngu hafi verið ráðgert að hætta samstarfi við Namibíu á þessum tíma, en tveir þeirra eru berorðir um Srí Lanka og Níkaragva og segja að þróunarsamvinna Íslands í þeim löndum hafi verið partur af atkvæðasmölun fyrir Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna og einn kýs að nota orðið "sölumennska" yfir hana. Annar nefnir að hann hafi ekki verið hrifinn af því í hvaða átt var farið að stefna varðandi málaflokkinn, sem hafi verið "út og suður" árin 2007 og 2008." (bls. 69- 70).

 

Ritgerð Hildar Eddu var lokaverkefni hennar til MPA-gráðu í opinberri stjórnsýslu með sérhæfingu á sviði alþjóðasamskipta. Leiðbeinandi hennar var dr. Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir. Hildur Edda hefur unnið sem starfsnemi ÞSSÍ bæði á aðalskrifstofu og í Mósambík.

 

Úrdráttur úr ritgerð Hildar Eddu

 -

Lög um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands, 121/2008

gunnisal
Eru Norðmenn örlátari en aðrir á fé til hjálparstarfa?
 

Norðmenn örlátastir?

 

Samkvæmt könnun sem endurskoðenda- og ráðgjafafyrirtækið Deloitee hefur gert eru Norðmenn gjafmildari á fé til góðgerðarmála  en nágrannar þeirra í Svíþjóð og Danmörku.  Almenningur í Noregi lætur jafnframt af hendi fleiri krónur en Svíar og Danir.

 

"Það er engum vafa undirorpið að við erum sífellt að verða gjafmildari. Tekjur frá styrktaraðilum og þeim sem reglubundið láta fé af hendi rakna til hjálparstarfs hækkuðu um tíu af hundraði meðal þeirra félagasamtaka sem tóku þátt í könnunninni," segir einn af skýrsluhöfundunum, Greta Elgåen, í samtali við Bistandaktuelt í Noregi.

 

Sambærileg könnun var gerð í Svíþjóð og Danmörku og sýnir að Norðmenn voru örlátastir.  Af þeim sem styrkja hjálparstarf voru jafnaðargreiðslur 1940 norskar krónur á árinu 2010, sem er 7% hækkun frá fyrra ári.  Á sama tíma og fjárhæðirnar hækka fjölgar í hópi þeirra sem styrkja hjálparstarf, bæði einstaka sinnum og reglubundið.  Sú fjölgun nemur 3% milli ára.

 

Í heildina tekið voru framlög utan opinberra framlaga rúmlega 1.3 milljarður norskra króna árið 2010, sem er 10% hækkun frá árinu áður.

 

Ekki er vitað til þess að sambærileg könnun hafi verið gerð hér á landi en almenningur á Íslandi er mjög örlátur á fjármuni til hjálparstarfs og vitað er að árið 2010 fór héðan yfir einn milljarður króna beint úr vasa almennings gegnum frjáls félagasamtök.  Þess vegna er sjálfsagt að setja spurningamerki við þá staðhæfingu að Norðmenn séu örlátastir.
 

 

Ný dönsk þróunarsamvinnuáætlun unnin með þátttöku almennings

 

Bach
Christian Friis Bach þróunarmálaráðherra Dana.

Nýja ríkisstjórnin í Danmörku hyggst á fyrstu sex mánuðum þessa árs móta nýju stefnu fyrir alþjóðlega þróunarsamvinnu. Christian Friis Bach, nýr ráðheerra þróunarmála, vill að almenningur taki þátt í að móta stefnuna. Ráðherrann kveðst vera nánast ofstækisfullur stuðningsmaður opins samfélags og telur að stefna stjórnvalda í þróunarmálum eigi að vera mál almennings.

 

Ráðherrann hefur tekið upp samstarf við dagblaðið Politiken og á þeim vettvangi verður opið fyrir umræður um málaflokkinn í þrjár vikur þar sem bæði sérfræðingar og lesendur geta skipst á skoðunum um forgangsatriði í danskri þróunarsamvinnu á næstu árum. Haft er eftir ráðherranum að það sé hafið yfir allan vafa að á næstu árum muni verða markverðar breytingar á þessu sviði, bæði hvernig stuðningur verður veittur og til hvaða málaflokka. Sjálfur sér hann fyrir sér að réttindi fólks verði höfð að leiðarljósi í þróunarsamvinnu, unnið verði að því að efla lýðræði, veita fjármunum í fjárlagastuðning og forgangsraða með ákveðnum hætti.

 

Christian Friis Back kveðst vera ráðherra réttinda en forveri hans í starfi, Sören Pind, kvaðst vera ráðherra frelsis. Þessar nafngiftir lýsa ef til vill ágætlega stefnubreytingu danskra stjórnvalda í málefnum þróunarríkja.

 

Udviklingsminister: »Jeg er åbenhedsfanatiker« /Politiken

-

Vær med til at lave Danmarks nye udviklingspolitik/ Politiken

-

Mchangama: Basale rettigheder fjerner ikke verdens fattigdom

-

Udviklingsministeren til de folkelige organisationer: I skal være relevante, dygtige og åbne!/ PRNGO 

 Seinagangur í hjálparstarfi kostaði tugþúsundir lífið
HornAfríku

Unnt hefði verið að afstýra dauða tugþúsunda íbúa í austanverðri Afríku á síðstaliðnu ári með því að bregðast fyrr við og grípa til aðgerða í skyndi. Viðvaranir um yfirvofandi hættu í þessum heimshluta voru ekki  teknar nægilega alvarlega. Alþjóðasamfélagið, ríkisstjórnir og hjálparstofnanir eru gagnrýnd í nýrri skýrslu fyrir seinagang vegna hungursneyðarinnar á Horni Afríku sem hefur kostað 100 þúsund mannslíf þar af hafa 50 þúsund börn látist. Skýrslan sem um ræðir var unnin af Oxfam og Save the Children en þurrkar í þessum heimshluta hafa komið verst niður á íbúum í Sómalílu, Eþíópíu og Kenía. Í annarri skýrslu, bandarískri, er bent á að 29 þúsund börn innan við fimm ára gömul hefðu dáið á níutíu dögum, frá maíbyrjun til júlíloka.

-

East Africa's drought: the avoidable disaster/ The Guardian

-

Why did help arrive so late? Evidence v Incentives in the Horn of Africa drought/ Duncan Green

-

Slow response to East Africa famine 'cost 'lives'/ BBC

-

Dangerous delay: Thousands of children died because early warnings on East Africa famine ignored/ The Independent

  Hjálparstarf kirkjunnar: 17,5 milljónir til neyðarhjálpar í Austur-Afríku

Hjálparstarf kirkjunnar hefur lagt fram 17,5 milljónir króna til neyðarhjálpar vegna hungursneyðar í Austur-Afríku. Neyðaraðstoðin fer í gegnum ACT Alliance sem Hjálparstarfið er aðili að. Af fjárhæðinni eru 10 milljónir frá Utanríkisráðuneytinu en afgangurinn er stuðningur Íslendinga í gegnum safnanir Hjálparstarfsins. Jólasöfnun sem enn er ekki búið að taka saman en gekk mjög vel fer einnig í þetta verkefni, fjárhæðin sem fer til neyðarhjálpar á svæðinu á því eftir að hækka.

Þeir sem njóta aðstoðar vegna fjármagns frá Íslandi eru meðal annarra um 100.000 manns í sex héruðum Eþíópíu.

-

Nánar 

K R Æ K J U R


Hvað ef hið óhugsandi gerist?, eftir Þóri Guðmundsson/ Rauði krossinn

-

Forsight Africa - Top Priorities for the Continent in 2012/ Brookings Institute

-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-

Sustainable Energy for All
Sustainable Energy for All
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-

Frjáls félagasamtök í alþjóðlegu hjálparstarfi:
Vatn, vatn, vatn og aftur vatn

 

Veftímaritið hefur farið þess á leit við stærstu frjálsu félagasamtökin í alþjóðlegu hjálparstarfi að gera stuttlega grein fyrir starfsemi sinni og viðfangsefnum á þessu ári. Hjálparstarf kirkjunnar segir frá:

 

Hjalparstarfkirkjunnar
Á myndinni er kona í Sómalíuhéraði í Austur-Eþíópíu sem er, Meram Hassan Nur, fyrsta konan í sinni sveit til að eignast úlfalda, en það gerðist í gegnum námskeið og lán til kvenna í gegnum verkefni Hjálparstarfs kirkunnar (samkvæmt hefð geta einungis karlmenn átt úlfalda).

Kannski ekki bara vatn líka ýmislegt annað, en vatnið er mjög stór þáttur í verkefnum Hjálparstarfs kirkjunnar erlendis.

 

Afríka
Í verkefnum í Eþíópíu, Malaví og Úganda eru yfirmarkmið eins og: "Að tryggja íbúum aðgang að hreinu vatni til neyslu, ræktunar og skepnuhalds" , "Að auka getu ólíkra opinberra aðila til að vinna að vatnsöflun og nýtingu vatns til betra lífviðurværis", "Afla vatns til að auka hreinlæti og bæta heilsu munaðarlausra barna, HIV/alnæmissjúkra og aldraðra" og "Hjálpa fólki að safna vatni og nýta til sameiginlegra nota og hlúa að auðlindinni".

 

Að vinna að réttarstöðu kvenna er annar áberandi þáttur í verkefnum í Afríku. Að þessu leyti eru markmið eins og: "Að styrkja efnahag og réttindi kvenna" og "Auka jafnrétti og draga úr kynbundnu ofbeldi".

 

Vatn
Í Malaví er borað eftir vatni, brunnar handgrafnir og viðhaldi á eldri brunnum sinnt. Í Úganda eru reistir söfnunartankar fyrir rigningavatn og í Eþíópíu eru grafnar stórar vatnsþrær sem safna rigningarvatni sem duga í um 4 mánuði inn í þurrkatímann. Fólkið á staðnum tekur sjálft virkan þátt í verkefninu frá upphafi. Stofnaðar eru vatnsnefndir sem fá fræðslu um nýtingu vatnsauðlindarinnar, viðhald og verndun hennar og um bættar hreinlætisvenjur. Vatnsnefndin heldur síðan fundi og námskeið um hreinlæti og smitleiðir sjúkdóma. Í Úganda er markhópurinn munaðarlausbörn sem misst hafa foreldra sína úr alnæmi, einstæðar mæður og ömmur sem sjá fyrir barnabörnum sínum. Reist eru hús með bárujárnsþaki sem safnar rigningarvatni í vatnstanka sem reistir eru við húsin. Samráð og samvinna við staðaryfirvöld og efling á þekkingu og getu þeirra er mikilvægur þáttur verkefnanna.

 

Réttindi kvenna
Á fræðslufundum og námskeiðum eru konur hvattar til þátttöku í framþróun síns svæðis, rætt um skaðlegar hefðir eins og umskurð kvenna, HIV/alnæmi og gildandi lög sem varða konur og börn. Ætlast er til að konur séu með í öllum nefndum sem tengjast verkefnunum og gætt að því að þær fái aðgang að ákvarðanatöku til jafns við karla. Nám
skeið eru haldin fyrir konur í að greina atvinnutækifæri, um mikilvægi sparnaðar, endurgreiðsla lána og að auka viðskipti og færa út kvíarnar þegar þar að kæmi. Þær geta í framhaldinu fengið lán eftir ákveðið sparnaðartímabil sem þær síðan endurgreiða með sanngjörnum hætti. Með þessu er efnahagslegt sjálfstæði kvenna aukið.

 

Réttindi barna
Á Indlandi er Hjálparstarfið í samstarfi við mannréttindasamtökin Social Action Movement sem vinna meðal stéttlausra á Indlandi sem búa við gríðarlega skert mannréttindi. Börn eru leyst úr skuldaánauð, þau frædd og studd til skólagöngu og fylgt eftir svo þau heltist ekki úr lestinni. Stéttarfélög kvenna, stéttarfélag þvottamanna og stéttarfélög frumbyggja hafa verið stofnuð og studd til að ná fram mannréttindum sem lög landsins kveða á um. Í samstarfi við United Church of India fá með stuðning styrktarforeldra á Íslandi um 400 börn og unglingar frá fátækum fjölskyldum skólagöngu og vist á heimavist samtakanna.

 

Neyðarhjálp í gegnum ACT alliance

Hjálparstarf kirkjunnar veitir mest af neyðarhjálp sinni í gegnum ACT Alliance og er einn 111 ACT-aðila um allan heim. Nú er unnið af krafti að neyðarhjálp vegna hungurs í Austur-Afríku.

 

Glefsur úr sögu íslenskrar þróunarsamvinnu - X. hluti

 

Lifir Aðstoðin eða deyr?

 

Í síðustu söguköflum hefur verið horft á fyrstu íslensku stofnunina sem sett var á laggirnar af hálfu stjórnvalda til að sinna opinberri þróunarsamvinnu - Aðstoð Íslands við þróunarlöndin, eins og stofnunin hét. Hún starfaði í tíu ár, frá 1971 til 1981, og hafði úr litlu að spila, ávallt í fjársvelti og bjó við aðstöðuleysi. Björn Þorsteinsson var eini starfsmaður Aðstoðarinnar, í hálfu starfi, en stofnunin tók á þessum tíma þátt í samnorrænum verkefnum í Kenía, Tansaníu og Mósambík, auk þess sem undirbúningur hófst í lok sjöunda áratugarins um fyrsta sjálfstæða verkefnið í tvíhliða þróunarsamvinnu: samstarfið við Grænhöfðaeyjar. Meira um það síðar.

 

Alþýðublaðið
Forsíða Alþýðublaðsins 28. desember 1978.

Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 1977 hafði fjárveitinganefnd Alþingis tvöfaldið framlög til Aðstoðarinnar, úr 12,5 milljónum í 25 milljónir, og þá skrifaði Björn dagblaðsgrein og sagði meðal annars að "dagar kraftaverkanna væru ekki liðnir þrátt fyrir allt." Hann skýrir ummælin með þessum orðum:

 

"Þeim sem ekkert þekkja til málsins þykir eflaust einum of sterkt til orða tekið, að tala um undur og kraftaverk. Til glöggvunar er ekki úr vegi að skjóta inn smávegis um þrautagöngu Aðstoðar Íslands við þróunarlöndin frá því að lögin um hana voru samþykkt á Alþingi vorið 1971. - Allan þennan tíma hefur stofnunin verið meira og minna óstarfhæf vegna fjárskorts. Alþingi hefur einfaldlega ekki farið eftir eða tekið mark á fjárbeiðnum hennar. .. Meira að segja hefur komið fyrir, að fá varð aukafjárveitingu eitt árið vegna þess að Alþingi sinnti ekki fjárbeiðni svo að hægt væri að standa við gerða samninga." (Þjóðviljinn 26. febrúar 1977, bls. 7).

 

Þótt hækkun framlaga sé talsverð í krónum talið verður raunhækkunin lítil við efnhagsaðstæður eins og ríktu hér á þessum tíma, í 50% verðbólgu. Þolinmæðin gagnvart áhugalitlum stjórnvöldum virðist vera á þrotum í lok ársins 1977 því Björn skrifar í Fréttabréf Aðstoðarinnar í desember:

 

Til hvers var verið að koma þessari stofnun á fót ef henni á ekki að verða kleift að starfa?

"Aðstoð Íslands við þróunarlöndin er ætlað samkvæmt lögum að annars kynningar- og upplýsingastarfsemi um þróunarlöndin. Þessari starfsemi hefur stofnunin ekki getað sinnt að neinu ráði vegna þess að fjármagn til þessa þáttar hefur ekki verið fyrir hendi. Þá hefur stofnunin ekki getað haldið opinni skrifstofu svo að nokkur mynd sé á né ráðið starfsmann til að annast þau störf sem brýnust eru. Þá hefur samvinna Íslendinga við hin Norðurlöndin á sviði uppýsinga og kynningar á þróunarlöndunum verið stórlega ábótavant þrátt fyrir góðan vilja stjórnar Aðstoðarinnar og mikinn velvilja frændþjóða okkar í þessum efnum. Allt er þetta vegna þess að hingað til hefur ekki þýtt að nefna upphæðir vegna stjórnunar, skrifstofu eða útgáfustarfsemi. Það skal á það minnt hér að lokum að þann 1. apríl 1978 verður Aðstoð Íslands við þróunarlöndin 7 ára gömul og vilji menn skoða þau lög sem henni er ætlað að vinna eftir er ekki að efa að sumir munu hugsa til hvers var verið að koma þessari stofnun á fót, ef henni á ekki að verða gert kleift að starfa?"

 

Tómlæti á tímum ójöfnuðar á Íslandi

Björn Þorsteinsson spurði þannig í desember 1977 og þegar í fyrstu viku næsta árs, 5. janúar 1978, skrifar hann grein í Þjóðviljann og veltir m.a. fyrir sér hugsanlegum skýringum á áhugaleysi og tómlæti þings og þjóðar á þróunaraðstoð. "Meðan þjóðfélagsóréttlætið ríður húsum hér á landi er vart að vænta þess að Íslendingar skipti sér af óréttlæti annars staðar í heiminum," segir hann í greininni.

 

Hann nefnir fyrst í greininni ójöfnuðinn á Íslandi, félagslegan og efnahagslegan, nefnir að vandkvæði þjóðfélagsins séu ætíð lögð á herðar þeim sem bera þyngstu byrðarnar. Hann vísar til kjarasamninga þar sem fleiri krónur eru jafnharðan teknar til baka í verðhækkunum og óðaverðbólgu. Samt sé því haldið fram við hátíðleg tækifæri að hvergi sé betra að búa en á Íslandi. "Íslendingar hafa undanfarin ár verið ærið afskiptalitlir um hagi annarra þjóða, sérstaklega á þetta við um þróunarlöndin, 2/3 hluta mannkynsins, sem búa við ömurleg lífsskilyrði. Þótt við séum sérstök þjóð með eigin menningu komumst við ekki hjá því í minnkandi heimi hraðfara tækni að hafa samskipti við annað fólk og aðrar þjóðir. Við erum ekki lengur einagnruð þjóð, fjarri skarkala heimsins. Vandamál þróunarlandanna koma okkur því sannarlega við, þó ekki væri nema frá siðferðilegu sjónarmiði séð. Hitt er svo annað mál hvort við erum líkleg til að láta okkur eymd meðbræðra okkar nokkru skipta. Varla er það líklegt á meðan hinn almenni launamaður hér á landi verður að vinna myrkranna á milli til þess að hafa í sig og á. Því að þeir sem sætta sig við slíkt óréttlæti í sínu eigin þjóðfélagi eru ekki líklegir að láta sig eymd fólks í fjarlægum löndum skipta." (Þjóðviljinn 5. janúar 1978, bls. 7).

 

Lifir Aðstoðin eða deyr

Í lok ársins 1978 er mælirinn næstum fullur og Björn skrifar í 5. tölublað Aðstoðarinnar í desember. "Það hlýtur að koma að því einn góðan veðurdag að Aðstoð Íslands við þróunarlöndin hrökkvi upp af vegna fjársveltis. Það fer því að verða fullkomin ástæða til þess að spyrja hvers vegna í ósköpunum hæstvirt Alþingi var að samþykkja lög um þessa stofnun fyrir rúmum 7 árum?" Og svo bætir hann við: "En það er líkast til tilgangslaust að koma með svona spurningu, það fæst víst enginn til að svara henni."

 

Þessi harðorða grein vekur heilmikla athygli og Alþýðublaðið slær upp fyrirsögn á forsíðu: "Lifir "Aðstoð Íslands við þróunarlöndin" næstu jól" - en tilvitnunin er sótt í lokaorð greinarinnar í Fréttabréfinu: "Það verður spennandi að fylgjast með því hvort Aðstoð Íslands við þróunarlöndin nær að lifa næstu jól eða hvort hún leggur upp laupana fyrir þann tíma. Ekki er nú hægt að segja að 8 ár sé hár aldur. Og svona til gamans að lokum er rétt að benda á, að á síðasta ári mun þróunaraðstoð Íslands hafa numið nálægt 0,06% af þjóðarframleiðslunni. Ef þessi tala (40 millj.) verður áfram þegar fjárlög hafa verið afgreidd má búast við að þróunaraðstoð Íslendinga hafi minnkað um 15-20%. Seint munu Íslendingar ná 1% markinu með þessu endemis áframhaldi."

 

Tíminn grípur á lofti þessar línur og spyr í fyrirsögn: Minnkar þróunaraðstoð Íslendinga um 15-20% - Fjárlagafrumvarpið gerir ekki ráð fyrir að hægt verði að sinna samningsbundnum framlögum á næsta ári. Tíminn rekur líka skrif Björns í Fréttabréfi Aðstoðarinnar.

 

"Það verður víst saga til næsta bæjar að íslenska ríkið skuli kippa burtu öllum grudvelli undan samningi, sem það er nýlega búið að gera," skrifar Björn Þorsteinsson ómyrkur í máli.-Gsal

 

 
facebook
Veftímaritið er á Facebook!

UM VEFTÍMARITIÐ

 

Veftímarit um þróunarmál er gefið út af Þróunarsamvinnustofnun Íslands. Ritinu er ætlað að glæða umræðu um þróunarmál og gefa áhugasömum kost á að fylgjast með því sem hæst ber hverju sinni. Efni veftímaritsins þarf ekki endilega að endurspegla stefnu ÞSSÍ.
          
Skráið ykkur í áskrift á heimasíðunni, www.iceida.is og látið vinsamlegast aðra með áhuga á þróunarmálum vita af tilvist veftímaritsins. Allar ábendingar um efni eru vel þegnar.  

Þeir sem vilja senda okkur ábendingu um efni eða afskrá sig af netfangalista eru vinsamlegast beðnir um að senda slík erindi á netfangið iceida@iceida.is. Ritstjóri er Gunnar Salvarsson, gsal@iceida.is. 

Við biðjumst velvirðingar á því að geta ekki notað íslenskar gæsalappír í viðtölum en bandarískt sniðmót Veftímaritsins leyfir ekki notkun þeirra.

 

Bestu kveðjur, Útgáfu- og kynningardeild ÞSSÍ

ISSN 1670-810