logo
Veftímarit um
þróunarmál
gunnisal
4. árg. 138. tbl.
16. nóvember 2011
Samstarfsáætlun fyrir Malaví kynnt á sjötta fundi samstarfsráðs um alþjóðlega þróunarsamvinnu:
Héraðsþróunarverkefni hefst á næsta ári á vegum héraðsstjórnar Mangochi  

 

Stefnt er að því að í árslok verði tilbúin samstarfsáætlun fyrir Malaví en kveðið er á um gerð slíkra áætlana fyrir samstarfsríki í tvíhliða þróunarsamvinnu í þróunarsamvinnuáætlun 2011 til 2014 sem samþykkt var á þingi síðastliðið vor. Drög af samstarfsáætlun fyrir Malaví, sem jafnframt er fyrsta slíka st

Jón Einar Sverrisson
Frá fundi samstarfsráðsins á mánudag. Ljósmynd: Jón Einar Sverrisson.

efnuskjalið sem gert er að Íslands hálfu, var á mánudaginn kynnt fyrir samstarfsráði um þróunarsamvinnu. Samstarfsráðið ber ábyrgð á faglegri umfjöllun um þróunarsamvinnu Íslands samkvæmt lögum og í ráðinu sitja sautján fulltrúar, fimm frá íslenskum hjálparsamtökum, tveir frá háskólasamfélaginu og tveir frá vinnumarkaðinum. Hin sjö sætin skipa fulltrúar Alþingis.

 

Samkvæmt drögum að samstarfsáætlun fyrir Malaví munu einstök verkefni undir stjórn Þróunarsamvinnustofnunar Íslands heyra sögunni til en svonefnd verkefnastoðanálgun (Programme Based Approach) taka við. Fram kom í máli Engilberts Guðmundssonar framkvæmdastjóra ÞSSÍ á fundinum að breytingarnar séu miklar og verið sé að vinna að héraðsþróunarverkefni í Mangochi héraði sem hefjist formlega á árinu 2012. Málaflokkar verða þrír - vatn og hreinlæti, menntun og lýðheilsa.

 

Samvinna um heilsugæslu
Samvinna um heilsugæslu - nýtt myndband frá Stefáni Jóni í Malaví.

Engilbert sagði ÞSSÍ hafa mikla reynslu af starfi í héraðinu sem telur 900 þúsund íbúa og ÞSSÍ muni veita fé og tæknilega aðstoð við að á fram skilgreindum markmiðum í þróunaráætlun Mangochi. Unnið er að gerð sérstakra verkefnaskjala fyrir málaflokkana þrjá í samráði við heimamenn og einnig verði héraðsskrifstofan efld til að ráða betur við framkvæmd verkefna á eigin vegum. Breytingarnar fela í sér að ÞSSÍ verði ekki lengur í beinum framkvæmdum með eigið starfslið heldur taki héraðsstjórn að sér umsjón verkefna.

 

Á dagskrá fundar samstarfsráðsins var meðal annars rætt um gagnsæi í störfum ráðsins, rædd var framkvæmd þróunarsamvinnuáætlunar, frumvarp til fjárlaga 2012 og kynnt fagteymi ráðuneytis og ÞSSÍ en þau taka til jafnréttismála, orku- og fiskimála og verklags- og eftirlits. Aukin heldur var kynning á samstarfsáætluninni fyrir Malaví og aðgerðaráætlun fyrir Palestínu.

 

Samstarfsráðið heldur að jafnaði fundi tvisvar á ári. Formaður þess er Valgerður Sverrisdóttir fyrrverandi utanríkisráðherra.

 

gunnisal
Ísland á að vera í hópi þeirra ríkja sem leggja mest af mörkum til þróunarsamvinnu, segir Árni Þór Sigurðsson formaður utanríkismálanefndar Alþingis.
 
Árni Þór Sigurðsson formaður utanríkismálanefndar á málþingi Afríku 20:20:

Megum ekki bara vera upptekin af sjálfum okkur í núinu

 

"Baráttan fyrir friði, mannréttindum, jöfnuði og lýðræði og sjálfbærri þróun er um leið barátta fyrir jöfnum lífskjörum og bættri stöðu þeirra sem búa við mesta neyð og er mikilvægur skerfur til þess að við sem byggjum þessa jörð getum búið saman í friði og sátt. Við megum nefnilega ekki líta undan og vera bara upptekin af sjálfum okkur í núinu heldur verðum við að horfa langt fram á veg og setja hlutina í heildarsamhengi. Það eru bæði siðferðilegir, efnahagslegir, félagslegir og umhverfislegir þættir sem leggja okkur ábyrgð á herðar. Í mínum er huga er því alls engin spurning um það hvort við eigum að leggja fjármagn í þróunarstarf, heldur hvernig við gerum það. Sú þróunarsamvinnuáætlun sem samþykkt var í vor er góður vegvísir og ég vona sannanlega og vænti að okkur lánist nú að ná þeim markmiðum sem þar eru sett fram. Til þess höfum við alla burði."

 

Þannig hljóðuðu lokaorð Árna Þórs Sigurðssonar formanns utanríkismála- nefndar á ráðstefnu Afríku 20:20 í síðustu viku sem bar yfirskriftina "Þróunarsamvinna á tímamótum". Í erindinu fjallaði Árni Þór m.a. um pólítíska sýn á málaflokkinn og sagði að almenn og breið pólítísk samstaða ríkti um þróunarsamvinnu þótt einstaka flokkar gætu haft mismunandi áherslur og sýn á heiminn. "Ég tel brýnt að efla samstarf allra þjóða heims á grundvelli jafnréttis og gagnkvæmrar virðingar fyrir ólíkum skoðunum og menningu," sagði hann. "Í því sambandi er m.a. nauðsynlegt að tryggja að réttur allra jarðarbúa til að njóta góðs af framförum í heilbrigðisvísindum verði viðurkenndur og virtur.Tefla þarf félagslegri hnattvæðingu fram gegn hinni kapítalísku hnattvæðingu samtímans og vinna að friðsamlegri sambúð þjóða, fullum mannréttindum, kvenfrelsi, velferð og jöfnuði allra jarðarbúa."

 

Árni Þór ræddi einnig um framlög Íslands til þróunarsamvinnu og kvaðst vera þeirrar skoðunar að Ísland ætti að vera í hópi þeirra ríkja sem legðu hvað mest af mörkum. "Það á að vera markmið okkar og metnaður. Ástæðan er einfaldlega sú að Ísland er rík þjóð í heimi þjóðanna. Þrátt fyrir að við glímum nú um stundir við efnahagslega erfiðleika sem að sjálfsögðu setja mark sitt á það sem við höfum til ráðstöfunar í hina ýmsu málaflokka, þróunarmálin eins og önnur, á það eftir sem áður að vera markmið okkar að vera í hópi þeirra þjóða sem hvað mest leggja af mörkum í þessu samhengi."

 

 
Íslendingar styðja samstarfsverkefni um afnám limlestingar á kynfærum stúlkna 

 

Utanríkisráðuneytið hefur skrifað undir samning um stuðning við samstarfsverkefni Barnahjálpar SÞ (UNICEF) og Mannfjöldasjóðs SÞ (UNFPA) sem snýr að afnámi limlestingar á kynfærum kvenna og stúlkna (Female Genital Mutilation/Cutting). Stuðningurinn nemur rúmum 24 milljónum króna árið 2011.

 

'I will never be cut': heimildamynd frá The Guardian.
'I will never be cut': heimildamynd frá The Guardian.

Að sögn Þórarinnu Söbech sérfræðings á þróunarsamvinnusviði ráðuneytisins er limlesting á kynfærum kvenna brot á mannréttindum, heilbrigðisvandamál, og birtingarmynd á kynbundnu ójafnrétti og ofbeldi. Það hamlar jafnframt þúsaldarmarkmiðum SÞ. "Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) áætlar að 100-140 milljónir kvenna hafi orðið fyrir slíkri limlestingu og samkvæmt áætlunum UNICEF eru þrjár milljónir stúlkna í hættu á að hljóta sömu örlög," segir hún.

 

Árið 2007 hófu UNICEF og UNFPA samstarf með það að markmiði að hraða afnámi limlestinga á kynfærum kvenna. Útgangspunktur verkefnisins er að sögn Þórarinnu sá að breytinga í samfélögum er aðeins að vænta gerist þær innan frá. "Verkefnið byggist því á stuðningi við aðgerðir - einstakra samfélaga og/eða á landsvísu, sem til staðar eru, og sýnt er að stuðli að jákvæðum félagslegum breytingum í tengslum við afnám limlestinga á kynfærum kvenna. Nálgun verkefnisins er heildstæð og byggist ýmist á samstarfi við ríki og sveitarfélög, trúaryfirvöld og leiðtoga, fjölmiðla, hið borgaralega samfélag, menntageirann eða heilbrigðisgeirann," segir hún.

 

Í ársskýrslu verkefnisins fyrir árið 2010 koma fram ýmsar upplýsingar um árangur fyrstu tveggja ára verkefnisins. Þórarinna segir að til dæmis hafi tæplega 600 samfélög lýst opinberlega yfir stöðvun á limlestingum á kynfærum kvenna, yfir 6.300 trúarleiðtogar lýst yfir þeirri skoðun sinni að aðgerðirnar skuli stöðva án tafar og yfir 16.000 fjölskyldur í Súdan og Egyptalandi horfið frá þessari venju. Því er við að bæta að sökum skorts á fjármagni til verkefnisins var ekki hægt að framkvæma alla þætti þess sem gert var ráð fyrir í upphafi, og til að mynda var aðeins hægt að styðja við aðgerðir í 12 löndum í stað 17 eins og upphaflega var gert ráð fyrir," segir hún.

 

Noregur er stærsti styrktaraðili verkefnisins ásamt Ítalíu en Írland, Austurríki, Sviss og Lúxemborg veita því einnig stuðning.

 

Ending Female Genital Mutilation/Cutting - the End Is In Sight/ UNFPA

-

The Female Genital Mutilation / Cutting (FGM/C) News Blog

-

SOMALIA: Women lobby for law against FGM/C

-

Senegal Moves Toward Ending Female Circumcision

 

 

transparency
Gagnsæisvísitalan.
Gæði og gagnsæi í alþjóðlegri þróunarsamvinnu:

Rannsóknir sýna að veitendur eiga langt í land á báðum sviðum

 

Tvö af lykilorðum alþjóðlegrar þróunarsamvinnu eru gæði og gagnsæi. Tvær skýrslur, önnur um gæði, og hin um gagnsæi, komu út á dögunum - og eru báðar innlegg í umræðuna á stóru stefnumarkandi ráðstefnunni í Busan í lok mánaðarins. Báðar skýrslurnar sýna að alþjóðlegar þróunarstofnanir og tvíhliða þróunarsamvinnustofnanir eiga langt í land með að uppfylla kröfur varðandi gæði og gagnsæi.

 

Fyrsta gæðarannsókn Center For Global Development og Brookings stofnunarinnar á þróunarstarfi, svokallað QuODA, kom út í október í fyrra. Nú er komin önnur rannsókn en QuODA mælistikan byggir á fjórum víddum, hámarks skilvirkni (hversu skynsamlega fjármagninu er dreift), stofnanastuðningi (hvort fjármagnið styður við stofnanir viðtökuríkis); minnkuðu álag á viðtökuríki (hversu mikið viðtökuríkið þarf að hafa fyrir því að ná til fjárins) og gagnsæi og þekkingu (hvernig háttað er aðgengi almennings að upplýsingum um það hvernig þróunarfé er varið). Miðað er við framlög ársins 2009 og matið nær til alþjóðastofnana og þeirra ríkja í tvíhliða þróunarstarfi sem eru meðlimir DAC, þróunarsamvinnunefndar OECD. Framlögin í heild námu 122 milljörðum og viðtakendur voru í 152 þjóðríkjum.

 

Helstu niðurstöður eru þær að 3 af 31 veitanda eru á topp tíu lista allra fjögurra víddanna, þ.e. IDA (International Development Association), Írland og Bretland. Flestir veitendur hafa lágt skor á einni eða fleiri víddum - og hafa því næg tækifæri til að bæta sig, eins og segir í geinargerð með skýrslunni. Í þremur af fjórum víddum standa marghliða stofnanir sig betur en tvíhliða veitendur. Á fjórðu víddinni - stofnanastuðningi - eru tvær litlar tvíhliða stofnanir á toppnum: þróunarsamvinnustofnanir Dana og Íra. Skýrsluhöfundar benda á að svo virðist sem marghliða stofnanir séu sjálfstæðari hvað varðar pólítísk afskipti en tvíhliða stofnanir, framlög þeirra ótengd viðskiptahagsmunum og ekki jafn dreifð. Ennfremur séu verkefni þeirra stór í sniðum og ekki eins íþyngjandi fyrir viðtökuríkið.

 

Gagnsæi eða öllu heldur ógagnsæi

Fjármálaleg upplýsingagjöf frá meirihluta þeirra ríkja og stofnana sem veita þróunaraðstoð er ófullnægjandi að því er fram kemur í nýrri skýrslu samtakanna Publish What You Fund. Léleg upplýsingagjöf grefur undan skilvirkni í þróunarsamvinnu og dregur úr trausti almennings, segja samtökin. Stórir veitendur eins og Bandaríkin, Japan, Frakkland, Þýskaland, Spánn, Noregur, Ítalía og Ástralía koma illa út úr þessari fyrstu "gagnsæisvísitölu" (Aid Transparency Index) en á henni eru 58 ríki eða alþjóðastofnanir. Ísland er ekki á listanum.

 

Í fimm efstu sætinum eru Alþjóðabankinn, The Global Fund, Afríski þróunarbankinn, utanríkisráðuneyti Hollands og þróunarsamvinnustofnun Breta, DFID. Í neðstu sætunum Rúmenía, Kína, Grikkland, Kýpur og Malta, þær tvær síðustu með gagnsæistöluna 0%.

 

Effective And Transpartent Donors, eftir Owen Barder/ Owen Abroad

-

Measuring the Quality of Aid: QuODA Second Edition (Brief for the Fourth High-Level Forum on Aid Effectiveness, Busan, South Korea), eftir Nancy Birdsall, Homi Kharas, and Rita Perakis/ Center For Global Development og Brookings Institute

-

Measuring the Quality of Aid: QuODA Second Edition/ CGD

-

Measuring the Quality of Aid (QuODA) - Homi Kharas and Rita Perakis, eftir Lawrence MacDonald/ CGD

-

PRESS RELASE: Aid donors criticised for lack of transparency/ Publish What You Fund

-

Gögn sem tengjast vísitölunni:

-

UK among most transparent aid donors/ The Guardian

-

Donors backtrack on aid transparency, report says/ Financial

-

Transparency could be the sticking point for China at Busan, eftir Mark Tran/ The Guardian

-

Who is implementing the aid transparency agreement?, eftir Owen Barden

 

Framlög til þróunarsamvinnu ná nýjum hæðum:

Íslendingar draga allra þjóða mest saman í opinberum framlögum

 

Samkvæmt tölum frá þróunarsamvinnunefnd Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD-DAC) námu hrein framlög til þróunarsamvinnu frá þeim löndum sem eru meðlimir DAC 128,7 milljörðum Bandaríkjadala árið 2010. Það samsvarar 14.800 milljörðum króna, eða tæpum 15 billjónum. Árleg útgjöld íslenska ríkisins eru í kringum 500 milljarðar króna, sem merkir að alþjóðleg framlög til þróunarsamvinnu árið 2010 dygðu fyrir um það bil 30 ára útgjöldum íslenska ríkisins.

 

Nokkra athygli vekur að þrátt fyrir efnahagslegar þrengingar víða um heim hafa framlög til þróunarsamvinnu aldrei verið jafnhá og árið 2010. Framlögin hækkuðu um 5,9% frá fyrra ári og nema 0,32% af vergum þjóðartekjum framlagsríkjanna. Frá 1970 hefur verið yfirlýst markmið Sameinuðu þjóðanna að efnaðar þjóðir skuli leggja fram 0,7% af vergum þjóðartekjum til þróunarmála. Enn er langt í land þar.

 

Framlög til ríkja Afríku námu 29,3 milljörðum dala. Þar af runnu 26,5 milljarðar til ríkja sunnan Sahara.

 

Hæstu framlögin koma frá Bandaríkjunum. Þau lögðu fram 30,2 milljarði dala á árinu, sem er 3,5% aukning frá 2009. Samsvarar þetta 0,21% af þjóðartekjum landsins. Önnur helstu framlagsríkin eru Bretland, Frakkland, Þýskaland og Japan. Fimmtán ríki Evrópusambandsins eru meðlimir í OECD-DAC og námu heildarframlög þeirra 70,2 milljörðum dala. Er þetta aukning um 6,7% frá fyrra ári og samsvarar 0,46% af þjóðartekjum landanna fimmtán.

 

Fimm þjóðir leggja meira til þróunarsamvinnu en 0,7% þjóðartekjumarkmið Sameinuðu þjóðanna. Öll eru þau evrópsk: Danmörk, Lúxemborg, Holland, Noregur og Svíþjóð.

 

Fimm mestu hástökkvarar ársins eru:

  • Portúgal 31,5% aukning,
  • Suður Kórea 25,7% aukning,
  • Tyrkland 23,8% aukning (ekki meðlimur OECD-DAC),
  • Bretland 19,4% aukning, og
  • Belgía 19,1% aukning.

 

Þau fimm ríki sem framlög lækkuðu mest hjá eru:

  • Spánn, 5,9% samdráttur
  • Svíþjóð, 7,1% samdráttur,
  • Slóvenía, 7,4% samdráttur (ekki meðlimur OECD-DAC),
  • Grikkland, 16,2% samdráttur, og
  • Ísland 22,6% samdráttur (ekki meðlimur OECD-DAC).

 

Við Íslendingar höfum því þann vafasama heiður að hafa dregið framlög okkar til þróunarsamvinnu meira saman en nokkur önnur þjóð á árinu 2010. -VW

 

Most Countries Far Short of ODA Target Figure 10 Years after Monterrey Consensus/ General Assembly,

 

2011 DAC REPORT ON MULTILATERAL AID

 

Trends in Development Co-operation 1960-2010/ OECD

 

MEMORANDUM Nº 58/2011 - 11/04/2011 - SPECIAL ON OFFICIAL DEVELOPMENT AID/ EBCAM

UNUHeimsókn rekstors háskóla SÞ til Íslands:

Framtíðarfyrirkomulag háskóla Sameinuðu þjóðanna rætt

 

Framtíðarfyrirkomulag háskóla Sameinuðu þjóðanna hér á landi var meðal umræðuefna á fundum Konrads Osterwalder rektors Háskóla Sameinuðu þjóðanna (HSÞ) en hann heimsótti Ísland á dögunum á vegum utanríkisráðuneytisins. Í ferðinni kynnti hann sér starfsemi Jarðhitaskóla HSÞ, Sjávarútvegsskóla HSÞ og Landgræðsluskóla HSÞ. Einnig kynnti rektor sér starfsemi alþjóðlegs jafnréttisskóla, en skólinn hefur verið starfandi innan Háskóla Íslands frá árinu 2009 með stuðningi frá utanríkisráðuneytinu.

 

Allsherjarþing SÞ stofnaði Háskóla Sameinuðu þjóðanna árið 1973 í því skyni að styðja við framgang markmiða og grundvallarreglna stofnsáttmála SÞ með rannsóknum, menntun og þekkingarmiðlun. Alþjóðlegt net 15 mennta- og rannsóknarstofnana um heim allan mynda HSÞ og er starf þeirra samhæft af aðalskrifstofu HSÞ í Tókíó. Jarðhitaskóli HSÞ hóf starfsemi 1. mars 1979 og var fyrsti skólinn á Íslandi sem varð hluti af neti HSÞ. Sjávarútvegskóli HSÞ bættist í hópinn 1998 og Landgræðsluskóli HSÞ árið 2010. Starf skólanna byggist á sex mánaða námi á Íslandi auk þess að styðja við sérfræðinga til meistara- og doktorsnáms hér á landi. Þá eru reglulega haldin námskeið á vegum skólanna í þróunarlöndum.

 

Að sögn Pálínu Bjarkar Matthíasdóttur á þróunarsamvinnusviði utanríkisráðuneytis er góð reynsla af starfsemi skóla HSÞ á Íslandi. "Vönduð kennsla og þjálfun sérfræðinga frá þróunarlöndunum hefur nýst í starfi þeirra við heimkomu og þannig stuðlað að félags- og efnahagslegri þróun víðsvegar um heiminn," segir hún.

 

Alls hafa 736 sérfræðingar lokið sex mánaða námi við skólana þrjá frá því Jarðhitaskólinn hóf störf. Þar af hafa 482 nemendur frá 50 löndunum lokið námi frá Jarðhitaskólanum, 223 nemendur frá 43 löndum lokið námi frá Sjávarútvegsskólanum og 31 nemandi lokið námi við Landgræðsluskólann. Auk þess hafa nokkrir tugir sérfræðinga frá þróunarlöndum lokið M.Sc. og PhD gráðum með stuðningi skólanna á Íslandi.

 

Pálína Björk vekur athygli á því að samkvæmt áætlun um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2011-2014 sé háskóli Sameinuðu þjóðanna ein fjögurra alþjóðastofnana sem sérstök áhersla verður lögð á að styðja í marghliða þróunarsamstarfi Íslands. "Heimsókn rektors var liður í því að styrkja tengslin við aðalskrifstofu HSÞ og efla samstarfið og framtíðarfyrirkomulag á starfsemi HSÞ á Íslandi var rætt. Þá heimsótti rektor skólana, ræddi við forstöðumenn, kennara og nemendur er stunda nám við skólana og heimsótti Hellisheiðarvirkjun til að kynna sér betur möguleika í nýtingu jarðvarma í þróunarlöndum," segir hún.

 

Í heimsókninni skrifaði rektor einnig undir framlengingu á samningi um Jarðhitaskóla HSÞ til ársins 2014, ásamt Össuri Skarphéðinssyni, utanríkisráðherra og Guðna A. Jóhannessyni, orkumálastjóra, eins og áður hefur komið fram í Veftímaritinu.

Afríka á þröskuldi þróunarbyltingar?

dsm

Afríka er á þröskuldi þróunarbyltingar, segir í glænýrri skýrslu Development Support Monitor (DSM), sem gefin er út af Africa Monitor. Njongonkulu Ndungane erkibiskup í Suður-Afríku og forseti samtakanna segir að sú bjartsýni sem nú ríki um framgang í álfunni megi líkja við nýja dögun eða stund Afríku.

 

Á fundi í Jóhannesarborg í siðustu viku þar sem skýrslan var kynnt kvaðst biskupinn engu að síður vera áhyggjufullur því óvissa ríkti um það hvort tækifærin sem Afríka hefur leiði að lokum til raunverulegar þróunar í álfunni. Hann vitnaði í rannsóknina og sagði að sterkar vísbendingar koma fram sem gefi til kynna að Afríki kunni að glata núverandi tækifærum vegna þess meðal annars að fátækt fólk fær ekki tækifæri tl að taka þátt í ákvörðunum sem varða þá sjálfa. Slíkt auki ójöfnuð milli ríkra og fátækra og útiloki grasrótarsamfélög frá þátttöku í efnhagsmálum.

 

Í rannsókninni segir:

 

"Draumar venjulegra Afríkubúa snúast ekki um safna að sér sem mestum auðævum. Þá dreymir um að eiga mat fyrir fjölskylduna. Á sama hátt talar dæmigerður Afríkubúi sjaldnast um hagvöxt eða aukinn útflutning þegar þeir eru spurðir um markmið."

 

Í skýrslunni er bent á mikilvægi þess að ríkisstjórnir og veitendur þróunaraðstoðar auki fjárfestingu í landbúnaði. Með því móti megi auka fæðuöryggi og draga úr hungri og fátækt.

 

Grassroots Fight to Have a Say in Development/ AllAfrica

-

Food Security More Inportant Than Food Aid/ AllAfrica

 

 
K R Æ K J U R

-
-
-
-
-
-
-
-
fundthefuture
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-

 Heilbrigðisstarfsfólk á vettvangi nær frekar
að koma í veg fyrir barnadauða af völdum lungnabólgu


 

Ný rannsókn Barnaheilla - Save the Children sem birt er í læknatímaritinu The Lancet, sýnir að heilbrigðisstarfsfólk sem starfar á vettvangi nær betri árangri í að koma í veg fyrir barnadauða af völdum lungnabólgu heldur en þegar börnum er vísað til heilbrigðisstofnana. Viðmiðunarreglur Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar (WHO) miðast í dag við að síðari leiðin sé farin. Alþjóðlegur dagur lungnabólgunnar er 12. nóvember.

               

Í rannsókninni kemur skýrt fram að meðferð, sem veitt er á vettvangi, getur dregið mjög úr barnadauða af völdum lungnabólgu en hún er efst á lista yfir þá sjúkdóma sem draga börn til dauða í heiminum. Þannig voru börn, sem voru illa haldin af skæðri lungnabólgu og fengu meðferð heima við af hendi "Lady Health Workers" í Pakistan, líklegri til að ná bata en börn sem vísað var til heilbrigðisstofnana. Rannsókn Barnaheilla - Save the Children er kostuð af USAID og unnin í samstarfi við Alþjóða heilbrigðisstofnuninni (WHO).  

 

Í þessari fyrstu nákvæmu tölfræðirannsókn sinnar tegundar, kemur fram að 91% barna náðu bata, sem þjáðust af alvarlegri lungnabólgu og fengu hjálp frá heilbrigðisstarfsfólki á vettvangi, á meðan að 82% þeirra barna, sem hlutu þá meðferð sem Alþjóðaheilbrigðisstofnunin mælir með í dag, náðu sér. Sú meðferð felst í einum skammti af sýklalyfjum en barninu er síðan vísað á næstu heilbrigðisstofnun.  

                                                   

Niðurstöður rannsóknarinnar eru birtar daginn fyrir alþjóðlegan dag lungnabólgunnar, þar sem kastljósinu er beint að þessari helstu dánarorsök barna í heiminum. U.þ.b. 1,4 milljónir barna undir fimm ára aldri deyja úr lungnabólgu, nær öll þeirra búa í þróunarríkjum.  

 

Nánar

-

Health and Science - Fighting back against pneumonia/

-

Aid brings pneumonia jab to Malawi/ UKPA

-

Shot in arm breathes hope into lives of world's most vulnerable/ SMH

  Vijay bloggar eftir Íslandsferðina

Vijay Iver yfirmaður jarðhitamála hjá Alþjóðabankanum sem var hér á landi fyrir skömmu birti á dögunum hugleiðingar á bloggsíðu Alþjóðabankans um Íslandsferðina. Þá vill Veftímaritið vekja athygli á viðtali við Vijay sem Spegillinn á RUV tók við hann um daginn.

 

Cool work with heat in Iceland inspires Africa, eftir Vijay Iver/ WorldBank

-

Orkufátækt heimsins - viðtal RUV við Vijay Iver/ Spegillinn 

Fleiri með farsíma en klósett
Reinvent the Toilet | Bill & Melinda Gates Foundation

Engin uppfinning á síðustu tvö hundruð árum hefur bjargað fleiri mannslífum en klósettið. Þetta segir Bill Gates og hvetur til þess að klósett séu endurhönnuð í ljósi þessw að 2.6 milljónir manna skorti öruggt og ódýra lausn við að ganga örna sinna. Mannúðarsamtök Gates hjónanna ætla að vera háum fjárhæðum til að bæta hreinlæti meðal fátækra og þar kemur klósettskorturinn sannarlega við sögu.

  

BRAC and Gates Foundation tackling toilet problem together/ BRAC

-

 Reinvent the toilet/ Bill And Melinda Gates Foundation

--

Health and Science - Building a latrine in timelapse/ Reuters 

PooTube: A Video Tour of the Dirty, Dangerous World of Latrine Emptying, eftir Frank Rijsberman
Um Veftímaritið
logo

Veftímarit um þróunarmál er gefið út af Þróunarsamvinnustofnun Íslands. Ritinu er ætlað að glæða umræðu um þróunarmál og gefa áhugasömum kost á að fylgjast með því sem hæst ber hverju sinni. Efni veftímaritsins þarf ekki endilega að endurspegla stefnu ÞSSÍ.
          
Skráið ykkur í áskrift á heimasíðunni, www.iceida.is og látið vinsamlegast aðra með áhuga á þróunarmálum vita af tilvist veftímaritsins. Allar ábendingar um efni eru vel þegnar.  

Þeir sem vilja senda okkur ábendingu um efni eða afskrá sig af netfangalista eru vinsamlegast beðnir um að senda slík erindi á netfangið iceida@iceida.is. Ritstjóri er Gunnar Salvarsson, gsal@iceida.is. 

Við biðjumst velvirðingar á því að geta ekki notað íslenskar gæsalappír í viðtölum en bandarískt sniðmót Veftímaritsins leyfir ekki notkun þeirra.

 

Bestu kveðjur, Útgáfu- og kynningardeild ÞSSÍ

  

 ISSN 1670-810 

 

facebook 

 

 

 

  

Starfsnemar skrifa:

Samkynhneigð í Úganda

 

 

Þrír ungir háskólanemar voru í ágúst síðastliðnum ráðnir sem starfsnemar Þróunarsamvinnustofnunar Íslands til fjögurra mánaða dvalar í samstarfsríkjum Íslands í þróunarsamvinnu. Þeir dvelja syðra fram í miðjan desember og skrifa til skiptis að beiðni Veftímaritsins um það sem á daga þeirra drífur í samstarfslöndum okkar. Páll Kvaran í Úganda er höfundur þessa pistils.

 

gunnisal
Páll Ingi Kvaran starfsnemi ÞSSÍ í Úganda fjallar um þróunarsamvinnu og samkynhneigð í pistli dagisns. Ljósmynd frá Úganda: gunnisal

Eitt af hlutverkum mínum hér í Úganda hefur verið að sækja fundi samstarfshóps veitenda um mannréttindamál. Eitt af megin þemum hópsins er Bahati frumvarpið svokallaða, nefnt eftir úgandíska þingmanninum David Bahati sem kynnti það til sögunnar árið 2009. Í frumvarpinu felst að refsingar við samkynhneigð yrðu þyngdar að því marki að dauðarefsing yrði kynnt til sögunnar. Einnig yrði yfirhylming eða hverskonar stuðningur við samkynhneigða gerður refsiverður með fangelsisvist allt að þremur árum. Alþjóðasamfélagið hefur brugðist hart við. Bretar, Þjóðverjar og Svíar, sem eru meðal stærstu veitenda þróunaraðstoðar í Úganda hafa, meðal annara, gefið skýr merki þess efnis að þróunaraðstoð verði minnkuð gangi frumvarpið í gegn, jafnvel alfarið hætt. Í kjölfar þessa þrýstings var frumvarpið sett í biðstöðu að beiðni forseta en gæti verið tekið fyrir aftur með litlum sem engum fyrirvara.

 

Sjálfur hef ég verið í þungum þönkum yfir þessum hótunum. Er rétt að hætta þróunaraðstoð til Úganda til þess að vernda mannréttindi samkynhneigðra: grundvallarrétt þeirra til lífs? Flestir svara þessari spurningu líklegast játandi án þess að hugsa sig tvisvar um. Hins vegar verður einnig að taka tillit til þess að þorri þróunaraðstoðar í Úganda fer til að halda þeim allra fátækustu á lífi og skapa þeim bjartari framtíð. Það að hætta aðstoð gæti því leitt til mun fleiri dauðsfalla en lagasetningin.

Annarri tegund raka kynntist ég svo í samræðum mínum við mann sem vinnur fyrri hollenska sendiráðið. Hann var á þeirri skoðun að ekkert ríki hafi rétt á að hlutast til um innlend lög annars ríkis. Þar af leiðandi hafi vestræn ríki ekki rétt á að segja úgandískum þingmönnum hvaða lög þeir megi eða megi ekki setja. Þessi rök eru skyld öðrum, sem maður heyrir marga stuðningsmenn frumvarpsins halda fram: Vesturlandabúar hafi ekki rétt til að troða sínu eigin siðferði upp á aðra. Ég svaraði Hollendingnum með því að halda því fram að þrátt fyrir að við höfum kannski ekki rétt á að hlutast til um lög ríkja, höfum við rétt á að ákveða hvaða ríki við aðstoðum og hvaða ríki við aðstoðum ekki. Ef lög viðkomandi ríkis eru eitthvað sem við viljum taka með í reikninginn, þá höfum við fullan rétt á því... eða hvað?

 

Algengt er að fordómafullir Afríkubúar, og þar með taldir Úgandabúar, haldi því fram að samkynhneigð hafi komið til Afríku með hvíta manninum. Hún sé því ekki hluti af menningararfi Afríkubúa heldur eins konar utanaðkomandi menningarleg mengun. Þegar málið er skoðað nánar er þetta auðvitað alrangt og hafa mannfræðingar til að mynda sýnt fjöldamörg dæmi þess að samkynhneigð var álitinn hinn eðlilegasti hlutur í mörgum afrískum samfélögum áður en nýlenduherrar komu til sögunnar. Hins vegar er áhugavert að sjá að fordómar gagnvart samkynhneigðum virðast að miklu leyti hafa komið með nýlenduherrunum. Hér í Úganda var samkynhneigð til að mynda fyrst gerð ólögleg undir nýlendustjórn Breta og skýr dæmi eru um svipaðar lagasetningar í öðrum ríkjum sem áttu sér stað undir þrýstingi eða hvatningu frá nýlenduherrum. Því virðist samkynhneigð alls ekki vera komin frá Vesturlöndum, heldur mun frekar fordómarnir og andúðin. Í þessum skilningi bera Vesturlönd, og þá helst nýlenduveldin, vissa ábyrgð á því hvernig komið er.

 

Í dag eru áhrifin stundum enn beinni og augljósari. Til dæmis má nefna að Bahati frumvarpið var kynnt til sögunnar mánuði eftir að þrír þekktir bandarískir Evangelistar héldu ráðstefnu hér í Kampala, þar sem því var haldið fram að samkynhneigð væri bein ógn við "Afrísk fjölskyldugildi", hugtakanotkun svipuð þeirri sem stundum heyrist í Bandarískri stjórnmálaumræðu. Í kjölfarið lýstu skipuleggjendur ráðstefnunnar því yfir að þeir væru "yfir sig ánægðir" með árangur erfiðisins.
 

Activist leading fight against Uganda's anti-gay bill wins RFK Human Rights Award in DC

-

Uganda man jailed for killing gay activist David Kato/ BBC

-

Should donors give money to countries with poor human rights?, eftir Jonathan Glennie/ The

-

Uganda gay activist woman wins major rights award/ Trust.org

-

Ugandan journalist fights for gay rights /DW

  
Glefsur úr sögu íslenskrar þróunarsamvinnu III.
 

 

Æskufólk leiðir herferð gegn hungri

 

HGH
Frétt Alþýðublaðsins um söfnunina.

Þegar punktur  var settur aftan við síðasta pistil var Alþingi búið að samþykkja fyrstu þingsályktunartillögu um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands, þ.e. tillöguna frá Ólafi Björnssyni hagfræðingi og þingmanni Sjálfstæðisflokksins þess efnis að kannað yrði á hvern hátt Íslendingar gætu best skipulagt aðstoð við þróunarlöndin þannig að hún mætti koma að sem mestum notum. Þetta var vorið 1965, síðasta dag marsmánaðar. Um haustið, í september, skipaði Emil Jónsson utanríkisráðherra þriggja manna nefnd til að fjalla um málið. Sú nefnd skilaði loks af sér áliti hálfum áratug síðar, 1970, en margt gerðist í millitíðinni og minnst af því inni á Alþingi.

                                                       

Það var unga fólkið á Íslandi sem hélt á lofti merki þróunarsamvinnu á sjöunda áratugnum - þótt hugtakið þróunarsamvinna væri ekki komið til sögunnar. Ungt fólk, í stjórnmálaflokkum, framhaldsskólum, Háskólanum og félagasamtökum, tók upp málstað baráttunnar gegn hungri og æskulýðsmálasíður dagblaðanna tókust á um málaflokkinn. Síðsumars 1964 var fimmdálka fyrirsögn á síðu Sambands ungra sjálfstæðismanna (SUS) í Morgunblaðinu: Íslenskt æskufólk leggi eitthvað af mörkum. Þar skrifar Ragnar Kjartansson greinina "Baráttan gegn hungri og fávisku - Verðugt verkefni" og fjallar um þann mannskæða óvin sem hungrið sé og þær þjáningar, veikindi og dauðsföll sem af fæðuskorti leiði. "Við Íslendingar erum þess vel megnugir að senda hóp ungra, sérþjálfaðra manna til að taka þátt í því víðtæka og göfuga starfi að kenna og hjálpa vanmáttugum að hjálpa sér sjálfir." Hann viðrar síðar í greininni þá hugmynd að íslenskur æskulýður standi fyrir víðtækum söfnunum undir kjörorðinu "herferð gegn hungri," en FAO hafði víða um heim beitt sér fyrir slíkum herferðum. Ragnar telur verkefnið verðugt og vísar hugmyndinni til heildarsamtaka æskunnar á Íslandi, Æskulýðssambands Íslands. Nokkrum misserum síðar, vorið 1965, er hugmyndin orðin að veruleika.

 

En hinkrum aðeins. Æskulýðsfylkingin hélt með sama hætti og SUS úti síðu í Þjóðviljanum á þessum árum undir yfirskriftinni "Æskan og sósíalisminn" og þar á bæ var lítil hrifning af ýmsu í málflutningi SUS í grein sem bar yfirskriftina "Sýndarmennska og aðstoðin við hin vanþróuðu lönd." Morgunblaðsgreininni er lýst sem fagurmála hugvekju um baráttuna gegn hungri "og Bandaríkin þar óspart lofuð," eins og sagt er. Ólafur R. Einarsson skrifar undir greinina og segir: "En arðrán auðvaldsþjóða Vesturveldanna á hinum sveltandi börnum og alþýðu þróunarlandanna gerir velviljuga aðstoð tilfinningaríks almennings að dropa í hafi." Fram kemur að Æskulýðsfylkingin muni styðja framkomna hugmynd um "herferð gegn hungri." Og lokaorðin: "Þessi verðugu verkefni sem æskulýðssambönd borgaraflokkanna á Íslandi styðja í orði í málgögnum sínum, hafa of oft reynst sýndarmennskan ein á borði."

 

Og það er ekkert verið að tvínóna við hlutina. Æskulýðssamband Íslands ákvað á stjórnarfundi 25. ágúst að boða fulltrúa hinna fjögurra pólítísku æskulýðssambanda til að kanna möguleika á aðgerðum til "styrktar því fólki í heiminum, sem við skort og hungur býr." Sá fundur var haldinn 1. september og kom þar fram mikill vilji fundarmanna. Rúmri viku síðar, 9. september, samþykkir stjórn ÆSÍ að skipa undirbúningsnefnd með Alþýðuflokksmanninn Sigurð Guðmundsson í forsæti, og sú nefnd vann um veturinn og skilaði áliti til stjórnar 16. mars 1965, "vel unnar tillögur og sérstaklega ítarlegar" eins og segir í frétt af aðlafundi ÆSÍ síðar um vorið. Nefndin lagði til nafngiftina "herferð gegn hungri" - skammstafað HGH. Því næst var framkvæmdanefnd skipuð.

 

Almenn fjársöfnun hófst um haustið og stóð yfir næstu mánuði - átti upphaflega aðeins að standa yfir í einn mánuð - þar sem um tvö þúsund manns lögðu hönd á plóg. Þegar herferðinni lauk kom í ljós að safnast höfðu tæpar 10 milljónir króna, eða þreföld sú upphæð sem gert var ráð fyrir í upphafi. Til marks um áhuga almennings má vitna í frétt Alþýðublaðins frá 11. desember 1965: "Athyglisvert er hve ungt fólk hefur látið sig máli skipta. Í Reykjavík tóku um 1100 manns úr hópi æskufólks þátt í fjársöfnuninni. Víða í sveitum þar sem nefndir voru ekki starfandi hófu kvenfélög, ungmennafélög, skólar og hreppsnefndin ótilkvödd söfnun með góðum árangri. Börn í skólum landsins hafa sýnt mikla framtakssemi í sambandi við ýmis konar fjáröflunarleiðir, hafa þau haldið hlutaveltur og skemmtanir, bazara og bögglauppboð..."

 

Peningarnir fóru til ákveðins verkefnis sem unnið var undir merkjum FAO - Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna. Verkefnið var aðstoð við fiskimenn í samfélögum við Alaotra-vatnið á eyjunni Madagaskar við austurströnd Afríku. "Við vatn þetta sem er mjög auðugt af fiski, búa um 100 þúsund manns, sem lifa á fiskveiðum, en hafa mjög frumstæða veiðitækni og lélegan útbúnað. Ef þessir fiskimenn fengju betri veiðarfæri og væri kennt að nota þau, myndu þeir ekki einungis geta framfleytt sjálfum sér miklu betur en nú er, heldur einnig séð næstu héruðum, en þar ríkir nú mikill næringarskortur, fyrir fæðu," segir í ályktun Stúdentaráðs Háskóla Íslands haustið 1965 eftir að undirnbúningsnefnd ÆSÍ hafði fengið úthlutað ákveðnu verkefni af hálfu FAO.

 

Í nóvember berst þakklætisbréf frá Madagaskar til Sigurðar Guðmundssonar formanns framkvæmdanefndar HGH frá Amiel forseta landsnefndar Madagaskar um Herferð gegn hungri. Þar segir m.a.: "Þér megið treysta því, að vinarbragð þetta mun sérstaklega verða metið af fiskimönnum við Alaotra-vatnið, sem búa við bág kjör, en munu nú geta útbúið sig veiðarfærum og komið veiðiaðferðum sínum í nútímahorf, til mikilla heilla fyrir Alaotra-héraðið. Það er mér sérstök ánægja að hugsa til þess að fiskimennirnir við Alaotra-vatn fá stuðning frá raunverulegum "bræðrum" þar sem þjóð yðar hefur stundað fiskveiðar frá aldaöðli, og hin mikla fjarlægð, sem skilur oss að, mun ekki koma í veg fyrir, að mikil vinátta skapist milli þjóða vorra."

 

Meira eftir viku. -Gsal

 

Hjá útvegsbændum við Alaotra vatn - viðtal Vísis við Andra Ísaksson sem dvaldi á Madagaskar