logo

Veftímarit um þróunarmál

gunnisal

4. árg. 123. tbl.

18. maí 2011

gunnisal
Náttúrufegurð er mikil á eyjunum í Viktoríuvatni. Ljósmynd: gunnisal

Ný áhersla í byggðaþróunarverkefni eyjasamfélaga á Viktoríuvatni:

Þróunarsamvinnustofnun styður ferðamennsku á eyjunum

 

"Kalangala hérað er eyjasamfélag í Viktoríuvatni og hefur hingað til byggt afkomu sína á fiskveiðum. En héraðið hefur líka mikla möguleika að auka tekjur sínar af ferðamennsku og þar fer saman nálægðin við höfuðborgina, hvítar strendur, fjölbreytt fuglalíf og gróðurfar, hreint loft og kyrrð," segir Drífa H. Kristjánsdóttir verkefnisstjóri ÞSSÍ í Úganda.

 

Nýlega lágu fyrir niðustöður úttektar á byggðaþróunarverkefni Kalangala héraðs en Þróunarsamvinnustofnun gerði á sínum tíma tíu ára samning um stuðning við byggðaþróun á eyjunum. Nú er saminingstíminn hálfnaður og úttektin sýnir að verkefnið hefur skilað árangri í öllum meginatriðum. Veftímaritið fjallar í næstu viku nánar um úttektina en við endurskoðun áætlana fyrir síðari fimm árin hefur verið tekin ákvörðun um stuðning við ferðamennsku á eyjunum sem er nýtt áherslusvið.

 

Drífa segir að núna séu fáeinir gististaðir reknir á stærstu eyjunni en lítið hafi verið gert af hálfu stjórnvalda til að styrkja þennan atvinnuveg. "Úttektaraðilar verkefnisins mæltu með því að ÞSSÍ myndi styðja héraðið í því að styrkja stoðir ferðamannageirans með því að taka þátt í stefnumörkun hans. Slíkur stuðningur fellur einnig vel að nýrri stefnumörkun stjórnvalda Úganda um hagþróun í héraði sem kemur til framkvæmda á næsta fjárhagsári. Stuðningur ÞSSÍ felst fyrst og fremst í því að kosta stefnumörknunina þar sem aðilar í ferðamennsku koma saman með héraðsyfirvöldum og almenningi og koma sér saman um það hvert beri að stefna í ferðamennsku á eyjunum og á hvað eigi að leggja áherslu á. Þegar slík stefnumótun er í höfn er hægt að hefja aðgerðir."

 

Að sögn Drífu hefur ÞSSÍ sett til hliðar fjármagn sem verður ráðstafað til geirans en verður óbundið til að fylgja úr höfn aðgerðaráætlun í ferðamálum sem væntanlega verður ein útkoma stefnumótunarvinnunnar. "Með því að styrkja ferðamennsku á eyjunum er ÞSSÍ að taka þátt í því að auka tekjur héraðsins með því að fjölga skattstofnum, sem aftur gerir yfirvöldum kleift að auka þjónustu við íbúana og viðhalda þeim árangri sem náðst hefur með tilstilli stuðnings ÞSSÍ við héraðið," segir hún.

 

Nánar um byggðaþróunarverkefnið í Kalangala

Össur Skarphéðinsson
Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra.

 

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra gefur Alþingi skýrslu um utanríkismál:

 

"Þrátt fyrir allan armóðinn erum við enn meðal ríkustu þjóða heims"

 

 "Við Íslendingar verðum að muna að þrátt fyrir allan armóðinn erum við enn meðal  ríkustu þjóða heims. Við höfum skyldu til að taka fullan þátt í því alþjóðlega verkefni að draga úr hungri, fátækt og barnadauða, hjálpa hinum fátækustu til að hjálpa sér sjálfum, og stuðla að sjálfbærri þróun, ekki síst í sjávarútvegi og endurnýjanlegri orku," sagði Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra meðal annars í framsöguræðu sinni með skýrslu til Alþingis um utanríkis- og alþjóðamál síðastliðinn mánudag.

 

Ráðherrann nefndi að í fyrsta sinn hafi verið lögð fram tillaga til þingsályktunar um þróunarsamvinnu, þar sem meginmarkmiðið er að ná áformum Sameinuðu þjóðanna um að veita 0,7 % af vergri þjóðarframleiðslu til þróunarmála árið 2021.  Hann þakkaði sérstaklega jákvæðar undirtektir formanna stjórnarandstöðu-lokkanna við tillögunni.  

 

Í skýrslunni kemur fram að í fjögurra ára áætlun um þóunar-samvinnu sé gert ráð fyrir því að hægur vöxtur verði á gldistíma hennar. Þegar áætlunin verður endurskoðuð árið 2013 er gert ráð fyrir því að hækkun framlaga verði hraðað svo að markmið SÞ verði uppfyllt á árinu 2021. Einnig kemur fram að verði hagvöxtur meiri en nú er spáð komi framlögin til endurskoðunar. Þá er gerð tillaga um að framlög til málaflokksins í fjárlögum verði sundurliðuð betur með sérstökum fjárlagaliðum um samstarf við félagasamtök, fyrir Landgræðsluskóla Háskóla SÞ, um samstarf við 

Alþjóðabankann og vegna umhverfis- og loftslagsmála. 

  

Fram kemur í skýrslunni að opinber framlög til alþjóðlegrar þróunarsamvinnu nemi á þessu ári 0,22% af vergum þjóðartekjum miðað við fjárlög og nýjustu hagspár.

Nánar

 

 

malawi
Þróunarsamvinnustofnun tekur upp samstarf við UNICE um gerð vatnsbóla við skóla í Malaví.

Samstarf Þróunarsamvinnustofnunar við UNICEF í Mangochi:

Bæta vatns- og hreinlætisaðstöðu við skóla í héraðinu

 

Þróunarsamvinnustofnun Íslands og Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) hafa tekið upp formlegt samstarf í Mangochi héraði í Malaví.  Verkefnið snýr að bættri vatns- og hreinlætisaðstöðu við skóla í héraðinu.  ÞSSÍ hefur nokkurra ára reynslu af vatns- og hreinlætisverkefnum í héraðinu og hefur sömuleiðis stutt uppbyggingu grunnskóla.

 

 "Að þessu sinni ákváðum við að leggjast á árar með UNICEF sem hefur tilbúið og fullhannað verkefni í gangi, það var ekki ástæða til þess að við ynnum sjálfstætt að sama markmiði í þessum geira," segir Stefán Jón Hafstein umdæmisstjóri í Malalví.  "Aðdragandi er sá að við könnuðum í fyrra hverjir aðrir en við væru með verkefni í gangi í héraðinu, bæði til að leita samstarfs og forðast skörun, enda í anda þess sem lengi hefur verið talað um að þeir sem veita þróunaraðstoð auki samstarf sín á milli," segir Stefán Jón.  "Sú athugun leiddi til þess að fýsilegt þótti að ganga til samstarfs við UNICEF, á svipaðan hátt og flæmska þróunarsamvinnustofnunin í Malaví hafði gert áður.  Þau töldu góða reynslu af," segir Stefán Jón. 

 

Niðurstaðan er sú að ÞSSÍ felur UNICEF gerð fimm vatnsbóla með borholum og hreinlætisherferð í tengslum við það.  Framlag ÞSSÍ er rúm ein milljón króna á hvern skóla. 

 

"Það er að mínu mati ákaflega mikilvægt að ná til skólabarna með hreinlætisfræðslu, við sjáum í okkar verkefnum til þessa að breyttar hreinlætisvenjur skila sér hægt inn í samfélögin.  Skólabörnin eru næsta kynslóð foreldra og því sjálfsagt markmið að ná til þeirra á unga aldri.  En til að fræðsla og breyttar venjur skili sér þarf auðvitað hreinlætisaðstöðu við skólana.  Hún felur í sér öruggt vatnsból, kynjaskipta kamra og handþvottaaðstöðu."

 

Samstarfið við UNICEF verður metið í árslok upp á framhald að gera að sögn Stefáns Jóns.  "Menn eru æ meira að leita eftir því að tengjast með svona hætti," segir hann, "það er einfaldlega heilmikil skynsemi í því og sparar peninga að auki."

 

gunnisal
Aðgerðaráætlun kennd við Istanbúlfundinn á að auk hagsæld í fátækustu ríkjunum. Ljósmynd frá Mósambík: gunnisal

Leiðtogafundi lokið um minnst þróuðu ríki heims:

Fækka á þjóðum í hópi minnst þróuðu ríkja um helming á tíu árum

 

Metnaðarfull tíu ára aðgerðaráætlun var samþykkt á nýafstöðnum leiðtogafundi um minnst þróuðu ríki heims og felur í sér markmið um fækkun ríkja í þessum ríkjahópi um helming, úr 48 ríkjum í 24 ríki. Leiðtogafundinum lauk á föstudag en slíkir fundir um málefni LDCríkjanna (Least Developed Countries) er haldinn er á tíu ára fresti og var að þessu sinni haldinn í Istanbúl í Tyrklandi. Tveir íslenskir fulltrúar utanríkisráðuneytisins sóttu fundinn, Anna Katrín Vilhjálmsdóttir og Jón Erlingur Jónasson.

 

Aðgerðaráætlunin - Istanbul Program of Action - felur í sér áskorun til ríkra þjóða að auka framlög til þróunarmála og aflétta viðskiptahindrunum þannig að vörur frá minnst þróuðu ríkjunum geti tekið þátt í heiðarlegri samkeppni á heimsmarkaði. Jafnframt er skorað á einkafyrirtæki ríkra þjóða til að leggja lóð sín á vogarskálar í baráttunni gegn fátækt með því að fjárfesta í þróunarríkjunum og skapa þar atvinnutækifæri.

 

Tillaga um nafnabreytingu á ríkjahópnum kom fram í lok ráðstefnunnar og felur í sér að í stað "Least Developed Countries" (Minnst þróuðu ríkin) verði tekið upp heitið "Future Developed Countries" (Þróuðu ríki framtíðar). Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna þarf að leggja blessun sína yfir nafnið.

 

Least developed countries: UN conference endorses ambitious plan to lift millions out of poverty/ The Guardian

 

UN poorest summit unveils Istanbul Action Plan/ UN

 

New Action Programme, and New Name for the Poorest/ IPS

 

LDC-IV, Istanbul: Labour and Social Protections Essential for Women Migrant Workers/ UN Women

 

LDC Summit Adopts Consensus Istanbul Programme with Population, Youth, Women among Nations' Action Priorities/ UNFPA

 

Aðstoð og markaðsaðgangur aukinn fyrir minnst þróuðu ríkin / UNRIC

 

Why Bother?
Why Bother?
Þróunarsamvinnna - skiptir hún einhverju máli? Nýstárleg sýn á þróunarmál í myndbroti frá ONE
  

Rauðikrossinn

Ársskýrsla Rauða krossins komin út

 

Í ársskýrslunni eru ítarlegar greinar um viðbrögð Rauða krossins vegna eldgossins í Eyjafjallajökli og jarðskjálftans mikla á Haítí. Þá er fjallað um verkefni Rauða krossins með ungum atvinnuleitendum, Rauðakrosshúsin, félagsvini atvinnuleitenda og fólks af erlendum uppruna, jólaaðstoð og athvörf Rauða krossins fyrir fólk með geðraskanir. Niðurstaða skýrslunnar Hvar þrengir að? sem unnin var í fjórða sinn á 16 árum fyrir Rauða krossinn er einnig til umfjöllunar, auk verkefna með ungu fólki og innflytjendum, aðstoð Rauða kross Íslands um allan heim, og landssöfnunin Göngum til góðs svo eitthvað sé nefnt.

 

Nánar 

Skýrsla FAO um konur og fæðuöryggi kynnt í Reykjavík

FAO

Fjölmenni sótti kynn-ingarfund á mánudaginn í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns Íslands þar sem Dr. Marcela Villarreal yfirmaður Kynja- og jafnréttisdeildar FAO (Matvæla- og landbúnaðarstofnunar SÞ) kynnti helstu niðurstöður ársskýrslu FAO um stöðu matvæla og landbúnaðar. Skýrslan í ár er helguð konum í landbúnaði og ber yfirskriftina: Women In Agriculture, Closing the Gender Gap for Development. Reykjavík er ein af fáeinum borgum í heiminum þar sem skýrslan er formlega kynnt.

 

Utanríkisráðuneytið í samvinnu við Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands, Alþjóðlegan jafnréttisskóla HÍ (GEST) og Þróunarsamvinnustofnun Íslands (ÞSSÍ)  stóð fyrir kynningarfundinum en auk Marcelu flutti Irma Erlingsdóttir framkvæmdastjóri alþjóðlega jafnréttisskólans erindi sem hún nefndi "Women and the Polictis of Development."

 

Auk Marcelu sátu í pallborði að erindum loknum Hafdís Hanna Ægisdóttir forstöðumaður Landgræðsluskóla háskóla Sameinuðu þjóðanna, Sigríður Þorgeirsdóttir prófessor við HÍ, Þórdís Sigurðardóttir skrifstofustjóri Þróunarsamvinnustofnunar Íslands og Grímur Valdimarsson fyrrverandi yfirmaður fiskiðnaðarsviðs FAO. Guðni Bragason fastafulltrúi hjá FAO var fundarstjóri.

Athyglisvert
  
  
  
  
  
  
  
  
  
  
  
  
  
  
  
  
 

Sænsk þróunar-samvinna bjargar 300 mannslífum á næstu fjórum árum


Fyrir tilstuðlan sænskrar þróunarsamvinnu verður 250 þúsund börnum og 50 þúsund konum bjargað á næstu fjórum árum, að því er Gunilla Carlsson ráðherra þróunarmála í Svíþjóð heldur fram. Hún nefndi þessar tölur á fundi með frétamönnum í síðustu viku. Svíar hafa lagt áherslu á þúsaldarmiðin númer fjögur og fimm sem lúta að lækkun á dánartíðni barna og bættu heilsufari kvenna. Ráðherrann nefndi einnig að Svíar legðu áherslu á baráttuna gegn hungri, auk þess sem fjölgun stúlkna í skólum væri forgangsatriði. Loks nefndi ráðherrann markmið um að fá einkafyrirtæki í Svíþjóð til samstarfs í þróunarmálum.

 

Fréttir og fréttaskýringar
  
  
  
  
  
  
  
  
  
  
  
  
  
  
  
  
  
  
  
  
  
  
  
Why Girls Drop-out in Tana River

Why Girls Drop-out in Tana River

  
  
  
  

Frumkvöðlar og fátækt:

Svíar kalla eftir nýjungum


Nýjungar gegn fátækt nefnist nýtt fjármögnunartækifæri fyrir frumkvöðla sem vilja nýta sköpunarkraft sinn í baráttunni við fátækt í heiminum.  SIDA, þróunarsamvinnustofnun Svía, hefur komið þessu þriggja ára átaki á laggir en það nefnist IAP eða "Innovations Against Poverty" uppá ensku.

 

Samkvæmt frétt á heimasíðu SIDA er markhópurinn fyrst og fremst fyrirtæki sem starfa eða eru með starfsemi í þróunarríkjum og hugmyndir geta náð til fjölmargra sviða samfélagsins, grunnviða, landbúnaðar, heilbrigðis og menntunar, svo fátt eitt sé nefnt. Gegnum átakið eiga fyrirtæki kost á fjárhagslegum stuðningi og ráðgjöf um viðskiptalíkön sem gætu veitt fátæku fólki tækifæri í þróunarríkjunum.

 

Haft er eftir Charlote Petri Gornitzka framkvæmdatjóra SIDA að markmið sé að setja fjármagn í sextíu nýjungar, vörur eða þjónustu, á næstu þremur árum. Samstarfsaðilar SIDA eru breska fyrirtækið Business Innovation Facility og PriceWaterhouseCoopers.

 

Nánar

Veftímaritið er á...
facebook
Taktu þátt í umræðum! 

Íslenskt fjölmiðlafár vegna frumvarps þingmanns í Úganda

 

visir
Smellið á örina til að horfa á fréttina.

 

Íslenska fjölmiðlafárið í síðustu viku vegna meintrar dauðarefsingar yfir samkynhneigðum í Úganda fór tæpast fram hjá nokkrum manni. Þetta var séríslenskt upphlaup, hvorki í Úganda né nokkru vestrænu ríki var málið á dagskrá fjölmiðla eða þjóðþinga líkt og hér gerðist. Í Úganda voru menn uppteknir við hátíðahöld vegna þess að fjórða kjörtímabil Museveni forseta var að hefjast og flestar fréttir erlendra fjölmiðla síðustu vikur hafa snúist um alvarleg götumótmæli og árekstra milli stjórnar og stjórnarandstöðu í Úganda. Upphlaupið hér snerist um frumvarp þingmanns sem kom fram árið 2009 og var aldrei á dagskrá þingsins. Það var orðrómur um að það yrði tekið fyrir, en það gerðist ekki. Og bænaskjalið sem tæplega tvær milljónir manna skrifuðu undir var keyrt áfram á ákvæði um meinta dauðarefsingu - "kill the gays" bill - (frumvarpið: drepum hommana) sem var fyrir löngu horfið út úr frumvarpinu.

 

Það er ekki hægt að álasa fólki fyrir að skrifa nafn sitt undir jafn ómannúðlegt lagaákvæði og dauðadóm í tengslum við kynhneigð. En það er ámælisvert að nota slíka ranga forsendu til þess að lokka fólk til undirskrifta. Og það sýnir veikleika þeirra samskiptamiðla og undirskriftaveitna sem blésu málið upp. Í framhaldinu komu samtök hinsegins fólks fram með kröfur á ráðherra um að hætta þróunaraðstoð, eins og það væri lausn og myndi stuðla að bættum mannréttindum. Er það ekki dálítið langt gengið að stuðningi við sárafátækt fólk, eins og þróunarsamvinna Íslendinga snýst að verulegu leyti um, verði hætt í einni svipan vegna mannréttindabrota gagnvart samkynhneigðum? Hvar á að draga línuna? Hvað um önnur mannréttindabrot? Brot gegn stúlkubörnum, konum, fötluðum...? Eða takmörkum á tjáningarfrelsi? Þetta álitamál var til umræðu hér í Veftímaritinu fyrr á árinu.

 

Og það er sjálfsagt að halda því til haga að fulltrúar þróunarsamvinnustofnana og erlendra ríkja tala fyrir mannréttindum við stjórnvöld þróunarríkja og setja stundum fram skilyrði fyrir framlögum eins og nýlegt dæmi frá Malaví sýnir. Í þeim alþjóðlega kór er hver rödd mikil virði. Líka þessi íslenska.

 

Í skýrslu utanríkisráðherra um utanríkismál sem flutt var á þingi síðastliðinn mánudag var vikið að þessum málaflokki og þar kom eftirfarandi fram:

 

"Utanríkisráðherra áréttaði réttindi samkynhneigðra,  tvíkynhneigðra og transgender  einstaklinga í ræðu sinni á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í september 2010 og hvatti öll aðildarríki til að afnema misrétti á grundvelli kynhneigðar. Á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna hafa Norðurlöndin haft forystu í baráttunni fyrir réttindum þessa hóps og gegn því ofbeldi sem einstaklingar hafa mátt þola á grundvelli kynhneigðar sinnar.  Þá hefur Ísland ásamt fleiri ríkjum lýst áhyggjum og staðið fyrir málsupptöku vegna stöðu samkynhneigðra í Úganda og Malaví, þar sem réttindi þeirra hafa verið brotin. Í maí á síðasta ári skrifaði utanríkisráðherra starfsbróður sínum í Malaví bréf til að lýsa áhyggjum yfir máli tveggja manna sem höfðu verið dæmdir í 14 ára fangelsi í kjölfar þess að þeir héldu veislu til að fagna trúlofun sinni. Ákvað forseti Malaví, í kjölfar mikils  alþjóðlegs þrýstings, að náða mennina tvo. Í febrúar 2011 tók sendiráð Íslands í Malaví þátt í sameiginlegum aðgerðum erlendra sendiráða í landinu til að mótmæla breytingum á hegningarlögum sem brjóta í bága við réttindi samkynhneigðra og tjáningarfrelsi." -Gsal

 

Samkynhneigir í hættu í Úganda/ RUV

 

Ísland hætti þróunaraðstoð við Úganda/ Mbl.is

 

Þingi Úganda slitið - Dauðarefsing við samkynhneigð ekki tekin til umræðu/ Smugan

 

Lögin "Drepið samkynhneigða" í þann mund að ganga í gildi í Úganda/ Bleikt.is

 

Samkynhneigð verði dauðasynd: Dauðarefsing hangir yfir hommum, lesbíum og HIV-smituðum /Pressan

 

Jóhanna gagnrýnir frumvarp: Átelur brot á samkynhneigðum í Úganda/ Fréttablaðið

 

Hvetja íslensk stjórnvöld til þess að hætta þróunaraðstoð við Úganda/ Vísir

 

Áskorun til Jóhönnu Sigurðardóttur vegna Úganda/ Bleiki hnefinn - aðgerðahópur róttækra kynvillinga

 

 

United Nations and EU tell Uganda to repeal anti-gay bill/ Daily Monitor

 

Anti-gay backlash threatens aid and rights in Africa/ The Guardian

 

Uganda is ready for change, eftir Sokari Ekine/ Pambazuka

 

UGANDA: MP to persevere with anti-homosexuality bill/ PlulsNews

 

 

 

 

 

 

 
logo 
Veftímarit um þróunarmál er gefið út af Þróunarsamvinnustofnun Íslands. Ritinu er ætlað að glæða umræðu um þróunarmál og gefa áhugasömum kost á að fylgjast með því sem hæst ber hverju sinni. Efni veftímaritsins þarf ekki endilega að endurspegla stefnu ÞSSÍ.
          
Skráið ykkur í áskrift á heimasíðunni, www.iceida.is og látið vinsamlegast aðra með áhuga á þróunarmálum vita af tilvist veftímaritsins. Allar ábendingar um efni eru vel þegnar.  

Þeir sem vilja senda okkur ábendingu um efni eða afskrá sig af netfangalista eru vinsamlegast beðnir um að senda slík erindi á netfangið iceida@iceida.is. Ritstjóri er Gunnar Salvarsson, gsal@iceida.is. 

Við biðjumst velvirðingar á því að geta ekki notað íslenskar gæsalappír í viðtölum en bandarískt sniðmót Veftímaritsins leyfir ekki notkun þeirra.

 

Bestu kveðjur, Útgáfu- og kynningardeild ÞSSÍ

 

ISSN 1670-810