Veftímarit um þróunarmál
gunnisal
3. árg. 105. tbl.8. desember 2010
gunnisal
Börn eru í meirihluta þeirra sem deyja af völdum loftslagsbreytinga. Ljósmynd frá Malaví: gunnisal

Dökk framtíðarmynd dregið upp á loftslagsráðstefnunni í Mexíkó:

Á hverju ári deyja nú þegar 350 þúsund vegna hlýnunar jarðar

 

Á hverju ári láta 350 þúsund manns lífið þar sem dánarorsök má beint rekja til loftslagsbreytinga. Börn í Afríku- og Asíuríkjum eru í meirihluta þeirra sem deyja.  Eftir tíu ár gæti þessi tala látinna verið komin upp í eina milljón á ári.

 

Þessar óhugnanlegu tölfræðiupplýsingar er að finna í skýrslu sem lögð var fram á loftslagsráðstefnunni í Cancún sem nú stendur yfir en skýrslan heitir Climate Vulnerability Monitor 2010, útgefin af rannsóknarmiðstöðinni DARA í Madrid á Spáni. Eins og nafið gefur til kynna hafa vísindamenn DARA kortlagt þá staði jarðar þar sem breytingar á loftslagi geta haft alvarlegustu afleiðingarnar.

 

Þegar er komið í ljós að fátækustu ríki heims verða fyrir mestu tjóni vegna hlýnunar jarðar.  Fram kemur í skýrslunni að það komi til með að breytast á næstu tveimur áratugum og þá verða nánast allar þjóðir fyrir neikvæðum afleiðingum loftslagsbreytinga. Við blasir t.d. að fjölgun vannærðra barna gæti numið 17 milljónum og að einhverjir afrískir bændur þyrftu að gefa landbúnað upp á bátinn vegna hlýnunar.

 

Á ráðstefnunni í Mexíkó reyna fulltrúar þjóða að sammælast um skref til að draga úr hlýnun jarðar. Ráðstefnunni lýkur á föstudag.

 

Morgunblaðið segir frá því í morgun að gerð sé tillaga um 60 milljóna kr. tímabundið framlag á fjárlögum næsta árs til tveggja ára vegna verkefna á sviði loftslagsmála til aðstoðar þróunarlöndum á árunum 2011-2012. Meirihluti fjárlaganefndar leggur þetta til en framlagið er í samræmi við ákvörðun ríkisstjórnarinnar frá 9. nóvember sl. og er rökstutt með því að meðal iðnríkja sé breið samstaða um að stórauka þurfi fjármögnun til aðgerða til að draga úr loftslagsbreytingum og aðstoða fátækustu þróunarríkin við að takast á við afleiðingar þeirra.

 

Fátæk börn mun líklegri til að þjást af völdum hamfara vegna loftslagsbreytinga/ Barnaheill

 

Poor are already paying the cost of adapting to climate shifts - expert/ AlertNet

CLIMATE CHANGE: Staple food crops do not want global warming/ IRIN

 

Acriculture And Rural Development Day

 

CLIMATE CHANGE: Turning Agriculture From Problem to Solution/ IPS

 

350 000 dör av klimatförändringar - DN.se

 

Oxfam and the World Food Programme Announce R4 Partnership for Resilient Livelihoods in a Changing Climate/ PR Newswire

 

Cancún climate change summit: Let's show we mean business, eftir Richard Branson

WorldMigrationReport2010
Spáð er gífurlegri fjölgun innflytjenda á næstu fjörutíu árum.

 

Sívaxandi straumur innflytjenda

 

Innflytjendur - fólk sem hefur farið yfir landamæri í leit að vinnu og betra lífi -  gætu orðið um 400 milljónir, eða tæplega 7% jarðarbúa, árið 2050, að mati Alþjóðlegu innflytjenda-stofnunarinnar IMO. Í skýrslu sem kom út á dögunum segir að fólksflutningar innan landa hafi einnig aukist og sérstaklega búferlaflutningar fólks úr dreifbýli í þéttbýli.

 

Skýrsla IMO um stöðu innflytjenda kemur út annað hvert ár.  Í skýrslunni  - World Migration Report 2010: The Future of Migration: Building Capcities for Change -  er sagt að verði fjölgun innflytjenda í svipuðum mæli næstu tuttugu árin gætu þeir orðið um 405 milljónir talsins í heiminum öllum árið 2050. Þeir eru nú taldir vera 214 milljónir.

 

Fram kemur í skýrslunni að peningasendingar innflytjenda til ættingja í föðurlandinu nemi þrefalt hærri upphæð en alþjóðleg framlög til þróunarsamvinnu og heimgreiðslurnar skipti miklu máli í efnahagslegu tilliti fyrir hagkerfi heimsins.

 

Nánar

 

IOM: Number Of International Migrants Could Double Over 40 Years/ VOA

 

Climate change set to cause migrant surge/ CNN

 

Innflytjendur og þróunarmál: Pulling Up the Ladder, eftir Owen Barber

 

Migration and urbanisation : Dreams and nightmares/ The Courier

 Skoðanakönnun á viðhorfum barna í þróunarríkjum:

Menntun og matur efst á blaði


Börn í þróunarríkjum leggja sjálf mikla áherslu á menntun og telja að nám feli í sér  leið til betra lífs. Þetta er meðal þess sem fram kemur í skýrslunni - Small Voices, Big Dreams - sem dregur fram niðurstöður skoðanakönnunar meðal þrjú þúsund barna á aldrinum tíu til tólf ára í þrjátíu þróunarríkjum. Lagðar voru sex spurningar fyrir börnin en

smallvoices
Börn vilja menntun, mat og öryggi.

skoðanakönnunin var gerð af hálfu alþjóða-samtakanna Child Fund Alliance en þau samtök er að finna í fjölmörgum Evrópulöndum.

 

Fjórar spurninganna voru opnar, þ.e. börnin höfðu algert val um það hvernig þau svöruðu. Í hinum tveimur þurftu þau að veita ákveðnar upplýsingar en það voru spurningar um það hversu oft í síðustu viku þau hefðu farið svöng í háttinn og hversu marga klukkutíma á degi hverjum þau væru látin vinna annað en heimanámið.  Svörin við síðustu spurningunum tveimur voru þau að 32% barnanna kváðust fara svöng í háttinn að minnsta kosti einu sinni í viku, 6% sögðust sofna svöng að minnsta kosti þrisvar í viku. Rúmlega fjórðungur barnanna, 26%, kváðust vinna að minnsta kosti hálfan daginn og 4% sögðust þurfa að vinna allan daginn.

 

Fyrsta spurningin sem lögð var fyrir börnin var þessi: Ef þú værir forseti landsins hvað myndirðu gera? 57% kváðust vilja bæta menntun og 19% sögðu að þau myndi vilja hjálpa fólki um mat.

 

Önnur spurningin: Hvers þarfnast þú mest daglega? Betri menntunar sögðu 34% barnanna, matar sögðu 33%.

 

Þá voru þau spurð hvað þau óttuðust mest. um 30% svöruðu að þau óttist mest dýr og skordýr,  20% nefndu dauða, sjúkdóma eða slys, 15% nefndu stríð, hryðjuverk og ofbeldi, 15% nefndu líka fólk og 10% nefndu drauga eða önnur yfirskilvitleg fyrirbæri.

 

Loks voru börnin spurð að því hvað þau myndu kaupa fyrir upphæð sem samsvarar einum dollara. Flest barnanna, 45%,  nefndu mat og vatn, og 19% nefndu föt.

 

"Könnunin er dæmi um að þegar maður hlustar á börn kemur í ljós að þau hafa mikilvæga sögu að segja," segir Annette Lüdeking í grein um könnunina en hún hefur búið í Afríku í tuttugu ár og unnið bæði fyrir Sameinuðu þjóðirnar og Danida, þróunarsamvinnustofnun Dana.  Hún segir að saga barnanna fjalli um það hvernig fátæktin reisir girðingar utan um líf þeirra, en einnig "fjallar sagan um að  vonir barna og framtíðardraumar eru þeir sömu alls staðar," segir hún.  "Gildir þá einu hvort heldur um er að ræða barn í Afganistan í Asíu, í Angóla í Afríku eða Níkaragva í Mið-Ameríku - við heyrum hvarvetna sömu röddina: leyfðu mér að fara í skóla, gefðu mér mat svo ég verði mettur og veittu mér öryggi."

 

 

Natural Hazards UnNatural Disasters
Lágmarka verður tjón af völdum hamfara með öflugu fyrirbyggjandi starfi.

 

Náttúrulegar og ónáttúrulegar hamfarir:

 

Heimurinn verður að leggja áherslu á forvarnir


Hamfarir gætu kostað næstum 2.500  milljarða íslenskra króna árlega fyrir lok þessarar aldar. Miklu ódýrara væri að leggja áherslu á fyrirbyggjandi aðgerðir til að draga úr tjóni af völdum hamfara,  segir í nýrri bók Alþjóðabankans og Sameinuðu þjóðanna: "Natural hazards, UnNatural disasters - The Economics of Effective Prevention". Í bókinni er fjallað um hamfarir, einkum út frá efnahagslegum sjónarhóli, en þeim er skipt í tvennt og sú skipting er skilgreind með eftirfarandi hætti:

 

Jarðskjálftar, þurrkar, flóð og stormar eru náttúruhamfarir en mannfall og tjón sem rekja má til mannlegra athafna vegna aðgerðarleysis eða aðgerða eru ónáttúrulegar hamfarir. Hvert tilvik er einstakt og hvert tilvik kallar á viðbrögð - einstaklinga og ríkisstjórna á mismunandi stigum - sem, hefðu þau verið önnur, hefðu þýtt færri dauðsföll og minna tjón. Forvarnir eru mögulegar og  bókin fjallar um það hvað þarf að gera til þess að gera þetta á hagkvæman hátt.

 

Höfundar bókarinnar benda á mikilvægi forvarna með sterkum dæmum af tveimur  jarðskjálftum af svipuðum styrkleika. Annar skjálftinn var á Haíti í ársbyrjun og kostaði 300 þúsund manns lífið en hinn skjálftinn var í Chile og kostaði 700 mannslíf. Ástæðan fyrir þvi hversu fáir létust í Chile voru fyrst og fremst forvarnir: stjórnvöld höfðu tryggt öryggi borgaranna með afgerandi hætti en það sama verður seint sagt um stjórnvöld á Haítí.

 

Haítí er dæmi um aðstæður sem kalla á hörmungar sem þessar þar sem margt fólk býr við slæmar aðstæður í fátækrahverfum. Höfuðborgin var byggð fyrir hundrað þúsund íbúa en þegar skjálftinn reið yfir voru íbúarnir um tvær milljónir.

 

Í bókinni er bent á einfaldar forvarnir eins og upplýsingagjöf um áhættuþætti, viðhald samgöngumannvirkja og kröfunnar til eigenda/leigjenda að tryggja öryggi hýbýla - allt til þess að lágmarka tjón af völdum náttúruhamfara. Með bókinni vænta höfundarnir þess að stjórnvöld ríkja skilji mikilvægi þess að beita forvörnum og vernda fólk.

 

Á undanförnum 40 árum hafa 3.3. milljónir manna farist af völdum náttúruhamfara. Á hverju ári deyja 82.500 af völdum þurrka, flóða og jarðskjálfta. Þá er ótalið eignatjónið. Fátæk ríki verða verst úti í slíkum hamförum og talið er að ein milljón manna hafi farist í Afríku vegna þurrka á síðustu fimmtíu árum.

 

Um 20% af framlögum til mannúðaraðstoðar fer til neyðarhjálpar vegna náttúruhamfara. Til samanburðar fer minna en 1% af þróunarfé til fornvarna vegna náttúruhamfara og þar sem neyðarástand ríkir. Samt hefur orðið nokkur aukning á þessum framlögum á síðasta áratug. Á árinu 2001 runnu 0,1% til forvarna.

 

Nánar

 

Formálsorð bókarinnar

 

Skýrslan - yfirlit

 

Yfirvöld þéttbýlissvæða  verða að bregðast við loftslagsvá


Borgarstjórnir og yfirvöld þéttbýlissvæða ættu að gegna mikilvægara hlutverki við að skilgreina andsvar við loftslagsbreytinum að mati OECD. Í skýrslunni - Cities and Climate Change - er staðhæft að

gunnisal
Borgarsamfélögum stafar mest hætta af áhrifum loftslagsbreytinga. Myndin er tekin í Kampala, höfuðborg Úganda. Ljósmynd: gunnisal

frá borgarsamfélögum berst mest af losun gróðurhúsalofttegunda. Þrátt fyrir að aðeins um helmingur jarðarbúa búi í borgum nota íbúar á þéttbýlissvæðum 2/3 hluta allrar orku í heiminum. Í skýrslunni er bent á að borgarbúum stafi mest ógn af hækkun sjávarmáls, hlýnunar og storma sem reiknað er með að leiði af loftslagsbreytingum. Um leið og borgarbúar eru kjarni vandamálsins, þar sem þeir eru neyslufrekir á orku, eru þeir um leið nauðsynlegur lykill að lausninni, segir í skýrslunni þar sem yfirvöld í þéttbýli eru hvött til að bregðast strax við yfirvofandi vá.

 

Environment: Cities central to climate change response

 

Cities and climate change: key messages from the OECD 

 

Urban Development

rural
Rúmlega 70% allra sárafátækra búa í dreifbýli. Ljósmynd frá Namibíu: gunnisal

 

Örsnauðum í dreifbýli hefur fækkað um 350 milljónir á síðustu tíu árum

 

Þrjú hundruð og fimmtíu milljónir manna í dreifbýli hafa risið upp úr örbirgð á undanförnum áratug - þökk sé umbótum á síðustu tíu árum. Örbirgð í heiminum er engu að síður enn gríðarlegt vandamál sem fyrst og fremst þrífst í dreifbýli, segir í nýrri skýrslu Alþjóðaþróunarsjóðs landbúnaðarins, IFAD.  Skýrslan um fátækt í dreifbýli - Rural Poverty Report 2011 - sýnir mismunandi árangur eftir heimshlutum. Tækifæri felast í umbreytingu á mörkuðum með landbúnaðarvörur, segja skýrsluhöfundar.

 

Rúmlega 70 af hundraði þeirra 1.4 milljarða jarðarbúa sem teljast örsnauðir eru búsettir í dreifbýli. Í skýrslunni segir að hlutfall þeirra sem búa við sárafátækt eða örbirgð í dreifbýli í þróunarríkjunum hafi fallið úr 48 af hundraði í 34 af hundraði. Skilgreining þessa að búa við sárafátækt eða örbirgð er að lifa á 1.25 Bandaríkjadali á dag eða minna.  Langstærstan hluta fækkunar fátækra má rekja til Austur-Asíu, aðallega Kína.

 

Niðurstöður skýrslunnar benda til stórkostlegrar fjölgunar örsnauðra á dreifbýlissvæðum í Afríku sunnan Sahara, enda þótt hlutfall þeirra sem lifa á 1.25 Bandaríkjadali á dag hafi raunar minnkað örlítið frá því síðasta sams konar IFAD-skýrsla var gefin út árið 2001, að því er fram kemur á vef upplýsingaskrifstofu SÞ fyrir Vestur-Evrópu.

 

Scaling Up the Fight Against Rural Poverty: An Institutional Review of IFADA´s Approach, eftir Johannes F. Linn/ Brookings

Afríka getur brátt brauðfætt alla íbúa álfunnar

 gunnisal

 

Í nýrri bók er því haldið fram að Afríka geti brauðfætt alla íbúa álfunnar á næstu áratugum og jafnframt að þjóðir Afríku geti gerst stórútflytjendur á landbúnaðarvörum. Þessi  jákvæða framtíðarsýn birtist í bókinni - The New Harvest - eftir Calestous Juma prófessor við Harvard háskólann í Bandaríkjunum. Hann hvetur alla Afríkuleiðtoga til þess að setja landbúnaðinn í forgang við allar ákvarðatökur. Niðurstöður hans voru kynntar í síðustu viku fyrir nokkrum forsetum Afríkuríkja í Tanzaníu, m.a. forsetum Kenía, Úganda, Rúanda, Búrúndi og Tansaníu. Forsetarnir voru þar á óformlegum fundi um fæðuöryggi og loftslagsbreytingar, að sögn BBC.

 

Africa 'can feed itself in a generation'

 

Agricultural productivity and food security key to improve human health in Africa /MediaGlobal

 

How can Africa grow more food?/ The Guardian

Athyglisvert

An Agenda for Research on Urbanization in Developing Countries - A Summary of Findings from a Scoping Exercise, eftir Patricia Clarke Annez og Johannes F. Linn/World Bank

U.N. a Playground for Spies of all Political Stripes, eftir Thalif Deen/ IPS

Creating a Conducive International Environment for Africa's Development: China's role in Global Governance Reform!, eftir Fantu Cheru/ Norræna Afríkustofnunin

Athyglisverð vefsíða: Alliance - Supporting community action on AIDS in developing countries

At What Point Does One Lose One's Humanity?, eftir Charlize Theron/ UN Chronicle

A new approach to poverty/ MediaGlobal

Development 3.0, eftir Shanta Devarajan, World Bank Chief Economist for Africa

India, Brazil and South Africa Dialogue Forum: A Bridge between Three Continents: Challenges, achievements and policy options, eftir Alexandra A. Arkhangelskaya/ Norræna Afríkustofnunin


Norðmenn og Svíar styðja GAVI


Norðmenn og Svíar hafa heitið 55 milljónum dala til að styðja við fimm ára áætlun GAVI sem er alþjóðlegur sjóður um bólusetningar og ónæmisaðgerðir. Stuðningur norrænu þjóðanna tveggja var tilkynntur á stjórnarfundi í GAVI sjóðnum í Kigali í Rúanda í síðustu viku. Á fundinum var jafnframt tilkynnt um mikla fjáröflunarsamkomu sem verður haldin í Lundúnum í júní á næsta ári þar sem Frakkar og styrktarsjóður Bill og Melindu Gates koma m.a. til með að fjármagna viðburðinn.

 

Fimm ára áætlun GAVI sjóðsins miðar að því að bólusetja rúmlega 240 milljónir barna. Verkefnið kostar 6.8 milljarða dala. Af þeirri tölu vantar enn  3.7 milljarða.

Nánar

 

GAVI Alliance: Protecting Millions of Children from Killer Diseases /VOA

Sjö dæmi um árangursríka þróunarsamvinnu


Breska þróunarfræðasetrið ODI hefur birt sjö nýjar skýrslur með dæmum um góðan árangur þróunarsamvinnu í Afríku og Asíu. Dæmin sjö koma frá Kambódíu, Eritreu, Indlandi, Indónesíu, Laos, Máritíus og Namibíu og birtast undir yfirskriftinni "Development Progress Stories".

 

Dæmið frá Namibíu: Sustainable natural resource management in Namibia: Successful community-based wildlife conservation

Fréttir og fréttaskýringar

Pind vill stofna Frelsissjóð


Søren Pind þróunarmálaráðherra Dana hefur lagt fram tillögu um að koma á fót sérstökum Frelsissjóði sem yrði fjármagnaður af þróunarfé. Sjóðurinn myndi árlega veita framlög til ríkisstjórna eða samtaka sem berjast gegn róttækni og öfgum en styðja lýðræði og virðingu fyrir mannréttindum. Fjárhæðin er ekki tilgreind en danski ráðherrann vill samstarf um sjóðinn frá öðrum þjóðum eins og Svíum, Þjóðverjum, Bretum og Bandaríkjamönnum. Stjórnarandstaðan í Danmörku er lítt hrifin af tillögunni og fulltrúi DIIS (Danish Institute for International Studies) segir að tillagan grafi undan helstu markmiðum danskrar þróunarsamvinnu og meginreglum Parísaryfirlýsingarinnar.

 

"Frihedspulje" fra Søren Pind - Vi skal gøre en forskel

 

Pind vil bekæmpe ekstremisme med ulandspenge/ Politiken

 

Ulandshjælp skal bekæmpe ekstremisme/ JP


Veftímaritið er á...
facebook

Tveir forsetar á Fílabeinsströndinni


Óttast er að borgarastyrjöld brjótist út á Fílabeinsströndinni en þar er komin upp sú sérkennilega staða að tveir menn hafa svarið eið sem forseti landsins. Stjórnarandstöðuleiðtoginn Alassane Quattara sem bar sigur úr býtum í kosningum á Fílabeinsströndinni á dögunum nýtur m.a. stuðnings Afríkusambandsins, ESB og Sameinuðu þjóðanna en stjórnlagadómstóll dæmdi Laurent Gbagbo forseta sigur í kosningunum og neitar að stíga til hliðar. Mbeki, fyrrverandi forseti Suður-Afríku, var sendur til að freista þess að miðla málum en varð lítt ágengt.
Öll börn eiga heima í skóla

 

sisters
Smelltu á myndina til að sjá myndbandið!

 

Fjörutíu og fimm milljón börn í Afríku þyrstir í menntun. Þessi barnaskari hefur ekki kost á því að sækja skóla. Fjölskyldur þeirra hafa ekki efni á skólagöngu. Börnin verða því að verja deginum með öðrum hætti.

 

"Systur" (Sisters) er stuttmynd um eitt slíkt barn.

 

Hún er fjórtán ára og heitir Afisha. Hún var neydd til þess að hætta námi þegar foreldrar hennar föstnuðu hana eldri manni. Verðandi eiginmaður er ómenntaður og því óttast Afisha að hún lifi við fátækt alla ævi.

 

Nú situr hún aðgerðarlaus með áhyggjur af framtíðinni og bíður brúðkaupsdagsins.

 

Er þetta eðlilegt líf fyrir fjórtán ára stúlku?

 

Camfed samtökin hófu á dögunum herferð undir heitinu "Öll börn eiga heima í skóla" (Every Child Belongs in School) með áherslu á jafnan rétt allra til skólagöngu. Á næstu vikum frumsýna samtökin eina nýja stuttmynd í hverri viku um barn sem á þess ekki kost að sækja skóla. Samtökin eru jafnframt með fjáröflun í gangi og hafa sett sér það mark að koma eitt þúsund börnum í skóla og skapa þeim þannig nýja framtíð.

 

Um Veftímaritið

Veftímarit um þróunarmál er gefið út af Þróunarsamvinnustofnun Íslands. Ritinu er ætlað að glæða umræðu um þróunarmál og gefa áhugasömum kost á að fylgjast með því sem hæst ber hverju sinni. Efni veftímaritsins þarf ekki endilega að endurspegla stefnu ÞSSÍ.
          
Skráið ykkur í áskrift á heimasíðunni, www.iceida.is og látið vinsamlegast aðra með áhuga á þróunarmálum vita af tilvist veftímaritsins. Allar ábendingar um efni eru vel þegnar.  

Þeir sem vilja senda okkur ábendingu um efni eða afskrá sig af netfangalista eru vinsamlegast beðnir um að senda slík erindi á netfangið iceida@iceida.is. Ritstjóri er Gunnar Salvarsson, gsal@iceida.is. 

Við biðjumst velvirðingar á því að geta ekki notað íslenskar gæsalappír í viðtölum en bandarískt sniðmót Veftímaritsins leyfir ekki notkun þeirra.

 

Bestu kveðjur, Útgáfu- og kynningardeild ÞSSÍ

 

ISSN 1670-8105