Veftímarit um þróunarmál
Þróunarsamvinna
 Samstarfsþjóðir
10. mars 2010
Úganda í brennidepli
 
Næstu vikur verður Veftímaritið að talsverðum hluta helgað stærsta samstarfslandi Þróunarsamvinnustofnunar Íslands, Afríkuríkinu Úganda. Gunnar Salvarsson ritstjóri dvelur þessa dagana í Úganda og skrifar fréttir, greinar og viðtöl frá umdæmisskrifstofunni í Kampala og smellir af nokkrum myndum af landi og þjóð. Að öðru leyti birtir Veftímaritið að venju fréttir og fróðleik um þróunar- og mannúðarmál, heima og heiman.
 
"Við eigum að sinna fiskimannasamfélögum"
 -Árni Helgason umdæmisstjóra í Úganda í viðtali
 
gunnisal"Almennt talað tel ég að auðlindamál, umhverfismál og þar með talin loftslagsmál eigi að vera þungamiðja í þróunarsamvinnu okkar," segir Árni Helgason í viðtali við Veftímaritið. "Ég er líka hlynntur því að styðjum samfélagsþróun og ef við veljum að einbeita okkur að tilteknum svæðum í því sambandi er nærtækast fyrir okkur Íslendinga að líta til fiskimannasamfélaganna. Við eigum ekki að líta á fiskimál í þröngum tæknilegum skilningi heldur að einbeita okkur að verklagi sem við höfum reynslu af í Úganda og Malaví: að horfa á fiskimannasamfélögin og styðja þau. Fiskurinn, veiðarnar og vinnslan eiga ekki endilega að vera í öndvegi heldur samfélögin sem hafa lífsviðurværi sitt af því að veiða og verka fisk. Í samstarfslöndum okkar eru fiskimannasamfélögin þau fátækustu og þar höfum við verk að vinna. Við eigum að reyna að sinna þeim.
 
Í viðtalinu ræðir Árna um sextán ára reynslu sína af störfum í þróunarsamvinnu í þremur löndum, stefnubreytingar í þróunarsamvinnu og stöðu Íslands, þróunina í Úganda og margt annað.
 
Heimildamyndin "Ísland Úganda" frumsýnd í vor
 islanduganda
"Úganda reyndist standa undir nafni sem perla Afríku. Stórbrotið landslag, fjölbreytt menning og yndislegt fólk gerði það að verkum að Úganda upplifunin situr föst eftir í minningunni og vonandi getum við sýnt það sem við sáum í myndinni," segir Garðar Stefánsson annar leikstjóri heimilda-myndarinnar "Ísland Úganda" sem fjallar um ungt fólk í fyrrverandi nýlendum Evrópulanda.
 
Viðfangsefni myndarinnar er ungt fólk í Úganda og á Íslandi sem fæst við sömu hluti í hvoru landi fyrir sig og hvað er líkt og ólíkt í hversdagslífi þeirra. Myndinni er leikstýrt af Garðari Stefánssyni og Rúnari Inga Einarssyni og hún hlaut styrk frá Evrópu Unga Fólksins.
 
Að sögn Garðars er undirtónn myndarinnar að hlýða á  hugmyndir unga fólksins og hugsjónir þeirra og sjá hvort að það hafi einhver áhrif á þeirra líf í dag land þeirra laut eitt sinn erlendri yfirstjórn.
 
Viðfangsefni myndarinnar eru sjómennirnir Brian og Pétur, leiklistarnemarnir Faith og Lilja Nótt, Dennis, sem er fyrrverandi atvinnuboxari og nú eigandi snyrtistofu, og Steinþór Helgi, plötuútgefandi og umboðsmaður. Í myndinni koma að auki fram söguútskýringar og túlkanir fræðimanna á löndunum tveimur og skoðanir ungs fólks á landi þeirra og þjóð.
 
Garðar segir að Úgandaferðin sé ógleymanleg lífsreynsla og að tökurnar í Úganda hafa heppnast virkilega vel. "Við lentum nánast í engum skakkaföllum, fyrir utan það þegar við fylgdum eftir sjómanni í Úganda og móturinn gaf sig á miðju Viktoríuvatni,"segir Garðar. "Seinna meir tilkynnti sjómaðurinn okkur að skammt frá þar sem báturinn festist hafði krókódíll banað manni ekki fyrir svo löngu síðan."
 
Félagarnir lentu ekki í jafnmiklum vandræðum í Íslandstökunum en Garðar segir að þeim sé nýlokið og að stefnt sé að því að myndin verði fyrst sýnd á heimildamyndahátíðinni Skjaldborg á Patreksfirði í lok maí.
 
Aukið vægi jafnréttismála í þróunstarfi utanríkisráðuneytis:
Um 13% varið til jafnréttismála á þessu ári 
 gunnisal
Hlutfall framlaga og kostnaðar vegna starfa á sviði jafnréttismála í þróunarstarfi kemur til með að nema um 13% af heildarframlögum utanríkisráðuneytisins á þessu ári en nam fyrir sex árum aðeins 1,4%. Þessar upplýsingar komu fram í fyrirlestri um jafnréttismál í þróunarstefnu utanríkisráðuneytisins hjá landsnefnd UNIFEM síðastliðinn laugardag.
 
Hermann Örn Ingólfsson sviðsstjóri þróunarsamvinnusviðs utanríkisráðuneytis og Elín R. Sigurðardóttir sérfræðingur á þróunarsamvinnusviði héldu fyrirlesturinn. Þau sögðu að í krónum talið myndu 207 milljónum króna verða varið til verkefna á sviði jafnréttismála á þessu ári borið saman við 14 milljónir árið 2004. Árið 2009 fór 281 milljón til þessara verkefna en fram kom í máli Hermanns og Elínar að vegna samdráttar í framlögum til þróunarmála hafi upphæðin lækkað. "Á þróun framlaga má sjá að árið 2005 urðu ákveðin kaflaskil í þróunarstarfi á sviði jafnréttismála. Á því ári byrjuðu heildarframlög til þróunarsamvinnu að hækka samkvæmt ákvörðun þáverandi ríkisstjórnar frá árinu 2004. Á sama tíma byrjaði hlutfallsleg hækkun framlaga sérstaklega ætluð jafnréttismálum," sögðu þau í fyrirlestrinum.
 
Fram kom í máli þeirra að jafnréttismál hafi sífellt vegið þyngra bæði í friðargæslustarfi og í stuðningi við verkefni á vegum alþjóðastofnana. Þannig hafi t.d. íslenskir sérfræðingar verið kostaðir til starfa fyrir UNIFEM á stríðshrjáðum svæðum allt frá árinu 2000 og síðar hafi störf UNIFEM bæði í Afganistan og Palestínu verið studd sérstaklega með fjárframlögum. Þau nefndu einnig að ungir sérfræðingar hafi haldið til starfa á vegum UNIFEM og að Ísland hafi tekið þátt í stuðningi við jafnréttisáætlun Alþjóðabankans.
 
Af öðru starfi nefndu þau Hermann og Elín sérstaklega tilraunaverkefni um jafnréttisskóla sem unnið er í samstarfi við Háskóla Íslands og hófst á síðasta ári. Markmið samstarfsins er að jafnréttisskólinn verði einn af skólum Háskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi. 
 
Alþjóðlegi kvennadagurinn 100 ára: 
Að sameinast um jöfn tækifæri fyrir konur er leið til hagsældar
 gunnisal
Afrískt máltæki segir að sérhver barnshafandi kona sé með annan fótinn í gröfinni. Mikinn sannleika er að finna í þessu máltæki því enn deyja tugþúsundir kvenna af barnsförum í Afríku á hverju ári, t.d. sextán konur á degi hverjum í Úganda. Á þessa nöturlegu staðreynd var minnst á alþjóðlega kvennadaginn hér í Úganda en dagurinn er almennur frídagur í landinu en einnig var sjónum beint að menntun þeirra og margvíslegu misrétti sem þær eru beittar, heimilis- og kynferðisofbeldi sem þær sæta og almennt veikri stöðu þeirra í samfélaginu.
 
Miðað við nágrannasamfélögin er staða kvenna þó sterkari en almennt gengur og gerist í austurhluta Afríku: hér eru t.d. um 30% þingmanna konur og hlutfall kvenráðherra er hærra en í flestum löndum eða 23%. En þótt margt hafi áunnist í jafnréttisbaráttunni segja fulltrúar úgandískra kvenna að enn sé ekki tímabært að fagna.
 
Samkvæmt upplýsingum sem Sameinuðu þjóðirnar birta í tilefni dagsins verður fimmta hver kona í heiminum fyrir kynferðislegu ofbeldi á lífsleiðinni. SÞ segja að nauðganir og heimilisofbeldi séu helstu dánarorsakir kvenna á aldrinum 15-44 ára.
Sameinuðu þjóðirnar völdu yfirskrift dagsins: Jafnrétti, jöfn tækifæri, framfarir fyrir alla. Yfirskrift kvennadagsins í Úganda var hins vegar: Að sameinast um jöfn tækifæri fyrir konur: Leið til hagsældar fyrir alla.

 
 
 
Free her purse (New Vision)
 
 
Fátækt í Afríku á hröðu undan-haldi og fyrsta þúsaldarmark-miðið í augsýn - of gott til að vera satt?
 gunnisal
Fátækt í Afríku er á hröðu undanhaldi. Það dregur úr fátækt miklu hraðar en reiknað hafði verið með og þessi staðhæfing gildir um fjölmörg ríki Afríku, þó ekki öll. Þessar góðu fréttir birtust á dögunum í skýrslu frá NBER (National Bureau of Economic Research) og fari fram sem horfi gerist það sem hingað til hefur verið talið fremur ólíklegt: Afríkuþjóðir ná fyrsta þúaldarmarkmiðinu, þ.e. að draga úr sárafátækt um helming fyrir árið 2015 miðað við árið 1990.
 
Niðurstöður skýrsluhöfunda, Sala-i-Martin og Pinkovskiy, eru á skjön við það sem aðrir hagfræðingar hafa reiknað út þar sem fátækt er mæld út frá reglubundnum stöðluðum könnunum sem gerðar eru á heimilishaldi. Rannsóknirnar sem hér er vísað til nota aðra mælistiku: meðaltekjur fólks eru reiknaðar út frá kaupmætti (PPP - Purchasing Power Parity) með þjóðarframleiðslu sem viðmið og með því móti er ekki eingöngu verið að mæla neyslu heimamanna heldur nær reiknilíkanið einnig til fjárfestinga af hálfu einkaaðila og opinberra útgjalda.
 
African Poverty is Falling...Much Faster than You Think! (NBER)
 
Africa Begins to make poverty history (The Guardian)
 
Africa poverty is falling - do we dare believe it? (ODI)
Veftímarit um þróunarmál er gefið út af Þróunarsamvinnu-stofnun Íslands. Ritinu er ætlað að glæða umræðu um þróunarmál og gefa áhugasömum kost á að fylgjast með því sem hæst ber hverju sinni. Efni veftímaritsins þarf ekki endilega að endurspegla stefnu ÞSSÍ.
          
Skráið ykkur í áskrift á heimasíðunni, www.iceida.is og látið vinsamlegast aðra með áhuga á þróunarmálum vita af tilvist veftímaritsins. Allar ábendingar um efni eru vel þegnar.  

Þeir sem vilja afskrá sig af netfangalista, eða senda okkur ábendingu um efni, eru vinsamlegast beðnir um að senda slík erindi á netfangið iceida@iceida.is. Ritstjóri er Gunnar Salvarsson, gsal@iceida.is.
 
  
ISSN 1670-8105

Bestu kveðjur, Útgáfu- og kynningardeild ÞSSÍ
Átján nemendur útskrifast frá Sjávarútvegs
skólanum

Sjávarútvesskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi var slitið í 12. sinn í gær. Að þessu sinni útskrifuðust 18 nemendur frá 14 löndum, átta konur og tíu karlar sem dvalið hafa á Íslandi undanfarna sex mánuði og stundað sérnám á sviðum fiskistofnfræði, veiðistjórnunar, fiskeldis og gæðastjórnunar í fiskiðnaði.  Meðal nema nú eru í fyrsta sinn þátttakendur frá Belís, Barbados, Kamerún og Madagaskar, sem endurspeglar að hluta aukið vægi samstarfs við smáeyþróunarríki og lönd í vestanverðri Afríku, að því er fram kemur í tilkynningu frá skólanum.
 
Sjávarútvegsskólinn er að mestu leyti rekinn fyrir hluta af framlögum Íslands til þróunarsamvinnu, samkvæmt samstarfssamningi utanríkisráðuneytisins, Hafrannsóknastofnunarinnar og Háskóla Sameinuðu þjóðanna. 
Fréttir  & fréttaskýringar
 
Veftímaritið er á..
facebook
 
Kíktu í heimsókn
Aurskriðurnar í Úganda:
 Þrjú hundruð þúsund manns á vergangi
Um eitt hundrað lík hafa fundist eftir aurskriðurnar í Elgon fjalli í austurhluta Úganda í síðustu viku en þrjú hundruð manns er saknað og það fólk hefur nú verið talið af. Leit hefur verið hætt á svæðinu. Náttúruhamfarirnar hafa leitt til þess að 300 þúsund íbúar hafa flosnað upp og alþjóðlegt björgunar- og hjálparstarf er hafið.
 
 
Erfið fæðing kvennastofnunar SÞ
Erfiðlega gengur að koma á laggirnar sérstakri kvennastofnun á vegum Sameinuðu þjóðanna en ákvörðum um stofnun slíkrar "kvennaeiningar" eins og hún er nefnd var formlega tekin snemma á síðasta ári og á rætur allt aftur til ársins 2006. IPS fréttaveitan segir að undirbúningurinn gangi svo hægt að líkja megi við silalegan hraða fatlaðs snigils.
Þjóðverjar ná ekki markinu
Þýska ríkisstjórnin hafði sett sér það takmark að verja 0.51% af vergum þjóðartekjum til þróunarsamvinnu árið 2010. Í nýju fjárlagafrumvarpi vantar 3.5 milljarða evra til þess að ná því marki. Dirk Niebel þróunarmálaráðherra hefur líka efasemdir um að Þjóðverjar nái að auka framlög til þróunarmála upp í 0.7% fyrir árið 2015 eins og stefnt hafði verið að. Samkvæmt frétt Deutsche Welle nema framlög til þróunarsamvinnu á þessu ári 6.1 milljarði evra og hafa hækkað á milli ára um 250 milljónir evra.
Þá segir DW frá því í annarri frétt að fyrirhuguð sé uppstokkun stofnana sem starfa að þróunarmálum og áform séu uppi um að sameina þrjár stofnanir í eina.
 
 
Athyglisvert
 
 
 
 
 
 
SIDA gerir tillögu um stóraukin framlög til þróunarmála
sviar
Svíar eru að rétta úr efnahagskútnum fyrr en reiknað var með og þess sér stað í fjárlagatillögum sænsku ríkisstjórnarinnar. Þróunarsamvinnustofnun Svía, SIDA, vill því færast meira í fang og sér aukin tækifæri til að láta að sér kveða í þeim heimshluta þar sem megináherslan í starfinu hvílir, þ.e. í Afríku sunnan Sahara. SIDA hefur nýverið lagt fram fjárlagatillögur til ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2011 til 2013.
Í frétt SIDA segir að síðustu árum hafi þrjár kreppur hrjáð heiminn - loftslagskreppa, matarkreppa og efnahagskrepa. Þessi óáran hafi bitnað illega á þróunarríkjunum. Þegar þjóðartekjur í Svíþjóð hafi dregist saman hafi framlög minnkað. Milli áranna 2009 og 2010 hafi því framlög Svía til þróunarmála minnkað úr 17.9 milljörðum sænskra króna í 15.7. Nú séu hins vegar jákvæðar blikur á lofti í efnahagsmálum og því geri SIDA ráð fyrir að framlögin nemi 16.7 milljörðum árið 2011 og 17.5 milljörðum árið 2012.