Veftímarit um þróunarmál
Þróunarsamvinna
Samstarfsþjóðir 
3. mars 2010
Miklar framfarir í þróunarríkjum sem stundum vilja gleymast
 
PovertyRate 
Botsvana á heimsmetið í hagvexti, segir Þorvaldur Gylfason prófessor í grein í Fréttablaðinu í síðustu viku. "Þar náði framleiðsla á mann að átjánfaldast frá 1960 til 2005 á móti fjórtánföldun í Kína, ellefuföldun í Japan, sjöföldun í Taílandi og fjórföldun í Brasilíu," sagði hann. Í nýlegri skýrslu evrópskra fræðasetra um þróunarmál kemur fram að í Botsvana hafi tekjur á mann numið 210 Bandaríkjadölum árið 1960 en hafi verið komnar upp í 3.800 dali árið 2005. Í skýrslunni (í 1. kaflanum: The world at a cross-roads) segir ennfremur að hagvöxtur hafi í þróunarlöndum numið 7-8% að jafnaði áður en fjármálakreppan skall á. Nefnt er að tuttugu þjóðir Afríku hafi verið með yfir 2% hagvöxt.
 
Það dregur úr fátækt í heiminum, segir í skýrslunni með vísan í tölur frá Aþjóðabankanum sem sýna að því fólki sem býr við nýju fátæktarmörkin - 1.25 Bandaríkjadal á dag - hafi fækkað úr 1.8 milljarði árið 1990 í 1.4 milljarð árið 2005. Í ljósi fólksfjölgunar í heiminum hefur því fátækum hlutfallslega fækkað stórlega eða úr 42% í 26% miðað við sömu ár (sjá kort).
 
Rétt er líka að vekja athygli á þeirri staðreynd sem dregið er fram í  evrópsku skýrslunni að stjórnarfar hefur víða tekið miklum framförum í þróunarlöndum á síðustu árum, átakasvæðum hefur fækkað úr rúmlega 50 árið 1990 í færri en 30 árið 2008. Þá eru tvö af hverjum þremur ríkjum í heiminum núna skilgreind sem lýðræðisríki.
 
Einnig er varpað ljósi á framfarir í heilbrigðis- og menntamálum í skýrslunni. Þar segir að á síðustu þrjátíu árum hafi dregið úr barnadauða um helming í þróunarríkjum og lífslíkur hafi aukist um hartnær áratug, hækkað úr 56 árum í 65 að jafnaði. Nefnt er að í lok árs 2007 hafi þrjár milljónir manna í fátækustu löndunum fengið lyfjameðferð gegn HIV/alnæmi. Einnig er staðhæft að á síðustu fimmtán árum hafi börnum í gurnnskólum fjölgað um 85%.
 
Greinarhöfundar benda á að þessar framfarir séu víxlverkandi, þróun á einu sviði styrki þróun á öðru sviði, menntun kvenna leiði til betri næringar barna, börn sem nærast vel gangi betur í skóla og svo framvegis.

 
Þrettán lönd á fleygiferð, eftir Þorvald Gylfason (Fréttablaðið)
 
 
Africa on the road to recovery
Þúsaldarmarkmiðin endurskoðuð síðar á árinu:
Evrópusambandið leggur áherslu á aðgengi að vatni
 gunnisal
Þúsaldarmarkmiðin verða tekin til endurskoðunar síðar á árinu á leiðtogafundi í Kaupmannahöfn einsog Veftímaritið greindi frá í síðustu viku. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins vill að lögð verði aukin áhersla á aðgengi að vatni því öll viðleitni til að ná hinum þúsaldarmarkmiðunum byggist á vatni, að því er segir í frétt Euractiv. Þar er vitnað til orða Luis Riera Figueras sem fer með þróunarmál ESB. Hann telur að lofstslagsmál muni gerbreyta allri stefnumörkun í þróunarmálum í framtíðinni og segir að "vatn og landnýting fái aukið mikilvægi."
 
Rúmlega 1.2 milljarður manna skortir aðgengi að hreinu drykkjarvatni, 40% þeirra í Afríku.

 
Kvennaáratugur í Afríku 2010 til 2020 - til varnar jafnrétti á krepputímum
 gunnisal
Stýrihópur um konur og jafnrétti innan Afríkusambandsins (AU) hefur lagt til að áratugurinn 2010 til 2020 verði helgaður afríkum konum undir yfirskriftinni "African Women´s Decade". Stýrihópurinn óttast að niðurskurður í opinberum framlögum til þróunarmála vegna fjármálakreppunnar bitni á jafnréttismálum og vill því spyrna við fótum með því að vekja sérstaka athygli á þeim málaflokki. Stýrihópurinn hefur skilgreint tíu atriði sem ber að hafa í hávegum á kvennaáratugnum sem hefst formlega á haustdögum, nánar tiltekið 15. október, þegar haldinn er hátíðlegur alþjóðadagur kvenna í dreifbýli.
 
Það þykir við hæfi að hefja átakið formlega á þeim degi því 80% kvenna í Afríku búa til sveita.
 
AFRICA:"Women's Decade": Greater Attention to Implementation (IPS)
 
Reflections on The African Women's Decade
 
UN Comission On Status Of Woman 2010 (UN CSW)
 
54th Commission on the Status of Women Opening Calls for Action on Gender Equality
 
'Standing Up for Women's Rights and Development Is Standing Up for the Global Good,' Deputy Secretary-General Tells Women's Commission at Session's Opening
 
Rise and Fall of Gender Empowerment, eftir Talif Deen (IPS)
Fækkun dauðfsfalla ungra barna á heimsvísu en tíðni nýburadauða hækkar
 gunnisal
Dauðsföllum barna yngri en fimm ára hefur fækkað á heimsvísu en það sama verður ekki sagt um dauðsföll nýbura, þ.e. barna sem deyja fyrstu 28 dagana eftir fæðingu. Dauðsföll nýbura telja nú 42% af dánartíðni barna undir fimm ára aldri og sú tala hefur hækkað um 37% frá árinu 2000, að því er fram kemur í nýrri grein bandarískra vísindamanna í tímaritinu BMC Pregnency and Childbirth. Höfundarnir eru fulltrúar samtakanna Global Alliance to Prevent Prematurity and Stillbirth (GAPPS).
 
Í greininni kemur fram fyrirburafæðingar eru helsta ástæða barnadauða og að þeir fyrirburar sem lifa geti átti við alvarleg heilsuvandamál að stríða, bæði skammvinn og langvinn veikindi. Fyrirburar eru um 13 milljónir talsins á ári hverju en um 4 milljónir nýbura deyja árlega og andvana fædd börn eru 3.2 milljónir. Að mati greinarhöfunda væri unnt að afstýra um einni milljón dauðsfalla barna sem látast skömmu fyrir fæðingu með því að grípa fyrr til aðgerða.
 
Að mati greinarhöfunda er brýnt að auka rannsóknir og setja fækkun dauðsfalla nýbura og andvana fæddra barna í forgang í heilbrigðismálum.
 

Íslensk kona kynntist alvöru fátækt í Úganda:
Hjálpar nú úgandískum kennara sem rekur skóla fyrir munaðarlausa
 Bosco
"Ég á góðan vin hér í Úganda sem heitir Bosco og þið ættuð öll að vera farin að þekkja þar sem ég tala mikið um hann hérna. Hann er algjör perla og hefur gjörsamlega bjargað mér... Bosco spyr stundum hvernig söfnunin gangi. Frekar kaldhæðnislegt að segja að það sé kreppa og það hafi enginn efni á að gefa 500 kr. Persónulega þekki ég engan sem hefur breytt munstri sínu síðan "kreppan" skall á og hefur þetta líka allt aðra merkingu í mínum huga eftir að hafa verið í Úganda og fengið að kynnast alvöru fátækt.. Verð ykkur ótrúlega þakklát ef þið getið lagt aðeins að mörkum.."
 
Þetta eru smá brot úr bloggi Elísabetar Daggar Sveinsdóttur sem dvaldist hálft ár í Úganda og kom heim um áramótin. Hér heima kynntist hún Bosco, þrítugum Úgandabúa, sem kom hingað á vegum AUS (Alþjóðleg Ungmennaskipti) og vann á dvalar- og hjúkrunarheimilinu Grund í Reykjavík. Dvölin varð reyndar styttri en hann áformaði því Bosco missti móður sína og hann hafði ekki efni á að koma aftur.
 
"Bosco er fæddur og uppalinn í Rúanda," segir Elísabet Dögg. "Hann náði að flýja ásamt móður sinni og tveim systrum til Úganda árið 1994 á tímum þjóðarmorðanna. Hann missti nær alla fjölskylduna og meðal annars meðal föður sinn. Móðir hans hafði ekki efni á að kosta hann í skóla þegar þau komu allslaus til Úganda og hann fór sjálfur á stúfana, þá 14 ára, til þess að finna einhvern sem gæti kostað hann í skóla. Hann fann prest sem sá um allt fyrir hann þangað til hann lést en þá var Bosco á öðru ári í háskóla."
 
Bosco er menntaður kennari að sögn Elísabetar og árið 2005 lét hann draum sinn rætast og stofnaði skóla fyrir munaðarlaus börn í einum af fátækrahverfum Kampala. "Í dag er hann með um 340 nemendur og 14 starfsmenn," segir hún. Af þessum fjölda eru 45 krakkar sem eru algjörlega munaðarlaus og búa í skólanum þar sem hann er með aðstöðu fyrir þau en hún er reyndar mjög slæm. Hinir krakkarnir búa í nágrenninu, sum hjá öðru foreldrinu og önnur hjá ættingjum. Hann fer reglulega heim til þeirra til þess að vera viss um að þau hafi stað til að sofa á og fái reglulega að borða. Aðstæður í skólanum eru vægast sagt slæmar, þar eru aðeins 9 kennslustofur sem þau troða sér inn í. Í haust þegar ég var þarna og rigningartímibilið að fara að byrja byrjuðu yfirvöld að hafa afskipti af aðstæðum þar sem það var bara moldargólf í kennslustofunum. Ég  tók ég mig til með hjálp góðra vinkvenna að heiman og við steyptum allt saman. Gleðin gjörsamlega skein úr augum krakkanna. Þetta er ótrúlegt starf sem hann er með og er kennslan einnig "opin" þegar maður miðar við t.d. aðra skóla í Úganda. Þau eru t.d. ekki lamin, þau eru upplýst um kynlíf, verjur, HIV og svo framvegis," segir Elísabet.
 
Nánar má fræðast um Bosco og skólann hans á bloggsíðu Elísabetar og þar er einnig að finna reikningsnúmer fyrir þá sem vilja leggja sitt af mörkum fyrir skólann.
 
Bosco er lengst til hægri á myndinni ásamt einum af kennurum við skólann og Elísabetu.
 
Tillaga um skatt á millibankaviðskipti:
Hróa hattar skattur í baráttunni gegn fátækt
 RobinHood
Fimmtíu félagasamtök í Bretlandi hafa lagt til að tekinn verði upp alþjóðlegur skattur á allar færslur í millibankaviðskiptum í þeim tilgangi að berjast gegn fátækt, tryggja opinbera þjónustu og til að takast á við afleiðingar loftslagsbreytinga. Samtökin sendu á dögunum bréf til stjórnmálaleiðtoga í Bretlandi með tillögunni en átakið er kennt við þjóðsagnapersónuna Hróa hött sem tók frá þeim efnameiri og gaf þeim snauðu.

"Þú getur hunsað stóru vandamálin sem blasa við heiminum ... eða þú getur unnið að því að finna nýjar og nútímalegar leiðir til að safna fé í sjóð,"  sagði m.a. í bréfinu.  Stjórnmálaleiðtogar eru í bréfinu beðnir um að íhuga alvarlega að líta á Hróa hattar skattinn sem róttækan nýjan valkost. Um sé að ræða lítinn skatt á fjármálafyrirtæki sem gæti breytt miklu fyrir fátækustu þjóðir heims.
 
Skatturinn sem hópurinn leggur til að verði lagður á fjármálafyrirtæki nær til millibankaviðskipta en ekki á færslur milli fjármálastofnana og einstaklinga eða fyrirtækja. Hópurinn telur að unnt verði að safna hundruð milljónum punda með þessum hætti fyrir fátæka.

 
 
Börn mega ekki gleymast í umræðunni um hagvöxt
 gunnisal
Hagvöxtur er mikilvægur þáttur í því að draga úr fátækt í þróunarlöndum. Af reynslu fyrri ára að dæma fækkar fátækum mest þar sem hagvöxtur er mestur. EURODAD bendir hins vegar á nýju skýrslu Save the children þar sem á það er bent að áhrif hagvaxtar séu ekki jafn hrein og bein og ætla mætti. Áhrifanna gæti mismikið innan samfélaga og sumir þjóðfélagshópar njóti ekki ávinningsins af vextinum.
 
Þessar vangaveltur og efasemdir eru að nokkru leyti í svipuðum dúr og Svíar hafa sett fram í nýlegri stefnu sinni sem Veftímaritið greindi frá á dögunum. Að mati Save The Children þarf að taka til nánari umfjöllunar tengslin á milli hagvaxtar og þess að draga úr fátækt til þess að börn fái sinn skerf af hagvextinum.
 
Rauði krossinn og utanríkisráðuneytið skrifa undir samstarfsyfirlýsingu
Rauðikrossinn
 
Rauði kross Íslands og utanríkisráðuneytið undirrituðu á dögunum samstarfsyfirlýsingu til ársins 2011 um alþjóðlegt hjálparstarf og aukna áherslu á mikilvægi alþjóðlegra mannúðarlaga. Þetta samstarf grundvallast meðal annars á sérstöðu Rauða krossins, sem hefur bæði stoðhlutverk gagnvart stjórnvöldum og lögbundið hlutverk á óvissu- og átakatímum sem kveðið er á um í Genfarsamningunum.
 
Þrjátíu þúsund börn í Afríku dáin vegna kreppunnar
AIDS
Fjármálakreppan hefur haft alvarlegar afleiðingar fyrir fátækasta fólkið í heiminum. Navi Pillay yfirmaður mannréttindamála hjá Sameinuðu þjóðunum segir að nýleg könnun leiði í ljós að 30 þúsund börn hið minnsta hafi dáið af völdum kreppunnar. Ummælin féllu í ávarpi sem Pillay hélt á síðasta fundi Mannréttindaráðsins í Genf.
 
Athyglisvert
 
Review of the Embassy's Development Cooperation Portfolio: Climate Change and Environment "Climate Proofing and Greening of the Portfolio" (Nicaragua) - Norad
  
Africa Renewal - nýjasta tölublað
 
Þróunarsamvinna - vafasamt og jákvætt, eftir Hauk Má Haraldsson
 
Targeting Development? Procurement, tied aid and the use of country systems in Namibia (EURODAD)
 
Development, trade and carbon reduction: designing coexistence to promote development, eftir Jodie Keane, James MacGregor, Sheila Page, Leo Peskett og Vera Thorstensen(ODI Working Paper)
 
The Hidden Aid Story: Ambition Breeds Success (Brookings)
 
African developments: continental integration in Africa - AU, NEPAD and the APRM, eftir Sven Grimm og George Katito (DIE)
 
FRUITS OF THE CRISIS - Leveraging the Financial & Economic Crisis of 2008-2009 to Secure New Resources for Development and Reform the Global Reserve System, eftirSoren Ambrose og Bhumika Muchhala (ActionAid og Thirld World Network)
 
High food prices - what policies work best? (ODI)
 
The rights approach to development (The Guardian)
  
Getting Aid Right in Norhern Uganda (GCD)
  
Untying Aid: Is it really working? Evaluation of the Paris Declaration (DIIS)
 
Politisk økonomisk analyse - et nyttig verktøy i bistanden, eftir Eli Moen (Norad)
 
Breaking the Net: family structure and street children in Zambia, eftir Fransescko Strobbe (Brooks World Poverty Institution)
Veftímaritið er á...
facebook
Kíktu í heimsókn
Fjármálamisferli í Mósambík til rannsóknar
Um miðjan janúar síðastliðinn lét umdæmisstjóri Þróunarsamvinnustofnunar Íslands (ÞSSÍ) í Mósambík af störfum þar eð ráðningartímabili hans var lokið og nýr umdæmisstjóri tók við starfinu. Við umdæmisstjóraskiptin komu í ljós nokkur dæmi um fjármálamisferli sem fráfarandi umdæmisstjóri viðurkenndi.
 
Í kjölfarið fór fram nánari skoðun á fjárreiðum stofnunarinnar í Mósambík jafnhliða því sem Ríkisendurskoðun var gert viðvart. Í samráði við hana voru öll bókhaldsgögn ÞSSÍ í Mósambík frá 2006 send til Íslands og málið síðan sent til efnahagsbrotadeildar Ríkislögreglustjóra. Þar fer framhaldsrannsókn nú fram með aðstoð Ríkisendurskoðunar.
 
BURKINA FASO 8600 km
BurkinoFaso
Burkina Faso 8600 km, er heimildarmynd eftir Þorstein J. og Veru Sölvadóttur. Hún er um lausnir á tímum kreppunnar á Íslandi. Hjónin Hinrik og Gullý kaupa tvo notaða Toyota jeppa í Reykjavík og láta flytja þá í skipi til Rotterdam. Síðan keyra þau bílana alla leið til Burkina Faso, í þeim tilgangi að selja annan þeirra og fjármagna þannig skólastarf á vegum ABC hjálparsamtakanna.
Þetta er mynd um afstöðu, hvað hægt er að gera þegar ekkert virðist vera hægt að gera. Inn í söguna fléttast saga Paulos, Brasilíumanns sem er búsettur á Hvolsvelli, og fylgdi Hinrik og Gullý í hjálpastarfið í Burkina Faso
UNICEF í viðbragðsstöðu vegna Chíle
UNICEF er í viðbragðsstöðu eftir jarðskjálftann á Chile síðastliðinn laugardag, sem mældist 8,8 á Richter-skala. Talið er að um 700 manns hafi látist í jarðskjálftanum og 1,5 misst heimili sín, auk þess sem skólar, sjúkrahús, vegir og aðrar byggingar eyðilögðust. Allt starfsfólk UNICEF í Chile virðist hafa komist af. 
 
Fréttir & fréttaskýringar
 
REFILE-ANALYSIS-Copenhagen billions key to climate talks success (Reuters)
 
Africa News Blog (Reuters)  
 
Maximum Impact - Top philanthropists and charity executives explain how they would spend $10 billion to best alleviate the world's problems (Wall Street Journal)
 
Unesco efterlyser kraftåtgärder för att alla världens barn ska kunna gå i skolan (SIDA)
 
Senatkritikk av Norfunds angolanske partner (Bistandsaktuelt)
 
AFRICA: Diarrhoea vaccine reduces deaths, study finds
  
Rwanda president's widow held in France over genocide (BBC)
 
Yoweri Museveni 'preparing son to to lead Uganda' (BBC)
 
Women Still Battling Gender Bigotry Worldwide (IPS)
 
Uganda Election Behind Schedule (News24)
 
Education is a Child's Right (AllAfrica)
  
World Cup Organizers Inspect South African Stadiums
 
HIV, tuberculosis should be treated together-study (Reuters)
 
Rwanda och Sida fortsätter samarbetet för fred och stabilitet (SIDA)
 
Úganda: Makerere Sacks 500 Lecturers
 
EAST AFRICA:Improving Local Access to Family Planning (IPS)
 
Bretland: £1bn to boost world education (PressAssociation)
  
Child Sacrifice Emerges as Disturbing Uganda Trend (ABC News)
 
Uganda gay bill critics deliver online petition (BBC)
 
 
 
Rauði krossinn veitir 3 milljónir í neyðaraðstoð í Chile
 
Rauði kross Íslands hefur ákveðið að senda 3 milljónir króna til neyðaraðgerða í kjölfar jarðskjálftans í Chile nú um helgina. Alþjóða Rauði krossinn hefur þegar veitt 360 milljónum króna úr neyðarsjóði sínum og Rauði krossinn í Chile hefur hrint af stað fjáröflun til aðstoðar fórnarlömbum hamfaranna.  
Um Veftímaritið
Veftímarit um þróunarmál er gefið út af Þróunarsamvinnustofnun Íslands. Ritinu er ætlað að glæða umræðu um þróunarmál og gefa áhugasömum kost á að fylgjast með því sem hæst ber hverju sinni. Efni veftímaritsins þarf ekki endilega að endurspegla stefnu ÞSSÍ.
          
Skráið ykkur í áskrift á heimasíðunni, www.iceida.is og látið vinsamlegast aðra með áhuga á þróunarmálum vita af tilvist veftímaritsins. Allar ábendingar um efni eru vel þegnar.  

Þeir sem vilja afskrá sig af netfangalista, eða senda okkur ábendingu um efni, eru vinsamlegast beðnir um að senda slík erindi á netfangið iceida@iceida.is. Ritstjóri er Gunnar Salvarsson, gsal@iceida.is.
 
  
ISSN 1670-8105

Bestu kveðjur, Útgáfu- og kynningardeild ÞSSÍ