Veftímarit um þróunarmál
Þróunarsamvinna
Samstarfsþjóðir 
24. febrúar 2010
Landgræðsluskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna tekur til starfa:
"Viðurkenning á þjálfun Land-græðsluskólans fyrir sérfræð-inga frá þróunarlöndum"
 hafdishanna
"Samningurinn er stórt skref og mikil viðurkenning á íslensku landgræðslustarfi og þeirri þjálfun sem Landgræðsluskólinn hefur þróað síðustu ár fyrir þátttakendur frá fátækum þróunarlöndum," segir Hafdís Hanna Ægisdóttir forstöðumaður Landgræðsluskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna en á dögunum var undirritaður samningur milli Háskóla Sameinuðu þjóðanna, utanríkisráðuneytisins, Landbúnaðarháskóla Íslands og Landgræðslu ríkisins um rekstur skólans á Íslandi.
 
Landgræðsluskólinn varð til sem þriggja ára þróunarverkefni á vegum utanríkisráðuneytisins árið 2007. Skólinn er samstarfsverkefni Landbúnaðarháskóla Íslands og Landgræðslu ríkisins auk þess sem fjölmargar aðrar stofnanir hérlendis og erlendis koma að starfi skólans. Hafdís Hanna segir að hugmyndin að stofnun alþjóðlegs landgræðsluskóla á Íslandi eigi rætur að rekja til þess öfluga starfs og þeirrar sérfræðiþekkingar sem hefur byggst upp á Íslandi við varnir gegn uppblæstri jarðvegs og endurheimt fyrrum landgæða eftir mikla landhnignun síðustu alda.
 
Að sögn Hafdísar Hönnu er megin markmið skólans að stuðla að sjálfbærri nýtingu lands og útrýmingu fátæktar í þróunarlöndum með þjálfun fagfólks á sviði sjálfbærrar landnýtingar og landgræðslu. Hún bendir á að skólinn eigi rætur að rekja til Eyðimerkursamnings Sameinuðu þjóðanna (UNCCD) og tengist einnig öðrum alþjóðlegum umhverfissamningum, ekki síst samningnum um líffræðilega fjölbreytni (CBD) og rammasamningi um loftslagsbreytingar (FCCC). Að auki vinni skólinn að þúsaldarmarkmiði Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.
 
"Mörg þróunarlönd glíma við mikla jarðvegseyðingu, eyðumerkurmyndun, ósjálfbæra landnýtingu, og afleiðingar loftslagsbreytinga. Afleiðingarnar eru alvarlegar, ekki síst fyrir fátæk lönd," segir hún. "Líffræðileg fjölbreytni minnkar, vatnsbúskapur raskast og  uppskera bregst sem leiðir til ótryggara fæðuframboðs og aukinnar fátæktar. Tilgangur skólans er því ekki síst að stuðla að því að brjóta niður vítahring jarðvegs- og gróðureyðingar, fæðuóöryggis og fátæktar með því að þjálfa fagfólk."
 
Frá því að skólinn hóf störf hafa 17 þátttakendur frá átta löndum í Afríku og Asíu útskrifast frá skólanum. Fyrsti hópurinn sem mun útskrifast frá skólanum eftir að hann varð hluti af Háskóla Sameinuðu þjóðanna kemur til landsins um miðjan apríl að sögn Hafdísar Hönnu. Í ár verða þátttakendurnir sex að tölu og koma frá Mongólíu, Kyrgyzstan, Namibíu, Úganda, Eþíópíu og Níger. Hafdís Hanna segir að á næstunni muni skólinn einbeita sér að sex mánaða námskeiði á Íslandi sem sé byggt upp á svipaðan hátt og nám í Jarðhita- og Sjávarútvegsskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna. 
 
Fyrri hluta dvalar sinnar á Íslandi sækja þátttakendur að sögn Hafdísar Hönnu fjölmörg námskeið og áhersla sé einnig lögð á að þátttakendur fái verklega þjálfun og kynnist aðferðum úti í mörkinni. Síðari hluta dvalar sinnar vinna þátttakendur að einstaklingsverkefni undir handleiðslu leiðbeinenda og leitast er við að verkefnið sé tengt áhugasviði þátttakenda og þeim vandamálum sem hann/hún glímir við í sínum heimalandi. "Eftir að þátttakendur fara til síns heima, eru starfsmenn Landgræðsluskólans í góðu sambandi við þá og yfirmenn þeirra stofnana sem þeir koma frá. Nú þegar höfum við fengið mjög góðar fréttir af fyrrverandi þátttakendum sem hafa sannfært okkur um að þjálfun Landgræðsluskólans skili sér," segir Hafdís Hanna Ægisdóttir. 
 
Myndin var tekin í Níger þegar Hafdís Hanna var þar á ferð á vegum skólans.

"Ein besta leiðin í þróunarstarfi," segir landgræðslustjóri
 Sveinn Runólfsson
"Það var ekki meining mín að gera lítið úr annarri mjög merkri þróunaraðstoð Íslendinga. Í afar þröngri  fjárhagsstöðu okkar á Nýja Íslandi þurfum við að nýta hverja krónu mörgum sinnum. Þessir þrír háskólar Sameinuðu þjóðanna hér á landi eru frábærlega vel reknir og eru að skila miklum arði fyrir okkur Íslendinga og þróunarlöndin," segir Sveinn Runólfsson landgræðslustjóri en í fréttaskýringu Morgunblaðsins á mánudag nefnir hann að þrír háskólar háskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi séu "besta leiðin í þróunarstarfi Íslendinga."
 
Veftímaritið fór þess á leit við Svein að hann skýrði þessi ummæli sín. "Það kann vel að vera að betur hefði farið á því að þarna hefði staðið ein besta leiðin í þróunarstarfi," segir Sveinn. "Það sem ég vildi koma á framfæri var að Jarðhitaskólinn og Sjávarútvegsskólinn hafa skilað frábærlega vel menntuðum nemendum til sinna heimalanda og þeir síðan kallað á ráðgjöf og forystu íslenskra sérfræðinga, sérstaklega við nýtingu jarðhita víða um heim og skapað með því afar  miklar gjaldeyristekjur. Sjávarútvegsskólinn hefur líka með þjálfun sinna nemenda átt þátt í að bægja hungursvofunni frá milljónum manna með bættum fiskveiðum og ráðgjöf og tæknibúnaði síðar meir frá Íslandi.
 
Um starfsemi nýja landgræðsluskólans nefnir Sveinn að í  vaxandi mæli sé alþjóða samfélagið að gera sér grein fyrir að eyðimerkurmyndunin og landhnignun/jarðvegseyðingin sé eitt stærsta umhverfisvandamál jarðarbúa. "Þeir fáu nemendur sem Landgræðsluskólinn hefur ennþá útskrifað hafa nú þegar skilað árangri í sínum hrjáðu heimalöndum. Ég er ekki í vafa um að á komandi árum munu nemendur skólans eiga sinn þátt í viðleitni sinna þjóðlanda að bægja eyðimerkurvandanum frá sínum dyrum," segir hann.
Opinber framlög til þróunar-mála aldrei hærri en miklar vanefndir bitna á Afríkuríkjum
 gunnisal
"Framlög hafa aukist mikið í ljósi þess að sextán veitendur þróunaraðstoðar hafa staðið við skuldbindingar sínar. En vanefndir annarra, einkum Austurríkis, Frakklands, Þýskalands, Grikklands, Ítalíu, Japans og Portúgals, leiða til þess að heildarframlög til þróunarmála eru umtalsvert minni en heitið var. Þessar skuldbindingar voru gerðar og ítrekað staðfestar af forsætisráðherrum og það er brýnt að staðið verði við þær að öllu leyti," sagði Echkard Deautscher, yfirmaður DAC, þróunarsamvinnunefndar OECD á fundi í síðustu viku þar sem farið var yfir opinber framlög þjóða innan DAC til þróunarmála.
 
Framlög til þróunarríkja á árinu 2010 verða meiri en nokkru sinni fyrr í dollurum talið og 35% hærri en árið 2004. Framlögin eru hins vegar til muna minni en heitið var á Gleneagles leiðtogafundinum fyrir fimm árum. Þótt meirihluti þjóða standi við skuldbindingar sínar valda vanefndir annarra þjóða því að áætlanir um framlög standast ekki. Í frétt DAC segir að staðan bitni sérstaklega á Afríku sem fái aðeins um 12 milljarða dala í stað 25 milljarða sem hefðu átt að koma í hlut álfunnar miðað við Glenagles samninginn. Þar veldur mestu minni framlög frá nokkrum Evrópuríkjum.
 
Árið 2005 hétu fimmtán þjóðir sem eru bæði í ESB og DAC því að verja að lágmarki 0,51% af vergum þjóðartekjum til þróunarsamvinnu. Allmargar þjóðir fara yfir þetta lágmark, Svíar með hæstu framlög til þróunarmála (ODA) eða 1,03% af þjóðartekjum (GNI), Lúxemburgarar með 1%, Danir með 0,83%, Hollendingar með 0,8%, Belgar með 0,7%, Bretar með 0,56%, Finnar með 0,55%, Írar með 0,52% og Spánverjar eru á viðmiðunarlínunni með 0,51%.
 
Aðrar þjóðir ná ekki takmarkinu, Frakkar með 0,46%, Þjóðverjar með 0,40%, Austurríki með 0,37%, Portúgal með 0,34%, Grikkir með 0,21% og loks Ítalir með 0,20%.

Því er við að bæta að Norðmenn (sem eru ekki í ESB) verja 1% af þjóðartekjum til alþjóðlegrar þróunarsamvinnu. Þá hafa Bandaríkjamenn heitið því að tvöfalda framlög til þróunarmála í sunnanverðri Afríku á árunum 2004 til 2010 og Kanadamenn ætla að tvöfalda framlög sín á þessu ári miðað við framlögin 2001. DAC segir að líklegt sé að við þessi áform verði staðið og eins bendi allt til þess að Nýsjálendingar og Ástralir standi við fyrirheit um aukin framlög.

 
 
Dönum falið að stýra leiðtoga-fundi um þúsaldarmarkmiðin
 Denmark
"Eftir misheppnaðan leiðtogafund um loftslagsmál er Danmörku öðru sinni falið að vera í forystu um alþjóðlega ráðstefnu: leiðtogafund Sameinuðu þjóðanna þar sem fulltrúar ríkra þjóða og fátækra eiga að fjalla um það hvernig beri að draga úr fátækt. Vonlaust verkefni að mati sérfræðinga."
 
Þannig hljóðar upphaf fréttar í Berlingske Tidende eftir að fregnir bárust af því að Ban Ki-moon framkvæmdastjóri SÞ hefði falið Dönum að leiða samningaviðræður á leiðtogafundi í september um baráttuna gegn fátækt og vanþróun. Á leiðtogafundinum á einnig að fjalla um það með hvaða hætti unnt verður að ná þúsaldarmarkmiðunum fyrir árið 2015.
Ulla Tørnæs kveðst í fréttinni stolt af þeirri viðurkenningu sem felst í beiðni Sameinuðu þjóðanna en það kemur í hlut eftirmanns hennar í embætti þróunarmálaráðherra, Sørens Pind, að vera í forsvari fundarins.
 
Breska þróunarsamvinnustofnunin, DFID, efndi á dögunum til málþings um þúsaldarmarmiðin undir yfirskriftinni "Agenda 2010: Turning Point on Poverty".  
 
Ennfremur má geta að þróunarráðherrar Evrópu hittust á fundi í La Granja á Spáni í síðustu viku til þess að ræða stöðu ESB í tengslum við leiðtogafundinn í september. Frá þeim fundi segir í frétt New Europe.

Tvöfalt meira fé til hernaðar á einu ári en til þróunarsamvinnu í 50 ár!
 ODA
Því er oft haldið á lofti að vestrænar þjóðir hafi ausið fjármagni til Afríku um margra áratuga skeið. Talað er um trilljónir Bandaríkjadala í þessu sambandi. Nú hefur Development Institute tekið saman tölfræðileg gögn um þennan meinta fjáraustur til þjóða sunnan Sahara og staðhæfir að þessar trilljónir séu í allri sögu þróunaraðstoðar - á 48 ára tímabili - aðeins 850 milljarðar dala á núvirði. Til samanburðar nefnir DI að kostnaður vegna hernaðarbrölts í heiminum á árinu 2008 hafi numið 1464 milljörðum dala. Á einu ári! Í samantektinni kemur einnig fram að á síðasta áratug nam opinber þróunaraðstoð 31 Bandaríkjadal á hvert mannsbarn í sunnanverðri Afríku að jafnaði á ári eða rúmlega tvö þúsund íslenskum krónum. Það eru nú öll ósköpin!
 
Hvers vegna dregur hagvöxtur úr fátækt í sumum löndum en ekki öðrum?
 gunnisal
Sænsk stjórnvöld hafa birt stefnu sína um hagvöxt í sænskri þróunarsamvinnu fyriri árin 2010 til 2014. Í ágripi að þessari nýju stefnumörkun sænskra stjórnvölda segir að stefnan skýri það sjónarmið stjórnvalda að hagvöxtur sé leið til þess að örva þróun og draga úr fátækt. "Það leikur enginn vafi á því að hagvöxtur er lykilatriði til að draga úr fátækt," segja Svíar og benda á að reynslan sýni að markaðshagkerfi með frjálsri samkeppni sé það efnahagskerfi sem skapi bestu skilyrði fyrir sjálfbærum hagvexti. Þeir telja sig geta stuðlað að hagvexti í fátækum löndum með þróunarsamvinnu og nefna sérstaklega þátttöku þeirra fátæku, veita verði þeim tækifæri til að stuðla að hagvexti, taka þátt  og hagnast.
 
Meginmarkmiðið í stefnu Svía er að bæta skilyrði fyrir sjálfbærri efnahagsþróun í fátækum ríkjum og tilgreindir eru þrír áhersluþættir innan þróunarsamvinnunnar, 1) að skapa ákjósanleg skilyrði fyrir fátækt fólk til þess að taka þátt í gróskuferli; 2) að skapa ákjósanleg skilyrði fyrir þróun markaða og frumkvöðlastarfsemi, og 3) að efla aðlögunarhæfni fyrir breytingar, ógnir og tækifæri.
 
Svíar benda á að DAC, þróunarsamvinnunefnd OECD, fjallaði árið 2007 um hagvöxt og fátækt í bók þar sem spurt var áleitinna spurninga eins og: Hvers vegna hefur hagvöxtur reynst árangursríkari við að draga úr fátækt í sumum ríkjum en ekki öðrum? Hvernig geta fátækar konur og karlar sem best verið þátttakendur, lagt sitt af mörkum og notið ábatans af hagvexti? Sú bók hét Promoting Pro-Poor Growth: Policy Guidance for Donors. Um var að ræða leiðbeiningar til veitenda þróunaraðstoðar og þeirra sem móta stefnu í málaflokknum en bókin byggði á vinnu POVNET (DAC Network on Poverty Reduction).

 
Veftímarit um þróunarmál er gefið út af Þróunarsamvinnustofnun Íslands. Ritinu er ætlað að glæða umræðu um þróunarmál og gefa áhugasömum kost á að fylgjast með því sem hæst ber hverju sinni. Efni veftímaritsins þarf ekki endilega að endurspegla stefnu ÞSSÍ.
          
Skráið ykkur í áskrift á heimasíðunni, www.iceida.is og látið vinsamlegast aðra með áhuga á þróunarmálum vita af tilvist veftímaritsins. Allar ábendingar um efni eru vel þegnar.  

Þeir sem vilja afskrá sig af netfangalista, eða senda okkur ábendingu um efni, eru vinsamlegast beðnir um að senda slík erindi á netfangið iceida@iceida.is. Ritstjóri er Gunnar Salvarsson, gsal@iceida.is.
 
  
ISSN 1670-8105

Bestu kveðjur, Útgáfu- og kynningardeild ÞSSÍ
Götubörnum fjölgar í Namibíu - íslensk rannsókn varpar ljósi á aðstæður þeirra
gunnisal
Mörgum stendur ógn af götubörnum vegna þess að þau sjá sér oft farborða með því að stela eða betla, segir í frétt The Namibian. Þar segir að ráðuneyti sem fer með velferðarmál barna og jafnréttismál telji að þeim börnum fjölgi í Namibíu sem eiga undir högg að sækja í samfélaginu. Lýðheilsukönnun frá árinu 2006 sýndi að 250 þúsund börn voru varnarlaus þar af 150 þúsund munaðarlaus.
Blaðið segir frá því að börn séu neydd til þess að lifa á götum úti vegna ýmissa aðstæðna eins og fátæktar, atvinnuleysis foreldra, HIV/alnæmis, fíkniefnamisnotkunar svo dæmi séu nefnd.
 
Fjóla Einarsdóttir verkefnastjóri hjá Rauða krossinum gerði fyrir nokkrum árum úttekt á götubörnum í höfuðborginni Windhoek og skrifaði meistararitgerð um það efni. Hún tilgreinir margar sömu ástæður og nefndar eru í The Namibian en segir í samtali við Veftímaritið að götubörnin í Windhoek séu í fæstum tilvikum munaðarlaus. "Helstu ástæður þess að þau fara á götuna er varnarleysi þeirra heima fyrir sem stafar m.a. af fátækt og matarskorti, kynferðislegri misnotkun, fjölskylduvandamálum, að þau séu yfirgefin, skilnaði foreldra eða að foreldrar vinni í öðru bæjarfélagi."
 
Á þeim tíma sem Fjóla vann að rannsókn sinni voru að hennar mati milli 20 og 40 götubörn í Windhoek í þrengstu merkingu þess hugtaks, þ.e. börn sem búa alveg á götunni. Mun fleiri börn eru þó á götunni á daginn sem hafa einhvern samastað yfir nóttina, áætlað er að það séu um 700-800 börn. "Þau sofa í holræsislögnum, á götuhornum eða á svokölluðu brúarsvæði með pappakassa undir sér," segir hún. "Áfengis- og fíkniefnaneysla, sem spilar stórt hlutverk í lífi götubarna, hamlar þeim aðgangi að athvörfum. Götubörnin sjá meðal annars fyrir sér með betli, þjófnaði, sölu á mörkuðum og vændi - seint á kvöldin á götuhornum í Windhoek eru börn niður í 10 ára aldur að bjóða líkama sinn til sölu fyrir smáaura."
Fjóla gaf Veftímaritinu leyfi til að vísa í meistararitgerð hennar en þar er hugtökum eins og götubarn, varnarlaus barn og munaðarlaust barn gerð góð skil samkvæmt kenningum helstu fræðimanna.
 
 
 
Athyglisvert
Interview: Homi Kharas on Enhancing Aid Effectiveness
  
What Works in Development? Thinking Big and Thinking Small (Brookings)
 
Making 2010 a Watershed Year for Adolescent Girls' Education, eftir Cynthia B. Lloyd, Ruth Levine, and Miriam Temin (CGD)
 
Economic Importance of Agriculture for Poverty Reduction (OECD)
 
Konur og friður: Vital peace constituencies, eftir Shelley Anderson (50.50)
 
Við erum á...
facebook
Kíktu í heimsókn 
Søren Pind nýr þróunarmálaráðherra Dana
SorenPind
Søren Pind tók í vikubyrjun við embætti þróunarmálaráðherra Dana eftir að Lars Lökke Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, kynnti um allsherjar uppstokkun í stjórninni. Pind var áður einn af borgarstjórum Kaupmannahafnar. Fráfarandi þróunarmálaráðherra, Ulla Tørnæs, er ekki lengur í ríkisstjórninni. Breytingar voru gerðar í þrettán af nítján ráðuneytum.
 
Lene Espersen er utanríkisráðherra í nýju ríkisstjórninni og fyrst kvenna í Danmörku til að gegna því embætti.

»Søren Pind er den store stjerne« (Politiken) 
 
Afríkukvöld á föstudag
Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi og Afríka 20:20, -
áhugamannafélag um málefni Afríku sunnan Sahara, bjóða til
Afríkukvölds. Gleðin fer fram föstudaginn 26. febrúar nk. í Miðstöð Sameinuðu þjóðanna,
Laugavegi 42, 2.hæð og hefst kl. 21:00.
 
Nú er kjörið tækifæri að taka fram Afríkuklæðnaðinn og eiga góða kvöldstund í hópi Afríkuunnenda við undirleik afrískrar tónlistar.
 P.S. Söngvökvi er hvorki seldur né í boði á staðnum en áhugasömum söngfuglum er velkomið að taka eigin vökva með.
Fréttir og fréttaskýringar
 
Political News Out of Africa is Getting Better Than 20 Years Ago, Says an Analyst (VOA)
  
Fóstureyðingar í Afríku: Her foretages aborter med urter (Berlingske Tidende)
 
Mobile-health apps emerge at Mobile World Congress 2010
 
World's Longest Toilet Queue in the Making (IPS)
 
Early Returns on Uganda's 2011 Election (World Politics Review)
 
African journalists face increasing risk for foreign outlets (CPJ)
 
Cell phone subscriptions to hit 5 billion globally (CNET)
 
What is a girl worth? (The Guardian)
 
Malawi top court refuses to hear gay couple's case (AFP)
 
UN calls for action on growing electronic waste (The Guardian)
  
"Easy to double African banana yields" - (AFROL)
 
UN, ADB say crisis stalled Asia poverty reduction (BusinessWeek)
 
Japan extends green aid to Malawi (Afrol)
 
SIDA: Myndigheter vill ta ett steg vidare med politiken för global utveckling
 
Problemer i kø for verdens fattigste -Erik Solheim þróunarráðherra Noregs á leið til Mósambík og Malaví (ABC Nyheter)
 
Religion, politics and Africa's homophobia (BBC)
 
Mikrolån via mobiltelefon reduserer fattigdom (Bistandsaktuelt)
  
Sub-Saharan Africa economy: Outside chance (EIU)
 
Africa's economic growth projected at 7 percent (AFROL)
Obama vill loftslagssamning fyrir árslok
Bandarísk stjórnvöld vilja ljúka bindandi alþjóðlegum samningi um loftslagsbreytingar á þessu ári. Bloomberg fréttastofan hefur eftir fulltrúum í utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna að vilji sé til þess að koma á slíku samkomulagi allra stórþjóðanna fyrir árslok en boðaður er fundur um lofstslagsmál í Mexíkó í desember. Obama forseti er sagður áfjáður að koma samningi í höfn en víða gætir tregðu við að grípa til aðgerða með lögum í loftslagsmálum, m.a. í Bandaríkjunum, Kína og Indlandi.
 
Heilahimnubólgu- faraldur í Afríku
Heilahimnubólga geisar í sunnanverðri Afríku og  sjúkdómsins verður vart óvenju snemma í ár, að því er fram kemur í frétt frá Senegal. Sjúkdómstilfelli hafa greinst á svokölluðu "heilahimnubólgubelti" frá Senegal til Eþíópíu en sjúkdómurinn gerir vart við á þurrkatímum og flest tilvik greinast um miðjan aprílmánuð. Þegar aðeins vika var liðin af febrúar á þessu ári voru hins vegar staðfest rúmlega 2 þúsund tilvik heilahimnubólgu og 13% þeirra leiddu til dauða. Flest tilvikin greindust í Burkina Faso en hæsta dánartíðinin er í Togo þar sem 25 af 108 létust úr sjúkdómnum.
Veðurfræðilegar breytingar kunna að eiga þátt í útbreiðslu sjúkdómsins en að mati WHO - Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar - er faraldrinum lýst sem "ógnvænlegum." Á síðasta ári létust á fimmta þúsund Afríkubúar úr heilahimnubólgu.