Veftímarit um þróunarmál
Þróunarsamvinna
 Samstarfsþjóðir
3. febrúar 2010 
Þingmaður í Malaví kynnir sér verkefni Þróunarsamvinnustofnunar:
Afar gagnleg verkefni fyrir uppbyggingu og þróun
 glúmur
Glúmur Baldvinsson skrifar frá Malaví. - Nýkjörinn þingmaður Apaflóa (Monkey Bay) kjördæmis í Mangochi héraði í Malaví, Ralph Jooma, heimsótti nýverið starfsfólk ÞSSÍ á svæðinu og kynnti sér þróunarverkefnin sem þar eru unnin í samstarfi við heimamenn. Við það tækifæri sagðist þingmaðurinn hafa orðið var við mikla ánægju íbúa á svæðinu með störf ÞSSÍ sem hann taldi ekki bara sýnileg heldur afar gagnleg fyrir uppbyggingu og þróun í Apaflóa.
 
Verkefnin sem um ræðir eru heilsugæsluverkefni, vatns- og hreinlætisverkefni og félagsleg verkefni með sérstakri áherslu á fullorðinsfræðslu og læsi. Ríflega 110 þúsund manns byggja svæðið. 
 
Dauðsföllum í Apaflóa fækkar 
Jooma var kjörinn á þing í maí 2009 og er formaður fjárlaganefndar þingsins. Eftir stutta viðkynningu og kynningarfund með starfsmönnum ÞSSÍ, þar á meðal Glúmi Baldvinssyni, verkefnisstjóra vatns- og hreinlætismála, og Jo Tore Berg, verkefnisstjóra félagslegra verkefna, var haldið í skoðunarleiðangur um svæðið. Fyrst var heimsóttur spítalinn í Apaflóa sem byggður var af ÞSSÍ. Jooma sagði tilkomu spítalans hafa gjörbylt heilsugæslu í Apaflóa til hins betra. Áður hefðu íbúar leitað hefðbundinna læknisúrræða sem kostað hefði margan lífið. Með aukinni ásókn í spítalann hefði dregið verulega úr dauðsföllum. Vonaðist Jooma til að ÞSSÍ gæti komið að uppbyggingu smærri heilsugæslustöðva í einangruðustu sveitum Apaflóa.
 
Hópurinn skoðaði því næst vatnsból og hreinlætisaðstöðu í tveimur þorpum en verkefnið er komið langt á veg með að tryggja nær öllum íbúum Apaflóa aðgang að hreinu vatni. Jooma var sérstaklega hrifinn af þeirri aðferðafræði verkefnisins sem miðar að hámarksþátttöku íbúanna sjálfra í greftri, frágangi og viðhaldi brunna sem og áherslu á að íbúar komi sér upp sómasamlegri hreinlætisaðstöðu áður heldur en vatnsból eru afhent þeim til eignar. Þingmaðurinn lýsti yfir vilja til að starfa náið með ÞSSÍ til að tryggja að markmiðið um að allir íbúar svæðisins hafi aðgang að ómenguðu og neysluhæfu vatni næðist fyrir árslok 2010. 
 
Þróunarsetur og kennarahúsnæði
Félagsleg verkefni voru næst á dagskrá. Komið var við í nýbyggðu þróunarsetri (resource centre) í hjarta Apaflóa. Fullorðinsfræðsla mun fara þar fram og hýsir setrið einnig veglegt bókasafn. Setrinu er ætlað að vera eins konar félagsmiðstöð sem rekin er af íbúunum sjálfum og vettvangur fyrir þá til að taka þátt í þróun hugmynda um áframhaldandi uppbyggingu í Apaflóa. Setrið á einnig að vera vettvangur fyrir þátttakendur til að tileinka sér hinar ýmsu iðngreinar, nema landbúnað og brunnagerð svo eitthvað sé nefnt.
 
Að lokum heimsótti hópurinn hænsnabú sem er hluti af lífsviðurværisverkefni og nýbyggt kennarahúsnæði sem leshringur á svæðinu hafði alfarið frumkvæði að. Enda er það tilgangur leshringja að bera kennsl á ýmis félagsleg vandamál og finna lausnir. Skortur á kennurum í dreifbýli er landlægt vandamál í Malaví. Mörg dæmi eru um að einn kennari sinni hundrað nemendum. Ein helsta ástæðan fyrir kennaraeklu er skortur á húsnæði við skóla í sveitum. Þess vegna sækjast kennarar fremur eftir störfum í þéttbýli.

 
Myndband frá verkefnum ÞSSÍ í Mangochi-héraði, eftir Stefán Jón Hafstein umdæmisstjóra ÞSSÍ.
 
Þróunarsamvinna gegnir mikilvægu hlutverki í loftslagsmálum
 gunnisal
Nýir alþjóðasamningar - sem eru utan við hefðbundin framlög til þróunarsamvinnu - munu leiða til þess að nýtt fjármagn fæst til að bregðast við hlýnun jarðar. Hvaða áhrif koma þessi framlög til að hafa á þróunar-samvinnu? Og hvað um Parísaryfirlýsinguna? Spurningar af þessu tagi voru settar fram á málþingi sem SIDA, þróunarsamvinnustofnun Svíþjóðar, efndi til á dögunum um fjármögnun loftslagsverkefna.
 
Olaf Drakenberg umhverfissérfræðingur við háskólann í Gautaborg hélt aðalerindið og kynnti skýrsluna sína - Old, new and future funding for environment and climate change - the role of development cooperation - en að mati hans getur þróunarsamvinna átt stóran þátt í því að tryggja að fátækustu ríki heims njóti góðs af framlögum úr sjóðum helguðum loftslagsbreytingum. Hann telur eitt það mikilvægasta innan þróunarsamvinnunnar sé að ryðja úr vegi öllum hindrunum þannig að fjármögnun loftslagsverkefna verði skilvirk.
 
Á loftslagsfundinum í Kaupmannahöfn í desember var ákveðið að verja tíu milljörðum dala árlega næstu árin til aðgerða gegn yfirvofand vá en fjárhæðin á að vera komin upp í hundrað milljarða dala árlega árið 2020.
 
Í frétt SIDA segir að fjármagn sem sé í boði vegna loftslagsbreytinga og annarra umhverfisþátta sé sáralítið miðað við þörfina. Fredrik Reinfeldt forsætisráðherra Svía hét því að Svíar myndu leggja fram um 370 milljónir dala árlega í þágu þróunarríkja vegna loftslagsmála og samkvæmt fréttinni vill sænska ríkisstjórnin með þessu þrýsta enn frekar á ríkisstjórnir annarra ESB þjóða um framlög í þessu skyni.
 
Eins og Veftímaritið greindi frá í síðustu viku hefur Norræni þróunarsjóðurinn breytt hlutverki sínu og veitir nú einvörðungu styrki til verkefna í þágu þróunarríkja sem tengjast loftslagsmálum.

 
Effektiv finansiering av klimatinsatser viktig uppgift för biståndet - málþing SIDA
 
Þrír íslenskir læknanemar við störf í Malaví
"Sjúkrahúsið haft mikla byltingu í för með sér" 
 guffi
"Sjúkrahúsið sem Þróunarsamvinnustofnun reisti hefur haft mikla byltingu í för með sér fyrir þetta svæði og ánægjulegt er að fá að fylgjast með því starfi. Aðstæður hérna eru fremur frumstæðar og ólíkar því sem við eigum að venjast heima. Helst skortir aðföng eins og lyf en mesti skorturinn er á starfsfólki. Enginn fullgildur læknir er á sjúkrahúsinu og almennt er mikill læknaskortur í landinu." - Þetta segir Tryggvi Baldursson í Morgunblaðinu í gær en hann er einn þriggja íslenskra læknanema sem starfa tímabundið í Malaví og hafa undanfarið kynnt sér störfin á héraðssjúkrahúsinu í Monkey Bay sem reist var fyrir íslenskt þróunarfé. Hinir tveir læknanemarnir eru Sólveig Helgadóttir og Inga Lára Ingvarsdóttir.
 
Stefán Jón Hafstein umdæmisstjóri ÞSSÍ í Malaví segir í samtali við Veftímaritið að læknanemarnir séu að ljúka námi sínu með kynningu á aðstæðum í heilsugæslu í Malaví. "Þau dvöldu í tvær vikur á sjúkrahúsinu Monkey Bay, kynntu sér aðstæður og tóku þátt í daglegum störfum sem nemar. Þeim kom á óvart að enginn fullgildur læknir starfar á sjúkráhúsinu frekar en víða gerist í Malaví, heldur aðeins sérþjálfaðir læknatæknar. Þótt mönnun á sjúkrahúsinu þyki góð miðað við aðstæður í landinu fannst þeim mikið skorta uppá, sem von er, Malaví á við stöðugan lækna- og hjúkrunarfræðingaskort að stríða. Þá neituðu þau ekki að hafa fengið ,,menningaráfall" við að sjá margt af því sem er daglegt líf á sjúkrahúsi í Malvaí. Meðal annars nefndu þau lyfjaskort og ýmislegt af þeim toga sem læknanemum frá Íslandi kemur á óvart. Þau fengu svo kynningu á öðrum verkefnum ÞSSÍ þegar ég fór með þeim um Mangochi hérað. Þar gafst þeim tækifæri til að skoða nýlega heilsugæslustöð í Nankumba sem Íslendingar byggðu og fannst þeim auðséð hve mikil bót þessi heilsugæsla er fyrir heimamenn í afskekktri sveit.
 
Þessa dagana dvelja læknanemarnir í héraðshöfuðborginni Mangochi en ljúka Malavíferð sinni á háskólasjúkrahúsinu í Blantyre þar sem er eina starfandi læknadeildin í landinu.
 

Myndin er af sjúkrahúsinu í Monkey Bay - Ljósm. Guffi.
Brýn þörf á umbótum í þróunarsamvinnu Ítalíu
 
gunnisal
 
Þróunarsamvinnunefnd OECD, svokölluð DAC nefnd, birti á dögunum jafningjarýni um þróunarsamvinnu Ítalíu þar sem hvatt er til brýnna umbóta í málaflokknum. Að mati DAC bíða erfið úrlausnarefni ítalskrar þróunarsamvinnu en skortur hefur verið á pólitískri samstöðu í landinu um stefnu í þróunarmálum. DAG segir að ljóst sé að Ítalía bregðist alþjóðlegum skuldbindum um 0,51% framlög til þróunarmála af vergum þjóðartekjum á árinu 2010 og segir ólíklegt að markmiðinu um 0,7% fyrir árið 2015 náist. Fram kemur að á árinu 2008 nam opinber þróunaraðstoð (ODA) aðeins 0.22% sem skipaði Ítalíu í 19. sæti af 23 þjóðum í DAC hópnum.
 
Þrátt fyrir brýn úrlausnarefni segir í jafningjarýni DAC að merkjanlegar framfarir hafi litið dagsins ljós í stjórnun málaflokksins og fagnað er þeim áformum stjórnvalda á Ítalíu að setja 35 samstarfsríki í forgang og veita sendiráðum Ítalíu aukin völd í þróunarmálum.
 
Stjórnvöld í Úganda hvött til umbóta fyrir kosningar á næsta ári
gunnisalEmbættismenn í Úganda hafa að sögn fengið tilmæli frá stjórnvöldum í Bandaríkjunum þess efnis að skipulag kosninga á næsta ári verði að vera með betri hætti en síðast, virða beri mannréttindi og  landslög. Samkvæmt skýrslu sem dagblaðið Daily Monitor í Úganda birti á vefsíðu sinni í gær var embættismönnum sagt af Maria Otero, aðstoðarráðherra Bandaríkjanna í alþjóðamálum, sem heimsótti Austur-Afríku í síðustu viku, að hún vildi sjá betra skipulag á kosningaferlinu.
 
Í desember á síðasta ári birti Mannréttindavaktin skýrslu þar sem stjórnvöld í Úganda voru hvött til að gera breytingar á kosningalögum og tryggja kosningar án ofbeldis á næsta ári.
 
Þing- og forsetakosningar verða haldnar í Úganda á vordögum 2011. Verði Museveni forseti endurkjörinn mun hann hafa setið lengst allra í Austur-Afríku á forsetastóli.
 
 
US audits Uganda's preparations for 2011 polls
 
US presses Uganda for 'better organised' 2011 election
 
Frétt Mannréttindavaktarinnar
 
Skýrslan: Preparing for the Polls - Improving Accountability forElectoral Violence in Uganda
 
Gates sjóðurinn kaupir bóluefni fyrir 10 milljarða dala
 gunnisal
Bill og Melinda Gates tilkynntu á dögunum á Davos fundinum í Svíss að þau ætluðu að verja tíu milljörðum dala til kaupa á ýmiss konar bóluefni við banvænum barnasjúkdómum fyrir börn í þróunarríkjum en góðgerðarsjóður hjónanna - Bill and Melinda Gates Foundtation - hefur um árabil lagt fram miklar fjárhæðir til heilbrigðismála meðal fátækustu þjóða heims. Á síðasta áratug varði sjóðurinn 4.5 milljörðum dala til kaupa á bóluefni en nú er fjárhæðin tvöfölduð og þess vænst að átak sjóðsins, sem stendur yfir í tíu ár, bjargi níu milljónum mannslífa. Ákvörðun hjónanna hefur hvarvetna verið tekið fagnandi enda stærsta framlag sögunnar frá einstaklingum til mannúðarmála.
 
Gates pledges $10bn for vaccines (FT)
Bandaríkin hækka framlög til heilbrigðismála í þróunarlöndum
 Global Health Initiative
Þrátt fyrir methalla á fjárlögum ákvað ríkisstjórn Bandaríkjanna að gera tillögu um 9% hækkun framlaga til heilbrigðismála í heiminum í fjárlögum næsta árs. Aukin framlög á einkum að nýta í baráttuna gegn læknanlegum sjúkdómum og til þess að draga úr dauðsföllum kvenna og barna. Með tillögunum fylgja metnaðarfull markmið sem á að ná fyrir árið 2014, m.a. að koma 1.6 milljónum HIV sýktra einstaklinga í lyfjameðferð og hefta útbreiðslu malaríu um 50%, að því er fram kemur í frétt Wall Street Journal.
Implementation of the Global Health Initiative (USAID)
 
Obama's Global Health Initiative: Getting It Right The First Time Around (Huffington Post)
Vísindi leidd til öndvegis í baráttunni gegn fátækt
Science
 "Fólk í þróuðum ríkjum gleymir því stundum hvað nýjungar í vísindum hafa umbreytt lífi þeirra," segir Gordon Conway annar höfunda nýrrar bókar um vísindi og þróunarmál. Bókin - Science and Innovation for Development - hefur vakið mikla athygli en hún er öðrum þræði hvatning til stjórnvalda og þeirra sem stýra þróunarmálum að nýta vísindin í auknum mæli til að sigrast á fátækt í heiminum. Gordon Conway var yfirmaður vísindasviðs Þróunarsamvinnustofnunar Breta, DFID, en hinn höfundurinn er Jeff Waage forstöðumaður London International Development Centre.
 
Höfundarnir segja ótvíræð rök fyrir því að vísindi og tækni megi nýta í báráttunni gegn fátækt, vísindin séu mikilvægur þáttur í risavöxnum viðfangsefnum samtímans eins og loftslagsbreytingum, matvælaskorti, vatnsskorti og sjúkdómum. Þeir benda á að á 20. öldinni hafi mannkynið orðið vitni að tilkomumiklum læknisfræðilegum uppfinningum eins og bóluefni gegn gulu og uppgötvun pensilíns. Í dag segja þeir að við horfum fram á  byltingarkenndar framfarir í rafeindatækni og fjarskiptum sem nýtast fátækasta fólki í heiminum, vatnshreinsitæki sem veita samfélögum aðgang að hreinu vatni, farsímatækni sem m.a. bændur nota í landbúnaði og læknisfræðilegar rannsóknir sem nýtast í baráttu við sjúkdóma eins og malaríu og HIV.
 
Hægt er að
hlaða bókinni niður ókeypis.
 
 
 
Athyglisvert
Uganda draws up national irrigation strategy (The Guardian)
 
Orphaned, Raped and Ignored, eftir Nicholas D. Kristof
 
Happy peasants and miserable millionaires: Happiness research, economics, and public policy, eftir Carol Graham
 
How to rebuild Haiti, eftir Robert B. Zoellick, forstjóra Alþjóðabankans
 
Spain in Africa: The Reluctant Newcomer
 
Tackling the roots of poverty, eftir Françoise Moreau (D+C)
 
 
 
 
 
Veftímaritið er á...
facebook
Kíkið í heimsókn
Rótaveirusýking: Miklar vonir bundnar við nýtt bóluefni
Bólefni gegn rótaveirusýkingu, sem veldur alvarlegum niðurgangi og getur leitt til dauða kornabarna og ungra barna á fáeinum dögum, gæti bjargað tveimur milljónum barna á næsta áratug, að mati sérfræðinga. Tvær nýjar rannsóknir, önnur unnin í Malaví og hin í Mexíkó, leiða í ljós að bóluefnið dregur marktækt úr dauðsföllum af völdum niðurgangs - um 61% í Afríku og 35% í Mexíko. Niðurstöðurnar voru birtar í læknaritinu The New England Journal of Medicine.
Að mati lækna gæti mikil útbreiðsla bóluefnisins á svæðum þar sem rótaveirusýking er algeng leitt til þess að lífi tveggja milljóna barna yrði bjargað á næsta áratug. Rótaveirusýking er meginorsök alvarlegs niðurgangs hjá kornabörnum og ungum börnum en hálf milljón barna yngri en fimm ára deyr árlega af völdum niðurgangspesta. Bóluefni gegn rótaveiru er hluti af almennri bólusetningu í mörgum löndum. Það er valkvætt bóluefni hér á landi og foreldrar geta óskað eftir að börn þeirra fái Rótarix bóluefnið.
 
 
Forseti Malaví tekur við sem leiðtogi Afríkubandalagsins
Bingu
Bingu wa Mutharika hefur tekið við leiðtogahlutverki Afríkubandalagsins (AU) en hann var kjörinn í embættið síðstliðinn sunnudag á ársfundi sambandsins sem haldinn var að þessu sinni í Addis Ababa í Eþíópíu. Hann tekur við embættinu af Moammar Gadafi forseti Líbýu sem kjörinn var í fyrra. Fundinum lauk í gærkvöldi.
Næsti ársfundur Afríkubandalagsins verður í Kampala, höfuðborg Úganda.
 
 
 
 
 
 
Fréttir & fréttaskýringar
 
 
 
 
 
 
 
 
 
Top 10 Worst-Dressed World Leaders
 (Time)
 
South Sudan hungry 'quadrupled in a year'
 
Lightning kills 6 in Malawi church
Málþing um kyn og loftslagsbreytingar
Næstkomandi föstudag, 5. febrúar, verður málþingið Kyn og loftslagsbreytingar haldið í Háskóla Íslands, stofu 101 Lögbergi, kl. 14.30-16.45. Samstarfsaðilar um málþingið eru Jafnréttisstofa, Rannsóknastofa í kvenna- og kynjafræðum, EDDA - öndvegissetur og Stofnun Vilhjálms Stefánssonar.

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra flytur ávarp á málþinginu og Magnfríður Júlíusdóttir lektor í mannvistarlandafræði og ferðamálafræði flytur erindi sem nefnist "Loftslagsbreytingar og kynjuð þróunarorðræða um Afríku: Gamalt stef í nýjum umbúðum?" Aðrir fyrirlesarar eru Kristín Ástgeirsdóttir, Sólveig Anna Búasdóttir og Anna Karlsdóttir.

Málþingið er öllum opið
 
Um Veftímaritið
Veftímarit um þróunarmál er gefið út af Þróunarsamvinnu-stofnun Íslands. Ritinu er ætlað að glæða umræðu um þróunarmál og gefa áhugasömum kost á að fylgjast með því sem hæst ber hverju sinni. Efni veftímaritsins þarf ekki endilega að endurspegla stefnu ÞSSÍ.
          
Skráið ykkur í áskrift á heimasíðunni, www.iceida.is og látið vinsamlegast aðra með áhuga á þróunarmálum vita af tilvist veftímaritsins. Allar ábendingar um efni eru vel þegnar.  

Þeir sem vilja afskrá sig af netfangalista, eða senda okkur ábendingu um efni, eru vinsamlegast beðnir um að senda slík erindi á netfangið iceida@iceida.is. Ritstjóri er Gunnar Salvarsson, gsal@iceida.is.
 
  
ISSN 1670-8105

Bestu kveðjur, Útgáfu- og kynningardeild ÞSSÍ