Veftímarit um þróunarmál
Þróunarsamvinna
 Samstarfsþjóðir
6. janúar 2010
Íslensk jól í Afríku
 
Meðal þeirra íslensku fjölskyldna sem héldu jól í Afríku að þessu sinni voru fjölskyldur Geirs Oddssonar í Úganda og Davíðs Bjarnasonar í Namibíu en þeir starfa báðir sem verkefnastjórar fyrir Þróunarsamvinnustofnun Íslands. Veftímaritið fór þess á leit við þá að segja stuttlega frá jólahaldinu í Afríku.
 
Geir og Ragna Björg Guðbrandsdóttir eiginkona hans héldu jólin í Kampala með drengjunum sínum en fjölskyldan var um áramótin í Jinja. Þau eiga þrjá drengi, Odd 18 ára (sem er aftur kominn til Íslands), Einar Huga 15 ára og Heiðar Inga 8 ára.
 
Davíð og Erla Hlín Hjálmarsdóttir eiginkona hans héldu jólin í Windhoek ásamt þremur drengjum sínum, þeim Haraldi Bjarna 10 ára, Óskari Víkingi 4 ára og Sefáni Orra 3 ára.
Geir Oddsson segir örsögur af jólum í Úganda:
Leitin að jólatrénu og láréttir flugeldar
 
Geir OddssonVið fjölskyldan höfum alltaf reynt að hafa veglegt afskorið jólatré á heimilinu um jólin. Eitthvað sem við hjónin vöndumst á okkar æskuheimilum. Það má segja margt gervijólatrjám til ágætis, en við höfum einhvernvegin aldrei farið þá leið og förum ekki að gera það úr þessu. Strákarnir okkar þrír hafa svo alist upp við lifandi tré og telja annað ekki boðlegt og að tréið sé í það minnsta jafnstórt þeim stærsta, eða eigum við að segja þeim hæsta, sem enn sem komið er er sami einstaklingurinn. Hingað til hefur þetta ekki verið vandamál, ekki einu sinni í Níkaragva þar sem við eyddum síðustu jólum við undirsöng flugelda á aðfangadag, gamlársdag og allmarga daga þar á undan og eftir. Jólatré af barrtrjáakyni er erfitt að fá í Níkaragva en þess í stað er hægt að fá vegleg síprustré sem sniðin hafa verið eins og hefðbundin jólatré. Þetta var alveg tekið gott og gilt af sonunum.
 
Tvenns konar vandi kom hins vegar upp þegar leita átti jólatrjáa í Úganda, í fyrsta lagi er elsti sonurinn orðinn jafn hár föðurnum, farinn að slaga hátt í tvo metrana og í öðru lagi virðist lítill markaður fyrir tilklippt síprustré að maður tali ekki um blágreni eða stafafuru. Við hjónin og yngsti sonurinn, átta ára, fórum á stúfana skömmu fyrir jól að leita að jólatré, eða eigum við að segja besta fáanlega ígildi jólatrés, sem ekki var gervi þ.e.a.s. Leitin bar okkur að götu sunnan við miðborg Kampala þar sem eru gróðrastöðvar við götuna, engin þörf fyrir gróðurhús í þessu gjöfula landi. Þar leituðum við góða stund að stærsta síprustrénu sem til var á svæðinu. Niðurstaðan var græðlingur sem með aðstoð veglegs blómapotts náði 134 cm og slefaði þar með rétt í nýtt lágmarksviðmið fjölskyldunnar um hæð jólatrés, þ.e. þáverandi hæð yngsta og lágvaxnasta sonarins. Hann var á þeim tíma 132 cm á sokkaleistunum, við höfum ekki lagt í að mæla hann neitt frekar yfir jólin. Sá yngsti tók sér reyndar góðan umhugsunarfrest áður en hann samþykkti nýtt viðmið.
 
Jólatréð hefst vel við í pottinum, hallar reyndar aðeins til vesturs undan þunga pínulítillar ljósaseríu og skreytinga. Nú verður spennandi að sjá hvort jólatrésígildið eða yngsti sonurinn vinna vaxtarkapphlaupið fyrir næstu jól eða hvort farið verður út í kaup á gervijólatré. Við foreldrarnir veðjum á vaxtarskilyrði trjáa í Úganda, sem eru með eindæmum hagstæð. En hvað veit maður?
 
Láréttir flugeldar
 
Það er bannað að skjóta upp flugeldum í Úganda, nema af atvinnumönnum. Þetta á jafnt við um áramót sem aðrar hátíðir. Ósköp skiljanlegt þannig lagað vegna eld- og slysahættu, en meiriháttar áfall fyrir áttatíuprósent af fjölskyldunni, okkur strákana. Við erum reyndar svo heppin að í Jinja, við upptök Nílar, er hálfíslenskt gistiheimili og veitingastaður, "Two Friends", ég veit ekki hvort annar er í fríi. Og þegar vertinn bauð okkur að koma til sín og eyða áramótunum í Jinja þurftum við ekki að hugsa okkur lengi um, sérstaklega ekki eftir að minnst var á flugeldasýningu á miðnætti gamlárskvölds. Strákarnir okkar sáu fyrir sér skemmtilega daga í adrenalínhöfuðborg Úganda þar sem flúðasiglingar, teygjustökk og svaðilfarir á fjórhjólum eru meðal afþreyinga og ekki latti væntingin um flugeldasýningu.
 
Á gamlárskvöld var mikil hátíð á veitingastaðnum í Jinja, fjöldi fólks og þar á meðal líklega meirihluti Íslendinga í Úganda. Góðar veitingar, góð tónlist og góð þjónusta var aðeins forsmekkurinn að glæsilegri flugeldasýningu og skál fyrir nýju ári með góðum vinum, eins og vera ber.
 
Fjölskyldan kom sátt, þreytt og að mestu rúin adrenalíni aftur til Kampala. Eftir heimkomuna var byrjað að "skæpa" til fjölskyldunnar á Íslandi, sem er svo sem ekki í frásögur færandi. Nema að í einu samtalinu við frænku á Íslandi var farið að ræða um hvernig tekist hefði til við hina hefðbundnu flugeldasýningu í Reykjavík, jú það var frábært skotveður, reyndar svo gott að eftir fyrstu mínúturnar sást lítið fyrir reykjarmekki, var okkur sagt. Yngsti sonurinn lýsti á móti flugeldasýningunni í Jinja, þar sem var líka gott skotveður. Það var aðeins eitt vandamál, sagði hann, flugeldarnir fara lárétt í Úganda. Hann mundi líklega eftir vindasömu gamlárskvöldi á Íslandi árið 2007, þegar fresta þurfti brennum og þeir flugeldar sem fóru á loft voru ansi láréttir og stórhættulegir. Ekki var vindinum um að kenna í Jinja, heiðskírt, stjörnubjart, fallegt fullt tungl og ládeyða þetta kvöld. Líklega var þetta einhver framleiðslugalli í bombunum sem olli því að sumir flugeldarnir komu til jarðar allt að því ofan á borðinu okkar. Eins gott að það voru atvinnumenn að skjóta upp. - GO

Davíð Bjarnason skrifar frá Windhoek:
Helsta jólaósk Namibíumanna er rigning
 
Davíð Bjarnason
 
Upp úr miðjum október fara að sjást jólaskreytingar í verslunum hér í Namibíu, en almennt má segja að fólk sé afar rólegt yfir jólahaldinu, og lítið örlar á einhverju sem telja mætti jólastress. Takmarkaðar jólaskreytingar hanga á milli pálmatrjánna í miðbænum en starfsfólk stórverslana skartar gjarnan jólasveinahúfum. Jólaboð og skemmtanir eru haldnar í nóvember, en í desember er lengsta frí vinnu- og skólaársins. Fjölmargir huga sér til hreyfings fyrir jólin og flýja borgina. Margir færa sig niður til strandar þar sem veðrið er svalara, og aðrir fara út á land til heimahaganna að sækja ættingja heim. Því er nokkuð rólegt yfirbragð yfir höfuðborginni á þessum árstíma.
 
Í Namibíu býr fólk af ólíkum uppruna, og hafa ólíkir hópar mismunandi jólahefðir. Fólk af þýskum uppruna heldur upp á jólin á aðfangadagskvöld, líkt og við Íslendingar, en aðrir kristnir halda jólin hátíðleg á jóladaginn. Fólk í sveitum slátrar gjarnan geitum fyrir hátíðarnar og snæðir kjöt með hinu hefðbundna pap, sem er maísgrautur.
 
Í jólaundirbúningnum er mikilvægt að láta gott af sér leiða, og hér eru skólar, kirkjur, samtök og stofnanir áberandi í ýmsum góðagerðarmálum fyrir jólin. Til að mynda eru keyptar eru gafir fyrir munaðarlaus börn og ein útvarpsstöðvanna stóð m.a. fyrir slíku átaki í samvinnu við Alþjóðaskólann og tók fjölskyldan þátt í því átaki. Alþjóðaskólinn hélt einnig jólaball fyrir munaðarlaus börn og voru þau leyst út með gjöfum og mat.
 
Jólin í ár voru önnur jólin okkur hér í Windhoek með drengina okkar þrjá, þriggja, fjögurra og tíu ára. Desember er heitasti og bjartasti mánuður ársins, ekki er óalgengt að hitinn sé yfir 35 gráður, varla ský á himni og því fátt sem minnir á hefðbundið jólaumhverfi norðurhvels. Í fyrra var fjárfest í dýrindis hvítu jólatré úr plasti, sem okkur fannst ágætis mótvægi við allan  grænan gróðurinn í kring, og á það sett marglit blikkandi jólasería, sem jafnan vekur mikla lukku. Tréð var skreytt eftir miðjan desember og þar með hóf jólaundirbúningur innreið sína. Við höfum verið svo heppinn í bæði skiptin að fá ömmur og afa í heimsókn yfir jólin, sem komið hafa drekkhlaðin íslensku góðgæti.
 
Eitt af því sem ekki breytist með þrjú börn í heimili, er spenningur á aðfangadag og gjafaflóð undir jólatrénu hvíta. Netsambandslaust var, svo ekki náðust jólakveðjur né jólaguðsþjónusta. Áður en fjörið hófst las húsmóðirin jólaguðspjallið úr nýju þýðingu Biblíunnar, undir taktföstum smellum frá viftu í stofuloftinu. Á jóladag var svo snætt ljúffengt Húsavíkurhangikjöt og með því heimabakað laufabrauð úr Skagafirði. Heimalagaður ís var einnig á boðstólnum svo og íslensk-afrískar piparkökur sem drengirnir höfðu mótað í líki fíla, flóðhesta og nashyrninga, en það voru nú einfaldlega þau piparkökuform sem fengust í búðum.
 
Helsta jólaósk þeirra Namibíumanna er að fá rigningu, bæði fyrir gróðurinn og veðurfarið, en með regninu lækkar hitinn. Fólk starir með vonaraugum til himins þegar skýhnoðrar álpast upp á heiðbláan himininn og  um lítið annað er rætt á þessum tíma en líkurnar á regni. Óskin sú rættist ekki fyrr en á gamlársdag, þegar gáttir himins opnuðust og rignt hefur á hverjum degi síðan. Nú á nýju ári býr fólk sig undir flóð í norðurhéruðum þriðja árið í röð.
-DB
 
Er unnt að rjúfa vítahring fátæktar með því að styrkja stöðu unglingsstúlkna?
 Girls Count
Bandalag fyrir unglingsstúlkur - Coalition for Adolescent Girls - er heiti á nýjum samtökum sem stofnað hefur verið í Bandaríkjunum í því skyni að bæta stöðu unglingsstúlkna í þróunarlöndum og rjúfa um leið vítahring fátæktar. Ruth Levine varaforseti Center for Globall Development hefur skrifað tvær áhrifamiklar skýrslur um unglingsstúlkur. Nýjasta skýrslan nefnist: Girls Count: A Global Investment & Action Agenda. Fyrri skýrslan hét: Start With A Girl: A New Agenda for Global Health.
 
Í nýju skýrslunni segir í formála:
 
"Ef þú vilt breyta heiminum áttu að fjárfesta í unglingsstúlku.
 
Unglingsstúlka stendur á þröskuldi fullorðinsáranna og á þeim tímapunkti í lífinu eru teknar stórar ákvarðanir. Ef hún heldur áfram í skólanum, heilsuhraust og öðlast raunverulega færni, mun hún giftast síðar, eignast færri og heilbrigðari börn, afla sér tekna sem hún nýtir áfram innan fjölskyldunnar.
 
En ef hún fylgir þeirri braut sem fátæktin markar mun hún hverfa úr námi og ganga í hjónaband. Sem móðir á barnsaldri, ófaglærð verkakona og ómenntaður ríkisborgari, glatar hún þeim tækifærum að nýta hæfileika sína til fullnustu. Og hvert tilvik er harmleikur sem hægt er að margfalda með þeim milljónum stúlkna sem saman mynda spíral niðursveiflu í samfélaginu.
 
Að fjárfesta í stúlkum er hárrétt ákvörðun með vísan í siðferðilegar og mannréttindalegar ástæður. Líkast til verður enginn hópur í samfélögum heimsins fyrir jafn mikilli misnotkun og órétti og unglingsstúlkur, og þær eiga skilið stuðning okkar sem vanræktur hluti af heimsfjölskyldunni.
 
Að fjárfesta í stúlkum er líka skynsamlegt. Ef 600 milljónir stúlka halda áfram þá braut að hverfa frá námi, giftast barnungar og eignast börn, með tilheyrandi varnarleysi gagnvart kynferðislegu ofbeldi og HIV/alnæmi, heldur hringrás fátæktar áfram. Þrátt fyrir þetta er aðeins í dag varið örlitlu broti af alþjóðlegu þróunarfé til þarfa unglingsstúlkna. Það er þessi vanfjárfesting sem Bandalag fyrir unglingsstúlkur reynir að breyta."
 
 
Svínainflúensan:
Norsk stjórnvöld hvött til að gefa umframbirgðir af bóluefni
 
Samtökin Læknar án landamæra hafa hvatt norsk heilbrigðisyfirvöld til þess að gefa umframskammta af bóluefni gegn svínainflúensu til HIV smitaðra barna í þróunarríkjum. Norsk stjórnvöld eru jafnframt hvött til þess að vinna að innleiðingu á alþjóðlegu kerfi sem hefði það markmið að tryggja að bóluefni gegn farsóttum bærist jafnan til þeirra sem þyrftu mest á því að halda. Í Noregi - líkt og á Íslandi - var ákveðið að bólusetja alla íbúa gegn svínaflensunni, H1N1, og norsk stjórnvöld keyptu 9.4 milljónir skammta af bóluefninu.
 
Komið hefur á daginn að hluti norsku þjóðarinnar hefur ekki þegið bólusetningu og talið er að umframbirgðir í Noregi nemi 4 til 5 milljónum skammta. Að mati Lækna án landamæra ættu norsk stjórnvöld að gefa þessar umframbirgðir til HIV smitaðra barna í þróunarríkjum.

Hagvöxtur forsenda framfara
 gunnisal
Ekkert ríki hefur náð varanlegum umbótum lífsskilyrða án hagvaxtar, segja Kjell Roland og Petter Bjønnstu, tveir norskir sérfræðingar þróunarmálum sem báðir starfa fyrir Norfund í grein sem birtist á dögunum í dagblaðinu Klassekampen. Í greininni benda þeir á að víða í heiminum hafi hagvöxtur verið umtalsverður á síðasta áratug og fátækum fækkað á sama tíma. Vísað er til tölfræðigagna frá Alþjóðabankanum þar sem fram kemur að þeir sem búa við sárafátækt, sem lifa á 1.25 dollurum á dag eða minna, hafi á árabilinu 1981 til 2005 fækkað úr 52% í 26%. Hins vegar sé mikill munur milli landa. Greinarhöfundar nefna að í Austur-Asíu hafi hlutfallið minnkað úr 80% í 18% meðan hlutfall sárafátækra í sunnanverði Afríku hafi nánast staðið í stað. "Þjóðir Afríku sunnan Sahara sýna hins vegar merki framfara. Milli áranna 1996 og 2005 lækkaði hlutfall fátækra úr 58% i 50% og í þessum heimshluta var hagvöxtur að meðaltali 6,5% á árunum 2002 til 2007 - sá hæsti í rúmlega þrjátíu ár."
 
Greinarhöfundar staðhæfa að hagvöxtur sé forsenda áframhaldandi þróunar. "Það eru engin dæmi þess að lönd hafi náð varanlegum umbótum lífsskilyrða án hagvaxtar. Það er mikil fylgni á milli hagvaxtar og jákvæðrar félagslegrar þróunar, svo sem minni ungbarnadauði, auknar lífslíkur og lýðræðislegra þjóðfélag. Og án hagvaxtar verður ekki dregið úr fátækt," segja þeir Kjell Roland og Petter Bjønnstu.
 
Í greininni fjalla þeir m.a. um stöðu þróunarríkja, áhrif efnahagskreppunnar, mikilvægi atvinnulífsins og arðbærra fyrirtækja í baráttunni gegn fátækt, þúsaldarmarkmiðin og opinbera þróunarsamvinnu.

 
Skýrsla Afríska Þróunarbankans um stöðu þúsaldarmarkmiðanna:
Fjármálakreppan felur bæði í sér ógn og tækifæri
 
Verulegur árangur hefur náðst á ýmsum sviðum þegar horft er til þúsaldarmarkmiðanna og þar ber hæst að börnum sem sækja grunnskóla hefur fjölgað umtalsvert, jafnrétti kynjanna hefur aukist og valdefling kvenna sömuleiðis, auk þess sem framfarir eru merkjanlegar þegar litið er aðgangs að hreinu vatni með auknu hreinlæti. - Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri skýrslu Afríska þróunarbankans um stöðu þúsaldarmarkmiðanna en heildarniðurstaða skýrslunnar er sú að framfarirnar sýni að það miði í rétta átt.
 
Fram kemur að hætta sé á því að núverandi fjármálakreppa dragi úr framförum sem þegar hefur tekist að ná fram og leiði til þess að minna verði úr árangri af aðgerðum stjórnvalda í baráttunni gegn fátækt. Hins vegar felist bæði ógn og tækifæri í fjármálakreppunni, Afríkuþjóðir fái t.d. tækifæri til að bæta stöðu fjármálakerfa sinna og koma á fjármála- og velferðarkerfi til að verja hag þeirra fátæku og þeirra sem búa við félagslegt óöryggi
.
 

 
Íbúar Afríku komnir yfir milljarð
gunnisal
Íbúar Afríku er komnir yfir einn milljarð. Barnið sem varð til þess að íbúafjöldi álfunnar náði milljarðamarkinu er óþekkt, nafn þess og þjóðerni veit enginn. Barnið vex úr grasi án þess að hafa vitneskju um það að hafa markað tímamót í sögunni. En einhvers staðar í Afríku á nýliðnu ári fæddist þetta barn, í álfu þar sem fólksfjölgun er mest í heiminum.
 
Samkvæmt frétt The Guardian voru íbúar Afríku rúmlega 110 milljónir árið 1850. Nú eru þeir semsagt orðnir einn milljarður að því er tölur Sameinuðu þjóðanna segja en manntalið er ekki nákvæmt og þess vegna er ógerningur að segja hvar eða hvenær þessu sögulegu tölu var náð. Ef spár um fólksfjölgun í álfunni ganga eftir verða íbúar Afríku orðnir því sem næst tvöfalt fleiri árið 2050. Þá gera spár ráð fyrir að íbúar Afríku verði 1.9 milljarðar talsins.
Athyglisvert
 
 
 
 
 
 
 
 
Tsunami Report 5 Year Anniversary, December 2009 (UNICEF)
 
 
 
 
 
 
 
 
 
Veftímaritið er á...
facebook
Kíktu í heimsókn 
Fjölgun fyrirbura á heimsvísu - 85% fyrirbura fæðast í þróunarríkjum
gunnisal
Fyrirburafæðingar eru algengastar í Afríku þar sem fyrirburar fæðast í 11.9% tilvika. Börn sem fæðast fyrir tímann - fyrir 37 viku - eru líka hlutfallslega mörg í Norður-Ameríku eða um 10.6% allra fæddra barna. Alþjóðaheilbirgðismálastofnunin hefur birt nýja greiningu á þessum lýðheilsuvanda og kortlagt fyrirburafæðingar eftir heimshlutum. Þar kemur fram að fyrirburafæðingum fjölgar hvarvetna í heiminum, eru að meðaltali um 10% allra fæðinga. Þótt fyrirburafæðingum hafi fjölgað víða á Vesturlöndum eru langflestir fyrirburar í þróunarríkjum, í Afríku og Asíu, eða um 85%. Þeir voru 11 milljónir í þróunarríkjunum samkvæmt tölum frá 2005. Tíðni fyrirburafæðinga er lægst í Evrópu, 6.2%.
 
Hér á landi voru fyrirburafæðingar 4% allra fæðinga árið 2007.
Fréttablaðið með úttekt á 20 ára starfsemi ÞSSÍ í Namibíu
Fréttablaðið birti skömmu fyrir jól tveggja síðna grein um starfsemi ÞSSÍ í Namibíu á tuttugu árum, eftir Brján Jónasson fréttamann.
 
Hér eru krækjur á síðurnar tvær:
 
Fréttir og fréttaskýringar
 
Rauði krossinn styður jafningjafræðslu í Malaví
Hluti af alnæmisverkefni Rauða krossins í Malaví felst í jafningjafræðslu um alnæmi og smitleiðir þess. Fræðslan fer þannig fram að ungir sjálfboðaliðar Rauða krossins kalla saman jafnaldra með svipaðan bakgrunn og áhugamál og kenna þeim í smáum hópum hvernig forðast megi þennan hættulega sjúkdóm. - Þetta segir Þórir Guðmundsson sviðsstjóri alþjóðamála í upphafi greinar á vef Rauða krossins.
 
Hröð útbreiðsla farsíma í Afríku
gunnisal
Fyrir tíu árum, árið 2000, var farsímaeign í Afríku að stærstum hluta bundin við Suður-Afríku. Um 74% farsímanotenda álfunnar voru í þessu eina ríki. Nú er þetta hlutfall komið niður í 19% og farsímum fjölgar með ógnarhraða víðs vegar í Afríku, einna mest þó i Nígeríu, Kenía, Ghana, Tansaníu og á Hvítabeinsströndinni.
 
Fyrir tíu árum voru 11 milljónir farsímanotenda í Afríku og 3 milljónir Netnotenda. Í lok síðasta árs voru tölurnar þessar: 346 milljónir farsímanotenda og 32 milljónir Netnotenda. Bankaþjónusta um farsíma er meðal nýjunga sem rutt hefur sér til rúms í Suður-Afríku og einnig opinber þjónusta í einhverjum mæli um Internetið - og reiknað er með að önnur Afríkuríki fylgi í kjölfarið.
 
Um Veftímaritið
Veftímarit um þróunarmál er gefið út af Þróunarsamvinnustofnun Íslands. Ritinu er ætlað að glæða umræðu um þróunarmál og gefa áhugasömum kost á að fylgjast með því sem hæst ber hverju sinni. Efni veftímaritsins þarf ekki endilega að endurspegla stefnu ÞSSÍ.
          
Skráið ykkur í áskrift á heimasíðunni, www.iceida.is og látið vinsamlegast aðra með áhuga á þróunarmálum vita af tilvist veftímaritsins. Allar ábendingar um efni eru vel þegnar.  

Þeir sem vilja afskrá sig af netfangalista, eða senda okkur ábendingu um efni, eru vinsamlegast beðnir um að senda slík erindi á netfangið iceida@iceida.is. Ritstjóri er Gunnar Salvarsson, gsal@iceida.is.
 
  
ISSN 1670-8105

Bestu kveðjur, Útgáfu- og kynningardeild ÞSSÍ