Veftímarit um þróunarmál
Þróunarsamvinna
Samstarfsþjóðir 
18. mars 2008 
Mjög miklar framfarir í þróunarríkjum og augljós árangur af þróunarsamvinnu
©TIME
 
"Eliminating World Poverty: Building Common Future" er heitið á nýrri skýrslu eða samantekt frá Þróunarsamvinnustofnun Breta (DFID) sem birt var á dögunum í aðdraganda alþjóðlegrar ráðstefnu sem stofnunin stóð fyrir í Lundúnum. Í þessari skýrslu segir m.a. að framfarir í þróunarríkjum hafi verið eftirtektarverðar á síðustu árum. Margar milljónir manna hafi notið góðs af samstarfi ríkisstjórna heima fyrir og erlendis, frá einkageiranum og fjölbreyttum hópi alþjóðlegra velunnara. Alþjóðleg þróunarsamvinna hafi fengið góðan hljómgrunn í þróunarríkjum og árangurinn sé sýnilegur: markvissari stefnumörkun með þúsaldarmarkmiðin sem kjölfestu og þau studd með auknum fjármunum. Og svo er spurt: En er framfarirnar í hættu?
 
Síðan segir:
 
"Þrennt veldur áhyggjum. Í fyrsta lagi, dýpt fjármálakreppunnar og samdráttarins þýðir að árangrinum sem þegar hefur verið náð er stofnað í hættu og gæti snúist upp í andhverfu sína. Í öðru lagi, langtíma verkefni eru að verða aðkallandi með ört vaxandi mannfjölgun; aukinni ásókn í borgir; átökum og veikburða ríkjum; og loftslagsbreytingum. Í þriðja lagi eru framfarir mismiklar milli svæða og mismunandi þátta í þúsaldarmarkmiðunum. Ljóst er að Afríka nær ekki mörgum þúsaldarmarkmiðanna fyrir 2015, og í flestum löndum hefur reynst erfiðara að ná markmiðum sem snúa að menntun og heilsu en þeim sem lúta að tekjum. Jafnvel þótt öllum markmiðum yrði náð myndi um helmingur þeirrar fátæktar sem var árið 1990 enn vera við lýði.
 
Í svipinn er útliðið ekki bjart en rétt að hafa í huga að árangurinn sem þegar hefur náðst er áhrifamikill. Nefnum eitt: fátækt minnkar. Síðustu tölur Alþjóðabankans frá árinu 2008 sýna að þeim sem lifa af minna en 1.25 dölum á dag fækkaði úr 1.8 milljarði árið 1990 í 1.4 milljarð árið 2005. Með fjölgun íbúa jarðarinnar fækkaði hlutfallslega fátækum um 42% á þessu árabili.
 
Stjórnarfar fer batnandi og átökum fækkar. Tvö af hverjum þremur ríkjum eru nú talin til lýðræða með kosningarétti þótt það sé ekki fullkomið. Átökum í heiminum hefur fækkað mjög hratt, þau voru yfir 50 snemma á tíunda áratug síðustu aldar en eru nú færri en 30.
 
Heilbrigðismál og menntamál fara batnandi. Á síðustu 30 árum hefur ungbarna- og barnadauði í þróunarríkjum minnkað um helming, og lífslíkur aukist á einum áratug úr 56 árum í 65 ár. Í árslok 2007 fengu 3 milljónir manna í fátækum ríkjum lyf gegn HIV/alnæmi. Á síðustu fimmtán árum hefur börnum sem ganga í grunnskóla í þróunarríkjum fjölgað um 85%.
 
Þessar umbætur standa ekki einar og sér. Rannsóknir leiða í ljós að þróun á einu sviði styrkir önnur svið, menntun kvenna leiðir til betri næringar barna, börn sem eru betur nærð gengur betur í skóla..."
 

Eliminating World Poverty: Building Common Future - Background Paper to the DFID Conference on Future of International Development, March 2009.


Líf og reynsla fátækra forsenda árangurs í baráttunni gegn fátækt
gunnisalTil þess að áætlanir um útrýmingu fátæktar skili árangri þarf að setja líf og reynslu þeirra milljóna manna sem búa við fátækt í öndvegi, segir í nýrri bók Alþjóðabankans um fátækt. Um er að ræða einhverja viðamestu rannsókn sem gerð hefur verið um fátækt í heiminum og viðhorf til fátækra frá því bókin "Voices of the Poor" kom út árið 2000. Nýja bókin tekur ekki aðeins á fátæktinni sem fyrirbæri því skýrsluhöfundar varpa fram hugmyndum um leiðir út úr örbirgðinni.

"Moving out of Poverty: Success from the Bottom Up" heitir bókin og byggir á frásögnum 60 þúsund einstaklinga frá 15 löndum. Aðalhöfundur er Deepa Narayan.
 
"Í miðri kreppu, þeirri verstu frá stóru kreppunni, þurfum við að skilja eðli fátæktar betur með því að hlusta á það hvað fátækir hafa sjálfir að segja," segir Danny Leipziger aðstoðarframkvæmdastjóri Alþjóðabankans sem leiðir baráttuna gegn fátækt fyrir hönd bankans. "Frásagnir þeirra sýna okkur hvernig unnt er að brjótast út úr viðjum fátæktarinnar," bætir hann við.

Fyrsti fundur samstarfsráðs um þróunarsamvinnu
Í næstu viku verður haldinn fyrsti fundur samstarfsráðs um þróunarsamvinnu en samkvæmt lögum um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands sem samþykkt voru á þingi síðastliðið haust á samstarfsráðið að sinna ráðgefandi hlutverki við stefnumarkandi ákvarðatöku í málaflokknum. Utanríkisráðherra skipar sautján fulltrúa í samstarfsráðið til fjögurra ára í senn, sjö þeirra er úr þróunarsamvinnunefnd, en hinir níu koma frá íslenskum mannúðarsamtökum (5), háskólasamfélaginu (2) og aðilum vinnumarkaðarins (2).
 
Formaður samstarfsráðsins er Valgerður Sverrisdóttir alþingismaður og fyrrverandi utanríkisráðherra. Aðrir í samstarfsráðinu eru Hjálmar Jónsson dómkirkjuprestur, Haukur Már Haraldsson kennari, Drífa Hjartardóttir framkvæmdastjóri, Guðrún Ögmundsdóttir fyrrv. alþingismaður, Sigfús Ólafsson viðskiptafræðingur, Katrín Ásgrímsdóttir, garðyrkjubóndi, Ásgerður Jóna Flosadóttir stjórnmálafræðingur, Þorbjörn Guðmundsson framkvæmdastjóri, Guðrún Eyjólfsdóttir verkefnastjóri, Jónas Þ. Þórisson framkvæmdastjóri, Ragnar Gunnarsson framkvæmdastjóri, Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir framkvæmdastýra, Ulla Magnússon framkvæmdastýra, Þórir Guðmundsson sviðsstjóri, Páll Jensson prófessor og Geir Gunnlaugsson læknir og prófessor.
 
Hlutverk ráðsins er m.a. að vera ráðgefandi varðandi framlög til þróunarsamvinnu og skiptingu milli marghliða og tvíhliða samvinnu, forgangsröðun í þróunarsamvinnu, þ.m.t. um þátttöku Íslands í starfi fjölþjóðastofnana, og um val á samstarfslöndum.
 
Samstarfsráðið kemur saman til fundar að lágmarki tvisvar hvert ár.
Bretar setja fjármagn í velferðarsjóð fátækra
©TIMEBreska ríkisstjórnin hefur ákveðið að setja 200 milljónir punda í sérstakan velferðarsjóð sem á að veita fátækum í fátækustu ríkjum heims nú þegar aðstoð til að mæta daglegum þörfum. Sjóðurinn er stofnaður til að mæta aðkallandi vanda fátækustu heimilanna í veröldinni vegna fjármálakreppunnar og kallast Rapid Social Response Fund (RSRF). Sjóðurinn verður í umsjá Alþjóðabankans. Douglas Alexander þróunarmálaráðherra Breta greindi frá ákvörðun breskra stjórnvalda.

Nánar
Fólksfjölgun af völdum rafmagnsleysis?
 ©TIME
Fólksfjölgun í heiminum er einna mest í Úganda og ástæðan er sú að meirihluti þjóðarinnar býr við rafmagnsskort, segir Ephraim Kamuntu, ráðherra í Úganda. "Meðan aðrir í heiminum vinna vaktavinnu förum við í Úganda snemma í háttinn," bætir hann við.
 
Rúmlega níu af hverjum tíu Úgandabúum búa við ótryggt rafmagn. Án ljóss og sjónvarps neyðast hjón til þess að ganga snemma til náða og verja allt að tólf tímum í myrkrinu. Er nema von að okkur fjölgi, spyr ráðherrann.
 
Árlega fjölgar íbúum Úganda um 3,4% sem er með því mesta sem þekkist. Milli 2010 og 2050 gera mannfjöldaspár ráð fyrir því að íbúafjöldi þróunarríkja tvöfaldist. Í Úganda er reiknað með 150% fjölgun. Í landinu búa nú rúmlega 30 milljónir manna. Árið 2050 er að mati Mannfjöldastofnunar SÞ (UNPD) verða Úgandabúar orðnir 91 milljón.
 
Rafmagn og sjónvarp gætu dregið úr þessari þróun.

 
MediaGlobal
Eva Joly hetja fólksins
Eva Joly
"Síðustu árin hefur athygli hennar beinst að skattaskjólum og að svikum tengdum þróunarhjálp. Mikið af þróunarfé hverfur einfaldlega í spilltum einræðislöndum og það er sannfæring Evu að þessir peningar endi í skattaskjólum eins og á eyjunni Tortola. Hún hefur talað um þessi skattaskjól árum sama en núna fyrst er fólk farið að leggja við hlustir - líka ráðamenn." -Þetta sagði Gísli Kristjánsson fréttaritari RUV í Noregi þegar hann dró upp nærmynd af Evu Joly í útvarpinu á dögunum.
 
Eva Joly (fædd Eva Gro Farseth) (5. desember 1943) er norsk-franskur dómari og rannsóknardómari sem hefur sérhæft sig í baráttu gegn fjármálaspillingu. Árið 1994 varð hún yfirrannsóknardómari (juge d'instruction) þegar hún varð lykilmaður í stærsta spillingarmáli sem upp hefur komið í Frakklandi þegar olíufélagið Elf Aquitaine var grunað um misferli. Eftir rannsóknir hennar leiddi hún fjölda háttsettra embættis- og stjórnmálamanna til dóms og sakfellingar. Þræðir þessa máls lágu víða, m.a. til Þýskalands þar sem nafn Helmut Kohl tengdist vafasömum viðskiptum og meintum mútugreiðslum.
Hún fluttist 18 ára gömul til Frakklands, starfaði sem au pair og lærði lögfræði í kvöldskóla og sérhæfði sig í fjármálalögfræði. (heimild: Wikipedia)

 
Greinar eftir Evu Joly
 
Þróunarríkin horfa á eftir milljörðum í skattaskjól
Þróunarríkin horfa á eftir 124 milljörðum dala á ári hverju í glötuðum tekjum sem hverfa inn í skattaskjól erlendis. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu sem unnin var fyrir alþjóðlegu samtökin Oxfam. Skýrslan verður lögð fram á fundi fjáramálaráðherra G20 ríkjanna sem hefst á laugardag.
Samkvæmt gögnum í skýrslunni eru að minnsta kosti 6.2 trilljónir dala af auðævum þróunarlanda falin í skattaskjólum á einkareikningum. Að mati skýrsluhöfundar eru þróunarríkin svipt skatttekjum á bilinu 64-124 milljörðum dala árlega.  

Athyglisvert
 
 
Þróunarsamvinna bundin við Afríku?
Gunnisal
Venstre flokkurinn í Danmörku, flokkur Ullu Tørnæs þróunarmálaráðherra, hefur lagt til að öll þróunaraðstoð Dana verði helguð Afríku. Nái tillagan fram að ganga myndu Danir hætta þróunaramvinnu við fjögur lönd í Asíu og tvö í rómönsku Ameríku. Tillagan er studd þeim rökum að slík ákvörðun hefði í för með sér betri nýtingu þess fjármagns sem varið er til þróunarsamvinnu. Samkvæmt tillögunni á að hverfa af vettvangi annars staðar en í Afríku á næstu tíu árum.
 
Um málið er hins vegar ekki pólítísk samstaða í Danmörku því Ritzau fréttastofan segir frá því að jafnaðarmannaflokkurinn (Socialistisk Folkeparti, SF) sé ósammála því að Afríku sitji ein að framlögum Dana. Haft er eftir Steen Gade að þróunarsamvinna eigi að verða skilvirkari og fækka beri samstarfslöndum. En þau eigi hins vegar ekki öll að vera í Afríku.
 

Politiken
 
Stríðsótti í Afríku vegna kreppunnar
Leiðtogar Afríkuríkja vara við því að stríð geti brotist út í Afríku fái ríkin ekki alþjóðlega aðstoð vegna efnahagskreppunnar. Ástandið sé orðið alvarlegt í mörgum ríkjum. Í frétt RUV í gær er haft eftir
Donald Kaberuka, bankastjóra Afríska þróunarbankans, að neyðarástand ríki nú þegar víða í Afríku. 500 þúsund verkamenn hafi minnst vinnuna í koparnámum Zambíu og  bændur hafi misst lífsviðurværi sitt í Tansaníu þar sem verð á bómull hefur lækkað um helming.
 

Tvö mannskæð slys í Úganda
Aftenposten
 Átta hafa fundist látnir eftir að skrifstofubygging hrundi í Kampala, höfuðborg Úganda, á föstudag. Húsið, sem stóð við verslunargötu í miðborginni, var þriggja hæða. Óttast er að fleiri eigi eftir að finnast látnir en talið er að 50 manns hafi verið í húsinu þegar það hrundi. Vitað er að átján komust lífs af.
Vöruflutningavél brotlenti á Viktoríuvatni í síðustu viku skömmu eftir flugtak frá Entebbe flugvellinum í Úganda. Ellefu voru um borð og fórust allir. Vélin, sem var af gerðinni Ilyushin 76, var á leið til Sómalíu með friðargæsluliða og vistir. Áhöfnin var frá Rússlandi og Úkraínu.

Alvarleg flóð við landamæri Angóla og Namibíu
Talið er að 400 þúsund íbúar við landamæri Angóla og Namibíu hafi orðið illa úti í miklum flóðum að undanförnu. Rétt við landmærin er þorpið Engela þar sem Þróunarsamvinnustofnun í samvinnu við Reykjanesbæ lagði fram fé til byggingar á fæðingarskýli en þungaðar konur í dreifbýli á þessum slóðum höfðust við undir tveimur trjám í vegkanti, eins og við sögðum frá í frétt á síðasta ári.
Óttast er að kólera kunni að gera vart við sig við þessar erfiðu aðstæður.
 

Nánar
Sjálfboðaliðar teknir af lífi
Mósambíski Rauði krossinn hefur hætt starfsemi í Nampula héraði í norður Mósambík eftir að tveir sjálfboðaliðar hreyfingarinnar voru myrtir af þorpsbúum. Hvergi í landinu hefur kólera leitt til fleiri dauðsfalla en í Nampula og þar komust sögusagnir á kreik þess efnis að starfsmenn Rauða krossins væru viljandi að dreifa kóleru, þegar þeir voru í raun að hreinsa brunna og borholur. Þegar einn íbúinn í þorpinu lést eftir að hafa sótt vatn í nýhreinsaðan brunn komst kvitturinn á kreik og reiðin beindist að sjálfboðaliðunum. Sjö aðrir starfsmenn Rauða krossins hafa lent á sjúkrahúsi vegna þessa. Tveir lögregluþjónar í nærliggjandi héraði voru einnig myrtir þegar hópur fólks ruddist inn á heilsugæslustöð eftir að kólerufaraldur kom þar upp.
 

Nánar
©TIME 
Veftímarit um þróunarmál er gefið út af Þróunarsamvinnustofnun Íslands. Ritinu er ætlað að glæða umræðu um þróunarmál og gefa áhugasömum kost á að fylgjast með því sem hæst ber hverju sinni. Efni veftímaritsins þarf ekki endilega að endurspegla stefnu stofnunarinnar.          
 
Skráið ykkur í áskrift á heimasíðunni, www.iceida.is og látið vinsamlegast aðra með áhuga á þróunarmálum vita af tilvist veftímaritsins. Allar ábendingar um efni eru vel þegnar.  

Þeir sem vilja afskrá sig af netfangalista, eða senda okkur ábendingu um efni, eru vinsamlegast beðnir um að senda slík erindi á netfangið iceida@iceida.is.
  
ISSN 1670-8105
 

Bestu kveðjur, Útgáfu og kynningardeild ÞSSÍ